Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 33/2021 úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 33/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU20110035

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. nóvember 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. október 2020, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn hans um dvalarleyfi verði samþykkt. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 3. júní 2016. Þann 15. júlí 2016 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans á Íslandi og endursenda hann til Svíþjóðar. Þann 29. nóvember 2016 staðfesti kærunefnd útlendingamála þá ákvörðun Útlendingastofnunar. Samkvæmt gögnum málsins yfirgaf kærandi landið þann 23. febrúar 2017. Þann 25. ágúst 2017 sótti kærandi um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og var umsókninni synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. janúar 2018. Þann 6. nóvember 2018 sótti kærandi um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. október 2020, var umsókninni synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 27. október 2020 og þann 11. nóvember 2020 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 13. nóvember 2020 féllst kærunefnd á þá beiðni. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 2. desember 2020 Þann 5. janúar sl. hafði lögfræðingur kærunefndar samband við eiginkonu kæranda, [...], en unnið var minnisblað úr samtalinu. Með tölvupósti kærunefndar til umboðsmanns kæranda þann sama dag var kæranda kynnt efni minnisblaðsins og honum veittur frestur til andmæla, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Athugasemdir kæranda bárust kærunefnd þann 14. janúar 2021.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnuninni hafi borist skýrsla lögreglu, dags. 18. apríl 2019, en í skýrslunni komi m.a. fram að kærandi og eiginkona hans búi ekki saman. Hafi þá vaknað grunur hjá Útlendingastofnun um að með hjúskap væri aðeins verið að afla kæranda dvalarleyfis á Íslandi. Þann 22. október 2019 hafi stofnunin sent kæranda bréf þar sem fram kæmi að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. og 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga og hafi kæranda verið veittur 15 daga frestur til að leggja fram gögn eða andmæli. Kærandi hafi sent Útlendingastofnun bréf, dags. 4. nóvember s.á., en í bréfinu komi fram að kærandi og eiginkona hans hafi verið í tímabundnum erfiðleikum með leiguhúsnæði og hafi gert þau mistök að skrá lögheimili sitt á sitthvorum staðnum. Í bréfinu komi fram að þetta hafi verið leiðrétt og að þau búi saman við Snorrabraut 30. Með bréfinu hafi fylgt lögheimilisskráning eiginkonu hans, dags. 4. nóvember 2019, þar sem fram kæmi að hún byggi að [...]. Vísaði Útlendingastofnun til þess að samkvæmt upplýsingum í Þjóðskrá Íslands hafi eiginkona kæranda flutt af [...] þann 30. nóvember 2019 og í [...].

Þann 6. nóvember 2019 hafi Útlendingastofnun óskað eftir aðstoð lögreglu til að ganga úr skugga um að kærandi og eiginkona hans byggju saman og hafi beiðnin verið ítrekuð 5. desember 2019, 18. febrúar 2020 og aftur 14. ágúst 2020. Lögregluskýrsla, dags. 29. ágúst 2020., hafi borist Útlendingastofnun þann 2. september 2020. Í skýrslunni komi m.a. fram að samkvæmt samfélagsmiðlinum Facebook sé eiginkona kæranda trúlofuð öðrum manni og búi þau í [...] ásamt fjölskyldu mannsins. Þá komi fram að eiginkona kæranda hafi skráð sig í samband með framangreindum manni á Facebook þann [...] og [...]. Í dagbók lögreglu, dags. 31. ágúst 2020, komi fram að lögregla hafi rætt við eiginkonu kæranda þar sem hún hafi kveðið kæranda vera í neyslu og án atvinnu. Kærandi hafi komið illa fram við sig, væri vondur maður og að hún vildi ekkert af honum segja. Hafi stofnunin sent lögmanni kæranda tölvupóst, dags. 2. september 2020, þar sem fram hafi komið að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. og 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Jafnframt hafi lögmanni kæranda verið send framangreind lögregluskýrsla og dagbók lögreglu, þar sem m.a. kæmi fram að eiginkona kæranda hefði flutt úr íbúðinni að [...] fyrir tíu mánuðum síðan og að kærandi væri búsettur að [...] en eiginkona hans að [...]. Hafi stofnunin veitt kæranda frest til andmæla sem hafi borist þann 2. október 2020. Í bréfinu kæmi m.a. fram að kærandi og eiginkona hans séu í hjúskap og að ekki hafi verið lögð fram beiðni um skilnað að borði og sæng en þau hafi verið gift í tvö ár. Að mati kæranda sé ekki unnt að leggja útprentun af Facebook til grundvallar í ljósi rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar þegar fyrir liggi að hún sé í skráðum hjúskap með öðrum manni. Þá sé sérstaklega tekið fram að umræddum Facebook færslum hafi verið eytt þegar bréfið hafi verið ritað og að hún sé ekki í sambandi með öðrum manni. Eiginkona kæranda búi í [...] starfs síns vegna og að aðstæður þeirra falli undir 2. málsl. 6. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, enda sé ekkert óeðlilegt við það að aðili sé búsett tímabundið annars staðar vegna atvinnu og jafnframt að það komi upp tímabundnir erfiðleikar í hjúskap hjá ungu fólki.

Vísaði Útlendingastofnun til ákvæða 69. og 70. gr. laga um útlendinga. Óumdeilt væri að kærandi og eiginkona hans byggju ekki saman en skv. Þjóðskrá Íslands væri hún búsett í [...] en kærandi í Reykjavík. Væri framburður eiginkonu kæranda í andstöðu við framburð hans en hún hafi kvaðst hafa flutt af heimili þeirra tíu mánuðum áður. Jafnframt lægi fyrir frásögn eiginkonu kæranda þess efnis að hún væri í ástarsambandi með öðrum manni og [...]. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. og 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga og að stofnunin gæti ekki fallist á að tímabundnar ástæður væru fyrir hendi þvert á framburð eiginkonu kæranda en sá framburður væri staðfestur af lögreglu. Með vísan til þess var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni við efnislega úrlausn á umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar og að öll skilyrði séu uppfyllt til þess að umsóknin verði samþykkt. Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga hvað varði stofnun hjúskapar kæranda og eiginkonu hans. Fyrir liggi í gögnum málsins hjúskaparvottorð frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 25. október 2018, og séu þau enn í hjúskap. Í öðru lagi byggir kærandi á því að ekki verði ráðið af gögnum málsins að kærandi og eiginkona hans hafi slitið samvistum en að mati kæranda falli aðstæður þeirra undir undanþáguheimild 2. málsl. 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Sé eiginkona hans eingöngu skráð á öðrum stað starfs hennar vegna og þá sé um tímabundna erfiðleika að ræða í sambandi þeirra sem kærandi telji að muni gróa um heilt. Hafi kærandi og eiginkona hans talið hagkvæmast að hún hefði aðsetur í [...] vegna atvinnu hennar þar en í fríum sé búsetan hins vegar önnur. Geri ákvæði 7. mgr. 70. gr. raunar ráð fyrir slíku. Þá hafi Útlendingastofnun í öllu falli ekki sýnt fram á að um óeðlilega tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Vísar kærandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018 sé hjónum heimilt að skrá lögheimili hvort á sínum stað en í greinargerð með ákvæðinu komi fram að það teljist ekki samrýmast nútímaháttum að banna hjónum sem það vilja að þau hafi hvort sitt lögheimilið og af ýmsum ástæðum séu hjón ekki alltaf í aðstöðu til að eiga sama lögheimili eða beinlínis kjósi að eiga ekki sama lögheimili.

Þá mótmælir kærandi tilvísun Útlendingastofnunar í framburð eiginkonu hans samkvæmt dagbókarfærslu lögreglu þess efnis að kærandi hafi flutt úr íbúðinni rúmum tíu mánuðum áður. Liggi engin gögn fyrir um slíka skráningu og sé þessi fullyrðing alfarið röng. Hins vegar liggi fyrir gögn um sambúð kæranda og eiginkonu allan þann tíma sem umsókn um dvalarleyfi hafi verið til meðferðar hjá Útlendingastofnun en síðast hafi verið lögð inn gögn til stofnunarinnar í nóvember 2019. Í þessu samhengi sé sérstaklega bent á þá staðreynd að eiginkona kæranda hafi ekki farið fram á skilnað og ekkert bendi til þess að hún muni slíta hjúskapnum. Vísar kærandi til þess að leiða megi líkur að því að eiginkona hans væri nú þegar búin að óska eftir skilnaði að borði og sæng ef aðstæður væru þær sem Útlendingastofnun telji að séu fyrir hendi.

Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun brjóti gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Sé eingöngu stuttur tími frá því að eiginkona hans skráði sig á öðrum stað starfs síns vegna í [...] eins og þeim sé heimilt samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur. Því telji kærandi að miðað við þau gögn og upplýsingar sem liggi fyrir í málinu og alls þess tíma sem umsóknin hafi verið til meðferðar sé rétt að beita undantekningarreglu 2. málsl. 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá virðist sem hin kærða ákvörðun grundvallist aðallega á athugun á Facebook reikningi eiginkonu kæranda ásamt óvæntu símtali til hennar. Byggi kærandi á því að skoðun Útlendingastofnunar á samfélagsmiðlum fullnægi ekki rannsóknarskyldu þeirri sem hvíli á stjórnvaldinu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga. Að mati kæranda eigi ekki að draga of víðtækar ályktanir af því sem fram komi á samfélagsmiðlum og sé því alfarið mótmælt að útprentanir, skoðun mynda eða skráning á samfélagsmiðlum geti haft einhverja þýðingu við úrlausn málsins þegar um svo mikilvæga hagsmuni sé að ræða. Þá byggir kærandi á því að dagbókarfærsla lögreglu hafi ekkert sönnunargildi varðandi fasta búsetu eða skráningu kæranda og eiginkonu hans, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en henni fylgi engin frekari gögn eða skýringar. Hafi Útlendingastofnun verið í lófa lagið að kalla kæranda eða eiginkonu hans til viðtals til frekari upplýsinga á þeim tíma en kærandi telji aðstæður breyttar frá þeim tíma er símtal lögreglu til eiginkonu hans átti sér stað.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Í 7. mgr. 70. gr. laganna kemur fram að makar og sambúðarmakar skuli hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili og aðsetur. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi. Í athugasemdum við 7. mgr. 70. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að í ákvæðinu sé það skilyrði sett að hjón þurfi að búa saman og skuli halda saman heimili. Borið hafi á því að umsækjendur búi ekki saman en segist eigi að síður vera í hjúskap. Í sumum tilvikum geti það verið eðlilegt vegna atvinnu annars eða beggja hjóna. Þegar slíkt sé uppi sé heimilt að veita undanþágu frá því að hjón eða sambúðaraðilar búi saman ef einungis um tímabundið ástand sé að ræða, t.d. vegna náms eða vinnu. Undanþáguna skuli túlka þröngt líkt og aðrar undanþágur og eigi hún ekki við um tilvik þar sem aðstandandi hér á landi sæti eða muni sæta fangelsisrefsingu.

Þann 1. janúar 2019 tóku gildi lög um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018. Í 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna segir að lögheimili sé sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Í 2. mgr. 2. gr. segir að með fastri búsetu sé átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. eiga hjón sama lögheimili en hjónum er þó heimilt að skrá það hvort á sínum staðnum.

Samkvæmt gögnum málsins gengu kærandi og eiginkona hans í hjúskap þann 25. október 2018, sbr. framlagt hjónavígsluvottorð frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Þann 17. maí 2019 var kærandi færður í skýrslutöku hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Aðspurður kvaðst hann búa í [...] ásamt eiginkonu sinni. Í skýrslutökunni var borið undir kæranda að lögreglan hefði upplýsingar um að kærandi byggi að [...] og að hann byggi ekki í [...] þar sem eiginkona hans byggi ekki þar. Kærandi svaraði því til að hann byggi ekki í [...] þar sem svolítið hefði komið upp milli hans og eiginkonu sinnar, en að hann gerði ráð fyrir að fara þangað aftur. Aðspurður kvaðst kærandi ekki búa með eiginkonu sinni. Þann sama dag fór eiginkona kæranda í skýrslutöku hjá lögreglu. Tjáði hún lögreglu að hún og kærandi hefðu búið saman um stundarsakir eða þar til um áramótin 2018-2019 en þá hafi kærandi sýnt af sér hegðun sem hún væri ekki sátt við og hann flutt út og þau lítið sem ekkert talað saman síðan þá, en upp á síðkastið hefði samband þeirra lagast. Aðspurð hafi eiginkona kæranda kvaðst ætla að fara fram á skilnað.

Í skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 29. ágúst 2020, kemur fram að við könnun á málinu hafi komið í ljós að eiginkona kæranda væri samkvæmt Facebook síðu hennar trúlofuð manni að nafni [...] og að þau væru skráð til heimilis að [...] samkvæmt þjóðskrá ásamt fjölskyldu [...]. Samkvæmt Facebook síðu eiginkonu kæranda hefði hún skráð sig í sambandi með [...] þann [...]. [...]. Í dagbókarfærslu lögreglunnar, dags. 31. ágúst 2020, kemur fram að lögregla hafi rætt við eiginkonu kæranda í síma og hafi hún tjáð lögreglu að hún hafi flutt úr íbúðinni í [...] 10 mánuðum áður. Kærandi væri í neyslu og ekki í vinnu en stundum ynni hann á börum í Reykjavík. Tjáði hún lögreglu að kærandi hefði komið illa fram við sig og hafi maki ekkert viljað hafa af honum að segja. Fyrirliggjandi í gögnum málsins eru ljósmyndir af eiginkonu kæranda og áðurnefndum [...] á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem m.a. kemur fram að þau séu í sambandi og [...].

Þann 5. janúar 2021 hafði lögfræðingur kærunefndar samband við eiginkonu kæranda, [...]. Tjáði [...] kærunefnd að hún væri ekki í sambandi með kæranda, hún hefði ekki hitt hann í meira en ár og að þau væru ekki með fasta búsetu á sama stað. Aðspurð sagði [...] að ekki væri um sérstakar tímabundnar ástæður að ræða. Hún væri í sambandi með öðrum manni og [...]. Þá vissi hún ekki hvar kærandi væri staðsettur en hún væri nú að leitast eftir skilnaði við hann. Vann kærunefnd minnisblað úr samtalinu og staðfesti [...] þann sama dag að efni þess væri rétt haft eftir henni. Með tölvupósti kærunefndar til umboðsmanns kæranda, dags. 5. janúar 2021, var kæranda kynnt efni minnisblaðsins og honum veittur frestur til andmæla, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 14. janúar 2021, gerir kærandi athugasemdir við frásögn eiginkonu sinnar. Kærandi mótmælir 1. tölul. minnisblaðsins þess efnis að þau hafi ekki verið í sambandi og hist í meira en ár og að ekki sé um sérstakar tímabundnar ástæður að ræða. Vísar kærandi til þess að þann 4. desember 2019 hafi hann ásamt eiginkonu sinni lagt inn tilkynningu um breytt heimilisfang að [...] í Reykjavík til Útlendingastofnunar vegna umsóknar sinnar um dvalarleyfi. Þar hafi þau búið til lengri tíma en það sé einnig staðfest í gögnum frá þjóðskrá. Kærandi mótmælir einnig framburði eiginkonu sinnar í minnisblaði skv. 2. og 3. tölul. Þau séu enn í staðfestum hjúskap auk þess sem fyrir liggi að aðstæður séu tímabundnar og að skráning eiginkonu hans í [...] tengist starfi hennar þar. Þá vísar kærandi sérstaklega til þess að eiginkona hans hafi ekki leitað til sýslumanns og óskað eftir skilnaði að borði og sæng né til dómstóla með slíka kröfu eins og henni sé í lófa lagið. Með tilliti til þess telji kærandi ekki annað hægt en að kærunefnd fallist á mótmæli hans við ákvörðun Útlendingastofnunar og að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi og eiginkona hans hafa ekki haft fasta búsetu á sama stað frá því um árámótin 2018-2019, sbr. frásögn maka kæranda í skýrslutöku hjá lögreglunni þann 17. maí 2019 og frásögn hennar í samtali við lögfræðing kærunefndar. Samkvæmt upplýsingum í þjóðskrá er eiginkona kæranda skráð með lögheimili að [...] en af gögnum málsins má ráða að kærandi sé búsettur í Reykjavík. Með vísan til framangreinds uppfylla kærandi og maki hans því ekki skilyrði 1. málsl. 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga um að hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili og aðsetur. Hvað varðar vísun kæranda í greinargerð sinni til ákvæða laga um lögheimili og aðsetur, m.a. um heimild hjóna til þess að hafa lögheimili á hvort sínum stað, þá bendir kærunefnd á að ákvæði 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um sérreglu um búsetu útlendings og maka sem gengur framar almennum ákvæðum laga um lögheimili og aðsetur. Að mati kærunefndar leiðir af eðli dvalarleyfa á grundvelli hjúskapar og fyrrnefndum athugasemdum við 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga að ekki sé unnt að veita undanþágu frá skilyrði ákvæðisins um að hjón hafi fasta búsetu á sama stað þegar um samvistarslit er að ræða. Þá hefur [...] sjálf tjáð kærunefnd að ekki sé um sérstakar tímabundnar ástæður að ræða og er ekkert sem bendir til þess að breyting verði þar á.

Á undantekningarheimild 2. máls. 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga því ekki við í málinu.

Að framangreindu virtu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Í greinargerð gerir kærandi athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, m.a. að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni og meðalhófs. Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana að þessu leyti. Hefur kærunefnd skoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Kærandi lagði fram dvalarleyfisumsókn sína þann 6. nóvember 2018 og er ljóst að málsmeðferðartími stofnunarinnar fór fram úr öllu hófi og fer meðferð þess verulega í bága við fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Töf á afgreiðslu málsins hjá Útlendingastofnunar á sér þó einhverjar skýringar, t.d. tók það lögreglu um 9 mánuði að verða við beiðni Útlendingastofnunar um frekari rannsókn en að mati kærunefndar var beiðnin mikilvægur þáttur í rannsókn málsins. Þá lítur kærunefnd til þess að í stjórnsýslurétti teljast tafir á meðferð máls almennt ekki til annmarka sem leiði til ógildingar á ákvörðun nema sérstök lagafyrirmæli komi til en slíkt á ekki við í málinu.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber honum að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Gunnar Páll Baldvinsson                                      Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum