Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20f%C3%A9lagsm%C3%A1lar%C3%A1%C3%B0uneytis

Úrskurður félagsmálaráðuneytisins 6/2020

Mánudaginn 21. september 2020 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi til félagsmálaráðuneytisins, dags. 10. maí 2019, sbr. einnig erindi til ráðuneytisins, dags 19. júní 2019, kærði […] lögfræðingur, fyrir hönd Lambhaga gróðrarstöðvar ehf., kt. 430709-1860, og […], sem er albanskur ríkisborgari, fd. […], ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. maí 2019, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] í því skyni að ráða sig til starfa hjá Lambhaga gróðrarstöð ehf.

 

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […], sem er albanskur ríkisborgari, í því skyni að ráða sig til starfa hjá Lambhaga gróðrarstöð ehf. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til 8. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.

Þeirri ákvörðun vildu kærendur ekki una og kærðu þeir ákvörðunina til ráðuneytisins með bréfi, dags. 10. maí 2019, sbr. einnig erindi til ráðuneytisins, dags 19. júní 2019.

Í erindi kærenda til ráðuneytisins, dags. 19. júní 2019, kemur meðal annars fram að viðkomandi útlendingur hafi lokið háskólamenntun og er í því sambandi vísað til umsagnar kennslustjóra við Landbúnaðarháskóla Íslands. Í erindinu kemur jafnframt fram að um sé að ræða gráðu í landbúnaðarhagfræði sem sé sambærileg prófgráða og B.S. gráða innan Evrópu en námið sé þó ekki sambærilegt búvísindanámi við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Fram kemur í erindi kærenda að lögfræðingur kærenda hafi í desember 2018 fundað með hlutaðeigandi atvinnurekanda í tengslum við umrædda umsókn um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi til handa viðkomandi útlendingi, meðal annars vegna þess skilyrðis í lögum um atvinnuréttindi útlendinga að fyrir skuli liggja umsögn stéttarfélags í hlutaðeigandi starfsgrein áður en unnt sé að veita tímabundið atvinnuleyfi hér á landi. Hafi lögfræðingur kærenda jafnframt fundað með starfsmanni Félags iðn- og tæknigreina þar sem samkomulag hafi náðst um laun fyrir viðkomandi útlending á grundvelli launatöflu samkvæmt gildandi kjarasamningi í þeirri starfsgrein sem um ræðir. Hafi lögfræðingur kærenda í kjölfarið borið þá niðurstöðu undir hlutaðeigandi atvinnurekanda sem hafi fallist á að greiða viðkomandi útlendingi umrædd laun. Í ljósi þess hafi lögfræðingurinn aflað umsagnar Félags iðn- og tæknigreina vegna umræddar umsóknar um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi til handa viðkomandi útlendingi.

Þá kemur fram í erindi kærenda að það eina sem að þeirra mati hafi staðið í vegi fyrir því að Vinnumálastofnun hafi samþykkt veitingu tímabundins atvinnuleyfis hér á landi til handa viðkomandi útlendingi hafi verið þau laun sem fyrirhugað hafi verið að greiða fyrir það starf sem um ræðir. Hafi lögfræðingur kærenda upplýst Vinnumálastofnun um að hann teldi ekki koma til greina að breyta þeim launum sem við væri miðað þar sem ákvörðun um fyrirhuguð laun væri tekin í samráði við framangreint stéttarfélag.

Enn fremur er það rakið í erindi kærenda að umrætt starf sé í pökkunardeild þess félags sem um ræðir og að þess sé vænst að menntun viðkomandi útlendings á sviði landbúnaðarhagfræði komi til með að nýtast við pökkun afurða og við heilbrigðiseftirlit hjá félaginu. Þá hafi hlutaðeigandi atvinnurekandi mikinn áhuga sem og þörf fyrir að ráða viðkomandi útlending til starfa.

Þá kemur fram í erindi kærenda að þær tafir sem orðið hafi á leyfisveitingu til handa viðkomandi útlendingi hafi að mati kærenda haft skaðleg áhrif fyrir viðkomandi útlending og dætur hans auk þess sem tafirnar hafi haft óhagræði í för með sér fyrir hlutaðeigandi atvinnurekanda. Að mati kærenda hafi ákvörðun Vinnumálastofnun um synjun á umræddu atvinnuleyfi þar með verið í andstöðu við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Erindi kærenda var sent Vinnumálastofnun til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 22. júlí 2019. Í bréfinu óskaði ráðuneytið sérstaklega eftir upplýsingum um hvaða sjónarmið hafi legið til grundvallar mati Vinnumálastofnunar á því hvort umrætt starf krefðist sérfræðiþekkingar í skilningi 8. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga. Var þess óskað að umbeðin umsögn bærist ráðuneytinu fyrir 9. ágúst 2019.

Með tölvubréfi, dags. 13. ágúst 2019, óskaði Vinnumálastofnun eftir frekari fresti til að veita ráðuneytinu umbeðna umsögn. Með tölvubréfi ráðuneytisins til Vinnumálastofnunar, dags. sama dag, var umbeðinn frestur veittur til 21. ágúst 2019.

Í umsögn sinni, dags. 23. ágúst 2019, ítrekaði Vinnumálastofnun afstöðu stofnunarinnar sem fram kemur í synjunarbréfi stofnunarinnar, dags. 2. maí 2019, þess efnis að í máli þessu hafi skilyrði c-liðar 7. gr., sbr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, ekki verið uppfyllt. Fram kemur að umsóknin hafi borist stofnuninni til afgreiðslu þann 5. október 2018 og að stofnunin hafi tekið ákvörðun um að synja umræddri beiðni um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi með bréfi, dags. 4. desember 2018. Á grundvelli beiðni frá kærendum hafi Vinnumálastofnun aftur á móti í janúar 2019 fallist á endurupptöku málsins í kjölfar þess að stofnuninni hafi borist frekari upplýsingar vegna umsóknarinnar.

Fram kemur í umsögn Vinnumálastofnunar að samkvæmt umsóknargögnum hafi legið fyrir að sótt hafi verið um atvinnuleyfi vegna starfs sem krefðist sérfræðiþekkingar og hafi meðferð umsóknarinnar verið hagað í samræmi við það. Í kjölfar endurupptökubeiðni kærenda hafi stofnunin kallað eftir nánari upplýsingum um það starf sem um ræðir, svo sem hvaða kröfur það gerði til sérfræðiþekkingar þess starfsmanns sem kæmi til með að gegna því, auk þess sem stofnunin hafi óskað eftir nánari upplýsingum um menntun viðkomandi útlendings. Í svörum hlutaðeigandi atvinnurekanda, dags. 11. og 18. febrúar 2019, hafi komið fram að umrætt starf krefðist sérþekkingar í ræktun og plöntufræðum, sáningu og uppskeru. Jafnframt hafi komið fram að mikilvægt væri að til starfans yrði ráðinn einstaklingur sem hefði viðeigandi menntun en í því sambandi benti hlutaðeigandi atvinnurekandi á að viðkomandi útlendingur hefði lokið námi við landbúnaðarháskóla í Tirana auk þess sem viðkomandi útlendingur hefði áratuga reynslu af ræktunarstörfum. Þá hafi verið tekið fram að sá starfmaður sem ráðinn yrði til að gegna umræddu starfi myndi ganga í öll störf í tengslum við gæðaeftirlit og eftirlit með framleiðslu en að mati hlutaðeigandi atvinnurekanda kæmi sérfræðimenntun viðkomandi útlendings, fjölhæfni hans og starfsreynsla til góða í því sambandi.

Í umsögn Vinnumálastofnunar tekur stofnunin jafnframt fram að við endurupptöku málsins hafi henni borist frekari gögn frá kærendum þar sem fram hafi komið að menntun viðkomandi útlendings væri ígildi B.S. gráðu á fræðasviði landbúnaðarstarfsemi og hagfræði. Enn fremur kemur fram að það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að með vísan til starfslýsingar og eðlis starfsins eins og því hafi verið lýst í fyrrnefndum svörum hlutaðeigandi atvinnurekanda hafi verið um að ræða starf sem krefðist umtalsverðrar sérhæfingar þess sem kæmi til með að gegna því auk þess sem viðkomandi myndi bera ábyrgð á ræktunarsvæðum, sáningu og uppskeru. Með hliðsjón af því hafi stofnunin fallist á að um væri að ræða starf sem krefðist sérfræðiþekkingar í skilningi b- og c-liðar 1. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga og að viðkomandi útlendingur byggi yfir sérfræðiþekkingu á háskólastigi sbr. d-lið 1. mgr. 8. gr. laganna sem myndi nýtast í umræddu starfi.

Fram kemur að í ljósi þess hafi komið til skoðunar hvort almenn skilyrði 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis væru uppfyllt. Í því sambandi vísar Vinnumálastofnun til þess í umsögn sinni að þann 19. mars 2019 hafi stofnunin óskað eftir að gerðar yrðu úrbætur á fyrirhuguðum launakjörum viðkomandi útlendings en samkvæmt framlögðum gögnum hafi laun verið ákveðin 337.000 kr. á mánuði. Hafi Vinnumálastofnun talið launakjörin of lág fyrir umrætt starf þar sem starfið krefðist sérfræðiþekkingar og taldi stofnunin að launin ættu að taka mið af launataxta garðyrkjufræðings með viðurkennt viðbótarnám, sbr. launatöflu Samiðnar og Sambands garðyrkjubænda. Hafi sú fjárhæð numið að lágmarki 401.569 kr. á mánuði skv. kjarasamningi.

Þá kemur fram í umsögn Vinnumálastofnunar að stofnunin hafi veitt hlutaðeigandi atvinnurekanda tveggja vikna frest til að bregðast við framangreindri athugasemd stofnunarinnar með því að gera úrbætur á fyrirhuguðum launakjörum viðkomandi útlendings. Hafi stofnunin auk þess þrívegis veitt frekari fresti til að bregðast við fyrrnefndri athugasemd stofnunarinnar. Þá hafi lögfræðingur kærenda komið á fund hjá Vinnumálastofnun í því skyni að koma sjónarmiðum kærenda á framfæri. Hafi Vinnumálastofnun á þeim fundi ítrekað það mat stofnunarinnar að gera þyrfti úrbætur á fyrirhuguðum launakjörum viðkomandi útlendings svo unnt væri að veita umbeðið atvinnuleyfi. Þar sem úrbætur hafi ekki verið gerðar, þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir Vinnumálastofnunar, hafi stofnunin tekið ákvörðun í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna og hafi umræddri umsókn um tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar verið synjað þann 2. maí 2019 með vísan til þess að skilyrði c-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, væru ekki uppfyllt, enda hefði hlutaðeigandi atvinnurekandi ekki brugðist við ítrekuðum athugasemdum stofnunarinnar, meðal annars þann 19. mars 2019, með því að gera úrbætur á fyrirhuguðum launakjörum viðkomandi útlendings.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 2. september 2019, óskaði ráðuneytið eftir athugasemdum kærenda við umsögn Vinnumálastofnunar. Óskaði ráðuneytið sérstaklega eftir upplýsingum um ástæður þess að ekki hafi verið gerðar úrbætur á launakjörum viðkomandi útlendings í ljósi þess að það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að þau laun sem fyrirhugað væri að greiða viðkomandi útlendingi vegna þess starfs sem um ræðir væru of lág miðað við að um væri að ræða starf sem krefðist sérfræðiþekkingar. Var þess óskað að umbeðnar athugasemdir og upplýsingar bærust ráðuneytinu fyrir 17. september 2019.

Með tölvubréfi, dags. 10 september 2019, ítreka kærendur áður fram komin sjónarmið sín í málinu. Jafnframt kemur fram það mat kærenda að óumdeilt sé milli aðila að skilyrði 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga séu uppfyllt í málinu en ágreiningur aðila snúi aðeins að launakjörum viðkomandi útlendings samkvæmt ráðningarsamningi. Telja kærendur að fjárhæð grunnlauna sem náðst hafi samkomulag um við Félag iðn- og tæknigreina séu ekki ósanngjörn laun vegna þess starfs sem um ræðir, enda sé um að ræða byrjunarlaun sem að mati kærenda muni breytast hratt. Í því sambandi benda kærendur á að eitt af almennum skilyrðum 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga sé að fyrir liggi umsögn stéttarfélags eða landssambands launafólks í hlutaðeigandi starfsgrein. Þá hafna kærendur því alfarið að umrædd launakjör hafi verið ákveðin of lág og vísa í því sambandi meðal annars til byrjunarlauna samkvæmt öðrum kjarasamningum en um ræðir í máli þessu. Enn fremur hafna kærendur mati Vinnumálastofnunar þess efnis að miða skuli byrjunarlaun við launataxta garðyrkjufræðings með viðurkennt viðbótarnám. Að mati kærenda hafi Vinnumálastofnun farið offari í túlkun sinni á skilyrðum 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga og hafi þannig brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, er atvinnurekanda og útlendingi sameiginlega heimilt að kæra til félagsmálaráðuneytisins ákvarðanir Vinnumálastofnunar á grundvelli laganna. Í máli þessu er kærð ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. maí 2019, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 8. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.

Atvinnuleyfi vegna starfa útlendinga á innlendum vinnumarkaði eru veitt í samræmi við lög um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, reglugerðir sem settar eru með heimild í þeim lögum og stefnu íslenskra stjórnvalda hverju sinni að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga þeirra.

Samkvæmt 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, er heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs hér á landi sem krefst sérfræðiþekkingar. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæðinu eru meðal annars að starfið sé samkvæmt lögum eða venju hér á landi þess eðlis að það krefjist þess að sá sem gegnir því búi yfir tiltekinni sérfræðiþekkingu, auk þess sem sérfræðiþekking þess útlendings sem í hlut á hverju sinni sé nauðsynleg hlutaðeigandi fyrirtæki og feli í sér háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun sem viðurkennd er hér á landi, sbr. b-, c- og d-lið 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun óski staðfestingar á menntun þess útlendings sem í hlut á hverju sinni með viðeigandi skilríkjum í samræmi við íslenskar reglur telji stofnunin slíkt nauðsynlegt.

Í athugasemdum við 6. gr. frumvarps þess er varð að 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. lög nr. 78/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, kemur meðal annars fram að miðað sé við „að tiltekinn útlendingur hafi til að bera sérfræðiþekkingu sem er nauðsynleg hlutaðeigandi fyrirtæki.“ Jafnframt kemur fram að með ákvæðinu sé „leitast við að koma til móts við þarfir atvinnulífsins um sérfræðiþekkingu sem ekki er fáanleg meðal þeirra sem þegar hafa aðgengi að innlendum vinnumarkaði.“ Þá kemur fram að lagt sé „til að meginreglan verði að sérfræðiþekking hlutaðeigandi útlendinga takmarkist við háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun sem viðurkennd er hérlendis auk þess að fullnægja þeim menntunarkröfum sem gerðar eru til starfsins hér á landi og að laun og önnur starfskjör séu til jafns við heimamenn í sömu störfum.“

Með 122. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, var 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga breytt en fram kemur í athugasemd með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 80/2016, um útlendinga, að við mat á því hvort um sé að ræða starf sem krefst sérfræðiþekkingar „skuli líta til gildandi laga á hverjum tíma sem og venju hér á landi þar sem miðað skuli við að um sé að ræða starf sem krefst sérfræðiþekkingar þegar það starf sem um ræðir er þess eðlis að aðrir en þeir sem hafa tiltekna sérfræðiþekkingu geti ekki gegnt því. Er því ekki gert ráð fyrir að starf teljist starf sem krefst sérfræðiþekkingar af þeirri ástæðu einni að atvinnurekandi óski eftir að starfsmaður með tiltekna sérfræðiþekkingu gegni því þegar um er að ræða starf þar sem almennt eru ekki gerðar slíkar kröfur til þeirra sem slíkum störfum gegna samkvæmt íslenskum lögum eða venju á innlendum vinnumarkaði.“ Þá segir enn fremur að þetta hafi verið lagt til „þar sem mikilvægt þykir að kveða skýrt á um í 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga til hvaða sjónarmiða Vinnumálastofnun skuli líta við mat á því hvort tiltekið starf sé þess eðlis að það krefjist sérfræðiþekkingar þess sem ráðinn verður til að gegna því. Á þetta ekki síst við svo Vinnumálastofnun verði unnt að leggja mat á hvort skilyrði ákvæðisins hvað varðar eðli starfsins sem um ræðir sé uppfyllt áður en lagt er mat á hvort þau skilyrði sem fram koma í ákvæðinu og lúta að sérþekkingu viðkomandi útlendings sem ætlað er að gegna starfinu séu uppfyllt.“

Af efni ákvæðis 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, má því ráða að tilgangur ákvæðisins sé meðal annars að koma til móts við þarfir atvinnulífsins hvað varðar sérfræðiþekkingu sem ekki er fáanleg meðal þeirra sem þegar hafa aðgengi að innlendum vinnumarkaði í þeim tilvikum þegar starf er þess eðlis að ekki er unnt að gegna því nema hlutaðeigandi starfsmaður hafi til að bera tiltekna sérfræðiþekkingu í formi menntunar sem tilgreind er í d-lið 1. mgr. ákvæðisins. Líkt og ákvæðið kveður á um er þá við það miðað að það starf sem um ræðir sé þess eðlis að sá sem því gegnir þurfi að búa yfir tiltekinni háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun sem viðurkennd er hér á landi til að geta gegnt starfinu.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna er Vinnumálastofnun í undantekningartilvikum heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli ákvæðisins ef viðkomandi útlendingur hefur yfir að ráða sérþekkingu sem jafna má við þá menntun sem tilgreind er í d-lið 1. mgr. ákvæðisins. Í slíkum tilvikum er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun óski staðfestingar á sérþekkingu í samræmi við íslenskar reglur ef stofnunin telur slíkt nauðsynlegt.

Í athugasemdum við 6. gr. frumvarps þess er varð að 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. lög nr. 78/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, kemur meðal annars fram að með þessu sé „átt við sérþekkingu útlendings sem byggist á langri starfsreynslu við tiltekið starf sem leiðir til sérhæfðrar fagþekkingar hans og að sú sérþekking verði ekki fengin með öðrum hætti. Mikilvægt er að unnt sé að sýna fram á starfsreynslu útlendings við tiltekin störf en hér er ekki átt við þekkingu sem útlendingur kann að afla sér með þátttöku í einstökum námskeiðum.“ Að mati ráðuneytisins má því ætla að undantekning 2. mgr. 8. gr. laganna lúti að þeirri sérþekkingu sem sá sem gegnir starfi sem krefst sérfræðiþekkingar í skilningi laganna býr yfir og að jafna megi þeirri sérþekkingu við þá menntun sem talin er upp í d-lið 1. mgr. 8. gr. laganna.

Það er því lögbundið skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis á grundvelli 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, að um sé að ræða starf sem krefst sérfræðiþekkingar. Það er jafnframt lögbundið skilyrði fyrir veitingu framangreinds atvinnuleyfis að sá útlendingur sem í hlut á hverju sinni hafi lokið tiltekinni háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun sem viðurkennd er hér á landi eða hafi í undantekningartilvikum yfir að ráða sérfræðiþekkingu sem jafna má við fyrrnefnda menntun að öðrum skilyrðum ákvæðisins uppfylltum, sbr. einnig b- og d-lið 1. mgr. ákvæðisins. Þá er það skilyrði að sérfræðiþekking útlendingsins sem í hlut á sé nauðsynleg hlutaðeigandi fyrirtæki, sbr. c-lið 1. mgr. sama ákvæðis.

Í ljósi framangreinds er Vinnumálastofnun skylt að meta hvort það starf sem um ræðir hverju sinni sé þess eðlis að það krefjist þess að sá sem því gegnir búi yfir ákveðinni sérfræðiþekkingu, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, áður en tímabundið atvinnuleyfi er veitt á grundvelli ákvæðisins. Við framangreint mat ber stofnuninni jafnframt að líta til þess hvort hér á landi séu gerðar sérstakar kröfur til þeirra sem gegna sambærilegum störfum án tillits til þess hvaða reglur gilda um sambærileg störf í öðrum ríkjum. Er þá átt við kröfur um að þeir sem gegna umræddu starfi hér á landi búi yfir tiltekinni háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun eða í undantekningartilvikum langri starfsreynslu sem leiði til sérhæfðrar fagþekkingar sem nauðsynleg sé til að viðkomandi starfsmanni sé unnt að gegna starfinu og jafna megi við fyrrgreinda menntun. Er því ekki átt við hvers konar kröfur um þekkingu eða hæfni sem vinnuveitandi kýs að gera til þeirra einstaklinga sem hann ræður til starfa sem krefjast ekki sérfræðiþekkingar í skilningi 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum. Enda þótt ætla verði atvinnurekendum ákveðið svigrúm í því sambandi eiga slíkar kröfur að mati ráðuneytisins almennt ekki undir 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.

Þrátt fyrir að starf sé þess eðlis að það krefjist sérfræðiþekkingar er það skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna slíks starfs að skilyrði a-e-liða 1. mgr. 7. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga séu uppfyllt. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga skal liggja fyrir undirritaður ráðningarsamningur milli atvinnurekanda og útlendings til tiltekins tíma eða vegna verkefnis sem tryggi útlendingnum laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga þar um. Þegar um er að ræða störf sem falla utan gildissviðs kjarasamninga skal tryggja útlendingnum laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn en við mat á því hvort svo sé er Vinnumálastofnun meðal annars heimilt að líta til viðmiðunarfjárhæða samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald sem og upplýsinga frá Hagstofu Íslands og launakannana sem gerðar hafa verið af óháðum aðilum.

Af efni ákvæðis c-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. einnig a-lið 1. mgr. 8. gr. laganna, má því að mati ráðuneytisins ráða, að mat Vinnumálastofnunar á því hvort skilyrði ákvæðisins fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis séu uppfyllt skuli meðal annars byggjast á því hvort tryggt sé að laun og önnur starfskjör viðkomandi útlendings samkvæmt ráðningarsamningi séu til jafns við heimamenn í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga þar um.

Mál þetta lýtur að umsókn um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi vegna starfs hjá gróðrarstöð. Af gögnum málsins má ráða að starfið feli í sér umsjón með ræktunarsvæðum, sáningu og uppskeru auk þess sem að þeim starfsmanni sem ráðinn verður til að gegna starfinu er ætlað að sinna verkefnum í pökkunardeild gróðrarstöðvarinnar, meðal annars við pökkun og heilbrigðiseftirlit. Má jafnframt ráða af fyrirliggjandi gögnum málsins að hlutaðeigandi atvinnurekandi telji starfið krefjast umtalsverðar sérhæfingar.

Þá má af gögnum málsins ráða að Vinnumálastofnun hafi í ljósi framangreinds fallist á að um sé að ræða starf sem krefjist sérfræðiþekkingar í skilningi 1. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga og að viðkomandi útlendingur búi yfir sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg sé til að gegna starfinu og þar með séu uppfyllt skilyrði c- og d-liðar 1. mgr. 8. gr. laganna fyrir veitingu umrædds atvinnuleyfis.

Ágreiningurinn í máli þessu lýtur að almennum skilyrðum 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga eða nánar tiltekið að því hvort laun samkvæmt fyrirliggjandi ráðningarsamningi milli viðkomandi útlendings og hlutaðeigandi atvinnurekanda uppfylli þau skilyrði sem fram koma í c-lið ákvæðisins.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er það skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis samkvæmt 8. gr. sömu laga, vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, að fyrir liggi undirritaður ráðningarsamningur milli atvinnurekanda og útlendings sem tryggi viðkomandi útlendingi laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga. Við framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga hefur því verið lögð áhersla á mikilvægi þess að komið verði í veg fyrir, eins vel og unnt er, að í ráðningarsamningi viðkomandi útlendinga sé kveðið á um lakari laun en heimamenn njóta. Í því sambandi vísast til 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, en þar segir að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skuli vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til.

Að mati ráðuneytisins er ekki nægjanlegt að fyrir liggi umsögn stéttarfélags eða landssambands launafólks í hlutaðeigandi starfsgrein, sbr. b-lið 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, svo heimilt sé að veita tímabundið atvinnuleyfi skv. 8. gr. laganna, heldur beri Vinnumálastofnun á grundvelli c-liðar 7. gr. laganna jafnframt að tryggja að laun og önnur starfskjör samkvæmt ráðningarsamningi séu til jafns við heimamenn sem sinni sambærilegum störfum í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga þar um, sbr. 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Að mati ráðuneytisins er það því skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis samkvæmt 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, að viðkomandi útlendingi séu tryggð laun og önnur starfskjör til jafns við sérfræðinga sem sinna sambærilegum störfum á innlendum vinnumarkaði.

Af gögnum málsins má ráða að samkvæmt ráðningarsamningi milli viðkomandi útlendings og hlutaðeigandi atvinnurekanda hafi grunnlaun verið ákveðin 337.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf. Að mati ráðuneytisins er ljóst að fyrirhuguð launakjör viðkomandi útlendings samkvæmt fyrirliggjandi ráðningarsamningi eru umtalsvert lægri en kveðið er á um í kjarasamningum á innlendum vinnumarkaði vegna sambærilegra starfa sem krefjast sambærilegrar sérþekkingar. Vísast í því sambandi til kjarasamnings Samiðnar og Sambands garðyrkjubænda sem undirritaður var 15. maí 2019 en samkvæmt launatöflu samningsins skulu grunnlaun garðyrkjufræðings með viðurkennt viðbótarnám vera að lágmarki 425.282 kr. á mánuði frá 1. apríl 2019. Þá er einnig vísað til eldri kjarasamnings sömu aðila frá 1. janúar 2016 en samkvæmt honum áttu grunnlaun garðyrkjufræðings með viðurkennt viðbótarnám að vera að lágmarki 401.569 kr. á mánuði frá 1. maí 2018.

Þá liggur fyrir að Vinnumálastofnun hafi ítrekað bent á að fyrirhuguð launakjör samkvæmt fyrirliggjandi ráðningarsamningi hafi verið of lág fyrir þann sem ráðinn yrði til að gegna umræddu starfi miðað við gildandi kjarasamninga og var hlutaðeigandi atvinnurekanda jafnframt ítrekað gefinn kostur á að gera úrbætur hvað varðar fyrirhuguð launakjör viðkomandi útlendings án þess að hann hafi orðið við því innan þeirra tímafresta sem veittir voru.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að skilyrði c-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, um að útlendingi skuli tryggð laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga þar um, hafi ekki verið uppfyllt og því hafi skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis á grundvelli 8. gr. laganna, vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, jafnframt ekki verið uppfyllt í máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. maí 2019, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […], í því skyni að ráða sig til starfa hjá Lambhaga gróðrarstöð ehf., skal standa.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum