Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 217/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. maí 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 217/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21030039

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. mars 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. febrúar 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að Útlendingastofnun verði falið að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi til meðferðar á ný á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 20. september 2020. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun, m.a. hinn 11. nóvember 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 17. febrúar 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 9. mars 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda, ásamt fylgigögnum, hinn 23. mars 2021. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd hinn 6. maí 2021 ásamt talsmanni sínum, auk þess var túlkur í gegnum síma.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skildi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra myndi fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til viðtala hans hjá Útlendingastofnun. Þar hafi kærandi greint frá því að hafa fæðst í Garbahaarey í héraðinu Gedo í suðurhluta Sómalíu en alist upp í Jilib í héraðinu Middle Juba sem jafnframt sé í suðurhluta landsins. Hann hafi þó búið í flóttamannabúðum í Garowe í norðurhluta landsins í nokkur ár eða frá u.þ.b. árunum 2011 til 2013 og til ársins 2018 vegna mikilla þurrka í Jilib. Kærandi hafi greint frá því að vera af […] ættbálkinum sem sé minnihlutaættbálkur og verði fyrir mismunun í Sómalíu. Kærandi hafi flúið heimaríki sitt vegna ofsókna hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab vorið 2020 en samtökin hafi verið áhrifamikil í Jilib. Þannig hafi samtökin áreitt fjölskyldu kæranda allt frá því að þau hafi snúið þangað aftur frá Garowe árið 2018 og m.a. hafi Al-Shabaab þvingað þau til greiðslu peninga. Ofsóknirnar hafi hins vegar tekið enn alvarlegri stefnu þegar samtökin hafi ráðist á fjölskylduna eftir að hafa komist að því að fjölskyldufaðirinn væri stjórnarhermaður. Faðir kæranda hafi ávallt gætt þess að halda sig fjarri fjölskyldunni vegna starfa sinna en freistað þess að heimsækja þau um vorið 2020 enda hafi hann þá verið staðsettur skammt frá í Garbahaarey. Al-Shabaab hafi hins vegar komist að því og myrt föður kæranda fyrir framan fjölskylduna. Fjölskyldan hafi flúið í kjölfarið enda hafi Al-Shabaab jafnframt eyðilagt allar eignir þeirra. Kærandi hafi hins vegar verið handtekinn af Al-Shabaab og verið pyndaður en náð að flýja við illan leik. Hann hafi að lokum komist til Garbahaarey þar sem frændi hans hafi aðstoðað hann við að flýja landið.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi búið í Jilib í suðurhluta Sómalíu áður en hann hafi flúið en fjölskylda hans búi nú í Garbahaarey sem einnig sé í suðurhluta landsins. Kærandi hafi flúið ofsóknir Al-Shabaab en jafnframt hafi hann greint frá mismunun sem hann hafi orðið fyrir vegna ættbálks síns. Kærandi óttist ofsóknir vegna kynþáttar síns, þjóðernis og aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi, sbr. a-, c- og d-lið 38. gr. laga um útlendinga. Þá geti kærandi ekki fært sér í nyt vernd stjórnvalda í Sómalíu þar sem þau séu ófær um að vernda íbúa landsins gegn ofsóknum Al-Shabaab, sbr. b- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 235/2020 frá 2. júlí 2020.

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement), sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vegna alvarlegs öryggisástands í Sómalíu, einkum í mið- og suðurhluta landsins. Kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Einnig eigi hann á hættu að verða fyrir skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðar- og borgaralegra skotmarka verði honum gert að snúa aftur heim. Öryggisástand á heimaslóðum kæranda sé mjög ótryggt, m.a. vegna sjálfsvígsárása, vopnaðra árása og handahófskenndra morða af hálfu hryðjuverkasamtaka í Sómalíu eða vegna ættbálkaerja. Kæranda standi sérstök ógn af Al-Shabaab vegna fyrri ofsókna þeirra. Jafnframt fremji sómalísk stjórnvöld ýmis mannréttindabrot gegn eigin borgurum og séu vanmáttug við að tryggja borgurum vernd gegn árásum óopinberra aðila. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til ákvörðunar Útlendingastofnunar frá 22. maí 2020 í máli nr. 2019-16146. Þá geti flutningur innanlands ekki talist raunhæf eða sanngjörn krafa á hendur kæranda og því beri íslenskum stjórnvöldum að veita honum alþjóðlega vernd.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Gróf mannréttindabrot viðgangist í Sómalíu og kærandi eigi á hættu ofsóknir og illa og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Þá verði íslensk stjórnvöld jafnframt að horfa til áhrifa Covid-19 faraldursins í Sómalíu.

Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur nauðsynlegt að frekari greining fari fram á þeim pyndingum sem hann hafi orðið fyrir og hvort þau útbrot sem hann glími við geti tengst þeim. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi ekki spurt hann út í heilsu sína né þá meðferð sem hann hafi þurft að þola af hálfu Al-Shabaab. Þá séu heilsufarsgögnin varðandi útbrot kæranda ófullkomin og ekki skýr um ástæður þeirra. Kærandi telur því nauðsynlegt að mál hans verði sent aftur til Útlendingastofnunar svo hægt verði að bæta úr þessum annmarka og tryggja að hann njóti þess réttaröryggis að fá leyst úr máli sínu á tveimur stjórnsýslustigum.

Kærandi gerði í greinargerð sinni til kærunefndar ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans, þá einkum varðandi trúverðugleikamat stofnunarinnar. Jafnframt gerði kærandi athugasemdir við það mat Útlendingastofnunar að niðurstöður tungumála- og staðháttaprófs stangist á við frásögn kæranda.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem til þess sé fallið að sanna á honum deili og því ekki sannað hver hann sé með fullnægjandi hætti. Var því leyst úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika og komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi væri frá Sómalíu. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé sómalskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Sómalíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 11. mars 2020);

·         2020 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 30. mars 2021);

·         Amnesty International Report 2020/21 (Amnesty International, 7. apríl 2021);

·         Clans in Somalia (Austrian Centre for Country of Origin and Asylum Research and Documentation (ACCORD), desember 2009);

  • Clans in Somalia (ACCORD, desember 2009);
  • Country of Origin Information – Somalia Health System (Danish Immigration Service, nóvember 2020);
  • Country Background Note – Somalia (UK Home Office, desember 2020);
  • Country Policy and Information Note – Somalia: Al Shabaab (UK Home Office, nóvember 2020);

·         Country Policy and Information Note – Somalia: Majority clans and minority groups in south and central Somalia (UK Home Office, janúar 2019);

  • Country Policy and Information Note – Somalia (South and Central): Security and humanitarian situation (UK Home Office, nóvember 2020);

·         Country Reports on Terrorism 2019 – Somalia (US Department of State, 24. júní 2020);

·         EASO Country of Origin Information Report. Somalia. Information on the Somali caste of Madhibans (EASO, 29. janúar 2019);

·         EASO Country of Origin Information Report. Somalia Security Situation (EASO, febrúar 2016);

·         EASO Country of Origin Information Report. Somalia Security Situation (EASO, 21. desember 2017);

  • EASO Country of Origin Information Report: South and Central Somalia Country Overview (European Asylum Support Office, ágúst 2014);

·         Freedom in the World 2020 – Somalia (Freedom House, 4. mars 2020);

·         Human Rights in Africa: Review of 2019 (Amnesty International, 8. apríl 2020);

·         Myndigheter och klansystem i Somalia (Lifos, 30. nóvember 2012);

  • No redress: Somalia´s forgotten minorities (Minority rights group international, nóvember 2010);
  • Overlapping claims by Somaliland and Puntland: The case of Sool and Sanaag (Institute for Security Studies, nóvember 2019);
  • Reply by the United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR) in response to request for guidance on the application of the internal flight or relocation alternative, particularly in respect of Mogadishu, Somalia (UNHCR, 25. september 2013);
  • Report of the Independent Expert on the situation of human rights in Somalia (UN Human Rights Council, 19. júlí 2018);

·         Säkerhetssituationen i Somalia (Migrationsverket, 3. júlí 2019);

·         Security Situation in Somalia (European Country of Origin Information network, 28. ágúst 2020);

·         Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 13. febrúar 2020);

  • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 13. maí 2020);
  • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 13. ágúst 2020);
  • Somalia: Al-Shabaab areas in Southern Somalia (Landinfo, 21. maí 2019);
  • Somalia country profile (BBC, 4. janúar 2018);
  • Somalia, First Halfyear 2019: Update on incidents according to the Armed Conflict Location & Event Data Project (ACLED) (ACCORD, 19. desember 2019);
  • Somalia: Health system (The Danish Immigration Service, nóvember 2020);
  • Somalia: Identitetsdokumenter, sivilregistrering og offentlig forvaltning (Landinfo, 6. mars 2020);

·         Somalia: Low status groups (Landinfo, 12. desember 2016);

·         Somalia: Security challenges in Mogadishu (Landinfo, 15. maí 2018);

·         Somalia: Situation of the "Shakhal", "Ajuran", "Shashi", and "Wayten" clans (ACCORD, 15. mars 2004);

  • Somaliland. Puntland State of Somalia. The Land Legal Framework. Situation Analysis. (United Nations Human Settlement Programme, nóvember 2006);

·         South and Central Somalia – Security Situation, al-Shabaab Presence, and Target Groups (Danish Refugee Council, mars 2017);

·         Temanotat Somalia: Klan og identitet (Landinfo, 1. október 2015);

·         The World Factbook – Somalia (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 3. maí 2021);

·         UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum-Seekers from Somalia (UNHCR, 5. maí 2010);

·         UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I) (UNHCR, maí 2016);

·         Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 20. maí 2021) og

  • World Report 2021 – Somalia Events of 2020 (Human Rights Watch, janúar 2021).

Sómalía er sambandslýðveldi með rúmlega 12 milljónir íbúa. Ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Bretum og Ítölum þann 1. júlí 1960. Þann 20. september 1960 gerðist Sómalía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1990. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1975 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1990. Sómalía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2015 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2019.

Í skýrslu EASO frá árinu 2016 kemur fram að árið 1991 hafi brotist út borgarastyrjöld í Sómalíu eftir að vopnaðir andspyrnuhópar hafi steypt þáverandi forseta landsins, Siad Barre, og ríkisstjórn hans af stóli. Næstu ár hafi einkennst af miklum átökum og lögleysu í landinu án þess að starfhæf ríkisstjórn væri við völd. Í ágúst 2012 hafi fyrsta varanlega alríkisstjórnin verið mynduð frá því borgarastyrjöldin hafi hafist. Frá árinu 2009 hafi átök verið bundin við mið- og suðurhluta Sómalíu á milli ríkisstjórnar landsins og bandamanna þeirra annars vegar og íslamskra öfgahópa hins vegar, einkum Al-Shabaab, sem hafi náð stjórn á nokkrum svæðum í landinu. Beri Al-Shabaab m.a. ábyrgð á fjölda hryðjuverkaárása síðustu ár í Sómalíu sem hafi kostað hundruð óbreyttra borgara lífið. Samkvæmt skýrslu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá því í maí 2020 sé almennt öryggisástand í Sómalíu sveiflukennt. Megi rekja það til aukningar hryðjuverkaárása í landinu, fjölgunar glæpa og vopnaðra átaka sem hafi verið viðvarandi frá því í janúar 2020. Al-Shabaab hafi aukið árásir sínar í Mogadishu og í Boosasoo í Bari héraði í Puntlandi.

Í skýrslu búsetunefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2006 kemur fram að í kjölfar borgarastyrjaldarinnar árið 1991 hafi ættbálkar í Norður-Sómalíu ákveðið að lýsa yfir sjálfstæði og stofnað lýðveldið Sómalíland. Héruðin Bari, Nugaal og norðurhluti Mudug hafi sett á fót sjálfstjórnarríkið Puntland í norðausturhluta Sómalíu árið 1998 og hafi ríkið haft sjálfstjórn síðan. Ólíkt Sómalílandi hafi Puntland ekki leitast eftir sjálfstæði frá Sómalíu. Frá árinu 1998 hafi Puntland átt í deilum við Sómalíland um landsvæðin Sool og Sanaag.

Í skýrslu Landinfo frá árinu 2019 kemur fram að Al-Shabaab hafi tekið yfir stjórn stærsta hluta Suður-Sómalíu á árunum 2008 til 2010. Á árunum 2011 til 2015 hafi The African Union Mission in Somalia (AMISOM) og fleiri samtök stjórnvalda tekist að ná stjórn á Mogadishu og í kjölfarið öðrum bæjum Suður-Sómalíu. Þrátt fyrir það hafi Al-Shabaab náð yfirráðum yfir nokkrum bæjum í suðurhluta landsins að nýju á árunum 2016 og 2017 og hafi einnig viss áhrif á þeim svæðum þar sem samtökin hafi ekki varanlega viðveru. Sterkir ættbálkar hafi ákveðið svigrúm til að semja við samtökin en flestir hræðist hefndaraðgerðir þeirra. Al-Shabaab hafi umfangsmikið net uppljóstrara og bandamanna sem fari tiltölulega frjálslega milli landsvæða og séu hópar samtakanna sérstaklega virkir á svæðum þar sem ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar haldi sig. Í skýrslu dönsku flóttamannanefndarinnar frá árinu 2017 kemur fram að ýmsar ástæður geti legið að baki ofsóknum Al-Shabaab. Megi þar m.a. nefna alvarlegar refsiaðgerðir gegn óbreyttum borgurum sem ekki fari eftir reglum og hugmyndafræði samtakanna. Þvinguð nýliðaskráning sé hins vegar óalgeng og eigi sér ekki stað á þeim svæðum sem séu ekki undir fullri stjórn Al-Shabaab. Geti samtökin þó hugsanlega hvatt til þess að einstaklingar gangi til liðs við þau og beitt hópþrýstingi með það að markmiði að þvinga aðila til liðs við sig. Þá hafi Al-Shabaab í einhverjum tilvikum krafist þess að ákveðinn fjöldi ungmenna gangi til liðs við samtökin til að verja tiltekin svæði. Neiti einstaklingur þeirri kröfu geti samtökin krafist einhvers konar bóta og í sumum tilvikum gæti einstaklingur þurft að flýja til að tryggja öryggi sitt.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 er árangursrík vernd stjórnvalda á yfirráðasvæðum Al-Shabaab ekki tiltæk. Ríkisstjórn landsins hafi leitast við að bæta öryggisþjónustu sína með aðstoð AMISOM. Í höfuðborg Sómalíu, Mogadishu, og á öðrum þéttbýlisstöðum þar sem ríkisstjórnin sé við völd séu öryggissveitir veikburða sökum skorts á fjármagni, fullnægjandi búnaði og skorts á þjálfun starfsmanna. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2018 kemur fram að sómalska lögreglan (e. Somali Police Force) sé virk og sýnileg í höfuðborginni Mogadishu. Megináhersla lögreglunnar sé að vernda stofnanir ríkisins gegn árásum Al-Shabaab. Aftur á móti ber heimildum saman um að lögreglan hafi takmarkaða getu til að vernda einstaklinga gegn ofbeldi, þ.m.t. að rannsaka, ákæra og refsa fyrir ofbeldisbrot. Þá kemur fram að spilling sé útbreidd meðal lögreglu og hjá dómstólum.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2019 kemur fram að ættbálkakerfið sé mikilvægur hluti af auðkenni íbúa Sómalíu og að kerfið hafi áhrif á alla þætti samfélagsins. Ættbálkakerfið sé stigskipt en neðst í stigskiptingunni séu fátækir ættbálkar og minnihlutahópar sem tilheyri ekki ættbálkasamfélaginu. Í skýrslunni kemur fram að í Sómalíu séu fjórir stærstu ættbálkarnir Darod, Hawiye, Isaaq og Dir. Samkvæmt skýrslu flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2010 þá séu eftirfarandi ættbálkar almennt taldir til minnihlutahópa í Sómalíu; Bantu/Jareer, Bravense, Rerhamar, Bajuni, Eeyle, Jaaji/Reer Maanyo, Barawani, Galgala, Tumaal, Yibir/Yibron og Midgan/Gaboye. Samkvæmt skýrslu EASO frá árinu 2019 tilheyri minnihlutahópar lægstu stétt sómalska samfélagsins og þeir sem tilheyri minnihlutahópi séu oft kallaðir ,,stéttleysingar“ (e. outcaste groups) eða Sab.

Samkvæmt skýrslu Rauða krossins í Ástralíu nýtur ættbálkurinn […] tiltekinnar trúarlegrar stöðu sem veitir meðlimum hans ákveðin forréttindi í öllum hlutum Sómalíu. Við lok borgarastyrjaldarinnar í Sómalíu árið 1992 mynduðu meðlimir ættbálksins […] tengsl við ættbálkinn Hawiye sem styrkti pólitíska stöðu og áhrif […] til muna. Jafnframt gerði það meðlimum […] kleift að leita verndar hjá Hawiye. Samkvæmt skýrslu ACCORD er þó misjafnt eftir heimildum hvort […] teljist sem minnihlutahópur eða heyri undir Hawiye. Ráða má að […] séu aðallega frá suðurhluta eða miðju Sómalíu og Austur-Eþíópíu. Í Sómalíu séu meðlimir ættbálksins þekktir sem […] en í Eþíópíu séu þeir þekktir sem […]. Meðlimir […] telji uppruna sinn mega rekja til arabískra ætta þó sumir ættfræðingar líti á þá sem hluta af ættbálkinum Hawiye. Almennt séu meðlimir […] ekki búsettir á tilteknum svæðum í Sómalíu heldur dvelji þeir ýmist í Mogadishu, Belet Wayne, Joqhar, Juba og Gedo sem er þó allt í suðurhluta landsins. Meðlimum […] í Mogadishu hafi verið ógnað á heimaslóðum sínum allt frá árinu 1990 en þar sem meðlimir ættbálksins beri ekki vopn geti þeir ekki varið sig og hafi því þurft að leita verndar hjá Hawiye ættbálkinum. Ekki höfðu verið skráð nein nýleg dæmi um mannréttindabrot gagnvart meðlimum […] árið 2014 samkvæmt skýrslu EASO frá sama ári.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir á því að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu samtakanna Al-Shabaab í heimaríki sínu. Kærandi sé frá suðurhluta Sómalíu þar sem samtökin hafi yfirráð og ítök á stóru svæði. Faðir kæranda hafi verið myrtur af Al-Shabaab eftir að samtökin hafi komist að því að hann ynni fyrir stjórnarherinn þar í landi. Kærandi hafi í kjölfarið verið tekinn höndum af samtökunum og haldið föngnum þar til honum hafi verið bjargað.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum við hann hjá Útlendingastofnun, viðtali hjá kærunefnd þann 6. maí 2021, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd hefur kærandi haldið því staðfastlega fram að vera fæddur í Garbahaarey og hafa alist upp í Jilib sem hvort tveggja eru bæir í suðurhluta Sómalíu. Við mat Útlendingastofnunar á búsetu kæranda var m.a. byggt á niðurstöðu tungumálaprófs um að kærandi talaði mállýskuna Northern Somali og á því að kærandi hafði verið búsettur tímabundið, að eigin sögn, í Garowe í Puntlandi og lagði fram ljósmynd af vegabréfi útgefnu af stjórnvöldum þar. Útlendingastofnun lagði til grundvallar að kærandi væri frá Puntland í norðurhluta Sómalíu og tók niðurstaða stofnunarinnar því einungis mið af aðstæðum í norðurhluta Sómalíu.

Í skýrslu fyrirtækisins sem gerði tungumálaprófið fyrir Útlendingastofnun koma fram ákveðnir fyrirvarar varðandi gildi prófsins. Tekið er sérstaklega fram að engar rannsóknir hafi verið gerðar á mállýskum í Sómalíu frá áttunda áratug síðustu aldar að undanskilinni einni rannsókn sem gerð var í Hargeisa í Sómalílandi árið 1999. Þá hafi fólksflutningar innanlands verið talsverðir vegna átaka síðustu ára og því óvarlegt að gefa þessu mati á mállýsku of mikið vægi.

Kærunefnd telur að þessi fyrirvari dragi nokkuð úr vægi tungumálaprófa vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd sem kveðast vera frá Sómalíu og óttist ofsóknir þar í landi. Af þeim sökum er sérstök ástæða til að líta jafnframt til annarra gagna sem gefa til kynna uppruna umsækjenda, þ.m.t. trúverðugleika framburðar umsækjanda sjálfs varðandi uppruna sinn og um þá atburði og aðstæður sem hann telur leggja grundvöll að umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Að mati kærunefndar er jafnframt þörf á varfærnu mati umsókna frá umsækjendum sem kveðast vera frá þeim svæðum Sómalíu þar sem líf þeirra kann að vera í hættu vegna langvarandi átaka og óstöðugleika.

Kærandi hefur ekki fært fram annað en framburð sinn sem sýnir fram á að hann hafi fæðst í Garbahaarey og alist upp í Jilib í suðurhluta Sómalíu. Verður því einkum að leggja mat á uppruna kæranda á grundvelli framburðar hans við meðferð málsins. Eins og fram er komið gekkst kærandi undir tungumála- og staðháttapróf við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun þar sem niðurstaðan var sú að kærandi talaði mállýskuna Northern Somali. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að dvöl hans í Garowe gæti hafa haft áhrif á mállýsku hans og var sá fyrirvari jafnframt settur fram í niðurstöðum tungumálaprófsins. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun var kærandi spurður út í ýmsa staðhætti í Jilib. Kærandi gat m.a. greint frá því hvar Jilib er staðsett í Sómalíu, hvaða staðir séu nálægt og nafnið á ánni sem rennur þar í gegn, þ.e. Juba. Jafnframt gat kærandi lýst því hvar Garbahaarey er staðsett. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi spurður út í staðhætti í Garowe þar sem hann kveðst hafa dvalið í flóttamannabúðum. Ráða má af landakorti að flóttamannabúðir í Garowe eru staðsettar á opnu svæði rétt austan við borgina. Svör kæranda voru í samræmi við það en hann kvaðst hafa verið staðsettur í úthverfi Garowe þar sem sólin hafi komið upp, þ.e. í austri. Kærandi greindi jafnframt frá því að búðirnar hafi verið á opnu svæði og engin sérstök kennileiti í kring, t.d. fjöll eða á. Sú frásögn kæranda er samrýmanleg upplýsingum samkvæmt landakorti.

Í viðtali kæranda hjá kærunefnd greindi hann frá ástæðum flótta síns frá heimaríki sínu. Kærandi greindi frá því að faðir hans hafi unnið fyrir stjórnarher Sómalíu í Garbahaarey í suðurhluta landsins. Faðir kæranda hafi ekki heimsótt fjölskylduna oft þar sem hann hafi ekki viljað stofna fjölskyldu sinni í hættu en kærandi kvað einstaklinga sem ynnu fyrir stjórnvöld vera skotmörk Al-Shabaab. Faðir kæranda hafi heimsótt fjölskyldu kæranda í eitt sinn og meðlimir samtakanna komist að því og jafnframt við hvað hann hafi starfað. Faðir kæranda hafi verið afhöfðaður fyrir framan kæranda og kærandi í kjölfarið verið tekinn höndum og haldið föngnum af samtökunum. Kæranda hafi verið haldið í eins konar skógi ásamt fleiri föngum en hafi náð að flýja og síðar verið bjargað þegar þyrlur hermanna stjórnarhersins hafi flogið yfir svæðið. Það hafi skapað ringulreið meðal meðlima Al-Shabaab og kærandi nýtt tækifærið til að flýja. Kærandi hafi ekki vitað hvar eiginkona sín og börn væru staðsett og því flúið Sómalíu einsamall frá Mogadishu.

Að mati kærunefndar var framburður kæranda stöðugur og í samræmi við fyrri frásögn hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Lítið sem ekkert misræmi var í frásögn kæranda. Að mati kærunefndar var kærandi trúverðugur í frásögn sinni um uppruna sinn, búsetu, fjölskylduaðstæður og ástæðu flótta síns. Þá bera heimildir með sér, m.a. fyrrnefnd skýrsla ACCORD, að meðlimir ættbálksins […], sem kærandi kveðst tilheyra, séu einkum frá suðurhluta Sómalíu, þ. á m. Mogadishu. Heimildir benda ekki til þess að meðlimir ættbálksins hafi tengsl við norðurhluta landsins. Ekki verður séð að Útlendingastofnun hafi skoðað það sérstaklega við meðferð málsins. Með vísan til þess að kærandi hefur staðfastlega haldið því fram að vera frá suðurhluta Sómalíu og hafa verið búsettur í Jilib og þekkingu hans á staðháttum á því svæði sem um ræðir telur kærunefnd að leggja megi til grundvallar í málinu að kærandi hafi verið búsettur í Jilib í Sómalíu þar til hann hafi lagt á flótta frá landinu. Verður því tekið mið af aðstæðum á því svæði við mat á því hvort kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Að framangreindu virtu telur kærunefnd, með tilliti til trúverðugleika kæranda og þess að meta skuli vafa kæranda í hag, ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar að kærandi hafi verið hnepptur í varðhald af hryðjuverkasamtökunum Al-Shabaab og verið haldið föngnum þar í kjölfar þess að meðlimir samtakanna hafi myrt föður hans. Þá má ætla að þau afskipti sem Al-Shabaab hafi haft af kæranda geti leitt til þess að hann verði í aukinni hættu á að verða fyrir ofsóknum af hálfu samtakanna verði honum gert að fara aftur til heimaríkis. Frásögn kæranda um að meðlimir samtakanna beini vopnum sínum einkum að starfsmönnum og stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar fær stuðning í þeim gögnum og heimildum sem kærunefnd hefur skoðað. Frásögn kæranda um að ekki sé hægt að fá vernd stjórnvalda í heimaríki hans fær jafnframt stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað. Bera gögnin með sér að í mið- og suðurhluta Sómalíu sé réttarvörslukerfið veikburða og óskilvirkt og að einstaklingar geti ekki notið verndar yfirvalda vegna hættu sem tengist átökum milli ættbálka eða minnihlutahópa. Með vísan til þess og heildstæðs mat á aðstæðum kæranda í heimaríki hans telur kærunefnd að kærandi hafi með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann kunni að eiga á hættu ofsóknir sem rekja megi til aðstæðna hans í heimaríki og að hann teljist því flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Mat á möguleika á flutningi innanlands

Þó svo að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi sýnt fram á ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum á því landsvæði sem hann býr, er heimilt að synja umsókn um alþjóðlega vernd ef umsækjandi getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga segir að niðurstaða um hvort útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands skuli byggð á einstaklingsbundnu mati á persónulegum aðstæðum útlendingsins og þeim aðstæðum sem séu í því landi. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði sem talið er öruggt samkvæmt ákvæði þessu skuli tekið tillit til ýmissa þátta, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun. Við mat samkvæmt ákvæðinu skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Guidelines on International Protection: „Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context og Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, frá 23. júlí 2003).

Í leiðbeiningunum, sem varða möguleika á flutningi innanlands þegar einstaklingur hefur flúið heimaríki af ástæðuríkum ótta við ofsóknir, er lagt til grundvallar að mat á því hvort möguleiki sé á að einstaklingur geti flust búferlum til annars svæðis í heimaríki sé tvíþætt. Annars vegar verði að kanna hvort flutningur innanlands sé raunhæft úrræði. Að því er mál kærenda varðar kemur í þessu sambandi einkum til athugunar hvort það svæði sem lagt er til að hann flytjist til sé aðgengilegt á öruggan og löglegan hátt og hvort flutningur hans þangað skapi hættu á að kærandi verði fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Hins vegar beri að kanna hvort viðkomandi geti, með hliðsjón af aðstæðum í heimaríki hans, lifað tiltölulega eðlilegu lífi án þess að standa frammi fyrir óþarfa erfiðleikum. Við þann þátt matsins verður m.a. að horfa til persónulegra aðstæðna viðkomandi, t.a.m. félags- og efnahagslegra aðstæðna á því svæði sem lagt er til. Í leiðbeiningunum segir m.a. um síðastnefnt atriði að það sé ósanngjarnt að ætlast til þess lífsviðurværi einstaklings verði lægra en það sem talist geti viðunandi eða að viðkomandi búi við eymd.

Líkt og fram hefur komið kveðst kærandi vera fæddur í Garbahaarey og uppalinn í Jilib í suðurhluta Sómalíu. Kærunefnd hefur lagt til grundvallar að kærandi eigi á hættu ofsóknir verði honum gert að fara aftur til suðurhluta Sómalíu. Kemur þá til skoðunar hvort raunhæft og sanngjarnt sé að ætlast til þess að kærandi setjist að annarsstaðar í heimaríki sínu. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt ríki til að endursenda ekki einstaklinga til mið-Sómalíu eða suðurhluta landsins, einkum vegna hernaðaraðgerða af hálfu vopnaðra hópa sem þar hafi átt sér stað lengi, sbr. skýrsla stofnunarinnar frá 2016, UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I). Í leiðbeiningum stofnunarinnar um mat á innri flutningi í Sómalíu frá 2013 kemur jafnframt fram að almennt sé ekki sanngjarnt að ætlast til að einstaklingur setjist að annarsstaðar í landinu nema ljóst sé að hann muni njóta stuðnings fjölskyldu sinnar eða ættbálkar. Kærandi hefur greint frá því að faðir hans hafi verið myrtur og að fjölskylda hans búi í dag í Garbahaarey eftir að hafa neyðst til að flýja býli sitt í Jilib. Í viðtali hjá kærunefnd greindi kærandi frá því að fjölskylda hans dvelji í húsnæði þar sem þau njóti aðstoðar. Jafnframt hefur kærandi greint frá því að hann viti ekki hvar eiginkona sín og börn séu staðsett í dag en hann hafi síðast heyrt frá þeim áður en hann hafi verið tekinn höndum af Al-Shabaab. Í ljósi frásagnar kæranda telur kærunefnd ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar að kærandi eigi ekki fjölskyldu í heimaríki sínu sem geti veitt honum stuðning. Verður jafnframt ekki talið að hann muni geta notið stuðnings minnihlutaættbálksins […] sem hann kveðst tilheyra. Er það því mat kærunefndar að ekki sé raunhæft eða sanngjarnt að ætlast til þess af kæranda að hann setjist að annarsstaðar í heimaríki sínu, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður hér á landi.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa, þrautavarakrafa og þrautaþrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.

 

 

 


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum