Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 520/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 14. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 520/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21090037

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. september 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. ágúst 2021, um að hafna umsókn hans um dvalarleyfi, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga, hinn 24. apríl 2019, sem var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. júní 2019. Ákvörðunin var ekki kærð til kærunefndar útlendingamála. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, hinn 29. mars 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. ágúst 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 9. september og meðfylgjandi kæru var greinargerð ásamt fylgigögnum.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 10. september 2021 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni vísar Útlendingastofnun til og fjallar um ákvæði 51. gr. laga um útlendinga. Að mati Útlendingastofnunar hefði kærandi ekki haft heimild til dvalar þegar hann lagði dvalarleyfisumsókn sína fram, hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né dvalar án áritunar og uppfyllti hann því ekki skilyrði 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Að mati stofnunarinnar væru aðstæður kæranda ekki þess eðlis að beiting undantekningarheimildar 3. mgr. 51. gr. ætti við. Var umsókn kæranda því hafnað á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að kærandi hafi komið fyrst til Íslands í febrúar 2019 og hafi þá sótt um atvinnu- og dvalarleyfi hér á landi. Hafi kærandi yfirgefið landið í byrjun maí 2019, meðan umsóknir hans voru til meðferðar hjá Útlendingastofnun og Vinnumálstofnun, og hafi komið aftur til landsins hinn 9. júlí 2019 og dvalið hér síðan. Skömmu áður, hinn 27. júní 2019, hefði umsókn hans um dvalarleyfi verið synjað. Vísar kærandi til þess að hann hafi kynnst núverandi eiginkonu sinni, sem sé íslenskur ríkisborgari, í september 2019 og hafi þau í kjölfarið hafið sambúð. Hafi kærandi og maki trúlofast í ágúst 2020, gengið í hjúskap hinn 18. mars 2021 og lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar hinn 26. mars 2021.

Kærandi byggir á því að aðstæður hans séu með þeim hætti að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að fallist sé á umsókn hans um dvalarleyfi og að beita skuli heimild 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga við meðferð umsóknarinnar. Samband og sambúð kæranda og maka hafi nú varað í um tvö ár, þau hafi verið hjón í að verða hálft ár og hafi nýlega fært sig í rýmra og dýrara leiguhúsnæði, en verði umsókn hans synjað muni það reynast ómögulegt fyrir maka hans að efna leigusamninginn, enda séu tekjur hennar ekki svo miklar að hún ráði ein við mánaðarlegar leigugreiðslur. Þessu til viðbótar sé kærandi kominn með fast starf hjá fyrirtækinu […], þar sem hann hafi frá 1. júní 2021 gegnt stöðu yfirumsjónarmanns verkstæðis. Þegar kærandi hafi sótt um dvalarleyfi hinn 26. mars 2021 hafi hann lagt fram ráðningarsamning hjá fyrirtækinu, þar sem hann var almennur starfsmaður á verkstæði félagsins. Í lok maí 2021 hafi verið gerður nýr ráðningarsamningur við kæranda þar sem hann hafi fengið stöðuhækkun. Megi fyrirtækið illa við því að missa kæranda frá vinnu enda sjái hann um hefðbundið viðhald með bifreiðum í eigu félagsins og muni fá það verkefni í haust og vetur að innrétta nýjar bifreiðar, sem fyrirtækið sé að kaupa. Loks byggir kærandi á því að 3. mgr. 51. gr. eigi við þar sem fjölskylduaðstæður maka séu afar sérstakar og stuðningsnet hennar á Íslandi sé takmarkaðra en gengur og gerist auk þess sem hún hafi undanfarið þurft að þola óhugnanlegt og fátítt mótlæti í fjölskyldu sinni.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c lið 1. mgr. 51. gr. Varða stafliðirnir þær aðstæður þar sem umsækjandi er maki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. a-lið, barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar barnið er yngra en 18 ára, sbr. b-lið, eða þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli 61., 63. eða 64. gr. laga um útlendinga.

Í 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga segir að heimild til dvalar þegar umsækjandi sé undanþeginn áritunarskyldu gildi þar til umsækjandi hafi dvalið í 90 daga á Schengen-svæðinu. Undantekningar a-c-liðar 1. mgr. gildi meðan umsækjandi hafi heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á grundvelli dvalar án áritunar. Útlendingastofnun geti veitt umsækjendum á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. heimild til lengri dvalar meðan umsókn sé í vinnslu.

Kærandi er maki íslensks ríkisborgara, sbr. a-lið 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga en samkvæmt gögnum málsins gengu þau í hjúskap á Íslandi hinn 18. mars 2021. Kærandi hefur aldrei verið með dvalarleyfi á Íslandi . Í dvalarleyfisumsókn hans, dags. 29. mars 2021, kemur fram að hann hafi komið til landsins hinn 9. júlí 2019 og hafi þar áður dvalið á landinu á tímabilinu 4. febrúar 2019 til 7. maí 2019. Þegar kærandi lagði fram dvalarleyfisumsókn sína var dvöl hans hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né á grundvelli dvalar án áritunar, sbr. 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði síðastnefnds ákvæðis og á undantekningarákvæði a-liðar 1. mgr. 51. gr. því ekki við í máli hans.

Í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. 51. gr. í öðrum tilvikum en þar eru upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Í athugasemdum við 51. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að ætlunin sé að ákvæðinu sé beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Í ljósi þess að um undantekningarákvæði er að ræða telur kærunefnd að almennt beri að túlka ákvæðið þröngt. Í 4. mgr. 51. gr. segir að ef umsækjandi um dvalarleyfi sem dvelur hér á landi án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfi áður en hann kemur til landsins skv. 1. og. 2. mgr. skuli hafna umsókninni á þeim grundvelli. Það sama eigi við ef umsækjandi kemur til landsins áður en umsókn er samþykkt.

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann hafi kynnst maka sínum fyrir um tveimur árum og að þau hafi verið í sambúð frá þeim tíma. Jafnvel þótt kærandi hafi dvalið á Íslandi um langa hríð í ólögmætri dvöl og að hann hafi ekki stofnað til fjölskyldutengsla í lögmætri dvöl, sjá t.d. mál Slivenko gegn Lettlandi (mál nr. 48321/99) frá 9. október 2003, verður að mati kærunefndar að vega það atriði á móti lengd sambands hans við maka sinn auk þess sem stjórnvöld hafa ekki beitt úrræðum gagnvart kæranda sem heimil eru samkvæmt XII. kafla laga um útlendinga. Er það mat kærunefndar, með vísan til framangreinds, gagna málsins og eins og hér sérstaklega háttar, að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í máli kæranda samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga þannig að dvalarleyfisumsókn hans skuli hljóta efnislega skoðun hjá stjórnvöldum. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum