Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20sj%C3%A1var%C3%BAtveg%20og%20fiskeldi

Staðfesting á ákvörðunum Fiskistofu um synjun á flutningi í jöfnum skiptum á makríl og botnfiski milli skipa, á aflamarki í makríl í B-flokki af aflamarksskipum yfir á krókaaflamarksbát í A-flokki

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 7. janúar 2020, frá [A] lögmanni, [B ehf.], f.h. [C hf.] (hér eftir „kærandi“) þar sem kærðar eru til ráðuneytisins ákvarðanir Fiskistofu, sjö ákvarðanir dags. 7. október 2019 (vegna fiskveiðiárs 2018/2019) og fjórar ákvarðanir dags. 1. október 2019 (vegna fiskveiðiárs 2019/2020), allar um synjun á flutningi í jöfnum skiptum á makríl og botnfiski milli skipa, á aflamarki í makríl í B-flokki af aflamarksskipum yfir á krókaaflamarksbát í A-flokki, í ellefu aðskildum beiðnum:

 

1.   Jöfn skipti á milli útgerðanna [D ehf.] og [C hf.] á makríl og botnfiski samkvæmt beiðni dags. 16.09.2019. Skipti milli báts [E] aflam. B-fl. og báts [F] krókam A-fl. Tilvísun 2019-09-27-1931.

2.   Jöfn skipti á milli útgerðanna [D ehf.] og [C hf.] á makríl og botnfiski samkvæmt beiðni dags. 16.09.2019. Skipti milli báts [E] aflam. B-fl. og báts [F] krókam A-fl. Tilvísun 2019-09-30-1934.

3.   Jöfn skipti á milli útgerðanna [D ehf.] ehf. og [C hf.] á makríl og botnfiski samkvæmt beiðni dags. 16.09.2019. Skipti milli báts [E] aflam. B-fl. og báts [F] krókam A-fl. Tilvísun 2019-09-30-1935.

4.   Jöfn skipti á milli útgerðanna [D ehf.] ehf. og [C hf.] á makríl og botnfiski samkvæmt beiðni dags. 16.09.2019. Skipti milli báts [E] aflam. B-fl. og báts [F] krókam A-fl. Tilvísun 2019-09-30-1936.

5.   Jöfn skipti á milli útgerðanna [D ehf.] ehf. og [C hf.] á makríl og botnfiski samkvæmt beiðni dags. 16.09.2019. Skipti milli báts [E] aflam. B-fl. og báts [F] krókam A-fl. Tilvísun 2019-09-30-1937.

6.   Jöfn skipti á milli útgerðanna [D ehf.] ehf. og [C hf.] á makríl og botnfiski samkvæmt beiðni dags. 16.09.2019. Skipti milli báts [E] aflam. B-fl. og báts [F] krókam A-fl. Tilvísun 2019-09-30-1940.

7.   Jöfn skipti á milli útgerðanna [D ehf.] ehf. og [C hf.] á makríl og botnfiski samkvæmt beiðni dags. 16.09.2019. Skipti milli báts [E] aflam. B-fl. og báts [F] krókam A-fl. Tilvísun 2019-09-30-1946.

8.   Jöfn skipti á milli útgerðanna [G ehf.] og [C hf.] á makríl og botnfiski samkvæmt beiðni dags. 17.09.2019. Skipti milli báts [H] aflam. B-fl. og báts [F] krókam A-fl. Tilvísun 2019-09-24-1876.

9.   Jöfn skipti á milli útgerðanna [G ehf.] og [C hf.] á makríl og botnfiski samkvæmt beiðni dags. 18.09.2019. Skipti milli báts [H] aflam. B-fl. og báts [F] krókam A-fl. Tilvísun 2019-09-24-1888.

10. Jöfn skipti á milli útgerðanna [G] og [C hf.] á makríl og botnfiski samkvæmt beiðni dags. 18.09.2019. Skipti milli báts [H] aflam. B-fl. og báts [F] krókam A-fl. Tilvísun 2019-09-24-1897.

11. Jöfn skipti á milli útgerðanna [G ehf.] og [C hf.] á makríl og botnfiski samkvæmt beiðni dags. 20.09.2019. Skipti milli báts [H] aflam. B-fl. og báts [F] krókam A-fl. Tilvísun 2019-09-24-1903.

Kæruheimild er að finna í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að framangreindar ákvarðanir Fiskistofu, dags. 1. og 7. október 2019, verði felldar úr gildi og að flutningur aflamarks samkvæmt beiðnum hans nái fram að ganga.

 

Málsatvik

Málsatvikum er líst með þeim hætti að, dagana 16., 17., 18. og 20. september 2019, hafi kærandi óskað eftir flutningi á aflamarki í makríl í B-flokki af aflamarksskipum yfir á krókaaflamarksbát í A-flokki í jöfnum skiptum fyrir botnfisk í krókaaflamarki. [I ehf]. sendi inn allar tilkynningarnar. Með ákvörðunum, dags. 1. og 7. október 2019, synjaði Fiskistofa framangreindum beiðnum kæranda um flutning þar sem krókaaflamarksbáti í A-flokki sé ekki heimilt að láta heimildir í krókaaflamarki í skiptum fyrir makríl til skips sem sé aflamarksskip í B-flokki. Einnig benti Fiskistofa á að flutningur aflamarks öðlist ekki gildi fyrr en slíkur flutningur sé samþykktur, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006. Stjórnsýslukæra barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu f.h. [C hf.], dags. 7. janúar 2020. Ráðuneytið kallaði eftir frekari rökstuðningi með kærunni 21. janúar 2021. Í millitíð hafði ráðuneytið úrskurðað í sambærilegum málum þar sem staðfest var synjun um flutning á eðlislíkum grundvelli. Frekari rökstuðningur kæranda barst 12. febrúar 2021. Kallað var eftir umsögn Fiskistofu og gögnum málsins þann 19. apríl 2021. Umsögn Fiskistofu barst ráðuneytinu þann 18. maí 2021 ásamt fylgiskjölum. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við umsögn Fiskistofu. Athugasemdir kæranda við umsögn Fiskistofu bárust ráðuneytinu 2. júlí 2021. Í áðurnefndum ákvörðunum kom fram að ákvörðun væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá tilkynningu Fiskistofu um ákvörðun. Er málið tekið til úrskurðar á grundvelli framangreindra gagna.

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Í stjórnsýslukæru, dags. 7. janúar 2020, er vísað til málsástæðna kærenda í öðru kærumáli sem hafði verið til meðferðar hjá ráðuneytinu. Tók kærandi undir þær og gerði að sínum. Með tölvubréfi til kæranda, dags. 21. janúar 2021, kom fram að ráðuneytið hafi úrskurðað í eðlislíkum málum þar sem ákvarðanir Fiskistofu um synjun á flutningi höfðu verið staðfestar, með úrskurðum sem birtir voru 13. nóvember 2020 og 22. desember 2020 á vefsíðu stjórnarráðsins. Var kæranda gefinn kostur á að koma að frekari rökstuðningi fyrir stjórnsýslukærunni. Frekari rökstuðningur kæranda barst 12. febrúar 2021. Kærandi tók fram að þær sjö kærðu ákvarðanir, er vörðuðu fiskveiðiárið 2018/2019, væru sambærilegar öðrum færslum á aflaheimildum á milli bátsins [J] sem væri krókaaflamarksbátur og bátsins [K] sem væri smábátur með aflamark. Með því að Fiskistofa hafi hleypt þeim færslum í gegn, en synjað samskonar færslum frá kæranda væri Fiskistofa að mismuna aðilum. Væri það skýrt brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Hafi Fiskistofa ekkert gert til að vinda ofan af þessu misræmi. Telur kærandi það ekki boðlega niðurstöðu að það sé háð einhvers konar heppni hvaða færslur fari í gegnum kerfi Fiskistofu. Telur kærandi að eina mögulega leiðin í málinu sé að hleypa færslunum sínum í gegn svo að jafnræði sé tryggt á milli aðila. Segir kærandi að á öðrum málsástæðum kæranda hafi verið að mestu verið tekið í áðurnefndum úrskurðum ráðuneytisins sem birtir voru þann 13. nóvember og 22. desember 2020. Þó kærandi sé ósammála niðurstöðu ráðuneytisins í þeim málum, sér hann ekki ástæðu til að fjalla frekar um þær, en ítrekar þær samt sem áður. Varðandi hinar fjórar ákvarðanirnar sem vörðuðu fiskveiðiárið 2019/2020 fjalli kærandi ekki sérstaklega um þar sem þær væru háðar afgreiðslu á framangreindum sjö færslum vegna fiskveiðiársins 2018/2019. Með vísan til alls framangreinds taldi kærandi óhjákvæmilegt að fella framangreindar ákvarðanir Fiskistofu úr gildi.

 

Sjónarmið Fiskistofu

Með tölvubréfi, dags. 19. apríl 2021, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna og röksemdir kæranda, ásamt þeim gögnum sem málið varða. Í umsögn Fiskistofu, dags. 18. maí 2021, segir að árið 2019 voru makrílveiðar íslenskra skipa hlutdeildarsettar þannig að fiskiskipum sem stunda veiðarnar var úthlutað aflahlutdeildum sbr. lög nr. 46/2019 um breytingu á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Ráðherra hafi ákveðið nánari útfærslu hlutdeildarsetningarinnar með reglugerðum nr. 605/2019, nr. 710/2019 og nr. 711/2019. Á grundvelli þeirra hafi Fiskistofa úthlutað aflaheimildum til fiskiskipa þann 8. ágúst 2019. Segir í umsögninni að í lögunum hafi verð mælt fyrir um að aflahlutdeild í A-flokki skyldi úthluta á skip sem stunduðu makrílveiðar á viðmiðunartímabilinu með öðrum veiðarfærum en línu og handfærum. Aflahlutdeild í B-flokki skyldi úthluta á skip sem stunduðu makrílveiðar á viðmiðunartímabilinu með línu og handfærum. Skip með aflamark í makríl skiptast í A- og B-flokk og fer skiptingin eftir því í hvaða flokki aflaheimildir hlutaðeigandi skips eru. Í þágildandi reglugerð nr. 605/2019 sagði að aðeins þeim skipum sem hafa aflamark í makríl sé heimilt að stunda makrílveiðar. Til að standa vörð um aflaheimildir skipa í B-flokki er tilgreint í lögunum að óheimilt sé að flytja þaðan aflamark nema í jöfnum skiptum fyrir aflamark í þorski, ýsu, ufsa og steinbít. Fiskistofa hafi framkvæmt millifærslur í jöfnum skiptum á makríl og botnfiski milli skipa með makríl heimildir í A- og B-flokki þannig að krókaaflamark var látið til aflamarksskipa í B-flokki í skiptum fyrir aflamark, en slíkt færi í bága við ákvæði laga nr. 116/2006, nema í ákveðnum undantekningartilvikum samkvæmt 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 674/2019 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2019/2020.

Í umsögn Fiskistofu kemur fram að hinn 23. september 2019 hafi Fiskistofa birt frétt á heimasíðu sinni þar sem upplýst var um að stofnunin hefði haft lögmæti flutninga á aflamarki til skoðunar, einkum svonefnd jöfn skipti á makríl og botnfiski. Í fréttinni hafi verið áréttuð sú regla að flutningur aflamarks öðlaðist ekki gildi fyrr en skrifleg staðfesting Fiskistofu lægi fyrir. Frétt þessi hafi verið birt í tilefni af leiðbeiningum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til Fiskistofu 20. september 2019. Viku síðar hafi stofnunin birt aðra frétt á heimasíðu sinni þar sem upplýst hafi verið um að Fiskistofa hefði synjað fjölmörgum beiðnum um millifærslur á aflamarki í makríl í jöfnum skiptum fyrir aflamark í botnfiski. Í fréttinni sagði orðrétt: „Stofnunin telur að flutningur sé óheimill þegar útgerð krókaaflamarksbáts sem hefur makríl heimildir í A-flokki hyggst láta af hendi heimildir í botnfiski í krókaaflamarki í skiptum fyrir makríl [í] til aflamarksskips sem býr yfir makríl heimildum í B-flokki. Þar er meginregla að aflamark í krókaaflamarkskerfinu verður ekki flutt í aflamarkskerfið“. Í umsögn Fiskistofu sagði ennfremur að Fiskistofa hafi í framhaldi af þessu synjað beiðnum kæranda um staðfestingu á tilfærslu aflamarks í jöfnum skiptum svo sem lýst er í hinum kærðu ákvörðunum. Jafnframt hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem aðrar ráðstafanir sem fólu í sér tilfærslur og voru settar fram í tengslum við þær ráðstafanir sem synjað var um, virtust vera í svo nánum tengslum við þær ráðstafanir sem synjað var um að þær yrðu ekki teknar til afgreiðslu nema að fenginni áréttingu frá kæranda en engar endurnýjanir á þeim beiðnum hafi borist Fiskistofu.

Í umsögn Fiskistofu kom fram að við yfirferð á málum sem varða tilfærslur á aflamarki í makríl í jöfnum skiptum fyrir aflamark í botnfiski, hafði Fiskistofa skilgreint þrjá flokka mála. Í fyrsta lagi millifærslubeiðnir sem hlutu staðfestingu Fiskistofu. Fiskistofa tók til skoðunar hvort efni væri til að afturkalla þessar staðfestingar með vísan til 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga en niðurstaða hefði verið sú að skilyrði fyrir afturköllun hafi ekki verið uppfyllt. Í öðru lagi voru beiðnir um millifærslur sem Fiskistofa hafði ekki staðfest með bréfi. Ekki hafi verið búið að taka stjórnarvaldsákvörðun um að staðfesta beiðnir í þessum flokki og var beiðnunum synjað í samræmi við leiðbeiningar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu frá 20. september 2019. Í þriðja lagi voru beiðnir um millifærslur sem Fiskistofa synjaði svo um, en frá og með 1. október 2019 synjaði Fiskistofa öllum beiðnum um millifærslur í jöfnum skiptum á aflamarki í makríl þegar óskað var eftir því að botnfiskur færi af krókaaflamarksbát á aflamarksskip. Á tímabilinu frá 16. til 18. september 2019 bárust Fiskistofu tölvupóstar frá [C hf.] þar sem tilkynnt var um flutning á aflamarki í jöfnum skiptum á makríl og botnfiski til og frá skipum í eigu félagsins. Beiðnirnar tilheyrðu flokki B samkvæmt skiptingunni sem lýst var að ofan. Fiskistofa hafi synjað um staðfestingu á flutningi aflamarksins með eftirfarandi orðum þann 1. og 7. október 2019 og eru það ákvarðanirnar sem kæran hverfist um: „Að framansögðu synjar Fiskistofa beiðni þinni um flutning þar sem að krókaaflamarksskip[t]i í A-flokki er ekki heimilt að láta heimildir í krókaaflamarki í skiptum fyrir heimildir í makríl til skips sem er aflamarksskip í B-flokki“. Fiskistofa hafi einnig leiðbeint [C hf] um fylgibeiðnirnar sem fylgdu. Í umsögn Fiskistofu kemur einnig fram að hinn 18. [birt 22.] desember 2020 hafi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með úrskurði staðfest níu ákvarðanir Fiskistofu í málum sem væru sambærileg þeim sem kærð eru nú. Taldi Fiskistofa að leysa beri úr stjórnsýslukæru þessari á grundvelli sömu sjónarmiða og gert var í þeim úrskurði og því staðfesta ákvarðanir Fiskistofu í þeim málum sem kærandi gerir ágreining um. Í rökstuðningi kæranda frá 12. febrúar 2021 komi fram að kærandi vísi til fimm umsókna um tilfærslu aflamarks í beinum skiptum á makríl og ýsu milli krókaaflamarksbátsins [J] og aflamarksbátsins [K]. Segir kærandi þær færslur sambærilegar og hann sótti um og Fiskistofa því mismunað aðilum og brotið gegn jafnræðisreglu 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Vísar kærandi til þess að Fiskistofa hafi „ekkert gert til að vinda ofan af þessu misræmi“. Í þessu samhengi teldi Fiskistofa ástæðu til að vísa til orðalags 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga en þar segir: „Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti“. Segir Fiskistofa að í ákvæðinu felist ekki aðeins sú skylda stjórnvalds að tryggja að sambærileg mál skuli afgreidd með sambærilegum hætti, heldur er vísað til samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Það sé í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar að allar ákvarðanir stjórnvalda skuli grundvallaðar á lögum. Fiskistofa hafi staðfest að í þeim fimm málum sem kærandi vísar til höfðu verið teknar stjórnvaldsákvarðanir um að staðfesta beiðnir um ráðstafanir sem voru sambærilegar þeim sem synjað var með hinum kærðu ákvörðunum. Ákvarðanir Fiskistofu í þessum fimm málum hafi hins vegar ekki grundvallast á gildandi lagareglum, sbr. almennar leiðbeiningar í bréfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til Fiskistofu dags. 20. september 2019. Þrátt fyrir að jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi þann tilgang að tryggja jafnræði og samræmi við úrlausn mála í stjórnsýslunni, gengur hún ekki svo langt að menn geti á grundvelli hennar krafist ólögmætrar úrlausnar mála sinna, þrátt fyrir að stjórnvaldi hafi áður orðið á að taka í sambærilegu máli ákvörðun sem grundvallaðist ekki á lagareglum. Fiskistofa hafi tekið til sérstakrar skoðunar hvort efni stæðu til að afturkalla þær fimm ákvarðanir, sem kærandi nefnir sem sambærilegar þeim sem honum var synjað um, og aðrar samskonar ákvarðanir. Allar þær ákvarðanir hafi verið háðar þeim annmarka að þær grundvölluðust ekki á lagareglum. Slíkir annmarkar geti valdið ógildingu þeirra og veiti 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga heimild til afturköllunar þeirra. Ákvörðun um afturköllun samkvæmt ákvæðinu væri stjórnvaldsákvörðun og skal fara með mál að hætti málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga, auk þess sem úrlausn málsins skuli vera í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. þeirra og ólögfestar reglur um meðalhóf við beitingu opinbers valds. Verði þá m.a. litið til þess hvort sú ákvörðun sem til greina kemur að afturkalla væri íþyngjandi eða ívilnandi, hvort hún varði mikilverða einkahagsmuni og hve miklir almannahagsmunir væru í húfi. Auk þess þyrfti að líta til hagsmuna sem þriðju aðilar kynnu að hafa af niðurstöðu málsins. Hafi það verið niðurstaða Fiskistofu að ekki gæti komið til afturkallana á þeim fimm ákvörðunum sem kærandi hafi nefnt eða öðrum sambærilegum ákvörðunum. Fiskistofa hafi því hafnað staðhæfingu kæranda um að stofnunin hafi „ekkert gert til að vinda ofan af þessu misræmi“. Með vísan til framangreinds hafi Fiskistofa talið að staðfesta bæri hinar kærðu ákvarðanir.

 

Athugasemdir kæranda við umsögn Fiskistofu

Í athugasemdum kæranda við umsögn Fiskistofu, dags. 2. júlí 2021, er vísað til stjórnsýslukæru frá 7. janúar 2020, greinargerðar kæranda dags. 12. febrúar 2021 og athugasemda Fiskistofu dags. 18. maí 2021. Því til viðbótar leggi kærandi áherslu á að í greinargerð kæranda hafði m.a. verið byggt á þeirri málsástæðu að með því að synja sumum færslum en hleypa öðrum í gegn væri Fiskistofa að brjóta jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Fiskistofa hafi svarað því til í athugasemdum sínum að til skoðunar hafi komið að afturkalla þær færslur sem hleypt var í gegn en að niðurstaðan hafi verið sú að ekki gæti komið til afturkallana án þess að skýra það nánar út. Þannig liggi ekki fyrir á hvaða málsástæðum Fiskistofa byggði þessa niðurstöðu sína á. Kærandi gæti ekki lagt mat á hvort það byggi á lögmætum grunni hvort ætti að hleypa sumum færslum í gegn en öðrum ekki fyrr en það lægi fyrir. Þá byggði kærandi á því að ekki yrði litið fram hjá að nýr lagaskilningur Fiskistofu hafi fyrst komið fram á nýju fiskveiðiári, þegar útreikningar og aðrar færslur er leiddu til forsendna allra færslnanna, höfðu átt sér stað. Hafi þessi stjórnsýsla haft í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir kæranda. Þá mótmælti kærandi þeim skilningi í athugasemdum Fiskistofu að hann hafi fallist á að aðrar ráðstafanir sem fólu í sér tilfærslur í tengslum við þær ráðstafanir sem synjað var um, yrðu ekki teknar til afgreiðslu nema að fenginni áréttingu kæranda. Mátti Fiskistofu vera ljóst að kærandi var ósáttur við niðurstöðu stofnunarinnar.

 

Forsendur og niðurstaða

I.     Kærufrestur

Ákvarðanir Fiskistofu um að synja um flutning í jöfnum skiptum á makríl og botnfiski milli skipa, á aflamarki í makríl í B-flokki af aflamarksskipum yfir á krókaaflamarksbát í A-flokki, voru dags. 1. og 7. október 2019. Stjórnsýslukæra í máli þessu barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, dags. 7. janúar 2020. Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 27. gr. laganna skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Kæran barst innan tilskilins frests er varðar ákvarðanir frá 7. október 2019. Í ljósi þess að ákvarðanir frá 1. og 7. október eru eðlislíkar og tengdar þá mun ráðuneytið taka þær saman til efnismeðferðar.

 

II.     Jafnræðisregla

Ráðuneytið hefur farið yfir þau tilgreindu mál sem vísað hefur verið til í röksemdum kæranda og í umsögn Fiskistofu um færslur sem voru sambærilegar við þær beiðnir kæranda sem synjað var um. Ráðuneytið tekur fram að þær ákvarðanir teljast ekki vera hluti af þessu kærumáli þótt hægt sé að fjalla um þær til útskýringar á málsatvikum. Þær ákvarðanir eru þar með ekki undir í þessu máli né það mat Fiskistofu í þeim málum hvort að skilyrði hafi verið uppfyllt eða ekki til að afturkalla ákvarðanir samkvæmt stjórnsýslulögum. Í gögnum málsins kemur þó fram að Fiskistofa hafi skoðað forsendur þess að afturkalla þær í samræmi við stjórnsýslulög en metið það svo að forsendur væru ekki fyrir hendi.

Í 1. mgr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða kemur m.a. fram að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Viðurkennt er að aflaheimildir bera ýmis merki eignar í skilningi 72. gr. stjórnarskrár. Þegar aðilar fá úthlutað eða kaupa aflaheimildir öðlast þeir ráðstöfunarrétt yfir þeim heimildum og geta framselt þær eða selt. Ráðstöfunarréttur handhafa veiðiheimilda takmarkast þó af ákvæðum laga um stjórn fiskveiða. Meðal þeirra takmarkana er flutningur krókaaflamarks yfir á aflamarksskip sbr. 9. mgr. 15. gr. laganna. Ráðuneytið leggur áherslu á að flutningur aflaheimilda öðlast ekki gildi fyrr en við staðfestingu Fiskistofu sbr. 2. mgr. 15. gr. laganna. Fiskistofu ber að synja um beiðnir á flutningi á aflamarki sem ekki eru heimilar samkvæmt lögunum. Framkvæmd Fiskistofu virðist ekki hafa verið í samræmi við lög á ákveðnu tímabili varðandi framkvæmd á beiðnum á flutningi á makríl og botnfiski í jöfnum skiptum milli skipa í A- og B- flokki. Segir Fiskistofa það hafa verið vegna rangrar túlkunar á 15. gr. laga um stjórn fiskveiða. Við túlkun á ákvæði 4. mgr. 15. gr. laganna láðist Fiskistofu að taka tilliti til þeirra takmarkana sem mælt er fyrir um í 9. mgr. 15. gr.

Ráðuneytið getur ekki fallist á það sjónarmið kæranda að breytt túlkun Fiskistofu á 15. gr. laga um stjórn fiskveiða leiði til brots á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar þar sem fyrri túlkun Fiskistofu var röng og verður því stofnunin ekki að viðhafa sömu framkvæmd í samræmi við ákvarðanir sem ekki voru í samræmi við lög. Ráðuneytið bendir á að stjórnvöld eru ekki bundin af ólögmætri framkvæmd. Réttur verður ekki byggður á rangri framkvæmd laga. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga skulu stjórnvöld við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Beiting þessarar reglu er háð því að stjórnsýslumál teljist sambærileg. Þótt mál teljist sambærileg verður sú ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem lögð er til grundvallar við samanburð og beitingu jafnræðisreglunnar einnig að vera lögmæt. Jafnræðisreglan veitir mönnum almennt ekki tilkall til neins þess sem samrýmist ekki lögum. Hafi efni ákvörðunar verið ólögmætt getur aðili að öðru máli því ekki krafist sambærilegrar úrlausnar með því að vísa til þeirrar ákvörðunar.

 

III.    Aðrar málsástæður

Í stjórnsýslukæru og frekari rökstuðningi kæranda var einnig vísað til málsástæðna í öðrum málum, og tók kærandi undir þær og gerði að sínum, án þess að reifa þær sérstaklega í þessu máli. Varða þær einkum ágreining um skriflega staðfestingu Fiskistofu á flutningsbeiðnum, um leiðbeiningar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til Fiskistofu um túlkun laga m.t.t. yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda, um takmarkanir á framsali m.t.t. eignarréttarákvæða stjórnarskrár og um vanhæfisreglur. Kærandi hefur bent á að ráðuneytið hafi með úrskurðum, sem birtir voru 13. nóvember 2020 og 22. desember 2020 á vefsíðu stjórnarráðsins, fjallað um þær málsástæður. Telur ráðuneytið rétt að vísa til þeirra úrskurða hvað varðar þær málsástæður. Af öllu framangreindu virtu telur ráðuneytið að ekki þurfi að ráða frekar úr öðrum málsástæðum sem tilgreindar hafa verið við meðferð málsins þar sem úrlausn þeirra muni ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins.

 

Með vísan til alls framanritaðs staðfestir ráðuneytið ákvarðanir Fiskstofu dags. 1. og 7. október 2019, sem stjórnsýslukæran lýtur að.

 

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar, en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir þær ellefu ákvarðanir Fiskistofu, dags. 1. og 7. október 2019, sem stjórnsýslukæran lýtur að.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum