Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 270/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 270/2021

Miðvikudaginn 24. nóvember 2021

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 3. júní 2021, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 9. mars 2021 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 16. apríl 2019, sem barst Sjúkratryggingum Íslands 24. apríl 2019, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Landspítala og á C á tímabilinu X til X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 9. mars 2021, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. júní 2021. Með bréfi, dags. 4. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 7. júní 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar þess að synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 verði endurskoðuð þannig að hann eigi rétt til bóta vegna þess líkamlega tjóns sem hafi leitt af umræddri vanmeðferð X.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með tilkynningu sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 24. apríl 2019. Með bréfi, dags. 9. mars 2021, hafi Sjúkratryggingar Íslands hafnað því að kærandi ætti bótarétt úr sjúklingatryggingu samkvæmt framangreindum lögum.

Kærandi lýsi málsatvikum þannig að hann hafi fyrst fundið fyrir verk í mjöðm. Verkur hafi verið í baki neðarlega vinstra megin sem hafi leitt fram í nára og niður í læri. Við skoðun þann X hafi verið eymsli við snúning og hreyfiskerðing við sveigju og réttingu. Kærandi hafi verið með minni mátt í vinstri lærisvöðvanum og átt erfitt með að stíga í fótinn. Um skoðun á vinstri fæti hafi sagt: „vantar reflex í hné og hásin. Eymsli við internal rotation. Veruleg hreyfiskerðing í fótlim við flexion og extension.“ Röntgenmynd hafi sýnt miklar slitbreytingar á vinstri mjöðm „þar sem var bein í bein“.

Þann X hafi kærandi komið til innskriftarmiðstöðvar vegna fyrirhugaðrar mjaðmaraðgerðar, en hafi þá reynst hafa blóðtappa í vinstri ganglim sem hafi náð frá mjaðmarbláæð niður að hnésbót. Blóðþynning hafi því verið hafin með blóðþynningarlyfjunum Klexane og Kóvar og aðgerð frestað. Þann X hafi kærandi aftur komið til innlagnar á Landspítala vegna mjaðmaraðgerðar. Í sjúkrasögu innlagnarskrár hafi ekki verið getið um þáverandi einkenni blóðtappa. Þó hafi komið fram að nokkur bjúgur hafi verið á hægri fæti og útbrot á vinstri sem kærandi hafi rakið til blóðtappans. Í aðgerðarlýsingu, dags. X, hafi ekkert óeðlilegt komið fram. Kærandi hafi útskrifast af Landspítala þann X.

Þann X hafi kærandi komið á bráðamóttöku Landspítala vegna mæði og þriggja mánaða sögu um hósta. Í bráðamóttökuskrá X hafi kærandi farið á bráðamóttökuna þar sem sneiðmynnd hafi sýnt stóra blóðtappa í báðum aðallungnaslagæðum og segar hafi teygt sig út í greinar. Klexane-meðferð hafi verið hafin og lyf- og lungnalæknir hafi lagt til ævilanga blóðþynningu. Við sneiðmyndatöku á kviðarholi hafi lítill veggfastur blóðtappi sést í neðri holæð. Kærandi hafi síðan útskrifast þann X á blóðþynnandi meðferð.

Fyrir liggi læknabréf sérfræðings í almennum skurðlækningum og æðaskurðlækningum, dags. X. Þar komi fram að kærandi hafi fengið bólginn fót í X og hafi hann þá leitað til heimilislæknis og bæklunarlæknis. Þá segi einnig í bréfinu að eftir mjaðmaskiptaaðgerðina hafi kærandi fundið fyrir versnandi einkennum í fæti með bjúgtilhneigingu og húðbreytingum. Vottorðsritari hafi ekki talið þorandi að „eiga við þessi yfirborðskerfi.“

Kærandi byggi kröfu um rétt til bóta úr sjúklingatryggingu á því að hann hafi orðið fyrir líkamlegu tjóni vegna rangrar meðhöndlunar á Landspítalanum þann X samkvæmt 2. gr. sjúklingatryggingarlaga. Í 1. tölul. 2. gr. sjúklingatryggingarlaga segi að bætur skuli greiða án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til meðal annars: „ef ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.“

Í bréfi Sjúkratrygginga Íslands segi að það sé niðurstaða stofnunarinnar að kærandi hafi hlotið viðeigandi meðferð eftir aðgerðina og ekkert hafi bent til blóðatappa í skoðun þann X. Einnig telji Sjúkratryggingar Íslands ljóst að sú meðferð sem kærandi hafi fengið í kjölfar greiningar á blóðtappanum þann X hafi verið rétt og telji Sjúkratryggingar Íslands ástand kæranda ekki að rekja til meðferðar eða skorts á meðferð.

Kærandi geti ekki fallist á rök Sjúkratrygginga Íslands. Byggt sé á því að D læknir hefði í öllu falli átt að framkvæma ítarlegar rannsóknir á vinstri fæti kæranda þann X til þess að taka af allan vafa um blóðtappa áður en hann hafi ákveðið að tengja einkennin við mjaðmameiðslin.

Kærandi byggi á því að koma hefði mátt í veg fyrir tjón hans með því að framkvæma ítarlegar rannsóknir á vinstri fæti þennan dag. Auðvelt hefði til dæmis verið að framkvæma ómun á fætinum líkt og gert hafi verið þann X þegar fyrirhuguð hafi verið aðgerð á mjöðm. Við ómskoðun á vinstri fæti hafi komið í ljós blóðtappi sem hafi náð frá mjaðmarbláæð niður að hnésbót. Í meðfylgjandi sjúkranótu frá þeim degi segi orðrétt: „reynist vera bólginn á vi. kálfa sem jafnframt er rauðleitur og þrútinn að sjá sbr. við hæ. og aukinheldur aumur viðkomu. Segir þetta hafa verið svona sl. mánuði, eða allt frá því í ágúst.“

Af gögnum sé ljóst að kærandi hafi fundið fyrir einkennum frá vinstri fæti allt frá því í X, enda segi orðrétt í sjúkraskrá, dags. X: „DVT X var mjög lengi að greinast, fyrstu einkennin komin fram í X en greindur í X.“ Kærandi hafi leitað læknis í X vegna fyrrgreindra einkenna en þau einkenni hafi strax verið tengd við einkenni frá mjöðm og því hafi meðferð/rannsókn hans ekki verið fullnægjandi. Vegna vanmeðferðar í september hafi kærandi þurft að fresta aðgerð á mjöðm þar til X. Hefði rannsókn á vinstri fæti verið fullnægjandi í X hefði verið hægt að koma í veg fyrir aukna blóðtappamyndun og kærandi hefði ekki þurft að þola eins langa bið eftir mjaðmaraðgerð og raun hafi borið vitni. Kærandi telji því ljóst að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni sem bótaskylt sé samkvæmt lögum nr. 111/2000.

Staða kæranda í dag sé sú að húðin sé illa farin eftir blóðtappana og þurfi hann að þola mikinn sviða vegna þessa sem hái honum mikið í daglegu lífi.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar sem og gagna þeirra sem hafi fylgt með kæru telji kærandi sig uppfylla skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 þannig að hann eigi rétt til bóta vegna þess líkamlega tjóns sem hafi leitt af umræddri vanmeðferð X. Kærandi telji að líkamstjón hans megi rekja til þess að ekki hafi verið staðið rétt að læknismeðferð, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands 24. apríl 2019. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem hafi farið fram á Landspítalanum og á C á tímabilinu X til X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og málið í framhaldinu verið tekið fyrir á fundi fagteymis sem hafi meðal annars verið skipað bæklunarskurðlækni. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 9. mars 2021, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu væru ekki uppfyllt.

Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands komi fram að fyrst sé minnst á umrædd vandamál í slysadeildarbréfi Landspítala, dags. X. Þar segi meðal annars að kærandi hafi haft verki í mjöðm í hálfan mánuð sem hann hafi þó rakið tvö ár aftur í tímann. Verkur hafi verið í baki neðarlega vinstra megin sem hafi leitt fram í nára og niður í læri. Við skoðun hafi verið eymsli við snúning og hreyfiskerðing við sveigju og réttingu. Ekki hafi verið að sjá mar eða bólgu eða ytri áverka. Röntgenmynd hafi sýnt miklar slitbreytingar á vinstri mjöðm „þar sem var bein í bein.“

Þann X hafi komið fram í gögnum frá C að kærandi hafi […] í X. Hann hafi átt að fara í aðgerð á vinstri mjöðm en henni hafi verið frestað í X vegna blóðtappa í vinstri kálfa. Gert hafi verið ráð fyrir að blóðþynningu lyki um X. Í færslu, dags. X, hafi meðal annars sagt að sonur kæranda hafi fengið blóðtappa í holhandarslagæð. Þann X hafi komið fram að kærandi hafi haft þriggja mánaða sögu um hósta og mæði sem hafi snarversnað fimm dögum fyrr. Einnig hafi sést vökvi í brjóstholi við myndatöku. Kærandi hafi því verið lagður inn á Landspítala þann X. Frá þeim tíma til X hafi samskipti kæranda við heilsugæsluna nær eingöngu snúist um lyfjaávísanir.

Þann X hafi verið ritað í dagál svæfinga- og gjörgæslulækninga að kærandi hafi komið til innskriftarmiðstöðvar vegna fyrirhugaðrar mjaðmaraðgerðar, en hafi þá reynst hafa blóðtappa í vinstri ganglim sem hafi náð frá mjaðmarbláæð (a. iliaca) niður að hnésbót. Blóðþynning hafi því verið hafin með blóðþynningarlyfjunum Klexane og Kóvar og aðgerð frestað. Þá komi einnig fram í dagál, dags. X, að saga hafi verið um að faðir kæranda hafi fengið blóðtappa í fót. Þann X hafi kærandi komið aftur til innlagnar á Landspítala vegna mjaðmaraðgerðar. Í sjúkrasögu innlagnarskrár hafi ekki verið getið um þáverandi einkenni blóðtappa. Þó hafi komið fram að nokkur bjúgur hafi verið á hægri fæti og útbrot á þeim vinstri sem kærandi hafi rakið til blóðtappans. Í aðgerðarlýsingu, dags. X, hafi ekkert óvænt komið fram. Þar hafi meðal annars sagt: „Hann er því áhættusjúklingur fyrir thrombosu og á að vera á Klexane í 3 vikur.“ Kærandi hafi útskrifast af Landspítala þann X.

Kærandi hafi komið til skoðunar hjá lækni þann X. Ekki hafi verið lýst einkennum sem gætu bent til blóðtappa. Þann X hafi kærandi komið á bráðamóttöku Landspítala vegna mæði og þriggja mánaða sögu um hósta. Í bráðamóttökuskrá, dags. X, hafi verið ritað „verið mæðinn frá prothesuaðgerð í X á þessu ári. Nú fyrir 5 dögum síðan fékk hann skyndilega slæma mæði.“ Þá hafi verið lýst takverk í báðum síðum. Við skoðun hafi ekki sést bjúgur eða bólga á fótleggjum. Sneiðmynd hafi sýnt stóra blóðtappa í báðum aðallungnaslagæðum og segar teygt sig út í greinar. Við skoðun daginn eftir hafi ekki verið lýst bjúg á fótum. Klexane-meðferð hafi verið hafin og hafi lyf- og lungnalæknir lagt til ævilanga blóðþynningu. Við sneiðmyndatöku á kviðarholi hafi sést lítill veggfastur blóðtappi í neðri holæð. Kærandi hafi síðan útskrifast þann X á blóðþynnandi meðferð, þ.e. eliquis meðferð. Ekki sé að finna heimildir um samskipti kæranda við starfsmenn Landspítala eftir þann X.

Fyrir liggi læknabréf sérfræðings í almennum skurðlækningum og æðaskurðlækningum, dags. X. Þar komi fram að kærandi hafi fengið bólginn fót í X og hafi hann þá leitað til heimilislæknis og bæklunarlæknis. Þetta sé ekki staðfest í sjúkraskrá heilsugæslunnar og hafi atburðarrásin ef til vill brenglast í munnlegum meðförum. Hins vegar segi í læknabréfinu að eftir mjaðmarskiptaaðgerðina hafi kærandi fundið fyrir versnandi einkennum í fæti með bjúgtilhneigingu og húðbreytingum. Vottorðsritari hafi ekki talið þorandi að „eiga við þessi yfirborðskerfi.“

Við ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu sé litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaðferð eða -tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þurfi að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo að skilyrði séu fyrir greiðslu bóta. Sjúklingatrygging bæti ekki tjón sem sé afleiðing grunnsjúkdóms eða grunnáverka og það sé því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar sem hann gangist undir.

Kærandi kvarti yfir því í umsókn að blóðtappi í vinstri fæti hafi ekki greinst X á heilsugæslu eða á Landspítala. Ekkert komi fram í gögnum heilsugæslunnar um að kærandi hafi leitað þangað á umræddu tímabili. Kærandi hafi leitað á bráðamóttöku Landspítala þann X og við læknisskoðun sem gerð hafi verið þá á ganglimum hans, sé ekki getið um einkenni sem hefðu átt að vekja grunsemdir um blóðtappa í vinstri fæti. Blóðtappi hafi þó greinst á Landspítala þann X og hafi eðlilega verið brugðist við honum með Klexane og Kóvar blóðþynningarmeðferð sem hafi átt að standa yfir í sex mánuði. Getið sé um Kóvar lyfjaávísun á heilsugæslustöð X og þannig hafi meðferðin að líkindum staðið yfir í tilsettan tíma.

Umrædd mjaðmaraðgerð þann X teljist hafa verið gerð á fullnægjandi faglegum forsendum og ekkert óvænt komið fram við aðgerðina. Blóðþynning hafi verið hefðbundin eftir aðgerðina en hún hafi verið framlengd umfram venju í þrjár vikur vegna þeirrar áhættu sem fyrri blóðtappi hafi skapað. Þrátt fyrir fyrirbyggjandi meðferð með blóðþynningarlyfjum hafi kærandi fengið lungnarek, þ.e. blóðtappa í lungnaslagæðar haustið X sem hafi greinst á Landspítala þann X. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé aukin áhætta á blóðtappamyndun fyrir hendi í þrjá mánuði eftir skurðaðgerð. 

Yfirleitt greinist lungnarek innan við viku eftir upphaf einkenna og nær aldrei dragist slík greining meira en 3-4 vikur. Þess sé ekki getið í  fyrirliggjandi sjúkragögnum að kærandi hafi haft einkenni blóðtappa í ganglim eftir aðgerðina þann X. Þá hafi kærandi sögu um blóðtappa í ganglim árið X, auk fjölskyldusögu um ættgenga segahneigð, án þess að skurðaðgerð eða aðrir áhættuþættir kæmu við sögu. Sjúkratryggingar Íslands telji þá greiningu og meðferð sem hafi byrjað í kjölfar komu á Landspítala vera í samræmi við almennt viðtekna og gagnreynda læknisfræði.

Að framangreindu virtu sé ljóst að kærandi hafi hlotið viðeigandi meðferð eftir aðgerðina þann X. Einnig telji Sjúkratryggingar Íslands ljóst að sú meðferð sem kærandi hafi fengið í kjölfar greiningar á blóðtappanum þann X hafi verið rétt og þannig sé ástand kæranda ekki að rekja til meðferðar eða skorts á meðferð.

Með vísan í framangreint sé ljóst að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að meðferð hafi ekki verið háttað með fullnægjandi hætti. Með vísan til þess séu skilyrði 2. gr. laganna ekki uppfyllt.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar meðferðar á Landspítala og á C á tímabilinu X til X séu bótaskyldar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að hefði rannsókn á vinstri fæti verið fullnægjandi í X hefði verið hægt að koma í veg fyrir aukna blóðtappamyndun og kærandi hefði því ekki þurft að þola eins langa bið eftir mjaðmaraðgerð og raun bar vitni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg.

Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi á Landspítalann þann X með einkenni þar sem greindar voru slitbreytingar í vinstri mjöðm. Kæranda var ráðlagt að ráðfæra sig við heimilislækni eða bæklunarlækni. Hefðbundin læknisskoðun var gerð á vinstri ganglim og voru engin merki sem bent gætu til blóðtappa.

Þann X í innskriftarviðtali vegna mjaðmarliðsaðgerðar kom í ljós að kærandi var bólginn á vinstri kálfa. Hann var greindur með blóðtappa í vinstri ganglim og var ráðlagt eftir samráð við blóðmeinafræðing að fara á blóðþynningu til sex mánaða. Fyrir liggur að þann X var sú meðferð í gangi  þegar blóðþynnandi lyfi (Kóvar) var ávísað á kæranda.

Þann X hafi ráðgefandi blóðsjúkdómalæknir mælt með að blóðþynningu yrði hætt og að kærandi myndi nota teygjusokk. Í skoðun vegna umsóknar um sjúkradagpeninga X sé þess getið að kærandi sé ófær um að standa við störf vegna slitgigtar í mjöðm og við skoðun hafi einvörðungu verið getið verkja við hreyfingar í mjaðmarlið.

Kærandi fór síðan í liðskiptaaðgerð X og var hugað að blóðrásaræfingum fyrst eftir aðgerð og síðan ávísað blóðþynnandi lyfjum í þrjár vikur eftir það þar sem kærandi var talinn áhættusjúklingur fyrir blóðtappa. Þann X er því lýst í sjúkraskrá að kærandi láti vel af sér. Þrátt fyrir það fékk hann síðan blóðtapparek í lungu sem var staðfest X.

Á grundvelli fyrirliggjandi gagna fær úrskurðarnefnd velferðarmála ekki annað séð en að meðferð kæranda hafi verið samkvæmt bestu venjum. Þann X voru engin merki um blóðtappa í fæti eða byrjandi blóðtappa. Eftir að hann greindist fékk hann hefðbundna meðferð í samráði við blóðmeinafræðing. Í kjölfar aðgerðar í X fékk hann blóðþynningu í þrjár vikur og sérstaklega var tekið tillit til sögu hans um blóðtappa.  Þá voru engin merki um slíkt við skoðun í X. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að meðferð hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.

 


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum