Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 542/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 542/2020

Mánudaginn 13. september 2021

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. október 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 24. júlí 2020, á kröfu hennar um viðbótargreiðslu vegna samnings um notendastýrða persónulega aðstoð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur frá janúar 2019 verið með samning við Hafnarfjarðarbæ í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) sem kveður á um sólarhringsþjónustu, eða 732 klukkustunda aðstoð í mánuði. Þann 1. apríl 2019 tók gildi nýr kjarasamningur NPA starfsfólks, kjarasamningur Eflingar/SGS og NPA miðstöðvarinnar og hefur frá þeim tíma verið uppi ágreiningur á milli kæranda og Hafnarfjarðarbæjar um framlag sveitarfélagsins til launakostnaðar á grundvelli NPA samningsins. Með tölvupósti 3. apríl 2020 var kærandi upplýst um að starfshópur á vegum sveitarfélagsins hefði komist að þeirri niðurstöðu að tímagjald yrði óbreytt og myndi taka hækkunum samkvæmt launavísitölu hvers árs.

Þann 19. júní 2020 fór kærandi fram á að Hafnarfjarðarbær greiddi henni tap vegna rekstrarársins 2019, að fjárhæð 4.136.750 kr., og að bætt yrði það tap sem næmi mismun á útlögðum kostnaði vegna kjarasamningshækkana og samningsgreiðslna sveitarfélagsins fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2020, eða 2.740.608 kr. Þá vísaði kærandi til þess að hún teldi að framlag Hafnarfjarðarbæjar vegna NPA samningsins yrði að lágmarki að miðast við framangreindan kjarasamning. Kröfu kæranda var hafnað með bréfi fjölskyldu- og barnamálasviðs, dags. 24. júlí 2020, með vísan til þess að hún hefði nýtt talsvert fleiri vinnustundir í mánuði heldur en samningurinn kvæði á um. Þá var kæranda tjáð að samkvæmt ákvörðun fjölskylduráðs skyldi tímagjald taka mið af launavísitölu og því myndi samningur kæranda hækka vegna hins nýja fyrirkomulags. Með erindi, dags. 3. september 2020, greindi kærandi frá því að umframtímarnir væru tilkomnir vegna veikindalauna samkvæmt kjarasamningi. Þá óskaði hún eftir því að afstaða yrði tekin til kröfubréfsins með tilliti til þess og niðurstaðan rökstudd. Í svari Hafnarfjarðarbæjar frá 14. september 2020 var vísað til þess að endurgreiðsla vegna langtímaveikinda hafi þegar farið fram á grundvelli 20. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 um notendastýrða persónulega aðstoð. Samkvæmt handbók um NPA, reglugerð eða reglum sveitarfélagsins væri ekki gert ráð fyrir endurgreiðslum vegna skammtímaveikinda en umsýslukostnaður ætti að standa undir meðal annars starfsmannamálum og fræðslu, sbr. 18. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 23. október 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. október 2020, var óskað eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 30. nóvember 2020. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 18. desember 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. desember 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 4. janúar 2021 og voru þær sendar Hafnarfjarðarbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. janúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. mars 2021, var óskað eftir tilteknum upplýsingum og gögnum frá Hafnarfjarðarbæ vegna kærumálsins. Svör og gögn bárust frá sveitarfélaginu 15. apríl 2021 og voru þau send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. apríl 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 4. maí 2021 og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. maí 2021. Athugasemdir bárust frá Hafnarfjarðarbæ 25. maí 2021 og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. maí 2021. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 31. maí 2021 og voru þær kynntar sveitarfélaginu með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júní 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að allt frá því að nýr kjarasamningur NPA starfsfólks (þ.e. kjarasamningur Eflingar/SGS og NPA miðstöðvarinnar) hafi tekið gildi 1. apríl 2019 hafi framlag Hafnarfjarðarbæjar til launakostnaðar á grundvelli framangreinds NPA samnings ekki staðið undir þeim 732 klukkustundum á mánuði sem stuðningsþörf hennar hafi verið metin. Kærandi hafi gert kröfu um hækkun tímagjaldsins en með tölvupósti þann 3. apríl 2020 hafi verið upplýst að starfshópur á vegum sveitarfélagsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að tímagjald yrði óbreytt 4.289 kr. og myndi taka hækkunum samkvæmt launavísitölu hvers árs. Þetta yrði svo endurmetið þegar uppgjör samninga vegna síðasta árs myndu liggja fyrir, eigi síðar en haustið 2020. Kærandi hafi ekki getað fellt sig við þessa niðurstöðu og sent kröfubréf um leiðréttingu þann 19. júní 2020, en á árinu 2019 hafi vantaði 4.136.750 kr. upp á samning hennar til að hann stæði undir kjarasamningum og fyrstu sex mánuði ársins 2020 hafi vantað 2.740.608 kr. upp á samninginn.

Í svarbréfi Hafnarfjarðarbæjar frá 24. júlí 2020 komi fram að þann 24. júní 2020 hafi bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkt nýjar reglur um NPA nr. 705/2020 og í framhaldinu hafi fjölskylduráð Hafnarfjarðar samþykkt á fundi þann 22. júlí 2020 að hækka tímagjald vegna NPA samninga frá og með 15. júlí 2020. Þá hafi verið rakið að á hluta af tímabilinu sem krafan næði til, þ.e. janúar til maí 2019, hafi kærandi nýtt sér fleiri klukkustundir en 732, eða 807 í janúar 2019, 961 í febrúar 2019, 808 í mars, 801 í apríl og 792 í maí. Umframkostnaður vegna þessa reiknist 2.183.101 kr. og með vísan til þessa hafi kröfunni verið hafnað. Í framhaldinu hafi kærandi þann 3. september 2020 upplýst að umframtímarnir væru vegna veikinda starfsfólks, þ.e. að um væri að ræða skyldur samkvæmt kjarasamningum sem væru kjarni kröfubréfs hennar, og þess óskað að afstaða yrði tekin til kröfubréfsins og sú afstaða rökstudd. Svar sveitarfélagsins hafi borist þann 14. september 2020. Þar hafi komið fram að samkvæmt 20. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 um notendastýrða persónulega aðstoð væri endurgreitt vegna langtímaveikinda og bent hafi verið á að kærandi hafi fengið endurgreitt vegna slíkra veikinda. Ekki væri greitt vegna skammtímaveikinda og samkvæmt 18. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 um notendastýrða persónulega aðstoð eigi umsýslukostnaður að standa undir meðal annars starfsmannamálum og fræðslu.

Kærandi byggi á því að erindinu hafi ekki verið svarað efnislega. Í fyrsta lagi sé hækkun sem hafi tekið gildi 15. júlí 2020 ótengd kröfu vegna tímabilsins 1. janúar 2019 til 30. júní 2020. Í öðru lagi nái þau atriði sem sveitarfélagið tilgreini í svari sínu ekki upp í þá fjárhæð sem hafi vantað upp á samninginn samkvæmt kröfubréfinu og svari því ekki álitaefni þess. Í þriðja lagi séu umrædd atriði einnig liður í þeim vanda sem kærandi byggi kröfu sína á, þ.e. að samningurinn standi ekki undir launagreiðslum samkvæmt kjarasamningum og því sé svarið þar að auki ófullnægjandi hvað það varðar.

Krafa kæranda hafi verið byggð á því að samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 um notendastýrða persónulega aðstoð beri að tryggja að framlag til launakostnaðar standi undir launum og launatengdum gjöldum aðstoðarfólks og taki mið af kjörum aðstoðarfólks samkvæmt gildandi kjarasamningi. Um þetta hafi einnig verið vísað til ábyrgðar sveitarfélagsins á NPA samningum samkvæmt 11. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá hafi verið vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laganna skuli NPA vera skipulögð á forsendum notandans og byggt á því að núverandi framlag sveitarfélagsins samræmist ekki því ákvæði. Þá hafi verið vísað til ábyrgðar sveitarfélagsins samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Kærandi bendir á að þjónustuþörf hennar hafi verið metin 732 klukkustundir á mánuði en greiðslur til hennar standi ekki undir lágmarkslaunakostnaði til að greiða starfsfólki fyrir 732 klukkustunda þjónustu á mánuði. Með því sé henni ekki tryggð þjónusta sem henni sé nauðsynleg og sveitarfélaginu beri skylda til að veita henni, en fyrir liggi og óumdeilt sé að aðilar séu sammála um að sú þjónusta skuli veitt í formi NPA.

Kærandi byggi á því að sveitarfélaginu hafi borið að taka kröfu hennar til greina með vísan til alls framangreinds. Þá byggi kærandi á því að synjunin sé ólögmæt af sömu ástæðu. Loks byggi kærandi á því að ákvörðunin byggi ekki á málefnalegum grunni og ekki hafi verið gætt að rannsóknarreglunni þegar kröfunni hafi verið synjað, án þess að efnisleg afstaða væri tekin til þeirra atriða sem krafan byggi á. Kærandi bendi í því samhengi á skyldubundið mat stjórnvalda, en ekki sé unnt að bera fyrir sig staðlaðar reglur um greiðsluþak þegar fyrir liggi og óumdeilt sé að þjónustuþörf kæranda þarfnist hærri greiðslna, enda sé henni að öðrum kosti ekki tryggð lífsnauðsynleg þjónusta sem sveitarfélaginu beri lögum samkvæmt að veita. Loks hafi ekki verið gætt að andmælarétti kæranda þegar ákvörðun hafi verið tekin sem hafi bersýnilega verið byggð á röngum forsendum, sbr. framangreint.

Með vísan til alls framangreinds sé þess aðallega krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti greiðsluskyldu sveitarfélagsins á fjárkröfu þeirri sem sett hafi verið fram þann 19. júní 2020. Til vara sé þess krafist að ákvörðun um að synja greiðsluskyldu verði ógilt og sveitarfélaginu gert að taka málið til lögmætrar og efnislegrar afgreiðslu.

Í athugasemdum kæranda er afstöðu Hafnarfjarðarbæjar í greinargerð mótmælt, enda ljóst að afstaða sveitarfélagsins standist ekki samanburð við almenn lög um vinnurétt og lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Nánar tiltekið telji kærandi þarft að benda sveitarfélaginu á að kjarasamningar sem hafi verið gerðir fyrir NPA aðstoðarfólk hafi verið gerðir í samstarfi við Eflingu og Starfsgreinasambandið og teljist án vafa kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Þá sé ljóst að þeir séu gerðir samkvæmt lögum nr. 38/2018 en lögin vísi sérstaklega til þessa kjarasamninga.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 38/2018 segi að fatlað fólk eigi rétt á allri almennri þjónustu sveitarfélaga. Þar segi jafnframt að „ávallt“ skuli veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt „almennum lögum á sviði félagsþjónustu, …. vinnumarkaðar“. Í 2. mgr. 3. gr. segi að opinberum aðilum, svo sem Hafnarfjarðarbæ, beri að tryggja að þjónustan sem sé veitt samkvæmt 1. mgr. sé „samfelld og samþætt í þágu notanda“. Í 3. mgr. 3. gr. segi að reynist þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu eða þörf fyrir stuðning [meiri] en samkvæmt almennri þjónustu skuli veita „viðbótarþjónustu“ samkvæmt lögunum. Því sé ljóst að aðstæður NPA notenda geti breyst en sveitarfélagið sé ekki undanþegið skyldum sínum samkvæmt lögunum eða öðrum almennum lögum í því samhengi. Í 3. mgr. 10. gr. segi að við „gerð notendasamninga skulu uppfyllt skilyrði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna, m.a. hvað varðar aðbúnað þeirra á vinnustað, sbr. lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og aðrar meginreglur íslensks vinnuréttar og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.“ Því sé ljóst að sveitarfélög, við gerð NPA samninga við NPA notendur, skuli hafa mið af öllum almennum lögum. Þetta leiði jafnframt af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins en ákvarðanir sveitarfélaga megi ekki ganga í berhögg við lög eða stjórnarskrá. Í 2. mgr. 11. gr. segi enn fremur að NPA skuli vera skipulögð á „forsendum notandans“, en forsendur notandans breytast ekki eða verða að engu þegar að starfsfólk hans veikist. Það hljóti að teljast að vera á forsendum notandans að NPA samningur skuli tryggja það að þörfum hans sé mætt þó að NPA notandi þurfi að greiða einum starfsmanni til að mæta á vakt þar sem annar sé á vakt, en á sama tíma eigi viðkomandi rétt á launum. Jafnframt segi í 3. mgr. 11. gr. að umsýsluaðili NPA samnings (í tilviki kæranda NPA notandinn sjálfur) skuli tryggja að „uppfyllt séu ákvæði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna sem aðstoða hann, m.a. hvað varðar aðbúnað á vinnustað þeirra, sbr. lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og aðrar meginreglur íslensks vinnuréttar og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.“

Kærandi vísi einnig til þess að samkvæmt almennum kjarasamningum á almennum markaði ávinni launafólk sér lágmarksrétt um tvo veikindadaga hvern mánuð sem aukist með lengd starfstíma. Þessi lágmarksréttur eigi við í tilviki NPA kjarasamnings gagnvart aðstoðarfólki. Niðurstaðan í máli kæranda hljóti því að vera sú að NPA samningur sé í grunninn gerður á forsendum notandans um tilteknar klukkustundir (732 klukkustundir í tilviki kæranda). Þrátt fyrir þá metnu þjónustuþörf geti sveitarfélagið ekki skotið sér undan því að ábyrgjast greiðslu vegna veikindarétts aðstoðarfólks sem leggist alla jafna ofan á metna þjónustuþörf NPA notandans en í þeirri þörf sé ekki sérstaklega gert ráð fyrir aukagreiðslum vegna veikinda starfsfólks. Það væri í ósamræmi við lög að ætla að NPA notandi afsali sér viðbótarþjónustu vegna þess að tiltekinn starfsmaður nýti sér veikindarétt sinn þar sem viðkomandi NPA notandi hafi ekki efni á því að greiða bæði þeim sem sé veikur og viðbótarþjónustu annars starfsmanna sem myndi mæta í stað þess sem forfallaðist. Það sé því sláandi og skjóti afar skökku við að sveitarfélagið ætli að koma sér undan þeirri skyldu sinni að tryggja að umsýsluaðilar geti veitt launafólki veikindarétt. Samkvæmt lögum nr. 38/2018 sé skýrt að báðir aðilar, sveitarfélagið og umsýsluaðilinn, skuli gæta að þessum almenna laga- og kjarasamningsbundna veikindarétti starfsfólks sem starfi í raun undir umsjón sveitarfélagsins. Með afstöðu sinni sé Hafnarfjarðarbær að fara á svig við ofangreind ákvæði laga nr. 38/2018, 76. gr stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar.

Í athugasemdum kæranda frá 4. maí 2021 er gerð athugasemd við að Hafnarfjarðarbær hafi ekki svarað spurningu úrskurðarnefndarinnar um hvort og þá með hvaða hætti kærandi hafi verið upplýst um kæruheimild 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1250/2018. Ekkert sé að finna í hinum framlögðu gögnum sem bendi kæranda á þá heimild og því verði að gera ráð fyrir að framangreint hafi ekki átt við. Svar Hafnarfjarðarbæjar um að ekki sé um kjarasamning að ræða sé í ósamræmi við þau skjöl sem hafi verið lögð fram með erindinu. Í samkomulagi um úthlutun vinnustunda, dags. 30. apríl 2020, og samskonar samkomulagi frá 12. nóvember 2019 komi fram að samningsfjárhæðin grundvallist á „ákvæðum kjarasamnings NPA aðstoðarfólks“ og í samningi um úthlutun á vinnustundum, dags. 4. janúar 2019, komi fram undir sérstök ákvæði að tímagjaldið sé „jafnaðargreiðsla skv. viðmiði frá NPA miðstöðinni“.

Kærandi telji að svar Hafnarfjarðarbæjar um að ekki sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta kostnaði við launagreiðslur vegna tilfallandi veikinda starfsmanna sé í ósamræmi við kjarasamninga. Í gr. 1.4. í kjarasamningi NPA miðstöðvarinnar komi fram að um önnur atriði en þau sem þar komi sérstaklega fram gildi aðalkjarasamningar, meðal annars Eflingar. Í aðalkjarasamningnum sé fjallað um laun í veikindaleyfi, sbr. gr. 8.1., en þar séu sundurliðuð réttindi fólks sem starfi hjá sama vinnuveitanda í 12 mánuði eða fleiri. Svör Hafnarfjarðarbæjar virðist gera ráð fyrir að NPA notandi, sem sé með fólk á launaskrá, skuli brjóta gegn þessum réttindum starfsmanna á launaskrá eða greiða kostnaðinn úr eigin vasa. Í því samhengi sé bent á ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 um ábyrgð vinnuveitanda aðstoðarfólks. Hvað varði viðbótarkostnað vegna langtímaveikinda þá sé skorað á Hafnarfjarðarbæ að upplýsa um hvort kæranda hafi verið greitt fyrir slík langtímaveikindi. Í tölvupósti frá 30. júlí 2020 hafi kærandi bent á að hún hafi meira að segja ekki fengið viðbótargreiðslu vegna slíkra aðstæðna. Jafnframt óski kærandi eftir skilgreiningu sveitarfélagsins á langtímaveikindum, þ.e. hvort miðað sé við almennt dagvinnufyrirkomulag eða við vaktafyrirkomulag, enda ljóst að þegar starfsmaður kæranda sé veikur á einum degi sé viðkomandi þar með fjarverandi á um það bil þremur vöktum þar sem um sólarhringsþjónustu sé að ræða. Þegar starfsmaður sé fjarverandi í einn dag sé því um að ræða þrjár vaktir vegna veikinda. Ekki sé ljóst hvort sveitarfélagið telji slíkt langtímaveikindi eða hvort miðað sé við tilteknar og fleiri klukkustundir í fjarveru. Þá bendi kærandi á að þegar annar starfsmaður sé kallaður til vegna veikinda eins þá þurfi að greiða viðkomandi starfsmanni yfirvinnu vegna útkallsins. Kærandi óski eftir skýringum á því hvort Hafnarfjarðarbær taki mið af yfirvinnugreiðslum í því samhengi eða hvort greitt sé samkvæmt almennum taxta.

Í athugasemdum kæranda frá 31. maí 2021 er afstöðu Hafnarfjarðarbæjar er varðar skyldu sveitarfélagsins til að greiða samkvæmt kjarasamningum annars vegar og skyldum kæranda hins vegar mótmælt. Það skjóti skökku við að á sama tíma og sveitarfélagið telji sér ekki skylt að miða við kjarasamninga sem hafi verið gerðir í tengslum við réttindi NPA aðstoðarfólks eigi greiðslur til handa kæranda, sem umsýsluaðila, frá sveitarfélaginu að vera í takt við almennar launa- og kjarahækkanir. Ljóst sé að kjarasamningur sem hafi verið gerður vegna réttinda NPA aðstoðarfólks sé einmitt í takt við almennar kjara- og launahækkanir og þannig geti sveitarfélagið ekki komið sér hjá því að líta til þeirra viðmiða sem þar komi fram. Kjarasamningur um réttindi NPA aðstoðarfólks hafi tekið gildi í framhaldi af undirritun Lífskjarasamninganna svokölluðu og NPA miðstöðin hafi sent skriflegt erindi til sveitarfélaganna, dags. 21. júní 2019, þar sem þau hafi verið hvött til að taka mið af kjarasamningnum afturvirkt. Í bréfinu hafi NPA miðstöðin komið því á framfæri að ný launatafla hefði tekið gildi afturvirkt og að útreikningar hennar væru miðaðir við lágmarkskostnað af NPA sem tækju ekki mið af margvíslegum kjarasamningsbundnum þáttum sem launagreiðanda bæri að greiða, svo sem sérstaks álags vegna útkalla á vakt þegar starfsmaður verði veikur, álags sem greitt sé þegar breyta þurfi vaktaskipulagi með litlum fyrirvara og svo framvegis. Þá hafi NPA miðstöðin minnt sveitarfélög á að samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 bæri framlagi til launakostnaðar í NPA að standa undir launum og launatengdum gjöldum NPA aðstoðarfólks hverju sinni og að framlagið skyldi „taka mið af kjörum aðstoðarfólks samkvæmt gildandi kjarasamningum hverju sinni.“ Kærandi taki undir með NPA miðstöðinni og árétti að sveitarfélögum beri þannig skylda til þess að uppfæra framlög sín til samræmis við ákvæði kjarasamninga eins og þeir séu á hverjum tíma, enda væri það rökleysa að kærandi, sem umsýsluaðili, bæri lagaskyldu til að virða kjarasamningsbundin réttindi, vegna þjónustu sem sveitarfélaginu beri skylda til að veita henni sem fötluðum einstaklingi, en á sama tíma væri sveitarfélagið undanþegið sömu skyldum. Hafnarfjarðarbær sé bundinn af reglugerð nr. 1250/2018 og lögum nr. 38/2018 sem reglugerðin sæki stoð í. Þá mótmæli kærandi því harðlega að fatlað fólk, sem njóti NPA þjónustu, þurfi að „bera kostnaðaráhættu vegna kjaraþróunar starfsmanna“ sem gerðir séu samningar við. Sú fullyrðing sveitarfélagsins sé í hrópandi ósamræmi við markmið laga nr. 38/2018 sem miði að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Kærandi telji miður að afstaða sveitarfélagsins gagnvart lögunum sé sú að fatlað fólk beri fjárhagslega áhættu á því að geta notið lífs án aðgreiningar. Þá mótmæli kærandi jafnframt athugasemdum Hafnarfjarðarbæjar í tengslum við skammtímaveikindi aðstoðarmanna með vísan til framangreinds rökstuðnings.

III.  Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi gert samning við sveitarfélagið um sólarhringsaðstoð í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar í janúar 2019, eða 732 klukkustundir á mánuði. Á þeim tíma hafi verið í gildi eldri reglur sveitarfélagsins, samþykktar árið 2012, og í samræmi við þær reglur hafi greiðslur sveitarfélagsins fyrir hverja vinnustund verið samkvæmt jafnaðartaxta og tímagjaldið 4.117 kr. Nýr samningur hafi verið gerður 12. nóvember 2019 með gildistíma til áramóta 2019/2020 en í þeim samningi hafi tímagjaldið einnig verið 4.117 kr., eða 3.013.644 kr. á mánuði. Í janúar 2020 hafi enn verið gerður nýr samningur og tímagjaldið þá 4.289 kr. eftir hækkun um áramótin samkvæmt launavísitölu. Eftir að nýjar reglur hafi tekið gildi um mitt ár 2020 hafi samningurinn hljóðað upp á 4.903 kr. fyrir hverja vinnustund, eða 3.588.996 kr. á mánuði. Í mars 2020 hafi kærandi farið fram á hækkun samnings þar sem aðstæður hennar hefðu breyst og hún þyrfti nú meiri aðstoð á nóttunni en áður og það tímagjald sem stuðst væri við dygði ekki fyrir vakandi næturvakt sem þörf væri fyrir. Beiðni kæranda hafi verið synjað á fundi stuðnings- og stoðþjónustuteymis þar sem samningur hennar kvæði þegar á um hámarksþjónustu allan sólarhringinn samkvæmt þágildandi reglum sveitarfélagsins um NPA og því væri ekki svigrúm til hækkunar. Þeirri niðurstöðu hafi ekki verið skotið til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar.

Kröfubréf, dags. 19. júní 2020, hafi borist frá kæranda þar sem þess hafi annars vegar verið krafist að Hafnarfjarðarbær greiddi kæranda tap vegna rekstrarársins 2019 að upphæð 4.136.750 kr. og hins vegar að bæta kæranda það tap sem næmi mismun á útlögðum kostnaði vegna kjarasamningshækkana og samningsgreiðslna sveitarfélagsins fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2020, eða 2.740.608 kr. Auk þess hafi verið gerð krafa um að framlag Hafnarfjarðarbæjar vegna NPA samnings kæranda yrði hækkað til samræmis við kjarasamninga NPA aðstoðarfólks, þ.e. kjarasamning Eflingar/SGS og NPA miðstöðvarinnar frá 1. apríl 2019. Kærandi hafi þá verið upplýst um nýjar reglur Hafnarfjarðarbæjar um NPA og það nýmæli að greiða skyldi samkvæmt dag-, kvöld- og helgartaxta fyrir samninga sem fælu í sér 600 klukkustundir eða meira. Bent hafi verið á að samkvæmt ákvörðun fjölskylduráðs Hafnarfjarðar skyldi tímagjald taka mið af launavísitölu og að samningur kæranda myndi hækka vegna hins nýja fyrirkomulags. Kærandi hafi sent inn umsókn um viðbótargreiðslu vegna veikinda aðstoðarmanna. Því erindi hafi verið svarað þannig að fallist hafi verið á endurgreiðslu vegna langtímaveikinda, sbr. 20. gr. reglugerðar um NPA, en bent á að í Handbók um NPA, reglugerð eða reglum sveitarfélagsins um NPA væri hvergi gert ráð fyrir endurgreiðslu sveitarfélags vegna skammtímaveikinda.

Hafnarfjarðarbær tekur fram að þrátt fyrir að lög og reglugerðir setji sveitarfélögum ramma um ýmis grundvallaratriði varðandi samninga um notendastýrða persónulega aðstoð sé sveitarfélögum gert að setja sér reglur um nánari útfærslu á framkvæmd NPA, sbr. 5. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 um notendastýrða persónulega aðstoð. Þannig sé gert ráð fyrir að sveitarfélög hafi nokkurt svigrúm til þess að mæla sjálf fyrir um tiltekin atriði í reglum sínum. Hafnarfjarðarbær hafi fyrst sett reglur sem hafi tekið gildi í nóvember 2012 og síðar nýjar reglur í júlí 2020. Eitt þeirra atriða sem reglur sveitarfélagsins kveði á um sé viðmið um fjárframlag til umsýsluaðila samnings um NPA. Samkvæmt eldri reglum skyldi greiða jafnaðartaxta allan sólarhringinn en hinar nýju reglur Hafnarfjarðarbæjar kveði á um dag-, kvöld- og helgartaxta, sbr. 1. mgr. 10. gr. reglnanna, þar sem einnig komi fram að taxti skuli hækka samkvæmt launavísitölu 1. janúar ár hvert.

Óumdeilt sé að kærandi þurfi sólarhringsþjónustu, eða 732 klukkustundir á mánuði, og hafi svo verið frá upphafi samningstímans. Kærandi hafi nýtt talsvert fleiri vinnustundir í mánuði fyrstu mánuði ársins heldur en samningur við hana kveði á um, eins og hafi komið fram í svarbréfi sveitarfélagsins frá 24. júlí 2020, eða 807 stundir í janúar, 961 í febrúar, 808 í mars, 801 í apríl og 792 í maí, og sé umframkostnaður vegna þessa 2.183.101 kr. Í rökstuðningi kæranda komi fram að þeir tímar sem séu umfram hinar 732 klukkustundir, sem samningur við kæranda kveði á um, séu tilkomnir vegna veikinda starfsfólks. Um greiðsluskyldu væri að ræða samkvæmt kjarasamningum og framlag Hafnarfjarðarbæjar hafi ekki verið nægilegt til að standa undir þeim kostnaði. Hafnarfjarðarbær mótmæli því að sveitarfélagið sé skyldað til að miða greiðslur sínar vegna NPA samninga við einn ákveðinn kjarasamning sem sveitarfélagið hafi ekki á neinn hátt komið að og telji eðlilegt að miða greiðslur við almenna kjaraþróun í landinu sem endurspeglist í launavísitölu. Þá eigi fullyrðingar kæranda um að erindum hafi ekki verið svarað efnislega ekki við rök að styðjast eins og fyrirliggjandi gögn sýni.

Kærandi hafi undirritað tvo samninga á árinu 2019 þar sem samið hafi verið um tímagjald að upphæð 4.117 kr. og engin beiðni um hækkun eða breytingu á samningi hafi borist fyrr en á miðju ári 2020. Hafnarfjarðarbær hafi samþykkt að greiða kostnað vegna langtímaveikinda aðstoðarmanna, sbr. 20. gr. reglugerðar um NPA, en hafnað að greiða kostnað vegna skammtímaveikinda. Með vísan til framanritaðs sé ljóst að Hafnarfjarðarbær hafi að öllu leyti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kæranda vegna NPA samnings og geti ekki borið ábyrgð á þeim kostnaði umfram samningsfjárhæð sem hafi orðið vegna ráðningarsambands kæranda við aðstoðarmenn sína eða því fjárhagslegu tapi sem kærandi hafi orðið fyrir vegna aukins tímafjölda sem hún hafi nýtt umfram samning.

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar frá 15. apríl 2021 kemur fram að taxti sveitarfélagsins sé þrískiptur, 5.019 kr. fyrir samninga þar sem þjónusta sé án næturvakta, 5.114 kr. fyrir samninga með næturvöktum sem innihaldi ekki hvíldarvaktir og 4.747 kr. fyrir samninga með næturvöktum sem innihaldi hvíldarvaktir. Fyrsti taxtinn sé upphaflega tímagjaldið, 2.800 kr. sem hafi verið sett fram í fyrri útgáfu Handbókar um NPA sem ráðuneytið hafi gefið út í febrúar 2012,  uppreiknað með launavísitölu frá 1. janúar 2012 til 1. nóvember 2020. Í handbókinni sé að finna forsendur þeirrar fjárhæðar (5. liður, bls. 7). Rétt sé að benda á að þar sé notað orðalagið „Lagt er til að heildarfjárhæð sem fylgi hverri vinnustund sé 2.800 kr.“ Taxtar eitt og tvö séu byggðir á taxta þrjú og hlutfallsmun á milli þrískipts taxta Reykjavíkurborgar. Taxti Reykjavíkurborgar sé þrískiptur með sama hætti og hjá Hafnarfjarðarbæ. Taxti tvö hjá Hafnarfjarðarbæ sé fenginn með margfeldi af taxta eitt hjá Hafnarfjarðarbæ og hlutfallsmun á milli taxta tvö og taxta eitt hjá Reykjavíkurborg. Taxti þrjú hjá Hafnarfjarðarbæ sé fenginn með margfeldi af taxta eitt hjá Hafnarfjarðarbæ og hlutfallsmun á milli taxta þrjú og taxta eitt hjá Reykjavíkurborg. Ekki sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta kostnaði við launagreiðslur vegna tilfallandi veikinda starfsmanna, aðeins vegna langtímaveikinda, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 um NPA. Fjölskylduráð Hafnarfjarðarbæjar byggi ekki ákvörðun um fjárhæðir þrískipts taxta á tilteknum kjarasamningi heldur á þeim forsendum að launaþróun sem endurspeglist í þróun launavísitölu byggi á gerðum kjarasamningum.

Í athugasemdum Hafnarfjarðarbæjar frá 21. maí 2021 kemur fram að kærandi hafi þrisvar sinnum undirritað samkomulag um vinnustundir, fyrst 4. janúar 2019, síðan 12. nóvember 2019 og að lokum 30. apríl 2020. Litið hafi verið svo á að um væri að ræða tvíhliða samkomulag en hvorki einhliða ákvörðun Hafnarfjarðar né heldur að kærandi hafi sett fyrirvara við undirskrift sína. Því væri ekki þörf á kæruheimild. Samningsformin eru stöðluð frá félagsmálaráðuneytinu og á þeim hafi ekki verið gert ráð fyrir kærurétti. Kærandi hafi undirritað tvo samninga á árinu 2019 þar sem samið hafi verið um tímagjald að upphæð 4.117 kr. og engin beiðni um hækkun eða breytingu á samningnum hafi borist fyrr en á miðju ári 2020. Upphaflega tímagjaldið sem fram komi í Handbók um NPA frá árinu 2012 hafi verið lagt til að vel athuguðu máli og launavísitala virðist hafa mælt hækkanir á því vel síðan. Í 10. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um NPA sé kveðið á um fjárhæðir og meðferð fjármagns. Reglurnar hafi verið samþykktar af þar til bærum stjórnvöldum bæjarins og fjölskyldu- og barnamálasvið sé að sjálfsögðu bundið af reglunum hvað tímagjaldið varði eins lengi og þær séu í gildi. Sveitarfélaginu sé ekki skylt að miða greiðslur sínar vegna NPA samninga við einn tiltekinn kjarasamning sem það hafi á engan hátt komið að og telji eðlilegt að miða greiðslur við almenna kjaraþróun í landinu sem endurspeglist í launavísitölu. Í því samhengi vísar Hafnarfjarðarbær til innihalds bréfs Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 24. ágúst 2020. Síðan þá hafi félags- og barnamálaráðherra skipað starfshóp til að endurskoða í heild sinni lög nr. 38/2018 og sá hópur eigi að skila af sér síðar á árinu 2021. Við þá endurskoðun hljóti að verða litið sérstaklega til 11. gr. laganna sem einna helst hafi staðið styr um og gerð reglugerðar um þann þátt þjónustunnar hraðað. Þar þurfi fjárhagsleg framkvæmd að vera í fyrirrúmi, bæði í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og á milli sveitarfélaga og notenda. Væri óskandi að línur yrðu skýrðar í þeim efnum til að taka af tvímæli, meðal annars um það tímagjald sem hér hafi verið skrifað langt mál og sé vissulega mál að linni. Þá tekur Hafnarfjarðarbær fram að í 20. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 sé að finna skýrt ákvæði um greiðslur úr sérstökum sjóði í vörslu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga „til þess að standa straum af viðbótarútgjöldum vegna langtímaveikinda aðstoðarfólks.“ Engar reglur sé hins vegar að finna um greiðslur viðbótarkostnaðar vegna tilfallandi veikinda (skammtímaveikinda) og því verði sveitarfélagið að hafna óskum um að koma til móts við þann viðbótarkostnað sem af þeim hljótist. Rifjað skuli upp að hagsmunasamtök fatlaðs fólks (ÖBÍ, Þroskahjálp og NPA miðstöðin, ef rétt sé munað) hafi átt fulltrúa í starfhópnum sem hafi samið reglurnar á sínum tíma. Eins og kærandi bendi réttilega á geti skammtímaveikindi vissulega raskað þjónustu við NPA notendur umtalsvert og valdið óþægindum. Þeim mun meiri þörf sé á að endurskoða NPA reglugerðina í þessu tilliti. Hvað varði greiðslur til kæranda vegna langtímaveikinda starfsfólks þá hafi hún fengið greiðslu af þeim sökum þann 7. september 2020 að upphæð 313.345 kr. Það fé hafi verið greitt samkvæmt reikningi sem kærandi hafi sjálf lagt fram og því greinilega reiknað á eigin spýtur hver upphæðin skyldi vera.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 24. júlí 2020, um að synja kröfu kæranda um viðbótargreiðslu vegna NPA samnings. Kærandi hefur frá árinu 2019 verið með samning við Hafnarfjarðarbæ sem kveður á um greiðslu fyrir sólarhringsþjónustu, eða 732 klukkustundir á mánuði, og annast sjálf umsýslu samningsins. Frá því að nýr kjarasamningur NPA starfsfólks tók gildi í apríl 2019 hefur verið uppi ágreiningur á milli kæranda og Hafnarfjarðarbæjar um framlag sveitarfélagsins til launakostnaðar á grundvelli NPA samningsins. Kærandi hefur vísað til þess að framlagið hafi frá þeim tíma ekki staðið undir þeim 732 klukkustundum á mánuði sem stuðningsþörf hennar hafi verið metin.

Markmið laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi þjónustuþarfir er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal þjónusta samkvæmt lögunum miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð og fleira. Þá segir í 1. mgr. 5. gr. laganna að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, hvort sem hún sé veitt af hálfu starfsmanna sveitarfélags eða af einkaaðilum samkvæmt samningi þar um, sbr. 7. gr., sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögunum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Í 11. gr. laga nr. 38/2018 er fjallað um notendastýrða persónulega aðstoð en þar segir í 1. mgr. að einstaklingur eigi rétt á slíkri aðstoð hafi hann mikla og viðvarandi þörf fyrir aðstoð og þjónustu, svo sem við athafnir daglegs lífs, heimilishald og þátttöku í félagslífi, námi og atvinnulífi. Samkvæmt 2. mgr. skal aðstoðin vera skipulögð á forsendum notandans og undir verkstýringu og verkstjórn hans. Þá segir í 3. mgr. 11. gr. að umsýsluaðili NPA samnings beri vinnuveitendaábyrgð gagnvart starfsfólki sínu og skuli sjá til þess að uppfyllt séu ákvæði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna sem aðstoði hann, meðal annars hvað varðar aðbúnað á vinnustað þeirra, sbr. lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og aðrar meginreglur íslensks vinnuréttar og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Sveitarfélag getur afturkallað ákvörðun um umsýslusamning verði misbrestur þar á og hafi ekki verið bætt úr, þrátt fyrir ábendingar þar að lútandi.

Reglugerð nr. 1250/2018 um notendastýrða persónulega aðstoð hefur verið sett með stoð í ákvæði 11. gr. laga nr. 38/2018 en samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins er ráðherra veitt heimild til þess að gefa út reglugerð og handbók um framkvæmd NPA, meðal annars um skipulag og útfærslu, þar með talið viðmið um umfang þjónustu og lágmarksstuðningsþarfir, eftirlit og kostnaðarhlutdeild aðila í samráði við sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar bera sveitarfélög ábyrgð á gerð og framkvæmd NPA samninga, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 38/2018, óháð því hvernig aðstoð er skipulögð og hver beri ábyrgð sem umsýsluaðili. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að umsýsluaðili NPA samnings sé vinnuveitandi aðstoðarfólks og beri ábyrgð á að það njóti launa og annarra starfskjara, lögboðinnar vinnuverndar og forsvaranlegs aðbúnaðar í samræmi við lög og kjarasamninga sem gerðir eru samkvæmt lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Þá segir í 3. mgr. 3. gr. að sveitarfélög skuli setja nánari reglur í samráði við notendaráð fatlaðs fólks og/eða samtök fatlaðs fólks.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 er kveðið á um samkomulag um vinnustundir. Þar segir í 1. mgr. að þegar mat á stuðningsþörf liggi fyrir samkvæmt reglum hlutaðeigandi sveitarfélags geri notandi og sveitarfélag með sér skriflegt samkomulag um samningsfjárhæð og fjölda vinnustunda sem séu til ráðstöfunar. Samkomulagið skuli innihalda fjölda vinnustunda á mánuði en einstaklingi sé heimilt að flytja stundir milli mánaða innan almanaksárs. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. skal samkomulag um vinnustundir byggt á mati á þörf notanda fyrir nauðsynlegan stuðning til að geta lifað innihaldsríku sjálfstæðu lífi með fullri þátttöku óháð fötlun. Þá segir í 3. mgr. 5. gr. að sé notandi ósammála niðurstöðu mats á stuðningsþörf, fjölda vinnustunda eða samningsfjárhæð geti hann kært niðurstöðuna til úrskurðarnefndar velferðarmála samkvæmt 35. gr. laga nr. 38/2018. Aðstoð geti þó hafist á grundvelli ákvörðunar sveitarfélags um fjölda vinnustunda þó að kæruferli sé í gangi. Á grundvelli samkomulags um vinnustundir getur notandi valið að semja við þann umsýsluaðila sem hann kýs eða sjá sjálfur um umsýsluna, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar. Í 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um hlutverk og skyldur umsýsluaðila þegar þeir eru sjálfir notendur. Samkvæmt d-lið 13. gr. skal umsýsluaðili taka þátt í gerð og framkvæmd kjarasamninga vegna starfa aðstoðarfólks og ábyrgjast að aðstoðarfólk njóti lögboðinnar vinnuverndar og forsvaranlegs aðbúnaðar, sbr. e-lið ákvæðisins.

Í V. kafla reglugerðar nr. 1250/2018 er fjallað um fjárhagslega framkvæmd NPA. Þar segir í 3. mgr. 15. gr. að umsýsluaðili taki við mánaðarlegu fjárframlagi frá því sveitarfélagi sem geri einstaklingssamning um NPA vegna viðkomandi notanda. Framlagið sé til launakostnaðar, umsýslukostnaðar og starfsmannakostnaðar og skuli greitt fyrir fram í upphafi hvers mánaðar. Umsýsluaðili og notandi ráðstafi fjárframlaginu í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, einstaklingssamnings um NPA, samstarfssamnings og leiðbeininga og reglna sem lúti að framkvæmd þjónustunnar. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar er notanda eða umsýsluaðila ekki heimilt að ráðstafa framlagi á annan hátt en tilgreint sé í einstaklingssamningi um NPA og reglum sem um hann gildi, þar með talið að breyta hlutföllum af heildarframlagi samkvæmt samningi, þ.e. framlagi til launakostnaðar, starfsmannakostnaðar og umsýslu, án samráðs og samþykkis viðkomandi sveitarfélags. Samkvæmt 16. gr. er framlagi til launakostnaðar ætlað að standa undir launum og launatengdum gjöldum aðstoðarfólks og framlagið skal taka mið af kjörum aðstoðarfólks samkvæmt gildandi kjarasamningum hverju sinni. Framlagi til launakostnaðar skal haldið aðgreindu frá framlagi til starfsmannakostnaðar og framlagi til umsýslu.

Í Handbók félagsmálaráðuneytisins um NPA frá apríl 2019 segir um framlag til launakostnaðar að miðað sé við að framlagið nemi 85% af heildarupphæð framlags til NPA. Ganga skuli úr skugga um að framlagið nægi til að standa straum af launakostnaði og launatengdum gjöldum aðstoðarfólks hverju sinni með hliðsjón af ákvæðum kjarasamninga, eðli samnings o.fl. Einnig skuli gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta tilfallandi veikindum og þjálfun nýrra starfsmanna. Þá segir að notanda eða umsýsluaðila sé ekki heimilt að ráðstafa framlagi til launakostnaðar með öðrum hætti en í formi launagreiðslna til aðstoðarfólks.

Hafnarfjarðarbær hefur sett reglur um NPA á grundvelli laga nr. 38/2018 og reglugerðar nr. 1250/2018. Í núgildandi reglum nr. 705/2020 er í 10. gr. fjallað um fjárhæðir og meðferð fjármagns. Þar segir í 1. mgr. 10. gr. að framlagið taki mið af kjörum aðstoðarfólks samkvæmt gildandi kjarasamningum hverju sinni og að fjárhæðir séu greiddar fyrir hverja vinnustund. Fyrir samninga sem feli í sér 600 klukkustundir eða fleiri á mánuði sé greitt samkvæmt dag-, kvöld- og helgartaxta en samkvæmt jafnaðartaxta fyrir samninga sem feli í sér 599 klukkustundir eða færri á mánuði. Í eldri reglum sveitarfélagsins frá árinu 2012 voru greiðslur fyrir hverja vinnustund samkvæmt jafnaðartaxta. Í 9. mgr. 10. gr. reglna nr. 705/2020 er vísað til þess að fjölskyldu- og barnamálasvið Hafnarfjarðar beri ekki ábyrgð á rekstrarniðurstöðu eða fjárhagslegu tapi umsýsluaðila/notanda.

Af framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum er ljóst að á kæranda, sem umsýsluaðili NPA samnings, hvílir vinnuveitendaábyrgð gagnvart starfsfólki sínu, þar með talið að laun starfsfólksins séu í samræmi við gildandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þá er ljóst að Hafnarfjarðarbær ber ábyrgð á kostnaði vegna NPA þjónustu samkvæmt lögum nr. 38/2018 og ber að hafa eftirlit með að kærandi uppfylli skyldur sínar sem umsýsluaðili. Í máli þessu virðist ágreiningslaust að framlag Hafnarfjarðarbæjar til launakostnaðar vegna NPA samnings kæranda stendur ekki undir raunverulegum kostnaði þar sem hún greiðir starfsfólki sínu laun samkvæmt kjarasamningi NPA aðstoðarfólks. Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hefur komið fram að sveitarfélaginu sé ekki skylt að miða greiðslur vegna NPA samninga við einn ákveðinn kjarasamning sem sveitarfélagið hafi ekki á neinn hátt komið að og telji eðlilegt að miða greiðslur við almenna kjaraþróun í landinu sem endurspeglist í launavísitölu.

Ákvæði 16. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 er skýrt hvað varðar skyldu Hafnarfjarðarbæjar að sjá til þess að framlag til launakostnaðar vegna NPA samnings kæranda standi undir launum og launatengdum gjöldum aðstoðarfólks samkvæmt gildandi kjarasamningum hverju sinni. Verður að telja að framlagið þurfi einnig að gera ráð fyrir svigrúmi til að mæta tilfallandi veikindum starfsmanna, enda á starfsfólk almennt rétt til greiðslu launa í forföllum vegna veikinda. Að mati úrskurðarnefndar verður ekki séð að Hafnarfjarðarbær hafi gætt að þeirri skyldu sinni við setningu framangreindra reglna um NPA. Úrskurðarnefndin telur að ákvæði 10. gr. reglnanna, um fjárhæðir fyrir hverja vinnustund, leiði til þess að kæranda sé gert ókleift að uppfylla lögbundnar skyldur sínar sem umsýsluaðili samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2018. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 24. júlí 2020, um að synja kröfu A, um viðbótargreiðslu vegna samnings um notendastýrða persónulega aðstoð er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum