Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 313/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 313/2021

Miðvikudaginn 24. nóvember 2021

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 21. júní 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 6. apríl 2021 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 15. desember 2020, sem barst Sjúkratryggingum Íslands sama dag, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á C, D þann X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 6. apríl 2021, á þeim grundvelli að bótakrafa kæranda væri fyrnd samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. júní 2021. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 2. júlí 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. júlí 2021, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust nefndinni þann 19. júlí 2021 frá lögmanni kæranda með ódagsettu bréfi og var það sent Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 4. ágúst 2021, og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.


 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur úr sjúklingatryggingu verði hrundið og lagt fyrir Sjúkratryggingar Íslands að taka umsókn kæranda fyrir efnislega.

Í kæru segir að forsaga málsins sé sú að kærandi hafi gengist undir bólusetningu við svínaflensu á C á D þann X þar sem hún hafi verið sprautuð með bóluefninu Pandemrix. Í kjölfarið hafi farið að bera á því að kærandi væri haldin mikilli svefnþörf, auk dagsyfju. Þetta hafi lýst sér í því að kærandi hafi sofnað nokkurn veginn hvar sem hún hafi verið stödd og hafi nýtt hvert tækifæri til að blunda því að öðrum kosti kæmist hún ekki í gegnum daginn sökum syfju.

Kærandi hafi leitað læknisaðstoðar í fjölmörg skipti vegna þeirra einkenna sem hafi tekið sig upp í kjölfar bólusetningarinnar en undantekningalaust verið ranglega greind með blóð- og járnskort eða með væg þunglyndiseinkenni. Þetta megi lesa úr sjúkrasögu kæranda, en í sögunni megi beinlínis sjá að þau þunglyndiseinkenni sem hafi vegið mest við þá greiningu hafi verið síþreyta og svefnþörf, sbr. nóta læknis frá X. Þar sem þær lyfjameðferðir sem kærandi hafi fengið í kjölfar heimsókna sinna til lækna hafi engan veginn slegið á einkenni hennar hafi kærandi síendurtekið leitað læknisaðstoðar vegna síþreytunnar. Það hafi ekki verið fyrr en í X að kærandi hafi loksins fengið tilvísun frá heimilislækni sínum í tíma hjá taugalækni vegna gruns um að hún þjáðist af drómasýki. Kærandi hafi í kjölfarið hitt E taugalækni í X og gengist undir svefnrannsóknir á Landspítala. Þær rannsóknir hafi staðfest svo ekki yrði um villst að kærandi þjáðist af drómasýki, sem hefði að öllum líkindum tekið sig upp strax í kjölfar bólusetningarinnar árið X, sbr. nótu F, í sjúkrasögu kæranda frá X.

Í kjölfar þess að kærandi hafi loks fengið staðfestingu á því að hún þjáðist af drómasýki hafi hún lagt inn umsókn um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu til Sjúkratrygginga Íslands þann 15. desember 2020. Umsókn kæranda hafi hins vegar verið hafnað með ákvörðun, dags. 6. apríl 2021, á þeim grundvelli að krafa kæranda væri fyrnd, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu, þar sem meira en tíu ár hefðu liðið frá því atviki sem krafan hafi byggt á, bólusetningunni X, og til þess að kærandi hafi fyrst lagt inn umsókn um bætur til Sjúkratrygginga Íslands 15. desember 2020.

Kærandi byggi kæru sína einkum á því að krafa hennar hafi engan veginn verið fyrnd, ólíkt því sem tekið sé fram í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 6. apríl 2021. Í 1. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 sé tekið fram að kröfur á grundvelli laganna fyrnist á fjórum árum eftir að tjónþoli hafi fengið vitneskju eða hefði mátt vita um tjón sitt, en í 2. mgr. sömu greinar sé tekið fram að kröfur á grundvelli laganna fyrnist þó aldrei síðar en tíu árum eftir það atvik sem hafi haft tjón tjónþola í för með sér.

Í frumvarpi því er varð að lögum um [sjúklingatryggingu] segi í athugasemdum við þá grein er varð 19. gr. laganna að fyrningarfresturinn samkvæmt 2. mgr. 19. gr. sé jafnlangur og almennt gerist um skaðabótakröfur. Tekið er fram að á þeim tíma er lög um sjúklingatryggingu hafi tekið gildi hafi lög nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda gilt almennt um fyrningu skaðabótakrafna, en samkvæmt þeim hafi skaðabótakröfur fyrnst á tíu árum frá hinu bótaskylda atviki, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna. Nú gildi hins vegar lög nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda um fyrningu skaðabótakrafna sem og annarra krafna, en um fyrningu skaðabótakrafna sé fjallað í 9. gr. laganna. Þar segi í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. að krafa um skaðabætur vegna líkamstjóns fyrnist á tíu árum frá þeim degi er tjónþoli hafi fengið nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð beri á því.

Í 1. mgr. 10. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda segi að hafi kröfuhafi ekki haft uppi kröfu sökum þess að hann skorti nauðsynlega vitneskju um kröfuna eða skuldarann, fyrnist krafa hans aldrei seinna en einu ári eftir þann dag sem kröfuhafi hafi fengið slíka vitneskju. Ákvæðið hafi verið skýrt á þann veg að skorti kröfuhafa nauðsynlega vitneskju um kröfu sína, þar með talið það hvort krafan sé yfirhöfuð til staðar, skuli krafan ekki teljast fyrnd fyrr en einu ári eftir þann dag er kröfuhafi hafi fengið slíka vitneskju. Telja verði að um almennt ákvæði sé að ræða sem gildi um allar tegundir krafna. Hér verði þó auðvitað að gera þá kröfu til kröfuhafa að hann afli sér þeirra upplýsinga um kröfu sína sem tilefni sé til. Það hafi kærandi reynt margsinnis er hún hafi vitjað lækna vegna þeirra einkenna sem hafi tekið sig upp hjá henni í kjölfar hins bótaskylda atviks í X, en alltaf fengið þau svör að ekkert væri að henni og að ekki væri um nein tengsl að ræða á milli bólusetningarinnar og þeirra veikinda sem hún hafi fundið fyrir í kjölfarið. Það hafi ekki verið fyrr en kærandi hafi fengið staðfesta greiningu þann X á að hún þjáðist af drómasýki (e. narcolepsy with cataplexy) og að líklega væru tengsl á milli bólusetningarinnar og drómasýkinnar að hún hafi yfirhöfuð fengið þá vitneskju að hún gæti átt kröfu samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu. Þá hafi kærandi árum saman reynt að fá rétta greiningu við sjúkdómi sínum en ekki haft erindi sem erfiði líkt og að framan greini. Kærandi telji augljóst að 1. mgr. 10. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda eigi við í hennar tilfelli, enda eigi hún kröfu sem hún hafi einfaldlega ekki vitað af fyrr en X. Samkvæmt viðbótarfresti þeim sem leiði af 1. mgr. 10. gr. laganna hafi krafa hennar um bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu því ekki verið fyrnd er hún hafi lagt inn umsókn um bætur til Sjúkratrygginga Íslands þann 15. desember 2020, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi fallist ekki á að 1. mgr. 10. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda geti ekki gilt um kröfur um bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu sem séu fyrndar samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna. Þvert á móti telji kærandi að ákvæðin séu samrýmanleg og að túlka beri ákvæðin á þann veg að 19. gr. laga um sjúklingatryggingu sé meginregla sem gildi um fyrningu krafna um bætur samkvæmt lögunum á meðan 10. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda mæli fyrir um undantekningu á þeirri meginreglu.

Kærandi telji ljóst að ætlun löggjafans við setningu laga um sjúklingatryggingu hafi ekki verið að binda fyrningartíma krafna um bætur úr sjúklingatryggingu undantekningalaust við tíu ár. Kærandi bendi sérstaklega á að í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum um sjúklingatryggingu sé tekið fram í athugasemdum við þá grein er varð að 19. gr. laganna að fyrningarfresturinn samkvæmt 2. mgr. sé jafnlangur og almennt gerist um fyrningu skaðabótakrafna samkvæmt þágildandi fyrningarlögum. Um slit fyrningar fari hins vegar eftir almennum réttarreglum um fyrningu. Það sé því ljóst að löggjafinn hafi gert ráð fyrir því við setningu laga um sjúklingatryggingu að hægt yrði að slíta fyrningu kröfu um bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu eftir þeim leiðum sem mælt væri fyrir um hverju sinni í gildandi lögum um fyrningu kröfuréttinda, þannig að í einhverjum tilfellum myndi krafa um bætur úr sjúklingatryggingu lifa lengur en í þau tíu ár sem mælt sé fyrir um í 2. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Þá segir að um slit fyrningar sé nú fjallað í IV. kafla laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 150/2007 segi í athugasemdum við 10. gr. að ,,í 7. mgr. er mælt fyrir um viðbótarfrest fyrir kröfuhafa í þeim tilvikum er hann skortir nauðsynlega vitneskju um kröfuna eða skuldarann. Þá fyrnist krafa hans aldrei fyrr en einu ári eftir þann dag er kröfuhafi fékk eða bar að afla sér slíkrar vitneskju. Fyrningarfrestur kröfunnar telst hér sem endranær frá gjalddaga en þetta ákvæði leiðir til þess að fresturinn getur lengst og búa hér að baki sjónarmið til verndar kröfuhafa. Skorti kröfuhafa vitneskju um kröfu sína eða skuldara á hann enga möguleika til að rjúfa fyrningu kröfu sinnar með þeim úrræðum, sem ákvæði 14.-19. gr. frumvarpsins mæla fyrir um.“ Ljóst sé að kærandi hafi enga vitneskju haft um kröfu sína, enda hafi kærandi ekki fengið staðfesta greiningu á sjúkdómi sínum fyrr en í X, líkt og rakið sé í kæru. Kæranda hafi því verið algerlega ófært að rjúfa fyrningu kröfu sinnar eftir almennum reglum laga um fyrningu kröfuréttinda.

Kærandi telji að öllu framansögðu að ekki beri að túlka 2. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu sem sérreglu sem gangi framar öðrum almennum reglum um fyrningu kröfuréttinda. Frekar eigi að túlka 2. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu sem meginreglu sem gildi um fyrningu krafna samkvæmt sömu lögum. Almennar undantekningar séu hins vegar á þeirri meginreglu, sem komi fram í lögum um fyrningu kröfuréttinda, þar á meðal 1. mgr. 10. gr. laganna. Þær undantekningar séu svo túlkaðar í samræmi við almennar lögskýringarkenningar. Engin rök standi til þess að mati kæranda að tilvitnuð ákvæði laga um sjúklingatryggingu beri að túlka á þá leið að kröfur um bætur samkvæmt ákvæðum laganna fyrnist undantekningalaust á tíu árum, líkt og gert virðist ráð fyrir af hálfu Sjúkratrygginga Íslands.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands 15. desember 2020. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem fram hafi farið á C, D þann X. Umsóknin hafi verið til skoðunar hjá stofnuninni og hafi málið verið talið að fullu upplýst. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 6. apríl 2021, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að bótakrafan væri fyrnd samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Fram kemur að í 19. gr. laga um sjúklingatryggingu sé að finna reglur um fyrningu bótakrafna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins fyrnist kröfur um bætur úr sjúklingatryggingu þegar fjögur ár séu liðin frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Í 2. mgr. komi fram að krafan fyrnist þó eigi síðar en þegar tíu ár séu liðin frá atvikinu sem hafi haft tjón í för með sér.

Samkvæmt umsókn til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 15. desember 2020, hafi kærandi leitað til C á D og fengið svínaflensusprautu. Hún hafi í kjölfarið ítrekað leitað til lækna vegna vanlíðanar í kjölfar sprautunnar en það hafi ekki verið fyrr en í X sem hún hafi fengið að vita af greiningu sinni, drómasýki.

Þá segir að umsókn kæranda hafi borist 15. desember 2020 en þá hafi verið liðin X ár frá því að kærandi hafi gengist undir bólusetningu við svínainflúensu þann X. Því sé ljóst að fyrningarfrestur 2. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu hafi verið liðinn er umsóknin hafi borist Sjúkratryggingum Íslands. Þar sem krafan hafi verið fyrnd samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu hafi málið ekki verið skoðað efnislega.

Í greinargerð kæranda komi fram að málið sé ekki fyrnt með vísan til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu þar sem hún hafi einfaldlega ekki vitað af kröfu sinni fyrr en X. Slíkt eigi ekki við rök að styðjast þar sem ákvæði laga um fyrningu samkvæmt sjúklingatryggingarlögum séu sérlög sem gangi framar almennum ákvæðum laga um fyrningu.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu fyrnist krafa eigi síðar en þegar tíu ár eru liðin frá atvikinu sem hafði tjón í för með sér. Atvikið hafi átt sér stað X, en umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu hafi borist Sjúkratryggingum Íslands 15. desember 2020, eða X árum síðar. Því sé ljóst að krafa kæranda um bætur sé fyrnd, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndar almannatrygginga, dags. 3. desember 2015, nr. 108/2015, þar sem fram komi:

„Samkvæmt áðurgreindu ákvæði 1. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu er það lögbundin forsenda fyrir bótarétti vegna sjúklingatryggingaratburðar að kröfu hafi verið haldið fram áður en fjögur ár voru liðin frá því tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Þó fyrnist krafan eigi síðar en þegar tíu ár eru liðin frá atvikinu sem hafði tjón í för með sér, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga felst í framangreindu ákvæði 19. gr. að krafa um bætur fyrnist þegar tíu ár eru liðin frá sjúklingatryggingaratviki, óháð því hvenær tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt.“

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að stofnunin hafi leitað í danskan rétt til skýringar á sambærilegu ákvæði dönsku sjúklingatryggingarlaganna áður en þeim dönsku hafi verið breytt árið 2007. Þá hafi þýðing laganna verið nánast sambærileg núgildandi íslensku lögunum, sé undanskilið að fimm ára fyrningarfrestur hafi verið í 1. mgr. 19. gr. dönsku laganna. Danska ákvæðið hafi hljóðað svo:

„PFL §19

(1)   Krav skal være anmeldt senest 5 år efter, at den erstatningsberettigede har fået eller burde have fået kendskap til skaden.

(2)   Krav skal være anmeldt senest 10 år efter den dag, skaden er forårsaget.“

Í bók Bo Von Eyben, Patentforsikringen, frá 1993, segi á bls. 247-248 að geri sjúklingur sér fyrst grein fyrir tjóni sínu eftir að tíu ár séu liðin frá því atviki sem hafi orsakað tjónið sé krafa um bætur úr sjúklingatryggingu fyrnd. Þannig feli 2. mgr. 19. gr. í sér að krafa um bætur geti verið fyrnd áður en tjónþola verði tjón sitt ljóst.

Þá segi á bls. 250 í sömu bók að tíu ára fyrningarreglan í 2. mgr. 19. gr. sé absolut, og að undir engum kringumstæðum verði litið fram hjá því þegar mál séu tilkynnt eftir að sá frestur sé liðinn, burtséð frá því hversu afsakanlegar ástæður kynnu að vera þar að baki og það eigi jafnframt við í tilfellum þar sem sjúklingurinn hafi ekki haft vitneskju um tjón sitt og því ekki getað tilkynnt um tjónið innan frestsins.

Þetta þýði þó ekki endilega að sjúklingur eigi engan rétt á bótum heldur þýði þetta að hann tapi rétti sínum til að fá bætur með því hagræði sem fylgi því að gera bótakröfu á grundvelli laga um sjúklingatryggingu frekar en á grundvelli skaðabótalaga.

Á bls. 220-221 í bók dönsku stofnunarinnar Patientforsikringen (nú Patienterstatningen), Afgørelser og praksis 1992-2005, frá árinu 2007 séu tekin dæmi um ákvarðanir dönsku sjúklingatryggingarstofnunarinnar á árunum 1992-2005. Dæmi sé tekið um 64 ára gamlan mann sem hafi fengið gervilið í hægri mjöðm þar sem notað var Boneloc cement. Röntgenmyndir sem teknar hafi verið í júní 2001 hafi sýnt að gerviliðurinn hafi verið laus og hafi það verið niðurstaða Patientforsikringen að atvikið sem hafi haft tjónið í för með sér hafi átt sér stað í aðgerðinni í október 1992 þar sem losnun gerviliðarins hafi tengst notkun Boneloc cementsins. Maðurinn hafi tilkynnt um tjónið í desember 2002 og því hafi verið liðin tíu ár og tveir mánuðir frá því atviki sem hafi haft tjónið í för með sér og þar til tilkynning um sjúklingatryggingaratburðinn hafi borist Patientforsikringen. Niðurstaða Patientforsikringen hafi verið sú að krafa um bætur væri fyrnd á grundvelli 2. mgr. 19. gr. dönsku laganna um sjúklingatryggingu.

Tekið er fram að Sjúkratryggingar Íslands fari eftir skýru orðalagi 19. gr. laga um sjúklingatryggingu og mjög afgerandi skýringum á þýðingu greinarinnar í þeim fræðiritum sem til séu í dönskum rétti og telji að krafa kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu sé fyrnd.

Þá hafi í fyrrnefndum úrskurði í máli nr. 108/2015 þar sem reynt hafi á 2. mgr. 19. gr. laganna, verið tekið skýrt fram af hálfu úrskurðarnefndar almannatrygginga að samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu sé það lögbundin forsenda fyrir bótarétti vegna sjúklingatryggingaratburðar að kröfu hafi verið haldið fram áður en fjögur ár hafi verið liðin frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Þó fyrnist krafan eigi síðar en þegar tíu ár séu liðin frá atvikinu sem hafi haft tjón í för með sér, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Að mati nefndarinnar felist í ákvæðinu að krafa um bætur fyrnist þegar tíu ár séu liðin frá sjúklingatryggingaratviki, óháð því hvenær tjónþoli hafi fengið eða hafi mátt fá vitneskju um tjón sitt. 

Sjúkratryggingar Íslands ítreki því að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu fyrnist krafa eigi síðar en þegar tíu ár séu liðin frá atvikinu sem hafi haft tjón í för með sér, sbr. meðal annars úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í málum nr. 331/2017, 137/2018, 361/2018 og 636/2020.

Loks segir að ákvæði 2. mgr. 19. gr. laganna sé skýrt og augljóst að því sé ætlað að takmarka þann tíma sem sjúklingur geti komið fram með bótakröfu á grundvelli 1. mgr. 19. gr., enda komi þar fram að krafa fyrnist þó eigi síðar en þegar tíu ár séu liðin frá atvikinu sem hafi haft tjón í för með sér.

Þessi málsgrein bjóði ekki upp á frekari skýringar en þær að tíu árum frá því atviki sem hafi haft tjón í för með sér sé krafa um bætur úr sjúklingatryggingu fyrnd. Ekki sé fallist á með lögmanni kæranda að almennar undantekningar séu á henni sem komi fram í lögum um fyrningu kröfuréttinda, þar á meðal 1. mgr. 10. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um bætur á grundvelli laga um sjúklingatryggingu á þeirri forsendu að krafa kæranda þar um sé fyrnd.

Til álita kemur í máli þessu hvort kærandi geti átt rétt til bóta úr sjúklingatryggingu vegna meints sjúklingatryggingaratviks sem hafi átt sér stað við meðferð kæranda á C á D þann X. Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að umsóknin hefði borist þegar meira en tíu ár voru liðin frá atvikinu sem hafði tjón í för með sér.

Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu segir að kröfur um bætur sam­kvæmt lögunum fyrnist þegar fjögur ár eru liðin frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Í 2. mgr. nefndrar 19. gr. segir að krafan fyrnist þó eigi síðar en þegar tíu ár eru liðin frá atvikinu sem hafði tjón í för með sér.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu er það lögbundin forsenda fyrir bótarétti, sbr. 3. gr. laganna, að kröfu hafi verið haldið fram áður en fjögur ár voru liðin frá því að tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Þó fyrnist krafan eigi síðar en þegar tíu ár eru liðin frá atvikinu sem hafði tjón í för með sér, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Í ákvæðinu felst því að krafa um bætur fyrnist þegar tíu ár eru liðin frá sjúklingatryggingaratviki, óháð því hvenær tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt. Þá verður ekki fallist á með kæranda að regla sú sem finna má í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, um að krafa fyrnist ekki fyrr en einu ári eftir þann dag sem kröfuhafi fékk eða bar að afla sér vitneskju sökum þess að hann skorti nauðsynlega vitneskju um kröfuna eða skuldarann, eigi við um kröfu hennar þar sem lög nr. 111/2000 eru sérlög sem ganga framar lögum nr. 150/2007. Breytir heldur engu í þeim efnum þótt í frumvarpi því er varð að lögum um sjúklingatryggingu sé tekið fram í athugasemdum við þá grein er varð að 19. gr. laganna að um slit fyrningar fari eftir almennum réttarreglum um fyrningu, enda er ekki um að ræða reglu um slit fyrningar í 1. mgr. 10. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda.

Umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu barst Sjúkratryggingum Íslands 15. desember 2020. Kærandi vísar til þess að meint tjónsatvik hafi átt sér stað X. Voru því liðin X ár frá því að hið ætlaða sjúklingatryggingaratvik átti sér stað.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að Sjúkratryggingum Íslands hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu þar sem umsóknin var ekki lögð fram innan lögbundins tíu ára fyrningarfrests sem kveðið er á um í 2. mgr. 19. gr. laganna. Er hin kærða ákvörðun því staðfest..

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum