Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 510/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 510/2019

Miðvikudaginn 1. apríl 2020

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 22. nóvember 2019, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 21. október 2019, um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X og ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 22. október 2019, um endurgreiðslu kostnaðar vegna slyssins.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir vinnuslysi X þegar […] féll […] á kæranda. Tilkynning um slys, dags. X, var send til Sjúkratrygginga Íslands sem samþykktu bótaskyldu. Með bréfi, dags. 21. október 2019, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hefði verið metin 7%. Með bréfi, dags. 22. október 2019, var kæranda synjað um endurgreiðslu kostnaðar vegna kaupa á heyrnartæki þar sem ekki væru orsakatengsl á milli slyssins og heyrnarskerðingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. nóvember 2019. Með bréfi, dags. 6. desember 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 16. desember 2019, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

 

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku verði endurskoðuð og að mið verði tekið af matsgerð C læknis við matið. Jafnframt er gerð krafa um endurskoðun á ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að hafna endurgreiðslu kostnaðar við kaup á heyrnartækjum.

Í kæru segir að kærandi hafi orðið fyrir vinnuslysi X við starfa sinn fyrir D. Slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi verið að flokka stillansa þegar þeir hafi fallið af lyftara og lent á honum. Í slysinu hafi kærandi orðið fyrir meiðslum, sbr. læknisfræðileg gögn.

Slysið hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 21. október 2019, hafi kæranda verið tilkynnt sú ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða þar sem örorka hans vegna slyssins hefði verið metin 7%. Við matið hafi verið stuðst við matsgerð C læknis og valin þau atriði sem að mati Sjúkratrygginga Íslands væru rakin til vinnuslyssins. Kæranda hafi einnig verið tilkynnt með bréfi stofnunarinnar, dags. 22. október 2019, um synjun á greiðslu reiknings vegna kaupa á heyrnartækjum þar sem orsakatengsl hafi skort á milli slyssins og heyrnarskerðingar.

Fram kemur að kærandi sé ekki sáttur við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands og byggi á því að afleiðingar slyssins séu of lágt metnar. Þá sé á því byggt að orsakatengsl séu á milli slyssins og heyrnarskerðingar og beri því að endurgreiða kæranda kostnað vegna kaupa á heyrnartækjum, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 514/2002.

Kærandi hafi gengist undir örorkumat hjá C lækni og með matsgerð hans, dags. X, hafi kærandi verið metinn með 18% varanlega læknisfræðilega örorku vegna afleiðinga slyssins. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð hafi læknisfræðileg örorka kæranda vegna heyrnarskerðingar og suðs fyrir eyrum verið metin 8% og 3% vegna heilkennis eftir höfuðáverka. Kærandi hafi leitað til heimilislæknis þann X vegna einkenna frá hægra eyra. Hann hafi síðan leitað til háls-, nef- og eyrnalæknis þann X. Í málinu liggi jafnframt fyrir niðurstöður heyrnarmælinga, dags. X, X og X. Kærandi telji ljóst af framangreindum gögnum að orsakatengsl séu á milli slyssins og einkenna frá hægra eyra og höfði.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að X hafi stofnuninni borist tilkynning um vinnuslys sem kærandi hafi orðið fyrir X. Að gagnaöflun lokinni hafi Sjúkratryggingar Íslands tilkynnt með bréfi, dags. X, að um bótaskylt slys væri að ræða. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 21. október 2019, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 7% vegna umrædds slyss. Stofnunin hafi sent kæranda bréf, dagsett sama dag, þar sem honum hafi verið tilkynnt að ekki yrði því um greiðslu örorkubóta að ræða, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 22. október 2019, hafi enn fremur verið synjað endurgreiðslu á reikningi fyrir heyrnartæki, dags. X, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 541/2002 um endurgreiðslu slysatrygginga vegna sjúkrahjálpar, þar sem samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væri ekki að sjá að orsakatengsl væru á milli áður nefnds slyss og heyrnarskerðingar.

Kærandi hafi verið við vinnu sína þann X að […] þegar […] hafi fallið á hann. Hann hafi hlotið meiðsli af og verið fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítala.

Í hinni kærðu ákvörðun 21. október 2019 hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 7%. Margvísleg gögn hafi legið fyrir við örorkumatið, þ.á m. matsgerð C læknis, dags. 11. janúar 2019. Sjúkratryggingar Íslands hafi samþykkt eftirtalin atriði í matsgerðinni: Mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku vegna hægri mjaðmar, 1%; mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku vegna beggja ökkla, 3%; mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku vegna vinstri úlnliðs og handar, 3%. Hvorki hafi verið fallist á að orsakasamhengi væri á milli slyss og einkenna frá hægra eyra né einkenna frá höfði.

Í hinni kærðu ákvörðun frá 22. október 2019 hafi Sjúkratryggingar Íslands synjað endurgreiðslu á reikningi að fjárhæð kr. X að frádregnum hjálpartækjastyrk að fjárhæð kr. X fyrir tvö heyrnartæki, dags. […], þar sem samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væri ekki að sjá orsakatengsl á milli áður nefnds slyss og heyrnarskerðingar.

Kærð sé niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands um 7% varanlega læknisfræðilega örorku og vísað til þess að varanlegar afleiðingar slyssins séu of lágt metnar. Í kæru sé farið fram á að varanleg læknisfræðileg örorka verði miðuð við heildarniðurstöðu í matsgerð C læknis, dags. 11. janúar 2019, þar sem varanleg læknisfræðileg örorka kæranda sé metin 18%.

Eftirtalin atriði mæli eindregið gegn því að orsakasamhengi sé á milli heyrnartaps og slyss. Gerð hafi verið heyrnarmæling X, tæpum tveimur mánuðum eftir slysið. Þar sjáist að kærandi sé með umtalsverðar heyrnarskemmdir á báðum eyrum og enginn eðlismunur sé á útliti kúrfunnar og þar með eðli skemmdarinnar í hægra og vinstra eyra. Útlitið samrýmist breytingum sem komi vegna hrörnunarskemmdar í kuðungi vegna aldurs, hjá einstaklingi í ætt með snemmkomna heyrnardeyfu, eða skemmda sem komi af völdum hávaða. Algengt sé að heyrnarlínuritið líti út á þennan hátt þegar um sé að ræða blöndu af þessu hvoru tveggja. Þótt ekki sé eðlismunur á heyrnarskerðingunni samkvæmt þessum mælingum sjáist að heyrn á hægra eyra sé meira skert á lágtíðnisviði en heyrn á vinstra eyra. Önnur heyrnarmæling liggi fyrir frá […]. Þá hafi heyrn á lágtíðnisviði á hægra eyranu versnað enn frekar og hafi það veruleg áhrif á talgreiningarhæfni sjúklings. Þetta bendi til að sjúkdómur eða hrörnun hafi herjað á eyrað á því ári sem liðið hafi milli mælinganna. Mjög langsótt sé að tengja þessa breytingu við slysið í X þar sem kærandi hafi engin einkenni haft frá höfði eða eyra þegar hann hafi komið á bráðamóttöku eftir slysið. Enn langsóttara sé að segja að hann sé með varanleg heilahristingseinkenni eftir þetta slys þegar alls ekki hafi verið sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir höfuðhöggi í slysinu og tekið sé fram í bráðamóttökuskrá að hann hafi ekki misst meðvitund í slysinu. Engin skráning sé um höfuðhögg í skýrslu Vinnueftirlitsins um slysið, en hún sé ítarleg og þar komi fram að kærandi hafi verið með öryggishjálm.

[…], sem hafi runnið á kæranda, hafi verið úr járni og runnið á hann […] úr u.þ.b. 80 sentímetra hæð og lent á honum í mittis- eða mjaðmarhæð. Ekki hafi verið lýst að hann hafi fallið lóðréttur niður við að fá […] á sig […]. Lýst sé að hann hafi fallið á vinstri hlið. Þar með sé ekki sagt að hann hafi ekki getað rekið höfuðið í einhverja hluti í námunda, en bent sé á að engar slíkar ábendingar eða merki um áverka hafi komið fram í sjúkraskrá eða skýrslu Vinnueftirlitsins, sem séu samtímagögn. Samkvæmt ítarlegri skýrslu Vinnueftirlitsins um slysið hafi kærandi verið með öryggishjálm á höfðinu þegar slysið hafi átt sér stað. Það séu tilhæfulausar getgátur eftir á að kærandi hafi fengið höfuðhögg í þessu slysi. Því sé ekki hægt að sjá að heyrnarskerðing á báðum eyrum eða einkenni sem kærandi kunni að hafa fengið síðar frá höfði eigi rætur að rekja til slyssins í X. Nú hafi viljað svo til, eins og málum hátti hér, að kærandi hafi tekið eftir því að heyrn á hægra eyra hafi versnað eftir að hann hafi lent í slysinu í X. Þegar útlit heyrnarmælingarlínuritsins í X sé skoðað samrýmist það heyrnartapi á báðum eyrum sem komi á margra ára tímabili. Á þessum tímapunkti hafi heyrnarskerðingin verið farin að hafa meiri áhrif á talgreiningu, sérstaklega á hægra eyra þar sem heyrnin hafi verið verri og því hafi verið eðlilegt að hann hafi leitað sér hjálpar með það. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé ekki orsakasamhengi á milli slyssins og heyrnartapsins, hvorki á hægra né vinstra eyra, og sé öll tenging á milli slyss og heyrnartaps eftiráskýring sem standist ekki nána skoðun. Hefði kærandi fengið höfuðhögg sem væri nægilega mikið til að valda heyrnarskaða eða heilahristingi, hefði hann verið með einkenni í byrjun. Áverkar á mjöðm, úlnlið og hendi hafi heldur ekki verið það alvarlegir að þeir myndu yfirskyggja höfuðáverka hefði hann verið til staðar. Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi því ekki orðið mælanlegt tjón á heyrn eða heila í þessu slysi eða af völdum þess.

Kostnaður vegna heyrnartækis verði því ekki greiddur sem kostnaður vegna slyss og slysabætur verði ekki ákvarðaðar, hvorki vegna heyrnarskaða né heilkennis höfuðáverka.

Að öllu virtu beri því að staðfesta afstöðu Sjúkratrygginga Íslands og staðfesta hinar kærðu ákvarðanir um 7% varanlega læknisfræðilega örorku og synjun á greiðslu kostnaðar við heyrnartæki.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku og endurgreiðslu sjúkrakostnaðar vegna vinnuslyss sem kærandi varð fyrir X. Með ákvörðun, dags. 21. október 2019, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 7%. Með bréfi, dags. 22. október 2019, var kæranda synjað um endurgreiðslu kostnaðar vegna kaupa á heyrnartæki þar sem ekki væru orsakatengsl á milli slyssins og heyrnarskerðingar.

Í bráðamóttökuskrá, undirritaðri af læknunum E og F, dags. x, segir:

Greiningar

Tognun og ofreynsla á mjöðm, S73.1

[…]

Almennt hraustur maður. Þræddur í fyrra m/4x stent. Í vinnu í dag þegar að fellur á hann eða leggst á hann hæ. megin […]. Missir ekki meðvitund og kemur sér sjálfur undan farginu. Kemur á BMT með sjúkrabifreið.

[…]

Skoðun

Skýr og greinargóður. Full áttaður.

Ekki þreyfieymsli yfir háls, höfuð, andlit, [axlir, hendur], thorax, kvið né vi. fótlegg.

Verkjaður yfir hæ. mjöðm en getur hreyft fótinn og distal status er góður.

Hjarta- og lunganhlustun eðlileg.

Gróft metin neurologiskt intakt.

[…]

Álit og áætlun

[…]

CT sýnir ekki intraabdominal blæðingu og ekki brot í hægri mjöðm eða lærlegg.

Blpr sýnir eðl status, vægt hækkað Krea 101.

Er að eigin sögn búinn að vera slæmur í hægri mjöðm og verið í sjúkraþjálfun vegna þessa. Er núna líklegast tognaður í hægri mjöðm.

Fær parkodin forte og mobiliserast. Borðar og pissar.

Er tilbúinn að fara heim.

Fær hækjur að eigin ósk.

Fær lyfseðls fyrir parkodin og parkodin forte og leiðbeiningar um notkun.

Ráðlögð eftirfylgd hjá heimilislækni.

Endurkoma ef bráð versnun á verk.“

Þá segir í bráðamóttökuskrá, undirritaðri af læknunum G og H, dags. X:

Greiningar

Tognun og ofreynsla á ökkla, S93.4

Tognun og ofreynsla á aðra og ótilgreinda hluta handar, S63.7

Saga

Vinnuslys fyrir X dögum […]. Síðan þá hefur borið á vaxandi verkjum í vi hönd og vi ökkla. Er að bólgna upp á höndinni. Neitar dofa. Veit eiginlega ekki hvar hann fékk högg eftir slysið, fékk yfir sig […] og lenti á allri hliðinni.

Skoðun

Vi hönd: Roði og bólga yfir distal MC III-V. Hreyfigeta eðlileg í fingrum og úlnlið. Distal status eðlilegur. Verkir við þreifingu yfir distal MC III-V.

Vi ökkli: Ekki sjáanleg bólga eða rof á húð. Vægt mar yfir lat malleolus. Hreyfigeta er eðlileg í ökkla og tám. Distal status ok. Verkir við þreifingu yfir ant ökkla og lat malleolus. Ekki verkir yfir prox fibulu.

Rannsóknir

Rtg. úrlestur á BMT af vi hönd og vi ökkla: Sjáum ekki merki um beináverka.

Álit og áætlun

Sjáum ekki merki um brot. Tognun og mar. Útskrifast heim. […] Ráðl hvíld meðan versta bólgan er að ganga yfir.“

Í göngudeildarnótu, undirritaðri af I lækni og Í hjúkrunarfræðingi, dags. X, kemur fram:

Greiningar

Hearing loss, unspecified, H91.9

Meðferð

Clinical examination of ear, nose and pharynx, DXFX90

[…]

X ára gamall karlmaður leitar til […] út af heyrnarleysi hægra megin.

Hann fékk þetta í mars í tengslum við trauma. Hann fékk yfir sig […] og er ennþá ekki búinn að jafna sig af því en fékk við það höfuðhögg virðist vera, missti þó ekki meðvitund en missti heyrn á hægra eyranu og fékk í kjölfarið suð en honum finnst heyrnin hafa eitthvað skánað núna að undanförnu. Hann strögglar aðeins í hópi, það er að segja þegar mikið bakgrunnshljóð. Þetta hefur skánað segir hann.

Við skoðun þá er í sjálfu sér ekkert að sjá í eyrum, Weber er í miðlínu, Rinne er pos. 256 bilat. Ég kíki á sneiðmynd sem var tekin í Domus af höfðinu í maí og það er svona spurningin hvort hann sé með stækkaða vestibular acut..?

Ég ætla að fá rtg.læknana til aðeins að kíkja yfir það einnig og ég ætla síðan að vera í sambandi við hann þegar ég er búinn að fá þá niðurstöðu. Það gæti hugsanlega verið útskýringin á þessu, það er að segja heyrnarleysi í tengslum við höfuðhögg.“

Í matsgerð C læknis, dags. X, segir svo um skoðun á kæranda X:

„[Kærandi] kemur eðlilega fyrir og gefur greinargóðar upplýsingar. Fram kemur að hann er rétthentur. Í samtali með heyrnartæki í hljóðlátu herbergi verður ekki vart við annað en að hann heyri þokkalega. Sjónsvið, metið með Donders prófi, er eðlilegt. Sjáöldur eru hringlaga og jöfn og svara ljósi eðlilega. Augnhreyfingar eru eðlilegar og ekki sjáanlegt augntif. Það er eðlilegt húðskyn og hreyfingar í andliti. Tunga er rekin beint fram og gómbogar lyftast jafnt. Rombergs prófið er eðlilegt. Það eru eðlilegir kraftar, fínhreyfingar, samhæfing hreyfinga, sinaviðbrögð og húðskyn í grip- og ganglimum nema talsvert skertur gripkraftur í vinstri hendinni. Ilviðbragðið er samhverft og eðlilegt. Hoffmann fingraviðbragðið kemur hvorugu megin fram. Allar hreyfingar í úlnliðum eru samhverfar og eðlilegar. Hnúaliðir vinstri handar eru eðlilegir að sjá, hreyfingar í þeim eðlilegar og ekki umtalsvert los. Það eru talsverð eymsli í hnúalið litlafingurs, vægari í hnúalið baugfingurs, en engin í hnúalið löngutangar. Gripkraftur í vinstri hendi er talsvert skertur. [Kærandi] getur gengið á tám og hælum og sest á hækjur sér og með erfiðismunum gengið nokkur skref þannig og staðið upp aftur án stuðnings. Hreyfingar í mjöðmum eru samhverfar og nokkuð eðlilegar miðað við aldur, en það tekur í hægri mjöðmina við innsnúning. Það eru eymsli á stóru lærhnútunni hægra megin. Hreyfingar í ökklum eru samhverfar og eðlilegar miðað við aldur, en það tekur í hægri mjöðmina við innsnúning. Það eru eymsli á stóru lærhnútunni hægra megin. Hreyfingar í ökklum eru samhverfar og eðlilegar og báðir ökklar eru stöðugir átöku. Það eru talsverð eymsli neðan og framan við miðlægu ökklahnyðjuna beggja vegna og framan við hliðlægu ökklahnyðjuna og hægri ökklanum.“

Í samantekt og niðurstöðu matsgerðarinnar segir:

„Þann X var [kærandi] í vinnu sinni að X, þegar jafnvægi […] virtist skyndilega raskast og þau féllu úr um 80 cm hæð yfir [kæranda]. Hann var með öryggishjálm, í öryggisskóm og með vettlinga. Hann kveðst hafa reynt að hlaupa undan þessu og fengið högg vinstra megin á höfuðið. Hann hafi misst meðvitund einhverja stund og muni næst eftir að hafa legið á jörðinni og hægri hlið hans hafi verið klemmd undir […]. Honum hafi tekist að ýta hægri ganglimnum undan þessu og með aðstoð samstarfsmanns að komast undan farginu. Hann kvartaði á slysstað um að finna til í hægri mjöðm, vinstri hendi og ökkla sem og höfði. Hann var fluttur  með sjúkrabíl á slysadeild LSH. Þar var hann talinn hafa tognað á hægri mjöðm, en fram kom að hann hefði fyrir verið slæmur í mjöðminni og í sjúkraþjálfun vegna þessa. Við endurkomu á bráðadeildinni tveimur dögum síðar kvartaði hann um vaxandi verki í vinstri hendi og vinstri ökkla og var talið um tognunar og maráverka að ræða. Nokkrum vikum síðar leitaði hann til háls-, nef- og eyrnalæknis vegna heyrnarskerðingar á hægri eyra og suðs og staðfesti heyrnarmæling heyrnarskerðingu. Vegna þessa hefur hann fengið heyrnartæki, sem hefur orðið til þess að bæta heyrnina og draga úr suðinu, en heyrnarskerðingin háir honum áfram, einkum í margmenni. Vegna höfuðhöggsins sem hlaut í slysinu býr hann auk þess við vægt heilkenni vegna höfuðáverka með höfuðverk  og skerðingu á einbeitingu og úthaldi.“

Um mat á varanlegum miska segir svo í matsgerðinni:

„Varanlegar heilsufarslegar afleiðingar slyssins eru vægt heilkenni eftir höfuðáverka, heyrnarskerðing og suð á hægra eyra sem bætt hefur verið að hluta með heyrnartæki, álagsverkir, eymsli og skertur gripkraftur í vinstri hendi, álagsverkir og eymsli í ökklum og versnun verkja sem fyrir voru í hægri mjöðm. Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er tekið mið af töflu örorkunefndar frá 21. febrúar 2006, liðum I.D., I.E., VII.A.d., VII.B.a. og VII.B.c. og þykir varanleg örorka hæfilega metin 18% (átján af hundraði) að teknu tilliti til fyrri sögu frá hægri mjöðm, þar af 8% vegna heyrnarskerðingar og suðs, 3% vegna heilkennis eftir höfuðáverka, 3% vegna vinstri handar, 3% vegna beggja ökkla og 1% vegna hægri mjaðmar.“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2019 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Samkvæmt gögnum málsins bar slysið að með þeim hætti að […] féll […] á kæranda úr 80 til 90 cm hæð. Samkvæmt matsgerð C læknis, dags. 11. janúar 2019, eru varanlegar afleiðingar slyssins vægt heilkenni eftir höfuðáverka, heyrnarskerðing og suð á hægra eyra sem bætt hefur verið að hluta með heyrnartæki, álagsverkir, eymsli og skertur gripkraftur í vinstri hendi, álagsverkir og eymsli í ökklum og versnun verkja sem fyrir voru í hægri mjöðm.

Fram kemur í gögnum málsins að engin vitni hafi verið að slysinu. Á slysstað hafi kærandi kvartað um að finna til í hægri mjöðm, vinstri hendi og ökkla sem og höfði. Hann var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Þar er því lýst að hann hafi ekki misst meðvitund, hann sé skýr og vel áttaður og gróf taugaskoðun hafi verið eðlileg. Hann var greindur með tognun í mjöðm. Tveimur dögum seinna kom kærandi aftur til skoðunar og var þá með vaxandi verki í vinstri hendi og vinstri ökkla og var talið um tognunar- og maráverka að ræða. Því er hvergi lýst í framangreindum samtímagögnum að kærandi hafi hlotið höfuðhögg í slysinu og ekki er getið um einkenni sem geta bent til höfuðáverka. Kvartanir um heyrnarskerðingu í kjölfar þessa koma ekki fyrr en nokkrum vikum síðar. Að mati úrskurðarnefndarinnar má ætla að hefði kærandi hlotið höfuðhögg sem hefði verið nógu kröftugt til að valda heyrnarskerðingu hefði hann haft einkenni frá upphafi og getið þeirra fyrr. Þá bendir heyrnarmælingarlínurit frá X til þess að það heyrnartap, sem mældist á báðum eyrum kæranda, hafi komið á margra ára tímabili.

Byggt á því, sem fram kemur í gögnum málsins, telur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki forsendur til þess að ætla að kærandi hafi hlotið höfuðáverka í slysi þessu sem hafi valdið heilkenni eftir höfuðáverka eða heyrnarskerðingu. Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er tekið mið af töflum örorkunefndar, liðum VII.A.d., VII.B.a. og VII.B.c., að teknu tilliti til fyrri sögu frá hægri mjöðm, og ætlað að 3% séu vegna vinstri handar, 3% vegna beggja ökkla og 1% vegna hægri mjaðmar, eða samtals 7%.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 7% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því staðfest. Afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands á umsókn um endurgreiðslu kostnaðar vegna heyrnartækis í kjölfar slyssins er staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 7% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A, varð fyrir X, er staðfest. Afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands á umsókn um endurgreiðslu kostnaðar vegna heyrnartækis í kjölfar slyssins er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum