Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 657/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 657/2021

Mánudaginn 21. mars 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 8. desember 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 23. nóvember 2021 vegna umgengni hans við dóttur sína, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul og er nú í tímabundnu fóstri hjá fósturforeldrum sínum. Móðir stúlkunnar var að kröfu Barnaverndarnefndar B svipt forsjá dóttur sinnar með dómi Héraðsdóms B þann 25. nóvember 2020 sem Landsréttur staðfesti með dómi þann 30. apríl 2021. Kærandi er kynfaðir stúlkunnar og var hann sviptur forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms B þann 15. september 2021 sem Landsréttur staðfesti með dómi 4. febrúar 2022. Kærandi hefur áfrýjað niðurstöðu Landsréttar til Hæstaréttar Íslands en ekki liggur fyrir hvort áfrýjunarleyfi verði gefið út.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 23. nóvember 2021. Fyrir þeim fundi lá fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 11. nóvember 2021. Úrskurður var kveðinn upp í málinu þann 23. nóvember 2021. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að A, hafi umgengni við D, tvisvar sinnum í mánuði í þrjár klukkustundir í senn á meðan forsjársviptingarmál er rekið fyrir dómstólum. Umgengni verði í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar B eða öðrum þeim stað sem aðilar koma sér saman um. Eftirlitsaðili á vegum Barnaverndar B ásamt fósturforeldrum, annar eða báðir verði á staðnum.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. desember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 8. desember 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Viðbótargögn bárust frá lögmanni kæranda þann 9. desember 2021 og voru þau send samdægurs til Barnaverndarnefndar B. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 30. desember 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2022, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurður Barnaverndarnefndar B verði felldur úr gildi og málinu verði vísað aftur til nýrrar meðferðar hjá barnaverndarnefnd.

Fram kemur í kæru að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi áður haft mál stúlkunnar til meðferðar, en með úrskurðum nefndarinnar frá 12. febrúar 2021 í máli nr. 528/2020 og frá 13. september 2021 í máli nr. 178/2021 voru úrskurðir Barnaverndarnefndar B frá 13. október 2020 og frá 25. mars 2021 felldir úr gildi.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi verið sviptur forsjá dóttur sinnar með dómi Héraðsdóms B í máli nr. X sem kveðinn hafi verið upp þann 15. september 2021. Kærandi hafi áfrýjað málinu til Landsréttar og sé vongóður um að Landsréttur dæmi honum í vil, enda telji hann héraðsdóm hafa litið fram hjá ýmsum aðalatriðum málsins. Í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms hafi fyrirkomulagi umgengni verið breytt á þann veg sem hinn kærði úrskurður kveður á um og hafði því verið með þessum hætti í dágóðan tíma áður en málið fór fyrir barnaverndarnefnd en síðasta umgengni með eldra fyrirkomulagi, þ.e. á heimili kæranda, fór fram 25. september 2021.

Þá hafi móðir kæranda fengið leyfi til að gerast fósturforeldri en hún sótti um slíkt til þess að hún gæti tekið við forsjá barnsins ef svo færi að kærandi yrði sviptur henni. Barnavernd B hafi á hinn bóginn hafnað ósk móður kæranda um að taka við forsjá barnsins og hefur þeirri ákvörðun verið vísað til úrskurðarnefndarinnar og er nú til meðferðar hjá nefndinni. Bæði kærandi og móðir hans hafa óskað eftir rýmri umgengni við stúlkuna en ekki hefur verið orðið við óskum þeirra. Raunar hefur móðir kæranda aldrei notið sjálfstæðrar umgengni heldur verið sett í einhvers konar hlutverk stuðningsaðila við kæranda og látið við sitja að hún njóti umgengni á sama tíma. Þó hefur henni aldrei verið tjáð að hún sé hugsuð sem stuðningsúrræði og úrskurðarnefndin hefur gert athugasemdir við að barnavernd hafi ekki tekið sjálfstæða afstöðu til umgengni barnsins við ömmu sína, sbr. úrskurð nefndarinnar frá 13. september 2021 í máli nr. 273/2021.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur sem fyrr segir tvisvar sinnum fellt úr gildi úrskurði barnaverndarnefndar um umgengni kæranda við dóttur sína. Í fyrra skiptið, sbr. mál nr. 528/2020, hafði barnaverndarnefnd úrskurðað um að umgengni skyldi vera einu sinni í mánuði í þrjá tíma í senn og að umgengni færi fram á heimili föður og föðurömmu eða öðrum fyrir fram ákveðnum stað sem aðilar kæmu sér saman um. Úrskurðarnefnd féllst á sjónarmið kæranda í því máli um að varakrafa hans um umgengni við stúlkuna tvisvar í mánuði í þrjár klukkustundir í senn væri hófleg og ekki til þess fallin að raska markmiðum tímabundins fósturs eða hagsmunum barnsins og felldi úrskurð barnaverndarnefndar úr gildi.

Í kjölfarið mætti kærandi fyrir fund barnaverndarnefndar þann 16. mars 2021 ásamt lögmanni þar sem málið var tekið fyrir að nýju. Þar fór kærandi fram á að umgengni yrði aukin verulega með vísan til breyttra aðstæðna sem hann taldi vera fyrir hendi. Kærandi fór aðallega fram á að umgengni færi fram allar helgar og að barnið myndi gista að minnsta kosti eina nótt til að byrja með. Til vara fór kærandi fram á að umgengni færi fram aðra hvora helgi og að barnið myndi gista að minnsta kosti eina nótt. Ef svo færi að barnaverndarnefnd teldi ekki rétt að barnið myndi gista fyrst um sinn, fór kærandi fram á það til þrautavara að umgengni yrði einu sinni í viku í sex klukkustundir í senn. Til þrautaþrautavara fór kærandi fram á að umgengni yrði aukin umfram það sem kveðið er á um í dag og umfram það sem stungið var upp á í tillögu barnaverndar. Var í þeim efnum vísað til þess að rétt væri að umgengni yrði að minnsta kosti tvisvar í mánuði líkt og úrskurðarnefnd velferðarmála taldi hóflegt samkvæmt úrskurði sínum í máli nr. 528/2020.

Barnaverndarnefnd virti bæði úrskurð úrskurðarnefndarinnar og kröfur kæranda að vettugi og kvað upp úrskurð þann 25. mars 2021 þar sem umgengni var aukin um eina klukkustund til viðbótar við mánaðarlega umgengni. Naut því kærandi áfram umgengni einu sinni í mánuði en í stað þriggja klukkustunda voru þær nú orðnar fjórar. Kærandi kærði úrskurð barnaverndarnefndar frá 25. mars 2021 til úrskurðarnefndarinnar og í annað sinn var úrskurður barnaverndarnefndar felldur úr gildi. Taldi úrskurðarnefndin sem fyrr að það væru hagsmunir stúlkunnar að eiga umgengni við kæranda tvisvar í mánuði þrjár klukkustundir í senn. Lagt var fyrir barnaverndarnefnd að úrskurða að nýju um umgengni með vísan til mats úrskurðarnefndarinnar á gögnum málsins.

Þann 16. nóvember 2021 mætti kærandi í enn eitt skiptið á fund barnaverndarnefndar ásamt lögmanni vegna ágreinings um umgengni. Þar gerði formaður nefndarinnar grein fyrir tillögum starfsmanna um að umgengni yrði tvisvar sinnum í mánuði í þrjár klukkustundir í senn á meðan mál kæranda væri rekið fyrir dómstólum og færi fram í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar undir eftirliti starfsmanns barnaverndar og fósturforeldra. Kærandi hafnaði tillögum barnaverndarnefndar, kvaðst vilja rýmri umgengni og gerði grein fyrir því að engin rök stæðu til þess að skyndilega færi umgengni fram undir eftirliti og að fósturforeldrar yrðu viðstaddir.

Þann 23. nóvember kvað Barnaverndarnefnd B upp hinn kærða úrskurð þar sem fallist var á tillögu starfsmanna barnaverndar um umgengni tvisvar sinnum í mánuði í þrjár klukkustundir í senn sem færi fram í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar, undir eftirliti starfsmanns barnaverndar, auk þess sem fósturforeldrar væru viðstaddir. Þá hafi móðir kæranda loksins fengið umfjöllun um sjálfstæða umgengni en starfsmenn barnaverndar hafi stungið upp á umgengni einu sinni í mánuði í eina klukkustund í senn sem færi fram með sömu skilyrðum og umgengni kæranda.

Þótt kærandi fagni því að barnavernd og barnaverndarnefnd fallist loksins á sínar kröfur um rýmri umgengni og mat úrskurðarnefndarinnar í þeim efnum, sjái hann ekki nauðsyn þess að kveða á um að umgengni fari fram í húsnæði á vegum barnaverndaryfirvalda og undir eftirliti starfsmanna og fósturforeldra. Hann sé því nauðbeygður til að kæra úrskurð barnaverndarnefndar í þriðja sinn.

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að barnaverndarnefnd verði gert að taka málið til meðferðar að nýju. Kærandi byggir á því að það fyrirkomulag sem kveðið er á um í hinum kærða úrskurði gangi mun lengra en þörf sé á í þeirri viðleitni að tryggja öryggi og stöðugleika. Þótt kærandi vilji njóta rýmri umgengni við dóttur sína snúi kæra þessi einkum að ákvörðun um að umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar B og að eftirlitsaðili á vegum nefndarinnar ásamt fósturforeldrum verði á staðnum.

Umgengni hafi alla tíð verið takmörkuð undir rekstri málsins, þvert gegn mati þeirra sérfræðinga sem að málinu hafi komið en að mati þeirra skuli leitast eftir því að tryggja rúma umgengni jafnvel þó svo fari að kærandi verði sviptur forsjá. Úrskurðarnefndin hafi tvívegis tekið að miklu leyti undir sjónarmið kæranda í málinu og beint því til barnaverndarnefndar að umgengni tvisvar sinnum í mánuði í þrjár klukkustundir sé hófleg í ljósi mats sérfræðinga. Ljóst sé að með hinum kærða úrskurði hafi barnaverndarnefnd loks fallist á mat úrskurðarnefndarinnar varðandi tíma og lengd umgengni en starfsmenn barnaverndar og barnaverndarnefnd virðast á hinn bóginn hafa séð sig knúna til að breyta umgengninni með einhverjum hætti og skyndilega sé kveðið á um að umgengni skuli fara fram í húsnæði á þeirra vegum undir eftirliti starfsmanna og að viðstöddum fósturforeldrum.

Umgengni hafi til þessa aldrei farið fram undir eftirliti en ástæðan fyrir því sé einfaldlega sú að stúlkan sé ekki í neinni hættu hjá kæranda eða móður hans. Enda hafi aldrei verið áhyggjur af öryggi stúlkunnar í umsjá þeirra til þessa. Nær allar frásagnir af vanlíðan stúlkunnar komi frá fósturforeldrum en upplifun bæði kæranda og móður hans séu ekki á þennan veg þótt lítið mark sé tekið á þeirra upplifun. Stúlkan virðist almennt vera glöð að hitta þau bæði og umgengni gengur almennt vel, bæði fyrir breytingu og eftir hana, sbr. skýrslur eftirlitsaðila. Frásagnir fósturforeldra virðast hreinlega hafa úrslitaþýðingu um fyrirkomulag umgengninnar sem kæranda þykir varhugavert. Það liggi fyrir að af hálfu barnaverndar sé stefnt að því að stúlkan verði vistuð hjá þeim til frambúðar. Beiðni móður kæranda um að taka við umsjá barnsins hafi verið hafnað, án haldbærs rökstuðnings, og það virðist aðeins koma til greina að núverandi fósturforeldrar taki við forsjá stúlkunnar. Fósturforeldrarnir hafi jafnframt ekki farið leynt með það að þeir vilji taka við forsjá stúlkunnar og hafa því hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins.

Fósturforeldrar hafa meðal annars reynt að hafa áhrif á kæranda með því að boða hann á sinn fund eftir að hann áfrýjaði dómi héraðsdóms og þar sem þeir tjáðu honum að þeir gætu ekki verið með stúlkuna áfram ef málið héldi áfram heldur yrði hún að fara eitthvert annað. Fósturforeldrar hafi síðan neitað þessu og meðal annars skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að þeir vilji vera áfram með stúlkuna. Mál þetta snýst ekki um fósturforeldrana, þeirra skoðanir eða vilja, heldur dóttur kæranda og hennar hagsmuni. Sem fyrr segir hafa allir sérfræðingar sem að málinu hafa komið mælt með rúmri umgengni, jafnvel þótt svo fari á endanum að kærandi verði sviptur forsjá. Við aðalmeðferð í héraði gaf annar fósturforeldra skýrslu þar sem meðal annars kom fram að þeir væru ekki reiðubúnir til að auka umgengni og að þeir væru ekki til í að vera áfram í lífi stúlkunnar í einhverju öðru formi ef svo færi að kærandi færi áfram með forsjána.

Það sé óhjákvæmilegt að horfa á frásagnir fósturforeldra af líðan stúlkunnar til hliðsjónar við þeirra stöðu í málinu, auk þess sem það má ekki veita þeim meira vægi en sérfræðigögnum sem liggja fyrir. Fátt annað en framburður þeirra liggur fyrir um að stúlkan sé erfið eftir umgengni. Eitt bréf frá leikskóla, dags. 30. september 2021, segir frá því að stúlkan hafi sýnt neikvæða hegðun sem hún hafi ekki sýnt áður. Á þessum tíma hafði umgengni verið um nokkurn tíma heima hjá kæranda og móður hans en samt virðist bréfið greina frá því að um sé að ræða hegðun sem stúlkan hafi ekki sýnt áður, eða með öðrum orðum einangrað tilvik en ekki hegðunarmynstur sem stúlkan sýni jafnan eftir umgengni. Þar fyrir utan gæti þessi hegðun sem fósturforeldrar greina frá allt eins verið sökum þess að sífellt er verið taka stúlkuna frá föður sínum og ömmu en öll gögn sýna að hún á bæði sterk og góð tengsl við þau. Þá sé jafnframt vakin athygli á því að í úrskurði úrskurðarnefndar í máli nr. 178/2021 hafi verið tekið tillit til þessarar meintu hegðunar við úrslausn málsins og því ekki um nýtt atriði að ræða sem barnaverndarnefnd getur beitt fyrir sig til að takmarka umgengnina með einum eða öðrum hætti.

Kærandi byggir á því að ekkert sé fram komið sem bendi til þess að barnið sé ekki öruggt á heimili kæranda eða að hagsmunum barnsins sé með einhverju móti raskað með því að umgengni fari þar fram. Þvert á móti ítreki kærandi að stúlkan virðist spennt og glöð að hitta bæði hann og móður hans og að umgengnin hafi almennt gengið vel alla tíð. Kærandi bendir einnig á að þegar umgengni fór fram á heimili kæranda og móður hans hafi aldrei komið til álita að færa hana eða að hún færi fram undir eftirliti. Á þeim tíma voru fósturforeldrar engu að síður að lýsa vanlíðan hjá stúlkunni í kjölfar umgengni en það hafði ekki þau áhrif að umgengnin skyldi færast yfir í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar undir eftirliti. Þótt héraðsdómur hafi nú kveðið upp dóm þess efnis að kærandi skuli sviptur forsjá, sé ljóst að málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar. Þá ber einnig að hafa í huga hversu sérstaks eðlis þetta mál er, enda ekki algengt að sérfróðir aðilar mæli eindregið með rúmri umgengni, óháð því hver niðurstaða málsins verði.

Kæranda þykir barnavernd draga ýmsar rangar ályktanir af gögnum málsins og að öll gögn séu túlkuð honum í óhag. Þannig þykir kæranda varhugavert að draga þá ályktun að allur aukinn þroski stúlkunnar sé tilkominn vegna fósturforeldra líkt og barnavernd virðist jafnan gera í þessu máli. Það þarf að hafa í huga að stúlkan er á aldri þar sem þroski eykst verulega, enda séu börn að læra að ganga, tala og eiga samskipti við annað fólk á þessum aldri. Stúlkan hafi til að mynda nánast verið farin að ganga áður en hún var tekin af heimili kæranda og styrktist eðli málsins samkvæmt áfram í þeim efnum. Í skýrslum barnaverndar sé á hinn bóginn látið sem svo að stúlkan hafi skyndilega byrjað að ganga eftir að hún var tekin af heimilinu og að það sé bein orsök þess að hún var tekin þaðan. Þetta sé ómálefnaleg ályktun. Þá á sér jafnan stað mikið þroskastökk við það eitt að byrja í leikskóla og þótt fósturforeldrar barnsins standi sig eflaust vel sé ekki unnt að skrifa allt jákvætt í fari barnsins á þeirra aðkomu. Kærandi telji fullvíst að stúlkan hefði tekið framförum þó að hún hefði verið áfram á heimili hans og móður hans, ekki síst í ljósi þess að matsgerðir um forsjárhæfni hans blása á vangaveltur eins starfsmanns barnaverndar um tengslaröskun. Jafnframt sé rétt að benda á að fósturforeldrar séu ekki sérfróðir aðilar og beri þar af leiðandi ekki að taka vangaveltur þeirra um hitt og þetta sem heilögum sannleik. Hvað þá að veita þeim meira vægi en mati sérfróðra aðila.

Barnaverndarnefnd virðist telja að best sé að tryggja stöðugleika í lífi barnsins með því að vista það hjá fósturforeldrum og lágmarka umgengni við kæranda og ömmu barnsins. Nú þegar barnaverndarnefnd hafi fengið úrskurði sína fellda úr gildi tvisvar sinnum í máli þessu þá telja starfsmenn barnaverndar ekki hægt að fara fram hjá vilja úrskurðarnefndar en beita þess í stað mjög íþyngjandi aðgerðum um hvar umgengnin skuli fara fram og hverjir skuli vera viðstaddir. Um sé að ræða úrræði sem beitt sé þegar börnum stafar hætta af foreldrum sínum en sú er ekki raunin í tilviki kæranda.

Faðir barnsins og amma þess séu í raun einu föstu punktarnir í tilveru barnsins. Það sé ekki þeim að kenna að barnið hafi búið á fjölmörgum heimilum þessi fyrstu ár ævinnar. Þetta sé tilkomið vegna aðgerða barnaverndar. Stúlkan hafi dvalið með kæranda á E, vistheimili barna, og síðan verið send þaðan ein með kæranda á heimili móðurömmu þegar hún var erlendis í langan tíma og gat þar af leiðandi ekki verið kæranda innan handar. Þetta hafi verið gert, þrátt fyrir að niðurstöður forsjárhæfnimats hafi verið þær að kærandi væri ekki reiðubúinn til að fara einn heim með stúlkuna. Þegar stúlkan hafi síðan verið tekin af heimili kæranda var hún vistuð á vistheimili áður en hún fór til fósturforeldra. Á þessum tíma hafi verið um tímabundið fóstur að ræða á meðan nýtt forsjárhæfnimat væri unnið og bauðst móðuramma til að taka barnið þennan tíma og lagði til að kærandi flytti út á meðan, en sem fyrr segir var sá möguleiki aldrei skoðaður. Núna sé lögð gífurleg áhersla á stöðugleika og honum á að ná fram á kostnað tengsla stúlkunnar við kæranda og ömmu sína.

Það sé alveg ljóst að tíminn vinni ekki með kæranda eða móður hans og tengslum þeirra við stúlkuna. Eftir því sem tíminn líður verður málsástæða barnaverndar sterkari um að stúlkan hafi tengst fósturforeldrum sínum og tryggja þurfi stöðugleika hennar í þeirra umsjá. Í þessu máli virðist ákvörðun hafa verið tekin snemma, allt of snemma að mati kæranda og móður hans, um að koma stúlkunni í varanlegt fóstur hjá fósturforeldrum. Ekki kom til greina að vista stúlkuna tímabundið hjá ömmu sinni og ekki kemur til greina að amma barnsins taki við forsjá þess, þrátt fyrir að hafa fengið góða umsögn frá Barnavernd G og fengið útgefið leyfi til að taka barn í fóstur. Ekki nóg með að hafa talað fyrir daufum eyrum hvað þetta varðar heldur hefur amma barnsins aldrei fengið sjálfstæða umgengni heldur verið sett í stuðningshlutverk fyrir kæranda, án þess að hafa verið látin vita af því eða gerð grein fyrir til hvers væri ætlast af henni. Kærandi hefur aldrei fengið þann stuðning sem hann á rétt til samkvæmt lögum vegna fötlunar sinnar en það virðist sem svo að móðir hans hafi meðal annars átt að uppfylla stuðningsþörf hans. Vinnubrögð barnaverndar í málinu hafa, að mati kæranda og fleiri, verið ámælisverð svo ekki sé fastar að orði kveðið og virðast engan endi ætla að taka.

Kærandi telur að barnaverndarnefnd fari áfram með hinum kærða úrskurði gegn ráðum sérfræðinga sem hafa lagt til að æskilegt sé að tryggja ríka umgengni kæranda við barnið, sama hvernig málið fer. Engar breytingar hafa orðið á högum kæranda og málið sé enn rekið fyrir dómstólum. Kærandi sé eðli málsins samkvæmt vongóður um að Landsréttur dæmi honum í vil og það sé löngu kominn tími til að meðalhófs sé gætt í máli þessu. Með þessu fyrirkomulagi séu stúlkan og kærandi sett í verulega þvingandi aðstæður þegar umgengni fer fram. Þau þurfa að mæta í ókunnugt umhverfi og það sé sífellt verið fylgjast með öllu sem þau gera. Þessar aðstæður draga athygli stúlkunnar frá kæranda og hafa einnig talsverð áhrif á kæranda, enda þykir honum þetta vera óþægilegar aðstæður. Kærandi sé haldinn ýmsum greiningum og það sé ekkert gert til að koma til móts við hann til þess að honum líði vel í umgengni og geti veitt dóttur sinni fulla athygli.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem eru barninu nákomnir, sbr. 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Er sá réttur í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hefur fullgilt. Kærandi byggir jafnframt á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins, samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. Kærandi bendir á að réttur barns til að njóta umgengni við kynforeldra sína sé sérstaklega ríkur, enda komi fram í greinargerð með frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum að „ef neita á um umgengnisrétt með öllu eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins“. Kærandi telur að ekkert sé fram komið sem sýni að umgengni á heimili hans og móður hans sé bersýnilega andstæð hagsmunum barnsins. Þá telur kærandi að markmið fósturs standi ekki í vegi fyrir kröfum hans þar sem kröfur hans séu mjög hóflegar. Kærandi fellst á þann tíma sem hann fær í umgengni á hverjum mánuði en gerir einfaldlega þá kröfu að hún verði ekki færð af heimili hans og í allt annað umhverfi þar sem tengsl hans við barnið geta með engu móti myndast á jafn góðan hátt. Hér verði að hafa í huga mat sérfróðra aðila um að rúm umgengni sé bæði stúlkunni og kæranda til hagsbóta. Að sama skapi sé mikilvægt að raska ekki tengslum barnsins við ömmu sína, ekki síst ef til þess kemur að hún taki við forsjá barnsins líkt og vilji hennar stendur til. Kröfur kæranda byggja því einnig á þeirri meginreglu barnaverndarlaga að hagsmunir barnsins skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi, sbr. 1., 3. og 4. mgr. 4. gr. laganna.

Kærandi telur með vísan til alls framangreinds að ekkert sé því til fyrirstöðu að umgengni hans við dóttur sína fari áfram fram á heimili hans og móður hans. Um sé að ræða hóflega kröfu, enda hafi umgengnin ávallt farið fram á þann veg og almennt gengið vel. Þó að stefnt sé að varanlegu fóstri af hálfu barnaverndar þá verður að gera ráð fyrir þeim möguleika að barnið snúi aftur í umsjá kæranda eða að amma barnsins taki við forsjá þess. Ekkert í málinu bendir til þess að umgengni kæranda við barnið raski hagsmunum þess, hvorki öryggi þess eða stöðugleika. Enn síður bendir nokkuð til þess að barnið geti borið skaða af umgengni við kæranda.

Kærandi vísar enn fremur til og byggir að breyttu breytanda á öllum sömu málsástæðum og byggt hefur verið á í fyrri kærum sínum í málinu, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar málum nr. 528/2020 og 178/2021. Með vísan til framangreinds ítrekar kærandi kröfu sína.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að um sé að ræða [þriggja] ára stúlku sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B en faðir hennar var sviptur forsjá með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 15. september 2021. Faðir hafi áfrýjað dómnum til Landsréttar. Þannig sé ekki stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá föður. Móðir stúlkunnar hafi að kröfu Barnaverndarnefndar B verið svipt forsjá dóttur sinnar með dómi Héraðsdóms B þann 25. nóvember 2020 og staðfesti Landsréttur niðurstöðuna þann 30. apríl 2021.

Afskipti á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafa verið í máli stúlkunnar frá fæðingu hennar. Stúlkan var í umsjá beggja foreldra sinna þar til hún var þriggja mánaða, en þá flutti móðir hennar með hana á heimili móðurömmu. Faðir átti reglulega umgengni við stúlkuna eftir að foreldrar skildu og fór umgengni fram á heimili föðurömmu. Þegar stúlkan var sex mánaða var hún vistuð á E, vistheimili barna, með samþykki foreldra. Stúlkan dvaldi á E þar til í lok janúar 2020 og flutti þá til föður á heimilis hans og föðurömmu. Þar sem faðir var talinn þurfa áframhaldandi stuðning hafi honum verið veittur sá stuðningur heim til sín, meðal annars hafi verið eftirfylgni frá E þar sem farið var inn á heimili föður fjórum sinnum í viku og starfsmenn F hafi komið til hans tvisvar í viku. Stúlkan hafi farið úr umsjá föður þann 13. júlí 2020 vegna alvarlegrar vanrækslu á grundvelli úrskurðar Barnaverndarnefndar B sem kveðinn var upp 6. júlí 2020. Eftir að stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis átti faðir reglulega umgengni við hana og hafi sú umgengni verið samhliða umgengni föðurömmu stúlkunnar. Þann 25. mars 2021 hafi verið úrskurðað að faðir ætti umgengni við stúlkuna einu sinni í mánuði í fjórar klukkustundir í senn á meðan forsjársviptingarmál á hendur honum væri rekið fyrir dómstólum. Sú umgengni hafi farið fram á heimili föður og föðurömmu. Faðir kærði úrskurðinn til úrskurðarnefndar velferðarmála. Úrskurðarnefnd velferðarmála felldi úrskurðinn úr gildi þann 16. september 2021, sbr. mál nr. 178/2021, og vísaði málinu til nýrrar meðferðar hjá Barnaverndarnefnd B. Í niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála hafi komið fram að úrskurðarnefnd taldi það vera hagsmuni stúlkunnar að hún ætti umgengni við föður sinn tvisvar sinnum í mánuði, í þrjár klukkustundir í senn, á meðan forsjársviptingarmálið væri rekið fyrir dómstólum. Faðir átti síðast umgengni, samkvæmt úrskurði nefndarinnar frá 25. mars 2021, þann 25. september 2021, það er að segja á heimili föður og föðurömmu í fjórar klukkustundir. Líðan stúlkunnar eftir þá umgengni hafi verið slæm, að sögn fósturforeldra. Fram hafi komið hjá fósturforeldrum að stúlkan hefði grátið og sífellt verið að fullvissa sig um að fósturforeldrar væru ekki að fara, hún hafi verið í mikilli þörf fyrir nánd og helst viljað sitja í fanginu á þeim. Stúlkan hafi grátið í svefni nærri alla nóttina eftir umgengni og hafi dagurinn á eftir einnig verið henni mjög erfiður. Fram hafi komið í bréfi frá leikskóla stúlkunnar, dags. 30. september 2021, að stúlkan hafi verið mjög ólík sjálfri sér eftir umgengni. Það hafi verið erfitt fyrir hana að koma í leikskólann og hún hafi sýnt neikvæða hegðun, slegið kennara og verið að meiða önnur börn. Stúlkan hafi verið mjög vælin og skemmt leikföng en slíkt hafði hún ekki gert áður.

Þann 5. október 2021 hafi verið fjallað um umgengni föður við stúlkuna á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B eftir að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála hafi verið kveðinn þann 16. september 2021. Þá hafi verið bókað að umgengni föður við stúlkuna yrði tvisvar sinnum í mánuði, í þrjár klukkustundir í senn, í samræmi við niðurstöðu í áðurnefndum úrskurði nefndarinnar. Þá hafi verið bókað á sama fundi að umgengni föður yrði breytt frá því að vera á heimili föður og að umgengni yrði færð í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar B, auk þess sem ákveðið hafi verið að umgengni yrði undir eftirliti og fósturforeldrar gætu verið viðstaddir, ef þeir kysu það. Það hafi verið mat starfsmanna að nauðsynlegt væri að breyta umgengni á þennan veg til að tryggja líðan stúlkunnar og að hún myndi upplifa meira öryggi. Umgengni hafi nú farið fram með þessum hætti í alls sex skipti, þ.e. í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar og undir eftirliti ásamt fósturforeldrum sem gefinn hafi verið kostur á að vera viðstaddir. Umgengni hafi ekki aðeins farið fram í húsnæði barnaverndar heldur hafi faðir einnig farið með stúlkuna á bókasafn, leikvöll og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Í nótum eftirlitsaðila, sjá í fylgiskjölum, komi fram að faðir virðist missa athyglina og hafi honum þá verið leiðbeint með hvað skuli gera með stúlkunni. Föður virðist skorta úthald í svo langri umgengni. Samkvæmt fósturforeldrum hafi stúlkunni liðið vel eftir þessi skipti í umgengni, eftir að hún var færð af heimili föður og föðurömmu og í húsnæði barnaverndar og undir eftirlit. Síðast átti faðir umgengni með stúlkunni þann 18. desember 2021. Sú umgengni hafi verið alls þrjár klukkustundir og hafi faðir verið með fulla athygli í byrjun umgengni en þegar um það bil klukkustund var liðin hafi athygli föður farið að dala og stúlkan verið farin að sækja í fósturforeldra sína. Fósturforeldrar hafið þá stungið upp á því að þau myndu öll fara saman í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn.

Ekki náðist samkomulag við föður um umgengni og úrskurðaði því Barnaverndarnefnd B þann 23. nóvember 2021 að faðir ætti umgengni við stúlkuna tvisvar sinnum í mánuði í þrjár klukkustundir í senn á meðan forsjársviptingarmál væri rekið fyrir dómstólum. Umgengni skyldi vera í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar B eða á öðrum þeim stað sem aðilar koma sér saman um. Umgengni skyldi vera undir eftirliti og mættu fósturforeldrar vera viðstaddir umgengni, kysu þeir það.

Í kæru lögmanns föður til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 8. desember 2021, sé gerð krafa um að úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 23. nóvember 2021 vegna umgengni föður við dóttur, verði felldur úr gildi og málinu verði vísað aftur til nýrrar meðferðar hjá barnavernd. Lögmaður vísar til þess að faðir vilji njóta rýmri umgengni við dóttur sína, en þó svo að kæran snúi aðeins að ákvörðun barnaverndarnefndar um að úrskurða um að umgengni fari fram í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar B og að hún sé undir eftirliti starfsmanns, sé fósturforeldrum frjálst að vera viðstaddir, kjósi þeir það.

Lögmaður vísar meðal annars til þess að umgengni föður við stúlkuna hefur alla tíð verið takmörkuð, þvert gegn mati þeirra sérfræðinga sem að málinu hafa komið. Bendir hann á að úrskurðarnefnd hefur tvisvar úrskurðað í málinu og beint því til barnaverndarnefndar að umgengni tvisvar í mánuði í þrjár klukkustundir í senn sé hófleg, sbr. mat sérfræðinga. Lögmaður vísar til þess að umgengni hefur aldrei verið undir eftirliti fyrr en starfsmenn breyttu henni þann 5. október 2021. Lögmaður bendir á að umgengni undir eftirliti sé mjög íþyngjandi aðgerð og sé úrræði sem beitt er þegar börnum stafar hætta af foreldrum sínum og sú sé ekki raunin í tilviki föður. Engar áhyggjur hafi verið af öryggi stúlkunnar í umsjá föður, kemur fram í kæru. Bendir lögmaður á að upplýsingar um líðan stúlkunnar kjölfar umgengni komi nær eingöngu frá fósturforeldum sem hafi hagsmuni í málinu. Lögmaður vísar til þess að faðir hafi verið sendur einn heim með stúlkuna eftir að vist þeirra lauk á E, vistheimili barna, þrátt fyrir að vera samkvæmt forsjárhæfnismati ekki reiðubúinn til að fara einn heim með stúlkuna. Fram kemur í kæru lögmanns að föðuramma stúlkunnar hefur aldrei fengið sjálfstæða umgengni við stúlkuna, heldur áttu faðir og föðuramma sameiginlega umgengni við stúlkuna og að föðuramman hafi verið sett í stuðningshlutverk fyrir föður í umgengni.

Lögmaður byggir kröfur sínar á því að barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem eru því nákomin, sbr. 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, og sá réttur sé í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hefur fullgilt.

Eins og fram hefur komið var faðir sviptur forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms B þann 15. september 2021 og ekki er stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá föður. Fram kom í dómnum að öll gögn dómsins væru á þann veg að hæfni föður til að annast og bera ábyrgð á stúlkunni væri verulega skert og hann í raun talinn ófær um það hlutverk. Jafnvel með verulegum stuðningi, og þá einnig af hálfu föðurömmu stúlkunnar, hafi þörfum stúlkunnar ekki verið mætt nema að takmörkuðu leyti. Það hafi verið mat dómsins að forsjárhæfni föður væri verulega skert og teldist hann vera ófær um að annast daglega ummönnun og uppeldi dóttur sinnar þar sem faðir átti sig ekki á takmörkunum sínum og nái ekki að tileinka sér nægilega færni til þess að mæta þörfum hennar eins og nauðsynlegt sé, þrátt fyrir ágæta viðleitni hans í þá veru og verulega aðstoð. Þá hafi einkum verið litið til skorts á innsæi föður í þarfir barnsins og á tengslamyndun hans við barnið sem foreldri. Faðir undirgekkst forsjárhæfnismat þann 3. desember 2019 og hafi komið þar fram að faðir búi við greindarfarslega erfiðleika sem hafi áhrif á hæfni hans til að annast dóttur sína. Faðir sé með röskun á einhverfurófi og vitsmunalega erfiðleika.

Stúlkan hafi verið í umsjá fósturforeldra síðan í júlí 2020 og kom fram í forsjárhæfnismati, dags. 20. ágúst 2020, að á mjög stuttum tíma hefði stúlkan tekið gríðarlegum framförum eftir að hún fór í umsjá fósturforeldra. Stúlkan hafði þá náð miklum árangri í að stýra tilfinningum sínum og hegðun, væri rólegri og næði betri einbeitingu, þannig hafi hún minnkað hegðunar- og skapofsaköst sín.

Áður en umgjörð umgengni föður við stúlkuna hafi verið breytt og færð af heimili föður í húsnæði Barnaverndar B og undir eftirliti, hafði umgengni farið illa í stúlkuna. Upplýsingar hafi verið fengnar frá leikskóla stúlkunnar sem bárust barnavernd þann 23. ágúst 2021 og aftur þann 30. september 2021. Í upplýsingum frá 23. ágúst 2021 kom fram að líðan stúlkunnar eftir umgengni hafði verið slæm og hún verið vansæl í einn til tvo daga eftir umgengni sem lýsti sér í pirringi og gráti út af engu. Í upplýsingum þann 30. september 2021 kom fram að stúlkan væri ekki lík sjálfri sér eftir umgengni. Það væri erfitt fyrir hana að mæta í leikskólann og stúlkan sýndi neikvæða hegðun, hafi slegið til kennara og verið að meiða önnur börn á deildinni. Síðasta umgengni sem faðir átti við stúlkuna sem fór fram á hans heimili, hafi farið fram þann 25. september 2021 og að sögn fósturforeldra hafi sú umgengni farið afar illa í stúlkuna. Stúlkan hafi sótt mikið í fósturforeldra sína dagana eftir umgengni og vildi hún helst aðeins vera í fanginu á þeim. Stúlkan hafi verið reið og sýnt ofbeldisfulla hegðun eftir umgengni.

Þann 5. október 2021 hafi verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B að umgengni yrði framvegis í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar B, undir eftirliti, og var þá einnig bókað að fósturforeldrar, annar eða báðir, væru viðstaddir umgengni, ef þeir kysu það. Sú ákvörðun að breyta umgengninni var gerð með það í huga að tryggja að stúlkan upplifði meira öryggi í umgengni og breytingin talin vera til hagsbóta fyrir stúlkuna með það markmið að líðan hennar yrði betri eftir umgengni hennar við föður.

Faðir hafi nú átt alls sex sinnum umgengni með þessum hætti, þ.e. í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar B og undir eftirliti og hefur sú umgengni gengið mjög vel. Líðan stúlkunnar hafi batnað til muna og hafi hún ekki sýnt þá slæmu hegðun sem áður hafði komið fram í kjölfar umgengni. Í breyttri umgengni hafi föður verið leiðbeint þegar það átti við, en fram hefur komið hjá eftirlitsaðila að faðir virðist missa athyglina þegar líður á umgengni og föður virðist skorta úthald.

Í úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 23. nóvember 2021 hafi það verið mat nefndarinnar að mikilvægt væri að horfa til frásagna fósturforeldra af líðan stúlkunnar í kjölfar umgengni hennar við föður. Stúlkan hafi verið vistuð hjá þeim frá 17. júlí 2020 og megi því ætla að þeir þekki vel þarfir stúlkunnar og því bærir til að meta líðan hennar. Stúlkan hefur búið á alls fimm heimilum frá fæðingu og mikill óstöðugleiki hefur einkennt líf hennar. Faðir stúlkunnar hafi verið sviptur forsjá hennar með dómi héraðsdóms í september 2021 og sé því ekki stefnt að því að hún fari aftur í umsjá föður heldur muni hún alast upp hjá fósturforeldrum sínum. Barnaverndarnefnd telji því mikilvægt að stúlkunni sé tryggt öryggi og stöðugleiki og telur barnaverndarnefnd að slíkt sé gert með því að hafa umgengni í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar B og undir eftirliti.

Með hliðsjón af öllu framansögðu sé það mat Barnaverndarnefndar B að sú ákvörðun að breyta umgjörðinni á umgengni og færa hana í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar B, undir eftirliti starfsmanna og að fósturforeldrar fái að vera viðstaddir, samræmast hagsmunum stúlkunnar, sérstaklega ef horft sé til líðanar stúlkunnar og hegðunar í kjölfar umgengni. Það sé ekki stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá föður heldur sé stefnt að því að hún alist upp í varanlegu fóstri hjá núverandi fósturforeldrum. Í ljósi þess sé lögð áhersla á að hún upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu og sé það mat nefndarinnar að umgengni á heimili föður og föðurömmu geti raskað ró stúlkunnar og stefnt í hættu þeim stöðugleika sem reynt hefur verið að tryggja henni hjá fósturforeldrum.

Umgengni samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þurfi að ákvarða í samræmi við hagsmuni og þarfir stúlkunnar. Rétturinn til umgengni og umfang hans geti verið takmarkaður og háður mati á hagsmunum stúlkunnar þar sem meðal annars beri að taka tillit til markmiðanna sem stefnt er að með fósturráðstöfuninni og hversu lengi fóstrinu er ætlað að vara. Fari hagsmunir stúlkunnar og föður ekki saman verða hagsmunir föður að víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Fram hafa komið frásagnir fósturforeldra og upplýsingar frá leikskóla stúlkunnar um líðan hennar eftir umgengni og þar kemur fram að líðan stúlkunnar er betri eftir að umgengni var breytt og færð af heimili föður og föðurömmu. Barnaverndarnefnd B telur það óumdeilt að líðan stúlkunnar sé betri nú eftir að umgengni var breytt og er það mat nefndarinnar að rétt sé að leyfa stúlkunni að njóta vafans og hafa umgengni eins og hún var ákveðin með úrskurði nefndarinnar þann 23. nóvember 2021.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi gerir Barnaverndarnefnd B þá kröfu að hinn kærði úrskurður verið staðfestur.

 

IV. Afstaða fósturforeldra

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að fósturforeldrar vilji draga úr umgengni við kæranda. Umgengni hafi farið illa í stúlkuna og hafa þeir áhyggjur af mikilli vanlíðan hjá henni í kjölfar umgengni. Stúlkan hafi verið ólík sjálfri sér eftir umgengni og grátið mikið. Í kjölfar þess að umgengni hafi verið færð í húsnæði á vegum barnaverndar hafi líðan hennar eftir umgengni batnað. 

V. Afstaða barns

Sökum ungs aldurs stúlkunnar var afstaða hennar til umgengni við kæranda ekki könnuð.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er X ára gömul stúlka sem lýtur forsjá fósturforeldra. Kæranda er kynfaðir stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði frá 23. nóvember 2021 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við stúlkuna tvisvar sinnum í mánuði í þrjár klukkustundir í senn á meðan forsjársviptingarmál væri rekið fyrir dómstólum. Umgengni færi fram í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar B eða á öðrum þeim stað sem aðilar kæmu sér saman um og eftirlitsaðilar á vegum Barnaverndar B ásamt fósturforeldrum, öðrum eða báðum, verði á staðnum.

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu verði vísað til nýrrar meðferðar hjá barnaverndarnefndinni.

Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 11. nóvember 2021, kemur fram að mikilvægt sé að skapa stúlkunni þær aðstæður í umgengni að hún upplifi sig örugga með það að markmiði að líðan hennar verði betri í kjölfar umgengni. Starfsmenn hafi því talið rétt að breyta umgjörð umgengninnar.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því, sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum, ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best með tilliti til stöðu hennar. Samkvæmt gögnum málsins er stúlkan í tímabundnu fóstri hjá fósturforeldrum sínum og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B.

Samkvæmt gögnum málsins er það afstaða sérfræðinga að mikilvægt sé að stúlkan eigi umgengni við föður vegna fyrri tengsla þeirra. Forsendur hins kærða úrskurðar eru þær að ekki sé tilefni til að taka ákvörðun um umgengni kæranda við stúlkuna til frambúðar fyrr en endanlega niðurstaða dómstóla liggur fyrir. Barnaverndarnefnd B telur að hagsmunum stúlkunnar sé best borgið með því að hafa umgengni við kæranda tvisvar sinnum í mánuði í þrjár klukkustundir í senn í húsnæði á vegna barnaverndarnefndarinnar eða á öðrum þeim stað sem aðilar koma sér saman um. Þá skuli umgengni vera undir eftirliti og fósturforeldrar viðstaddir, annar eða báðir, kjósi þeir það.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Í málinu liggja fyrir ítarleg gögn sérfræðinga sem telja að það séu hagsmunir stúlkunnar að hún hafi rúma umgengni við kæranda. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur sem fyrr að það séu hagsmunir stúlkunnar að eiga rúma umgengni við kæranda á meðan forsjársviptingarmálið er rekið fyrir dómstólum. Byggir það mat á áliti þeirra sérfræðinga sem þegar hafa komið að máli barnsins og lagt til að umgengni verði umfram það sem almennt gerist í málum sem þessum.

Varðandi fyrirkomulag umgengni hefur verið vísað til þess að líðan stúlkunnar hafi batnað eftir að ákveðið var að hún færi fram í húsnæði barnaverndar og undir eftirliti starfsmanna og þar sem fósturforeldrar væru einnig viðstaddir. Miðað við núverandi aðstæður og með tilliti til hagsmuna stúlkunnar telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að gera athugasemdir við fyrirkomulag þeirrar umgengni sem nú er viðhöfð.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni kæranda við stúlkuna hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 23. nóvember 2021 varðandi umgengni D, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum