Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 124/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. mars 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 124/2022

í stjórnsýslumálum nr. KNU22020025 og KNU22020026

 

Beiðni […] og […] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 31. ágúst 2017 sóttu kærendur;  […], fd. […], ríkisborgari Bosníu og Hersegóvínu (hér eftir K), og […], fd. […], ríkisborgari Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu (hér eftir M) um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Mál kærenda hafa verið til umfjöllunar hjá kærunefnd útlendingamála í fjögur skipti. Hinn 9. nóvember 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. júní 2018, um að synja kærendum um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Samkvæmt gögnum málsins fóru kærendur sjálfviljug aftur til heimaríkis hinn 9. nóvember 2018.

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér í annað sinn hinn 19. október 2020. Hinn 21. apríl 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. febrúar 2021, um að synja kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hinn 30. apríl 2021 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 230/2021, dags. 18. maí 2021, var beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað. Kærendur lögðu fram beiðni um endurupptöku ásamt fylgigögnum hinn 15. nóvember 2021. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kærendum hinn 23. nóvember 2021. Hinn 9. desember 2021 hafnaði kærunefnd þeirri beiðni með úrskurði nr. 613/2021. Hinn 21. febrúar 2022 barst kærunefnd beiðni um endurupptöku í annað sinn ásamt fylgigögnum.

Beiðni kærenda um endurupptöku á málum þeirra er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kærenda

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á því að ákvarðanir í málum þeirra hafi verið byggðar á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurðir kærunefndar voru kveðnir upp. 

Kærendur telja að hætta á því að stríðsátök brjótist út í Bosníu og Hersegóvínu á ný hafi færst í aukana frá því að kærunefnd hafi kveðið upp framangreinda úrskurði í málum þeirra. Einn þriggja forseta Bosníu og Hersegóvínu, Milorad Dodik, hafi hótað að aðskilja serbneska hluta landsins frá þeim bosníska. Aðgerðir Dodiks jafngildi aðskilnaði og brjóti í bága við Dayton-friðarsamkomulagið frá 1995 sem hafi skipt landinu í tvær einingar. Þá hafi lagabreytingar verið samþykktar sem geri Bosníu-Serbum kleift að stofna sínar eigin stofnanir og her fyrir næstkomandi maí. Um sé að ræða stærstu stjórnmála- og öryggiskreppu landsins síðan á tíunda áratugnum.

Kærendur telja, í ljósi framangreinds, nauðsynlegt að kanna betur aðstæður í Bosníu og Hersegóvínu, enda sé full ástæða til að draga í efa þá niðurstöðu kærunefndar að Bosnía og Hersegóvínu sé öruggt upprunaríki. Í því sambandi er m.a. vísað til fréttagreina Guardian og Vísis, dags. 2. nóvember 2021, þar sem fram kemur að Christian Scmidt, æðsti sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Bosníu og Hersegóvínu (e. high representative for Bosnia and Herzegovina), hafi varað við því að stríðsátök kunni að brjótast út á ný í landinu. Vísa kærendur til fréttagreina Al Jazeera, dags. 10. janúar 2022, og NPR, dags. 22. janúar 2022, um mótmæli í Bosníu og Hersegóvínu og aukna þjóðlega spennu í landinu máli sínu til stuðnings.

Þá telja kærendur að einstaklingsbundnar aðstæður M séu verulega breyttar. Í því sambandi vísa kærendur til framlagðra heilbrigðisgagna, dags. 29. nóvember 2021 til 9. febrúar 2022. Komi þar m.a. fram að M hafi sýnt geðrofseinkenni, alvarleg áfallastreituröskunareinkenni og ýmis líkamleg einkenni. Þá hafi hann glímt við sjálfsvígshugsanir. M sé í brýnni þörf fyrir áfallamiðaða sálfræðimeðferð. Hann hafi sótt tíma hjá geðlækni og til standi að hann sæki sálfræðiviðtöl á næstunni. Kærendur telja óforsvaranlegt að rjúfa þá meðferð þar sem slíkt gæti haft óafturkræfar afleiðingar fyrir M.  

Í ljósi alls framangreinds telja kærendur að það séu skýr og haldgóð rök fyrir því að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beitt í máli þeirra. Aðstæður í heimaríki þeirra séu verulega breyttar í skilningi ákvæðisins. Þá feli framlögð gögn í sér ný atriði sem hafi ekki legið fyrir þegar ákvörðun var tekin á fyrri stigum. Kærunefnd beri því að endurupptaka málið og kanna umrædd gögn til hlítar. Í því sambandi vísa kærendur til þess að kærunefnd hafi endurupptekið mál við minna tilefni, en nefndinni beri að gæta jafnræðis.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurðum kærunefndar í málum kærenda, dags. 21. apríl 2021 var komist að þeirri niðurstöðu að kærendur uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda í heimaríkjum þeirra, Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu, væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá var endurupptökubeiðni kærenda hafnað með úrskurði kærunefndar, dags. 9. desember 2021.

Af málatilbúnaði kærenda verður ekki annað ráðið en að þau sé ósammála niðurstöðu kærunefndar í kærumáli þeirra. Kærunefnd vekur athygli kærenda á því að það úrræði sem 24. gr. stjórnsýslulaga býður upp á varðar heimild stjórnvalds til að kanna hvort atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin eða hvort ákvörðun hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik og hvort þessir þættir leiði til þess að rétt sé að taka aðra ákvörðun. Líkt og að framan greinir komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu í úrskurði nefndarinnar nr. 613/2021 að gögn málsins hafi ekki bent til þess að aðstæður kærenda eða aðstæður í heimaríkjum þeirra, t.a.m. hvað varðar aðgang að heilbrigðisþjónustu, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málum þeirra hinn 21. apríl.

Málsástæður sem kærendur byggja á nú í beiðni sinni um endurupptöku eru samhljóða fyrri beiðni þeirra um endurupptöku, dags. 15. nóvember 2021. Þá hafði kærunefnd þegar borist mörg framlagðra gagna. Kærunefnd tók afstöðu til þeirra málsástæðna og gagna í úrskurði sínum frá 9. desember 2021 og hefur ekkert komið fram í endurupptökubeiðni kærenda sem raskar mati nefndarinnar.

Kærunefnd telur að þau nýju gögn sem kærendur hafa lagt fram með beiðni sinni nú leggi ekki frekari grunn að málsástæðum kærenda eða gefi til kynna að þær upplýsingar sem nefndin byggði á þegar hún kvað upp úrskurð sinn þann 21. apríl 2021 hafi verið ófullnægjandi eða rangar. Þá telur kærunefnd að gögn málsins bendi ekki til þess að aðstæður kærenda eða aðstæður í heimaríkjum kærenda hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málum þeirra á þann hátt að nefndin telji að það geti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. 

Samantekt

Að framangreindu virtu er það því mat kærunefndar að atvik í málum kærenda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál þeirra upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kærenda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kærenda um endurupptöku málsins.

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellants to re-examine the cases is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum