Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 593/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 593/2021

Þriðjudaginn 8. mars 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Helgi Viborg sálfræðingur

Með kæru, dags. 8. nóvember 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 12. október 2021 vegna umgengni fóstursonar hennar D við E. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er rúmlega X ára gamall drengur sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Faðir drengsins var sviptur forsjá hans með dómi Héraðsdóms B þann 10. maí 2019 sem var síðan staðfestur í Landsrétti þann 11. október 2019. Kærandi er fósturmóðir drengsins.

Mál drengsins var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 12. október 2021. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 24. ágúst 2021, sem lögðu til óbreytta umgengni, tvisvar á ári í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar B. Faðir var ekki samþykkur tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að D, hafi umgengni við föður sinn, E, fjórum sinnum á ári, tvær klukkustundir í senn. Umgengni verði undir eftirliti og fari fram í húsnæði Barnaverndar B í nóvember og maí ár hvert.

Skilyrði umgengni er að faðir sé edrú og í andlegu jafnvægi að mati eftirlitsaðila. Umgengni verði með þessum hætti í varanlegu fóstri.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. nóvember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. nóvember 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 3. desember 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. desember 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir lögmanns kæranda bárust með bréfi, dags. 15. desember 2021, og voru þær sendar barnaverndarnefndinni til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurðinum verði breytt þannig að umgengniskröfu kynföður verði hafnað og umgengni verði ákveðin óbreytt frá fyrri úrskurði, þ.e. tvisvar sinnum á ári. 

Hvað varðar málavexti eins og þeir horfa við kæranda, þá vísast til málavaxtalýsingar í hinum kærða úrskurði og greinargerðar starfsmanna Barnaverndarnefndar B. Tekur kærandi undir þá lýsingu sem þar kemur fram.

Drengurinn hefur verið í fóstri hjá kæranda óslitið frá því í júlí 2018, fyrst í tímabundnu fóstri en frá 13. maí 2019 í varanlegu fóstri. Fram komi í gögnum málsins og sé óumdeilt að fóstrið hafi gengið afar vel og drengurinn myndað sterk og kærleiksrík tengsl við kæranda. Þá sé það einnig óumdeilt að drengurinn hafi tekið stórstígum framförum í líðan og þroska eftir að hann hafi komið til kæranda í fóstur. Þá skal bent á að drengurinn glími við nokkuð alvarlegar sérþarfir, sé greindur með væga þroskahömlun, málskilningsröskun, frávik í hreyfiþroska og ADHD einkenni, sbr. niðurstöðu Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins frá 7. febrúar 2020, sem liggi fyrir í málinu.

Með úrskurði Barnaverndarnefndar B, dags. 3. september 2019, hafi verið ákveðið að kynfaðir hefði umgengni við drenginn tvisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn. Áður, eða á meðan fóstrið hafi verið tímabundið, hafi kynfaðir haft tíðari umgengni og einnig hafi kynmóðir drengsins haft við hann umgengni, en hún lést í júnímánuði 2019. Í þeim úrskurði séu röksemdir fyrir tíðni umgengni meðal annars þær að slíkt sé hæfilegt til að ná markmiði sem stefnt sé að með vistun drengsins í varanlegt fóstur. Þá hafi einnig verið vísað til þess að umgengnin hafi valdið ójafnvægi og óróleika hjá drengnum sem hafi sýnt vanlíðan og breytta hegðun í kjölfar umgengni. Sú hegðun og vanlíðan hafi verið staðfest hjá bæði kæranda og hjá leikskóla drengsins.

Í hinum kærða úrskurði, dags. 12. október 2021, sé tíðni umgengni aukin í fjögur skipti á ári með vísan til sömu röksemda og í úrskurðinum frá 2019.

Drengurinn sé nú á X ári og hafi byrjað í grunnskóla í haust, einu ári á eftir jafnöldrum sínum vegna þeirra þroskaraskana sem hann búi við. Hann sé sem fyrr hafi verið lýst með miklar sérþarfir og njóti sérkennslu og aðstoðar á degi hverjum í skólanum. Það hafi að mati kæranda verið afar mikið stökk fyrir hann að fara úr leikskóla í skóla og mikilvægt að hlúa vel að honum og gæta að stöðugleika í aðstæðum hans.

Á fundi Barnaverndarnefndar B hinn 12. október 2021 hafi verið úrskurðað um umgengni drengsins við föður, sbr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Umgengni hafi verið ákveðin tvær klukkustundir í senn fjórum sinnum á ári. Auk þess sé ákveðið að umgengni skuli vera undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B. Umgengni mun fara fram samkvæmt úrskurðinum hinn 16. nóvember næstkomandi.

Kærandi byggir kæru sína á því að inntak þeirrar umgengni sem úrskurðað hafi verið um geti ekki þjónað þeim markmiðum sem fóstrið byggi á, þ.e. að um varanlegt fóstur sé að ræða sem standa eigi til 18 ára aldurs drengsins og því markmiði að drengurinn aðlagist fósturfjölskyldunni sem sinni eigin.

Í því sambandi vísar kærandi til þess að hinn kærði úrskurður sé ekki í samræmi við niðurstöður í sambærilegum málum hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Kærandi bendir á ítrekaðar forsendur í úrskurðum er varði umgengni fósturbarna við foreldra sína um að haga verði umgengni þannig að fósturbörnin fái frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni, enda sé markmið varanlegs fósturs að tryggja til frambúðar umönnun barnanna, öryggi þeirra og þroskamöguleika. Þá sé einnig ítrekað byggt á því að líta beri til þess að með umgengni kynforeldra við fósturbörn sé ekki verið að reyna styrkja tengsl þeirra heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar séu fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að börnin þekki uppruna sinn. Þá hafi einnig í úrskurðum nefndarinnar verið vísað til þess að það séu ríkir hagsmunir fósturbarna að tengslamyndun þeirra við fósturforeldra sé ótrufluð.

Enn fremur byggi kærandi sérstaklega á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 353/2018 sem kveðinn hafi verið upp föstudaginn 30. nóvember 2019. Í þeim úrskurði sé staðfest neitun Barnaverndarnefndar B um aukningu á umgengni kynmóður við barn í varanlegu fóstri, meðal annars með eftirfarandi rökstuðningi:

„[...] lögvarðir hagsmunir drengsins eru að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Drengnum líður vel og ekkert bendir til að hann hafi þörf fyrir breytingar. Það geta ekki talist hagsmunir drengsins að vera í miklum tengslum við kynforeldri þar sem slík tengsl eiga ekki að vera varanleg og til frambúðar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur drengurinn hvorki getu né þroska til að meta hvernig umgengni eigi að vera háttað. Á þessum tíma í lífi drengins eru það því ekki hagsmunir hans að tekin verði áhætta með því að auka umgengni eða gera tilraunir með aukna umgengni, svo sem kærandi leggur til, en aukin umgengni myndi raska ró drengsins í fóstrinu.“

Þannig byggir kærandi á því að það geti í raun ekki verið neinn ágreiningur um hvernig best skuli hagað umgengni í varanlegu fóstri og telur hún að þau grundvallarsjónarmið eigi vel við í máli þessu. Vilji hún standa vörð um réttindi drengsins til að ná stöðugleika og ró í fóstrinu hjá henni sem ætlað sé að vara til 18 ára aldurs.

Þá bendir kærandi jafnframt á úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 201/2020, sem kveðinn hafi verið upp hinn 10. september 2020, sem sé nánast samhljóða þeim sem þegar hafi verið reifaður, en þar hafi verið staðfestur úrskurður um umgengni fósturbarns við kynmóður tvisvar sinnum á ári.

Í úrskurðinum segi meðal annars:

„Nefndin telur að það séu lögvarðir hagsmunir hans að búa við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu og að þannig séu þroskamöguleikar hans best tryggðir til frambúðar. Hann þarf að fá svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Þá er einnig til þess að líta að gögn málsins gefa til kynna að drengurinn sé erfiður þegar hann kemur úr umgengni og sé nokkurn tíma að jafna sig. Þá verður heldur ekki annað ráðið en að drengnum líði vel í fóstrinu og ekkert bendir til þess að hann hafi þörf fyrir breytingar. Hvað varðar umgengni við kæranda  er ekki verið að reyna styrkja þau tengsl, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengurinn þekki uppruna sinn.“

Með vísan til framangreinds byggir kærandi kæru sína á því að drengurinn sé á viðkvæmum aldri, glími við sértæka erfiðleika og þroskaraskanir og mikilvægt að honum séu sköpuð skilyrði til að honum sé mögulegt að viðhalda stöðugum og öruggum geðtengslum við kæranda, fósturmóður sína, sem sé og verði ávallt hans aðalumönnunaraðili. Einnig telur kærandi að taka verði sérstakt tillit til stöðu drengsins og sérþarfa hans sem geti gert það að verkum að hann hafi ekki sömu aðlögunarhæfni og önnur börn og skilji ekki vel aðstæður sínar.

Það sé, sem fyrr hafi verið lýst, óumdeilt að umgengni við kynföður hafi að jafnaði valdið drengnum nokkru ójafnvægi. Hann hafi verið lengi að jafna sig, verið ringlaður og í vanlíðan. Bæði kærandi og leikskóli drengsins hafi staðfest vanlíðan hans og lýst erfiðri hegðun og árekstrum við önnur börn á leikskólanum, að hann haldi ekki þvagi eða hægðum, hann megi ekki af kæranda sjá og sé lítill í sér og óöruggur. Þá muni reyna á það nú undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni hvort umgengni muni valda því að skólastarf drengsins fari úr skorðum en kærandi telur raunar drenginn sérstaklega viðkvæman nú fyrir breytingum vegna aukins álags á hann með því að byrja í skóla og fara úr öruggu umhverfi leikskólans sem hann hafi verið farinn að þekkja mjög vel.

Að lokum byggir kærandi kæru sína á því að ekkert hafi komið fram í málinu sem réttlæti aukningu á umgengni frá því sem úrskurðað hafi verið um fyrir ríflega ári síðan. Í forsendum hins kærða úrskurðar séu meginsjónarmið um umgengni í fóstri reifuð en aukningin á tíðni umgengni einvörðungu rökstudd með því að fullyrða að ekki sé tækt að verða við kröfum föður, „en þykir rétt að bæta við tveimur skiptum á ári að mati nefndarinnar.“ Að öðru leyti sé látið nægja að vísa til almennra sjónarmiða um umgengni í fóstri. Verður að ætla að Barnaverndarnefnd B hefði þurft að rökstyðja sérstaklega aukninguna sem úrskurðuð hafi verið en ekki einvörðungu notast við sömu röksemdir og áður hafi verið taldar eiga við um umgengni tvisvar á ári. Það sé að mati kæranda verulegur ágalli á hinum kærða úrskurði.

Þá sé í því sambandi sérstaklega vísað til þeirra sjónarmiða sem fram komi í áður reifuðum úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála en álykta verði út frá þeim að eitthvað verði að hafa komið fram í málinu sem gefi tilefni til að ætla að drengurinn sé í þörf fyrir breytingar á þeirri umgengni við kynföður sem verið hafi. Í máli þessu sé ekki um neitt slíkt að ræða og raunar sé ekki lagt neitt sérstakt mat á það af hálfu Barnaverndarnefndar B heldur sé sem fyrr segir látið duga að vísa til almennra sjónarmiða um umgengni í varanlegu fóstri, án þess að rökstyðja sérstaklega hvers vegna eigi að auka tíðni hennar í máli þessu. 

Þá sé sérstaklega bent á að í hinum kærða úrskurði sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 201/2020 til rökstuðnings niðurstöðu hins kærða úrskurðar. Kærandi telur þessa tilvísun beinlínis ranga, enda sé þar ekki að finna neinn rökstuðning fyrir aukningu á umgengni úr tveimur skiptum í fjögur heldur þvert á móti. Því sé í raun innra ósamræmi í úrskurðinum hvað varði forsendur hans og niðurstöðu, en einnig skuli bent á að í úrskurðarorðinu komi fram að umgengni skuli fara fram fjórum sinnum á ári, en einvörðungu tiltekið að það skuli vera í nóvember og maí, eða tvisvar á ári.

Þá skal þess getið að kæranda sé vel kunnugt um grundvallarréttindi hvers barns til að þekkja uppruna sinn og njóta beinna samskipta og tengsla við líffræðilega foreldra sína. Hún virðir þann rétt drengsins og mun ávallt leitast við að styðja við umgengni hans við upprunafjölskyldu sína svo að hann megi njóta þeirra réttinda.

Rétt sé að taka fram að drengurinn njóti umgengni við bæði systkini sín í gegnum barnaverndaryfirvöld.

Með vísan til þessara samvista drengsins við upprunafjölskyldu sína, auk umgengni tvisvar á ári við kynföður, megi slá því föstu að drengurinn sé að viðhalda tengslum sínum við upprunafjölskyldu sína og þekki uppruna sinn.

Með vísan til alls framangreinds krefst kærandi endurskoðunar á inntaki umgengni drengsins við kynföður sinn, samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar B hinn 12. október 2021. Er þess krafist að úrskurðinum verði breytt þannig að umgengni verði tvisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn, en að önnur ákvæði hins kærða úrskurðar standi óhögguð.

Í athugasemdum lögmanns kæranda við greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að kærandi ítreki sjónarmið sín um að hún telji hæfilega umgengni drengsins við föður vera tvisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn, en telur rétt að önnur ákvæði hins kærða úrskurðar standi óhögguð.

Kærandi minnir á að sú tilhögun umgengni hafi komist á með úrskurði Barnaverndarnefndar B hinn 3. september 2019 en áður, þ.e. á meðan fóstrið hafi verið tímabundið, hafi kynfaðir haft tíðari umgengni og einnig hafi kynmóðir drengsins haft við hann umgengni. Í þeim úrskurði séu röksemdir fyrir tíðni umgengni meðal annars þær að slíkt sé hæfilegt til að ná markmiði sem stefnt sé að með vistun drengsins í varanlegt fóstur. Þá sé einnig vísað til þess að umgengnin hafi valdið ójafnvægi og óróleika hjá drengnum sem hafi sýnt vanlíðan og breytta hegðun í kjölfar umgengni. Sú hegðun og vanlíðan hafi verið staðfest hjá bæði kæranda og hjá leikskóla drengsins.

Fram hafi komið í málinu að þrátt fyrir að líðan drengsins sé ekki eins slæm eftir umgengni og hún hafi verið í fyrstu, þá komi enn fram hjá honum vanlíðunareinkenni eftir umgengni. Að mati kæranda hafi umgengnin enn þannig áhrif á drenginn að hún valdi honum óöryggi.

Ítrekað sé vísað til þess af hálfu föður, sem tekið sé upp í greinargerð Barnaverndarnefndar B, dags. 3. desember 2021, að vanlíðan drengsins í kjölfar umgengni stafi af „hollustuklemmu“ sem drengurinn eigi í. Kærandi hafni þessum málatilbúnaði alfarið. Hún telur það af og frá að drengurinn upplifi sig í tilfinningalegri klemmu og telur það blasa við að um sé að ræða aðskilnaðarkvíða og óöryggi drengsins um hagi sína hjá kæranda sem vakni við að hitta kynföður.

Gögn málsins sýni svo að ekki verði um villst að drengurinn hafi myndað sterk og kærleiksrík tengsl við kæranda. Telur kærandi að verið sé að taka áhættu með þá góðu tengslamyndun, verði umgengni aukin eins mikið og hinn kærði úrskurður beri með sér. 

Þá ítrekar kærandi þau sjónarmið sín um að drengurinn sé á viðkvæmum aldri, glími við sértæka erfiðleika og þroskaraskanir og mikilvægt sé að honum séu sköpuð skilyrði til að honum sé mögulegt að viðhalda stöðugum og öruggum geðtengslum við kæranda, fósturmóður sína, sem sé og verði ávallt hans aðalumönnunaraðili. Einnig telur kærandi að taka verði sérstakt tillit til stöðu drengsins og sérþarfa hans sem geti gert það að verkum að hann hafi ekki sömu aðlögunarhæfni og önnur börn og skilji ekki vel aðstæður sínar.

Drengurinn hafi byrjað í skóla í haust og njóti þar talsverðs stuðnings vegna erfiðleika sinna og þroskaraskana. Skólinn hafi merkt vel eftirköst af síðustu umgengni sem hafi lýst sér meðal annars í því að hann hafi sótt mjög í knús og nærveru hjá stuðningsfulltrúa sínum og sýnt af sér erfiða hegðun í frístund. Þá hafi hann ekki mátt af kæranda sjá í tæpa viku eftir umgengnina.

Þá vilji kærandi einnig árétta sjónarmið sín um að enginn sérstakur rökstuðningur fylgi niðurstöðu Barnaverndarnefndar B í hinum kærða úrskurði og sé það mat kæranda að ekkert hafi bæst við þann rökstuðning í fyrrgreindri greinargerð, dags. 3. desember 2021. Enn á ný sé einungis vísað til almennra sjónarmiða um umgengni í fóstri, án þess að leggja mat á hvað drengnum sé fyrir bestu varðandi umgengni hans við kynföður. Verði að ætla að Barnaverndarnefnd B hefði þurft að rökstyðja sérstaklega aukninguna sem úrskurðuð hafi verið en ekki einvörðungu notast við sömu röksemdir og áður hafi verið taldar eiga við um umgengni tvisvar á ári. Það sé að mati kæranda verulegur ágalli á hinum kærða úrskurði.

Með vísan til alls framangreinds og einnig með vísan til þess er fram kemur í kæru, dags. 8. nóvember 2021, ítrekar kærandi kröfur sínar um endurskoðun á inntaki umgengni drengsins við kynföður sinn. Er þess krafist að úrskurðinum verði breytt þannig að umgengni verði tvisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn, en að önnur ákvæði hins kærða úrskurðar standi óhögguð.


 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að um sé að ræða D, rúmlega X ára gamlan dreng, sem lúti forsjá Barnaverndarnefndar B eftir að foreldrar drengsins hafi verið sviptir forsjá með Héraðsdómi B þann 10. maí 2019. Málefni drengsins hafi verið til könnunar og meðferðar hjá Barnavernd B með hléum frá árinu 2015. Flestar tilkynningar hafi borist á tímabilinu október 2017 og þar til 13. júní 2018 þegar gripið hafi verið til neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og hafi drengurinn þá verið vistaður á Mánabergi, vistheimili barna. Drengurinn hafi fyrst verið vistaður hjá fósturmóður sinni frá 4. júlí 2018 í tímabundið fóstur og síðar í varanlegu fóstri frá 13. maí 2019. Frá því að drengurinn hafi verið vistaður hjá fósturmóður sinni hafi hann tekið miklum framförum. Orðaforði drengsins hafi aukist og drengurinn fengið aukið úthald í lestri og leik. Í upplýsingum frá leikskóla, dags. 26. ágúst 2021, komi fram að drengurinn sé öruggur með sig og glaðlegur ásamt því að góð tengsl séu á milli drengsins og fósturmóður og að vistun drengsins hjá fósturmóður hafi haft jákvæð áhrif á líðan, hegðun og öryggi drengsins.

Á fundi Barnaverndarnefndar B þann 7. september 2021 hafi verið fjallað um umgengni föður við drenginn eftir að bréf barst frá lögmanni föður þann 11. maí 2021. Fyrir fundinn hafi legið fyrir greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. 24. ágúst 2021, þar sem starfsmenn hafi lagt til að kynfaðir ætti umgengni við drenginn tvisvar á ári í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði barnaverndar. Þann 12. október 2021 hafi nefndin úrskurðað að kynfaðir ætti umgengni við drenginn fjórum sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn og komi fram í bókun nefndarinnar að nefndin hafi viljað að áhersla yrði lögð á að starfsmenn barnaverndar styddu kynföður og fósturmóður í að ná góðu samstarfi um umgengni, barninu til hagsbóta. Fram að því hafi faðir átt umgengni við drenginn tvisvar á ári í tvær klukkustundir í senn samkvæmt úrskurði nefndarinnar, dags. 10. september 2019. Umgengni hafi því verið aukin úr tveimur skiptum í fjögur skipti á ári.

Til þess að kanna vilja drengsins til aukinnar umgengni í samræmi við kröfur föður hafi drengnum verið skipaður talsmaður. Í skýrslu talsmanns, dags. 6. júní 2021, kom fram að drengurinn væri glaður í umgengni við föður vegna þess að hann gæfi honum alltaf dót og sælgæti. Drengurinn hafi hins vegar ekki viljað dvelja hjá föður yfir nótt eða í marga daga í einu og aðeins viljað vera hjá fósturmóður sinni. Drengurinn hafi ekki viljað eyða jólum, áramótum, páskum eða sumrum með föður eins og kröfur föður hafi kveðið á um. Hann vilji ekki vera marga daga hjá föður og hafi aðeins viljað sofa hjá fósturmóður. Þann 6. ágúst 2021 hafi talsmaður hitt drenginn aftur til að fá fram tillögu hans að umgengni en afstaða drengsins hafi verið óbreytt.

Fósturmóðir hafi mætt á fund nefndarinnar þann 7. september 2021. Fram hafi komið hjá fósturmóður að eftir umgengni drengsins við föður tæki dágóðan tíma að tryggja drengnum aftur öryggi. Drengurinn væri mjög þurfandi fyrir fósturmóður og þurfi mikla nærveru af hennar hálfu. Fósturmóðir hafi sagt að drengurinn hafi sýnt erfiða hegðun eftir umgengni en það sé í samræmi við upplýsingar frá leikskóla.

Fósturmóðir hafi þó nefnt að hegðun drengsins hafi nú skánað eftir hverja umgengni og að það væri auðveldara að útskýra fyrir drengnum og að hann sé ekki jafn ör og hann hafi verið í upphafi. Fósturmóðir hafi viljað að umgengni drengsins við föður yrði minnkuð í eitt skipti á ári og alls ekki aukin.

Í kæru lögmanns fósturmóður sé þess krafist að úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 12. október 2021 verði breytt þannig að umgengniskröfu föður verði hafnað og að umgengni verði ákveðin óbreytt frá fyrri úrskurði, þ.e. tvisvar sinnum á ári. Kærandi vísi til málavaxtalýsingar í hinum kærða úrskurði og greinargerðar starfsmanna Barnaverndar B, dags. 24. ágúst 2021.

Kærandi byggi kæru sína á því að sú umgengni sem Barnaverndarnefnd B hafi úrskurðað um geti ekki þjónað þeim markmiðum sem fóstrið byggi á, þ.e. að varanlegt fóstur eigi að standa til 18 ár aldurs drengsins og því markmiði að drengurinn eigi að aðlagast fósturfjölskyldu sinni. Kærandi vísi í úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 353/2018 þar sem staðfest hafi verið neitun Barnaverndarnefndar B um aukningu á umgengni við kynmóður.

Kærandi vísi til þess að drengurinn sé á viðkvæmum aldri, glími við sértæka erfiðleika og þroskaraskanir og mikilvægt sé að honum séu sköpuð skilyrði til að honum sé mögulegt að viðhalda stöðugum og öruggum geðtengslum við kæranda. Kærandi vísi til að óumdeilt sé að umgengni við föður hafi að jafnaði valdið drengnum nokkru ójafnvægi og að hann hafi verið lengi að jafna sig eftir umgengni.

Samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eigi foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun barnsins í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þá skuli taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 353/2018, sem lögmaður fósturmóður byggi kæru sína meðal annars á, hafi verið staðfest neitun Barnaverndarnefndar B um aukningu á umgengni móður við barn. Í því máli hafði barnið verið í fóstri frá eins mánaðar aldri og móðir hitt það í fyrsta sinn þegar barnið hafi verið tæplega þriggja ára gamalt. Þar utan hafi móðir aðeins hitt barnið þrisvar sinnum við úrskurð og hafði því engin tengsl við móður sína. Fram hafi komið í úrskurði úrskurðarnefndar í málinu að frumgeðtengsl, sem barn búi að alla ævi, myndist á fyrstu tveimur árum í lífi barns. Það hafi því ekki verið taldir hagsmunir barnsins í máli nr. 353/2018 að vera í miklum tengslum við kynforeldri þar sem tengsl hafi ekki verið til staðar.

Drengurinn, D, hafði verið í umsjá foreldra sinna þar til hann hafi verið tæplega X ára gamall þegar hann hafi verið tekinn úr umsjá foreldra sinna og því ljóst að hann eigi tengsl við föður sinn, ólíkt því sem hafi verið í máli nr. 353/2018, og því ekki hægt að bera þessi tvö mál saman.

Eins og fram komi í 74. gr. barnaverndarlaga skuli þegar komi að því að ákveða umgengni foreldra við börn í fóstri taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og taka skuli mið af því hversu lengi fóstrinu sé ætlað að vara. Það sé ekki stefnt að því að drengurinn fari aftur í umsjá föður heldur sé stefnt að því að hann verði hjá fósturmóður sinni til 18 ára aldurs. Markmið fósturs sé því að drengurinn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sinni og að fósturmóðir hans sjái um uppeldi drengsins.

Í úrskurði Barnaverndarnefndar B þann 10. september 2019 hafi verið úrskurðað að faðir ætti umgengni við drenginn tvisvar á ári. Fyrir þann úrskurð hafi hann átt umgengni einu sinni í mánuð og hafi því umgengni föður við drenginn verið takmörkuð verulega þegar drengurinn hafi farið í varanlegt fóstur. Það hafi verið mat barnaverndarnefndar við uppkvaðningu á þeim úrskurði að umgengni hafi komið drengnum verulega úr jafnvægi og hafi nefndin talið brýnt að tekið væri tillit til líðanar drengsins í kjölfar umgengni hans við föður.

Fram hafi komið hjá fósturmóður og í upplýsingum frá leikskóla að líðan drengsins hafi verið mjög slæm eftir umgengni hans við föður. Hann hafi verið lengi að ná jafnvægi og verið mjög þurfandi fyrir fósturmóður sína. Á fundi nefndarinnar þann 7. september 2021 hafi komið fram í máli fósturmóður að drengurinn hafi sýnt óöryggi í hegðun og líðan á leikskóla og eigi það til að vera „agressífur“ gagnvart börnum og kennurum eftir umgengni. Hún hafi þó nefnt að líðan drengsins hafi skánað eftir hverja umgengni sem hafi átt sér stað. Það hafi verið auðveldara að útskýra aðstæður fyrir drengnum og að hann væri ekki jafn ör og í upphafi.

Fulltrúi lögmanns föður hafi vísað til þess á fundinum að það væri eins og drengurinn væri að upplifa sig í hollustuklemmu og því væri rétt að leyfa föður að eiga umgengni oftar.

Málið hafi verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B þann 7. september 2021 en nefndin hafi ekki úrskurðað í málinu fyrr en 12. október 2021. Málið hafi verið tekið til umræðu á meðal nefndarmanna þar sem þeir hafi viljað skoða málið nánar. Nefndin hafi hvorki samþykkt tillögur starfsmanna eins og þær hafi legið fyrir, þ.e. að umgengni væri áfram tvisvar á ári, né hafi verið fallist á kröfur föður heldur hafi nefndin úrskurðað að faðir ætti umgengni fjórum sinnum á ári. Nefndin hafi einnig lagt áherslu á að starfsmenn barnaverndar myndu styðja aðila máls við að ná góðu samstarfi um umgengni með hagsmuni drengsins í huga. Það hafi ekki verið taldir hagsmunir drengsins að fósturmóðir væri ósátt við fyrirkomulag umgengninnar og hafi kröfur föður heldur ekki verið í samræmi við markmið varanlegs fósturs eða til þess fallnar að búa drengnum til öryggi og stöðugleika í sínu lífi.

Við ákvörðun á fjölda skipta í umgengni hafi Barnaverndarnefnd B litið til þess að líðan drengsins hafi skánað eftir hverja umgengni og fram hafi komið í máli drengsins við talsmann að honum líði vel í umgengni við föður, þrátt fyrir að vilja ekki gista hjá honum. Drengurinn hafi að auki tekið miklum framförum frá því að hann hafi verið vistaður hjá fósturmóður samkvæmt fósturmóður og upplýsingum úr leikskóla drengsins.

Það hafi því verið mat nefndarinnar við uppkvaðningu úrskurðar þann 12. október 2021 að rétt væri bæta við umgengni og hafa hana fjórum sinnum á ári í ljósi bættrar stöðu drengsins gagnvart umgengni við föður.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi geri Barnaverndarnefnd B þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða barns

Drengnum var skipaður talsmaður sem tók viðtal við hann 2. júní og 6. ágúst 2021. Í skýrslu talsmanns, dags. 2. júní 2021, kemur fram að talsmaður hafi notað mjög einfalt talmál og teikningar til að afla afstöðu drengsins og um leið til þess að tryggja skilning hans á umræðuefninu. Í skýrslunni kemur fram að drengnum líði vel hjá fósturmóður sinni. Aðspurður um umgengni hans við föður hafi drengurinn sagst stundum hitta hann í smástund, hann færi heim til hans en svæfi ekki hjá honum. Drengurinn hafi sagst vera mjög glaður að hitta föður sinn því að hann gæfi honum alltaf dót og sælgæti þegar hann væri hjá honum. Þá hafi hann sagt að faðir hans færi stundum með hann á róló en að mestu væru þeir heima og faðir hans væri stundum í tölvunni. Aðspurður um vilja sinn til að dvelja yfir nótt hjá föður sínum hafi drengurinn svarað því að hann vildi ekki sofa heima hjá föður sínum, hann vildi bara sofa heima hjá móður (fósturmóður). Aðspurður hvort hann vildi dvelja hjá föður sínum í marga daga og sofa hjá honum hafi hann sagst ekki vilja vera í marga daga í einu hjá föður sínum og vildi bara sofa heima hjá móður. Aðspurður um viðhorf sitt og vilja til að hafa umgengni við föður á jólum, um áramót og á páskum hafi drengurinn svarað því neitandi og sagst bara vilja vera heima hjá móður sinni og ítrekað um leið vilja sinn að vilja ekki sofa annarsstaðar en hjá fósturmóður. Aðspurður um viðhorf sitt til að hafa umgengni við föður í fjórar vikur að sumri hafi drengurinn svarað neitandi og sagst ekki vilja vera hjá föður sínum í marga daga og að hann vilji bara sofa heima hjá móður.

Í skýrslu talsmanns, dags. 6. ágúst 2021, kemur fram að drengurinn eigi erfitt með að skilja bæði rúm og tíma og að talsmaður hafi sett skipulag umgengninnar myndrænt upp til að tryggja skilning drengsins eins og faðir hafi óskað eftir. Í skýrslunni kemur fram að drengnum líði vel á fósturheimili. Drengurinn hafi sagt að honum þætti gaman að hitta föður sinn en þá fengi hann alltaf pakka frá honum. Einnig gæfi faðir hans honum mikið nammi, þeir væru í tölvunni en færu stundum út að leika. Aðspurður hvort hann vildi dvelja hjá föður sínum aðra hvora helgi, nokkra daga í einu og sofa hjá föður í nokkrar nætur í einu hafi drengurinn sagst bara vilja sofa heima hjá móður (fósturmóður), en ekki föður. Aðspurður hvort drengurinn vildi dvelja hjá föður sínum um jól, áramót og páska annað hvert ár hafi hann svarað neitandi og að hann vilji bara vera heima hjá móður á jólum, áramótum og páskum. Einnig hafi hann tekið fram að hann vilji ekki sofa annars staðar en heima hjá móður (fósturmóður). Aðspurður hvort hann vilji dvelja hjá föður sínum í sumarumgengni annað hvert ár í fjórar vikur í senn hafi hann svarað neitandi og sagðst bara vilja sofa heima hjá móður (fósturmóður). Aðspurður hvernig hann vilji hafa umgengni við föður og hversu lengi í senn hafi drengurinn átt erfitt með að tjá sig um hvernig hann sæi fyrir sér umgengni við föður. Þá hafi hann tekið fram að hann vildi ekki sofa hjá föður, bara móður.


 

V.  Niðurstaða

Drengurinn D er rúmlega X ára gamall. Kynfaðir var sviptur forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms B þann 10. maí 2019. Kynmóðir drengsins er látin.

Með hinum kærða úrskurði frá 12. október 2021 var ákveðið að umgengni drengsins við kynföður yrði aukin úr tveimur skiptum á ári í fjögur skipti á ári í tvær klukkustundir í senn. Auk þess var ákveðið að umgengni yrði undir eftirliti og færi fram í húnæði Barnaverndar B í nóvember og maí ár hvert. Skilyrði umgengni væri að kynfaðir væri edrú og í andlegu jafnvægi, að mati eftirlitsaðila.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að drengurinn hafi verið tekinn úr umsjá foreldra sinna þann 13. júní 2018 í kjölfar neyðarráðstöfunar og hafi þann 4. júlí 2018 farið í umsjá fósturmóður sinnar, fyrst í tímabundið fóstur og frá 13. Maí 2019 í varanlegt fóstur. Stefnt sé að því að hann alist upp á núverandi heimili til 18 ára aldurs. Áður en drengurinn hafi farið í fóstur til fósturmóður hafi hann búið við mikið ójafnvægi og óöryggi og því var það mati barnaverndarnefndar að fara þyrfti varlega í allar breytingar á högum hans. Að mati barnaverndarnefndar séu kröfur kynföður um umgengni ekki raunhæfar miðað við stöðu og sögu drengsins en nefndintelji rétt að umgengni sé aukin úr tveimur skiptum í fjögur skipti á ári. 

Kærandi, sem er fósturmóðir drengsins, krefst þess að úrskurðinum verði breytt þannig að umgengni verði ákveðin óbreytt frá fyrri úrskurði, þ.e. tvisvar sinnum á ári, þar sem umgengni virðist hafa neikvæð áhrif á hann í kjölfarið. Barnaverndarnefnd B leit til þess við ákvörðun um aukna umgengni að drengnum líði vel í umgengni með kynföður og líðan hans hafi skánað eftir hverja umgengni.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd umgengninnar.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við kynföður á þann hátt að hún þjóni hagsmunum drengsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best, með tilliti til stöðu hans. Forsenda hinnar kærðu ákvörðunar var sú að ekki væri stefnt að því að drengurinn færi aftur í umsjá kynföður. Umgengni kynföður við drenginn þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengsins í fóstri hjá fósturforeldri þar sem markmiðið er að tryggja honum uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum hans, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjónaði hagsmunum drengsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ber því fyrst og fremst að líta til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best þegar tekin er ákvörðun um umgengni hans við kynföður. Í því sambandi verður að horfa til þess að sonur kæranda er nú í varanlegu fóstri og þarf frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni. Markmiðið með því er að tryggja til frambúðar umönnun hans, öryggi og þroskamöguleika. Þá er til þess að líta að með umgengni kynföður við drenginn er ekki verið að reyna styrkja tengsl hans við kynföður heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengurinn þekki uppruna sinn. Þá verður ekki horft fram hjá vilja barnsins og afstöðu fósturforeldris til umgengni við kynföður.

Samkvæmt gögnum frá leikskóla drengsins, dags. 9. ágúst 2018, 20. nóvember 2018 og 24. júní 2019, kemur fram að drengurinn sýni erfiða hegðun og sé ofbeldisfullur eftir umgengni. Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla drengsins, dags. 26. ágúst 2021, kemur fram að drengurinn sé lítill í sér eftir umgengni og sæki mikið í starfsfólk og spyrji um fósturmóður. Þá sýni hann slæma hegðun í nokkra daga á eftir. Að sögn fósturmóður hafi umgengni drengsins við kynföður komið drengnum úr jafnvægi og að hann sé í nokkra daga að jafna sig. Samkvæmt niðurstöðu athugana hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, dags. 7. febrúar 2020, komi fram að drengurinn hafi marktæk frávik í vitsmunaþroska og málþroska. Vitsmunaþroski hans mælist á stigi vægrar þroskahömlunar og frávik komi fram í fínhreyfifærni. Þá séu einkenni athyglisbrests og ofvirkni skýr. Þá liggur fyrir að drengurinn sé nýbyrjaður í skóla en hann hafi byrjað ári seinna vegna stöðu sinnar. Hann sé með miklar sérþarfir og sé með sérkennslu daglega í skóla. Fósturmóðir hafi áhyggjur af því hvaða afleiðingar aukning á umgengni muni hafa á drenginn og nám hans. Þá segi í greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar, dags. 24. ágúst 2021, að barnið hafi aðlagast vel á fósturheimilinu og tekið miklum framförum í þroska og hegðun síðastliðin þrjú ár. Það sé mat starfsmanna að aukin umgengni við föður sé ekki til þess fallin að viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur í lífi barnsins.

Að mati úrskurðarnefndarinnar skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi að kynfaðir hafi tekið sig á. Það eru lögvarðir hagsmunir drengsins að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturforeldri áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Drengnum líður vel hjá fósturforeldri og ekkert bendir til að hann hafi þörf fyrir breytingar. Af gögnum málsins verður ráðið að drengurinn sé mjög óöruggur og þoli þess vegna illa allar breytingar. Þó að líðan drengsins hafi skánað undanfarið eftir umgengni, verður að telja að með því að gera breytingu á umgengni yrði þar með tekin sú áhætta að raska þeim stöðugleika sem drengurinn hefur þörf fyrir.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi alls framangreinds telur úrskurðarnefndin að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti með tilliti hagsmuna drengsins til aukinnar umgengni annars vegar og hagsmuni hans á því að búa við óbreytt fyrirkomulag hins vegar. Úrskurðarnefndin telur því að ekki séu fram komin nægilega sterk rök fyrir því að auka umgengni við kynföður úr tveimur skiptum á ári í fjögur skipti á ári líkt og ákveðið var með hinum kærða úrskurði, dags. 12. október 2021.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að fella hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B úr gildi og vísa málinu til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 12. október 2021 varðandi umgengni  D, við E, er felldur úr gildi og er málinu vísað til nýrrar meðferðar fyrir nefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum