Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 15. júlí 1977.

Ár 1977, föstudaginn 15. júlí, var í Matsnefnd eignarnámsbóta, skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                Hreppsnefnd Djúpárhrepps
                     gegn
                  Runólfi Þorsteinssyni, Brekku,
                  Óskari Sigurðssyni, Hábæ I og
                  Ólafi Sigurðssyni, Hábæ II

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir, að með samningi dags. 5. desember 1975 sömdu málsaðilar um það, að athafnasvæði við barnaskólann í Djúpárhreppi, að stærð um 1,4 ha. í eigu fjögurra bænda skyldi ganga til barnaskólans í Djúpárhreppi og sameinast lóð skólans, skv. skipulagsuppdrætti dags. í janúar 1969. Var í því samkomulagi þeim Árna Jónssyni, landnámsstjóra og Þorvaldi Lúðvíkssyni, hrl. falið að gera tillögur um verð á því landi, sem oddviti hreppsins taldi nauðsynlegt fyrir Djúpárhrepp að kaupa til þess að tryggja barnaskólanum hæfilegt athafnasvæði. Að lokinni athugun sinni, komust þessir menn að sameiginlegri niðurstöðu á þá leið, að landeigendur bjóði Djúpárheppi land það, sem um var að ræða, ásamt ræktun og girðingum til kaups á kr. 75.00 m² og að hreppurinn kaupi landið á því verði.

Ekki vildi Djúpárhreppur hlíta ákvörðun þessari. Með bréfi til Matsnefndar eignarnámsbóta dags. 29. apríl 1977, sent nefndinni með bréfi dags. 5. maí 1977, óskaði hreppsnefnd Djúpárhrepps eftir því skv. 28 gr. skipulagslaga nr. 19/1964, að eignarnám færi fram á landspildum, sem liggja að lóð barnaskóla hreppsins og væru í eign þriggja jarðeigenda. Segir í bréfi hreppsnefndarinnar, að árið 1935 hafi verið hafin bygging barnaskóla þess, sem enn standi og aukið hafi verið við á undanförnum árum. Með breyttri tilhögun fræðslumála hafi kröfur aukist um bætt kennsluhúsnæði og aðra aðstöðu , t.d. leiksvæði og leikvelli. Á skipulagsuppdrætti, sem staðfestur hafi verið 1964, sé gert ráð fyrir leikvelli allfjarri skólanum og muni þar hafa verið um að ræða hugmynd frá þeim árum, sem skólinn var reistur. Þegar hugsað var til framkvæmda um leikvallargerð hafi m.a. verið leitað til íþróttafulltrúa Þorsteins Einarssonar, um forsögn verksins en hann hafi lagst mjög gegn staðnum og lagt fram tillögur um aðra skipan, sem hreppsnefndin hafi fallist á. Hafi verið lagðar fram nýjar tillögur að skipulagi, sem samþykktar hafi verið og staðfestar 1969.

Eins og málið er lagt fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta, er það gert á þeim grundvelli, að hér sé alveg um nýtt mál að ræða, er komi ekki við samkomulagi því, sem áður getur og gert hafi verið um aðra tilhögun. Í máli því, sem liggur fyrir nefndinni, eru lagðar fram uppmælingar Vals Þorvaldssonar, ráðunauts, á landi því sem um ræðir, svo og skipulagsuppdrættir er varða landið. Í bréfi hreppsnefndarinnar til Runólfs Þorsteinssonar, er gert ráð fyrir, að eftir makaskipti nái eignarnámið til 300 m² og í bréfi til Óskars Sigurðssonar, er óskað kaupa á landi að stærð 600 m², og í bréfi til Ólafs Sigurðssonar, er gert ráð fyrir að mismunur eftir makaskipti verði 370 m², sem teknir séu eignarnámi.

II.

Eignarnámsþolinn Ólafur Sigurðsson, hefur lagt fyrir Matsnefndina svohljóðandi bréf á fundi 10/6 sl., sem aðrir eignarnámsþolar hafa lýst sig samþykka: "Í tilefni af bréfi yðar frá 2. þ.m. vil ég tilkynna yður eftirfarandi: Hinn 5. desember 1975. Eru mættir hér í þinghúsi Djúpárhrepps: Árni Jónsson, landsnámsstjóri, fyrir hönd Djúpárhrepps, og Þorvaldur Lúðvíksson, lögfræðingur fyrir hönd, landeigenda. Og varð að samkomulagi beggja aðila landeigenda og hreppsnefndar, að hlíta þeim úrskurði um þetta mál. Og virtu þeir þessar landspildur á kr. 75.00 og sjötíu og fimm krónur hvern m². Og var þessi sáttagjörð undirrituð nefndan dag af báðum málsaðilum: Þetta verð mun ég halda mig við, og ekki gefa afsal fyrir lægra söluverði. Konan mín Guðrún Elíasdóttir mun afhenda yður þetta bréf, sem umboðsmaður á áður tilkynntum fundi yðar".

Mál þetta var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta í Djúpárhreppi 17. júní 1977 og voru þar mættir eignarnámsþolarnir Runólfur Þorsteinsson, Óskar Sigurðsson og f.h. Ólafs Sigurðssonar eiginkona hans Guðrún Elíasdóttir. Var þá á fundinum gerð svofelld bókun. "Aðilar eru allir sammála um, að land það, sem eignarnámi yrði tekið nú, yrði minnkað í þá stærð, sem hreppsnefndin fer nú fram á, en eignarnámsþolar vilja halda sér við það, verð, sem ákveðið hafi verið með álitsgerð Árna Jónssonar og Þorvaldar Lúðvíkssonar, 5. desember 1975, sbr. mskj. nr. 12".

III.

Eignarnámsheimildina fyrir töku þess landsvæðis, sem hér um ræðir er að finna í 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, þar sem um staðfest skipulag á svæðinu er að ræða. Matsnefndin gekk á vettvang 17. júní 1977 og skoðaði aðstæður á staðnum. Leitað var sátta með aðilum en árangurslaust.

Upphaflega var áætlað að hagnýta stærra svæði í þágu barnaskólans í Djúparhreppi en nú er gert ráð fyrir. Til þess að gera tillögur um verð þessa stærra lands voru fengnir Árni Jónsson, landnámsstjóri og Þorvaldur Lúðvíksson, hrl., eins og fyrr segir. Með þessari stærri áætlun var gert ráð fyrir, að sveitarstjórnin yfirtæki 14105 m² ræktaðs lands á því landsvæði, sem samningurinn var gerður um, var óskipt sameignarland nokkurra aðila að stærð 1755 m² (1455 + 300) og náði salan ekki til þessa lands. Af þessu landi hafa 1590 m² verið gefnir barnaskólanum, en 165 m² sem eru í eigu tveggja aðila (110 + 55) hafa ekki fengist gefnir eða keyptir á því verði, sem sveitarstjórnin hefur getað fallist á, og er því óskað eignarnáms á því landi. Eins og áður segir hafa eignarnámsþolar frá 5. desember 1975, ekki gert ágreining vegna töku minni landstærðar nú, en upphaflega var áætlað að tekin yrði.

Enginn ágreiningur er því um eignarnám á umræddu landi vegna barnaskóla Djúpárhrepps, né heldur þá aðferð, sem viðhöfð er um makaskipti landa.

Verkefni Matsnefndarinnar er skv. því, að meta til verðs það land, sem móttekið er og af hendi látið af hálfu eignarnámsþola og þar með þær bætur, sem þeim bera vegna makaskipta landsins og eignarnámstökunnar.

Tilboð sveitarstjórnar Djúpárhrepps til eignarnámsþola um greiðslur fyrir landið, voru á árinu 1976 kr. 33.00 pr. m², eða tvöfalt það verð, er hún taldi, að Vegagerð ríkisins greiddi fyrir tún í fullri rækt, sem tekið væri vegna vegarlagningar. Á árinu 1977 hækkaði sveitarstjórinn tilboð nefndarinnar til eignarnámsþola í kr. 44.00 pr. m², með tilvísun til þess, að Vegagerðin greiddi þá kr. 22.00 pr. m². Þar að auki bauðst sveitarstjórnin til að kosta ræktun þess lands óræktaðs, sem í hlut eignarnámsþola kæmi vegna makaskiptanna, og girðingu á mörkum skólalóðarinnar. Þessu tilboði hafa eignarnámsþolar synjað og krafist kr. 75.00 pr. m² afhents lands.

Eftir að hafa skoðað landið og allar aðstæður og að öllu athuguðu, sem nefndin telur máli skipta voru matsmenn sammála um, að hæfilegar bætur væru kr. 55.00 pr. m² í óræktuðu landi og að ræktunarkostnaður að frádrengu jarðræktarframlagi var metin kr. 8.00 á m². Verðmæti fermeters ræktaðs lands, er þannig metinn á kr. 63.00.

Við matið er lagt til grundvallar landstærðir og ástand landsins, eins og það er tilgreint í tilboðum eignarnema til eignarnámsþola, sem byggðar eru á mælingum Vals Þorvaldssonar, ráðaunauts, í fylgiskjölum nr. 4, 5, 6 og 10 í máli þessu, en þessi skjöl hafi ekki sætt neinni gagnrýni. Samkvæmt þessu sundurliðast matið þannig:

1)   Óskar Sigurðsson, Hábæ I.
   Bætur fyrir 600 m² ræktaðs lands
   á kr. 63.00
   kr.      37.800.-
2)   Runólfur Þorsteinsson, Brekku.
   a) Verðmæti eignarnumins lands.
   Ræktað land 788 m² á 63 kr.=      
   49.644.-
   Óræktað land 55 m² á 55 kr. =       
   3.025.-
   b) Til frádráttar verðmæti lands til Runólfs í makaskiptum.
   Ræktað land 25 m² á kr. 63 =       
   1.575.-
   Óræktað land 518 m² á kr. 55 =      
   28.490.-   "   
         30.065.-
   Bætur kr.      22.604.-

3)   Ólafur Sigurðsson, Hábæ II.
   a) Verðmæti eignarnumins lands
   Rækað land 998 m² á kr. 63 =
   62.874.-
   Óræktað land 110 m² á kr. 55 =
   6.050.-   kr.   68.924.-
   b) Til frádráttar verðmæti lands
   til Ólafs í makaskiptum
   Óræktað land 738 m² á kr. 55 =   kr.   40.590.-
      Bætur kr.      28.334.-

Framangreindar fjárhæðir eru miðaðar við staðgreiðslu.

Þá voru matsmenn sammála um, að þar sem vandaðri girðingu þurfi að setja upp kringum leikvöll barnaskólans, en gerðar eru kröfur um í venjulegum búrekstri, þá skuli Djúpárhreppur kosta þá girðingu á hinum nýju mörkum.

Rétt þykir að eignarnemi greiði hverjum eignarnámsþola kr. 6.000.- í ómaksbætur, sbr. 11. gr. laga nr. 11/1973.

Rétt þykir, að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 65.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirninr Björn Bjarnarson, ráðunautur og Ögmundur Jónsson, verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Djúpárhreppur greiði Óskari Sigurðssyni kr. 37.800.00 + kr. 6.000.00 í ómaksbætur, Runólfi Þorsteinssyni kr. 22.604.00 + kr. 6.000.00 í ómaksbætur og Ólafi Sigurðssyni kr. 28.334.00 + kr. 6.000.00 í ómaksbætur.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 65.000.00.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum