Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 17. nóvember 1980

Ár 1980, mánudaginn 17. nóvember var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Hreppsnefnd Grímsneshrepps
                  Árnessýslu
                  gegn
                  Db. Sigurliða Kristjánssonar og
                  Helgu Jónsdóttur

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir, að í maímánuði 1979 barst hreppsnefnd Grímsneshrepps bréf dags. 10. maí 1979 frá skiptaforstjórum dánarbús Sigurliða Kristjánssonar og Helgu Jónsdóttur.

Út af þessu bréfi var gerð svofelld bókun á fundi hreppsnefndar Grímsneshrepps 5. júní 1979: "Oddviti las upp bréf undirritað af lögfræðingum sem eru að ganga frá dánarbúi Sigurliða Kristjánssonar og konu hans Helgu Jónsdóttur, en jörðin Ásgarður í Grímsneshreppi er í eigu dánarbúsins.

Með þessu bréfi er Grímsneshreppi boðinn forkaupsréttur að jörðinni Ásgarði skv. jarðalögum.

Hreppsnefnd samþykkir að nota sér forkaupsréttinn."

Í framhaldi af þessari bókun var skiptaforstjórum dánarbúsins sent eftirfarandi símskeyti: "Á fundi sínum þann 5. júní 1979 samþykkti hreppsnefnd Grímsneshrepps að nota forkaupsrétt sinn að jörðinni Ásgarði Grímsnesi."

Í framhaldi af ofangreindri samþykkt hreppsnefndar Grímsneshrepps hefur Ingi Ingimundarson, hæstaréttarlögmaður skrifað Matsnefnd eignarnámsbóta bréf dags. 2. nóv. 1979 og óskað eftir eignarnámsmati á jörðinni. Varðandi eignarnámsheimildir sínar vísar eignarnemi til 2. mgr. 26. gr. jarðalaga nr. 65/1976, og 96. gr. laga nr. 76/1970 um lax og silungsveiði.

Samkvæmt því sem greinir í framhaldsgreinargerð lögmanns eignarnema dags. 9. júlí 1980 eru kröfur eignarnema eftirfarandi: Að land jarðarinnar Ásgarðs verði metið til verðs sem bújörð svo og veiðihlunnindi fyrir landi jarðarinnar. Ennfremur mannvirki þau sem teljast eign dánarbúsins. Af hálfu eignarnema er því haldið fram, að meta beri þessi verðmæti í einu lagi og ósundurgreint, þar sem skipting andvirðis milli rétthafa skv. erfðaskrá sé honum óviðkomandi. Eignarnemi getur þess með vísan til 2. málsgr. 10. gr. laga nr. 11/1973, að ef svo kynni að fara að Matsnefndin liti svo á að meta beri sérstaklega þær bætur, sem hverjum beri muni eignarnemi ekki gera ágreining þótt svo verði gert. Eignarnemi bendir á, að skv. erfðaskrá hjónanna hafi þau ráðstafað jörðinni Ásgarði í Grímsnesi eftir sinn dag á eftirgreindan hátt: "Sá hluti úr landi eignarjarðar okkar, Ásgarðs, Grímsnesi, Árnessýslu, er liggur vestan núverandi þjóðvegar, frá Álftavatni upp að Ásgarðsá, að stærð um 80 hektarar, skal renna til Samtaka hjarta- og æðaverndarfélaga á Íslandi, Hjartaverndar, og Reykjavíkurborgar, svo sem hér greinir:

A.   Hjartavernd skal fá um 50 hektara, ásamt sumarbústað okkar hjóna, með öllu því, er honum fylgir og fylgja ber, þ.e. innbúi öllu og rafstöð. Land þetta liggur meðfram Álftavatni og Sogi og fær Hjartavernd veiðiréttindi öll fyrir sínu landi, þó þannig, að aðalveiðisvæðið, sem kölluð er Breiðan og svæðið þar niðurúr, á skilyrðislaust að ganga til Hjartaverndar. Það er vilji okkar, að svæði það sem Hjartavernd fær samkvæmt framansögðu verði í framtíðinni notað sem hvíldar- og hressingarstaður Hjartaverndar.

B.   Hinn hlutinn, um 30 hektarar, sem liggur norðan við land það sem við ætluðum Hjartavernd, og nær frá Ásgarðsá að norðan, skal renna til Reykjavíkurborgar. Er það vilji okkar, að á landi þessu rísi fyrst og fremst sumardvalaheimili fyrir drengi á aldrinum 6-14 ára, og sé unglingum þessum m.a. ætlað að hlúa að gróðri landsins, svo sem með trjárækt og hvers kyns annarri ræktun landsins. Veiðiréttur í Sogi og Ásgarðsá fylgir landi þessu. Öll framangreind spilda, bæði sú, sem Hjartavernd fær, og ennfremur sú, er til Reykjavíkurborgar á að ganga, er úr ábúð. Frá því að við hjón eignuðumst jörðina Ásgarður, hefur það samkomulag ríkt milli okkar og ábúanda jarðarinnar, að ábúandinn hefur eigi nytjar þessarar spildu. Allt annað land jarðarinnar en það, sem greinir í lið A og B hér að framan skal renna til Skógræktar ríkisins, ásamt þeim mannvirkjum og framkvæmdum á jörðinni, sem okkar eign kunna að teljast samkvæmt úttekt. Gjöf þessi er gefin með þeirri kvöð, er af ábúð jarðarinnar kann að leiða, en skriflegir leigumálar eru engir og munnlegir samningar um ábúð eru aðeins til eins árs í senn, og leigutaki hefur aldrei greitt leigu enda ekki verið krafinn um hana. Skógrækt ríkisins fær öll veiðiréttindi fyrir sínu landi. Ef Hjartavernd og Reykjavíkurborg sjá sér ekki fært að veita viðtöku landinu í samræmi við framanskráðar kvaðir, skal landið renna til Skógræktar ríkisins."

Lögmaður eignarnema skýrir svo frá, að eins og málið liggi nú fyrir sé ekkert samkomulag um, að falla frá mati á þeim hluta, sem Hjartavernd er ætlaður með erfðaskrá. Fram komi í bréfi Hjartaverndar að hún telur ógerlegt að framkvæma vilja gefenda skv. erfðaskránni nema hlutur Hjartaverndar verði að öllu eða langmestu leyti eins og þar sé ákveðið. Þetta myndi aftur þýða, segir lögmaðurinn, að svo til allt aðal laxveiðisvæði jarðarinnar félli undir spildu Hjartaverndar og gengi þar með endanlega undan jörðinni en það sé ótæk niðurstaða og andstæð lögum.

Eignarnemi bendir á, að skv. vottorði dags. 4. sept. 1979 sé fasteignamat á landi jarðarinnar, öðru en ræktun, kr. 2.721.000.

Þá heldur eignarnemi því fram að hafa beri í huga gangverð á nærliggjandi jörðum. Hins vegar séu upplýsingar um verð á jörðum ekki auðfáanlegar. Jörðin Ragnheiðarstaðir í Gaulverjabæjarhreppi í Árnessýslu hafi 31. maí 1979 verið seld á kr. 37.000.000.-. Jörðin sé seld með öllum mannvirkjum, húsum, ræktun, girðingum og öllum öðrum gögnum og gæðum, sem jörðinni fylgja en land jarðarinnar sé talið um 800 ha. að stærð.

Ragnheiðarstaðir séu nokkru stærri jörð en Ásgarður og með grösugu landi og liggi að sjó. Jarðarhús séu sæmileg en laxveiðihlunnindi engin.

II.

Fyrir eignarnámsþola, db. Sigurliða Kristjánssonar og Helgu Jónsdóttur, hefur flutt mál þetta Jóhann H. Níelsson, hrl. Kröfur hans í málinu eru eftirfarandi:

"Eignarnámsþoli gerir þær kröfur að hið umbeðna mat verði framkvæmt þannig að sérstaklega verði metið.

1.   Allt land sunnan Ásgarðsár en vestan Sogsvegar.
2.   Allt land sunnan Ásgarðsár en austan Sogsvegar.
3.   Allt annað land jarðarinnar og þar með talin ræktun, girðingar og öll jarðarhús ásamt öllu sem þeim fylgir og fylgja ber.
4.   Sumarbústaður Sigurliða Kristjánssonar og Helgu Jónsdóttur ásamt öllu sem honum fylgir og fylgja ber, þ.m.t. rafstöð.
5.   Veiðihús ásamt öllu sem því húsi fylgir og fylgja ber.
6.   Veiðiréttur jarðarinnar í Sogi, Álftavatni og Ásgarðsá."

Lögmaðurinn bendir á, að eins og fram komi í málinu hafi jörðinni Ásgarði í Grímsnesi verið ráðstafað með erfðaskrá til þriggja aðila og sé krafa hans um skiptingu matsins byggð á því, að ef af eignarnámi verði kynni allt andvirði jarðarinnar að skiptast milli þeirra aðila skv. ákvæðum erfðaskrárinnar. Með þessari skiptingu sé einnig haft í huga að ólík matssjónarmið komi til greina við mat á landi skv. töluliðum 1-3.

Eignarnámsþoli mótmælir þeirri kröfu eignarnema að jörðin verði metin sem bújörð eingöngu. Einnig mótmælir hann þeirri hugmynd eignarnema, að einungis verði metinhluti jarðarinnar nema að áður hafi komið til samkomulag milli aðila um það, en slíkt samkomulag sé ekki fyrir hendi.

Samkvæmt þessu mótmælir eignarnámsþoli, að matið taki til hluta jarðarinnar og krefst þess að metin verði öll lönd jarðarinnar og mannvirki á henni, auk hlunninda og annarra gagna og gæða, sem henni fylgja.

Matssjónarmið þau er lögmaður eignarnámsþola setur fram eru eftirfarandi:

Alkunna sé að jörðin Ásgarður í Grímsnesi í Árnessýslu sé í u.þ.b. klukkutíma akstursfjarlægð frá Reykjavík. Við vesturmörk jarðarinnar renni Sogið og Álftavatn en Ásgarðsá liðist um landið og skipti því nærri því í tvennt. Ásgarðsá falli í Sogið. Að norðan liggi mörk jarðarinnar að jörðinni Syðri-Brú en að sunnan liggi mörkin að landi jarðarinnar Miðengi. Að austan liggi mörkin við mörk jarðarinnar Búrfell. Um land jarðarinnar liggi annar aðalvegurinn frá Reykjavík til Þingvalla og sé sú leið fjölfarin einkum á sumrin. Mikil náttúrufegurð sé í Ásgarði og einkum sé þar sumarfagurt. Landsvæðið meðfram Sogi, Ásgarðsá og Álftavatni beri þó af og megi fullyrða að ýmsir hlutar jarðarinnar séu með eftirsóttasta landi sem enn sé ósnert í nágrenni Reykjavíkur. Í þessu sambandi bendir eignarnámsþoli á, að nærliggjandi jarðir svo sem Miðengi, Klausturhólar o.fl. hafi verið hlutaðar niður og séu nær samfelld sumarbústaðabyggð. Varðandi kröfulið 1 bendir lögmaðurinn á, að þar sé um að ræða afgirt skógivaxið land, sem afmarkist af Sogsvegi að austan en Ásgarðsá, Sogi og Álftavatni að norðan og vestan. Stærð landsins sé um 130 ha. Hér sé tvímælalaust um að ræða verðmætasta hluta jarðarinnar og muni óhætt að fullyrða að þetta land sé með því eftirsóknarverðasta til sumarbústaðabygginga, sem enn sé óráðstafað í nágrenni Reykjavíkur.

Eignarnámsþoli bendir á, að þessi hluti jarðarinnar hafi ekki verið nytjaður með jörðinni síðastliðin 40-50 ár. Er þess krafist að þessi hluti jarðarinnar verði metinn sem sumarbústaðaland og við verðákvörðun verði höfð hliðsjón af gangverði sambærilegra eigna, en hliðstæð lönd hafi verið seld á 6-10 millj. króna hektarinn.

Varðandi kröfulið 2 bendir lögmaður eignarnámsþola á, að hér sé um að ræða allstórt land sem afmarkist að norðan af Ásgarðsá, að vestan af Sogsvegi en að sunnan og austan liggi landið að landamerkjum Miðengis og Búrfells. Um stærð landsins vísar hann til vottorðs Vals Þorvaldssonar, Selfossi um mælingu á landi jarðarinnar Ásgarðs. Þótt land þetta sé ekki eins sérstakt og land það er rætt var um undir tölul. 1 sé það engu að síður gott sumarbústaðaland og svipi mjög til lands Miðengis og nærliggjandi jarða. Við mat á landi þessu er þess krafist, að haft verði til hliðsjónar gangverð á hliðstæðum löndum, ætla megi að það sé um 4-5 millj. fyrir hektarann.

Varðandi kröfulið 3 er bent á, að þar sé um að ræða allt land jarðarinnar annað en það sem talið hefur verið upp undir liðum 1 og 2. Varðandi stærð landsins er vísað til upplýsinga í málinu og sé þá gert ráð fyrir að ásamt með landinu verði metin ræktun, girðingar og öll jarðarhús sem jörðinni fylgja. Meginhluta þessa lands beri að sjálfsögðu að meta sem bújörð. Hins vegar bendir hann á að stór svæði á þessu landi einkum við landamerkjalæk að norðan, Ásgarðsá að sunnan og svo að vestan séu tilvalin sumarbústaðalönd. Undir þessum lið er þess krafist að metin verði ræktun, girðingar og öll jarðarhús. Þótt ábúandi kunni að eiga eignir þessar telur lögmaður eignarnámsþola samt rétt að þær verði metnar enda hvíli á landeiganda kaupskylda skv. ábúðarlögum.

Varðandi kröfulið 4 er bent á, að þar sé um að ræða sumarbústað Sigurliða Kristjánssonar og Helgu Jónsdóttur og beri að meta allt sem því húsi fylgir og fylgja beri, sérstaklega er bent á rafstöð.

Varðandi kröfulið 5 er bent á, að þar sé um að ræða veiðihús ásamt öllu því sem því fylgir og fylgja ber.

Um kröfulið 6 er bent á, að þar sé um að ræða veiðiréttindi jarðarinnar í Sogi, Álftavatni og Ásgarðsá. Að því er varðar veiðiréttinn í Sogi er bent á leigusamning um veiðiréttinn en hann hafi árið 1980 verið leigður á kr. 8.000.000.-. Auk þess taki leigutakar að sér viðhald eigna og metur eignarnámsþoli það vægt á kr. 1.000.000.-. Telur hann rétt að þessa upphæð eigi að umreikna til höfuðstóls miðað við 5% grunnvexti og fá þannig út höfuðstólsverðmæti laxveiðiréttarins í Sogi, en auk þessa sé veiðirétturinn í Ásgarðsá og Álftavatni og lauslega áætlað gæti verðmæti þessa réttar verið um eða yfir kr. 200.000.000, miðað við verðgildi í dag.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang ásamt umboðsmönnum aðila og skoðað jörðina og allar aðstæður á staðnum. Svo og var sumarbústaður og veiðihús skoðað. Matsnefndin hefur einnig kynnt sér hús þau er leiguliði á á jörðinni og önnur mannvirki, sem þar eru og eru hans eign. Þá hefur Matsnefndin og farið á vettvang og skoðað landið rækilega, þótt umboðsmenn aðila hafi ekki verið viðstaddir þá skoðun.

Aðilar málsins hafa skýrt mál þetta fyrir nefndinni bæði með skriflegum greinargerðum og munnlega. Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust. Umboðsmönnum Hjartaverndar, Skógræktar ríkisins og Reykjavíkurborgar hefur verið tilkynnt um mál þetta.

Eignarnámsheimild eignarnema er að finna í 2. mgr. 26. gr. jarðalaga nr. 65/1976, en í henni segir, að falli fasteignaréttindi við erfðir til annarra en þeirra er greinir í 1. tölulið greinarinnar eigi hreppsnefnd rétt á að fá þau keypt. Náist ekki samkomulag um verð, skal um mat og greiðslu bóta fara eftir lögum um eignarnám.

Við skoðun landsins var færð til bókar eftirfarandi skýrsla leiguliða Ásmundar Eiríkssonar, oddvita Grímsneshrepps:

"Eignir mínar eru íbúðarhús jarðarinnar, fjós ásamt hlöðu og votheysgeymslu, mjólkurhús og fóðurbætisgeymsla, tvö fjárhús ásamt hlöðu, geymsluhús (vélageymsla) og hesthús og hænsnahús. Eru með þessu upptalin öll hús á jörðinni, sem tilheyra bújörðinni. Þá á ég allar girðingar, sem tilheyra bújörðinni og vatnsleiðslu ca. 1950 metra langa. Ég tek við jörðinni í fardögum 1946, og á alla túnrækt og skurði, sem hafa verið unnin síðan, nema Sigurliði heitinn lagði einu sinni kr. 5000.- í fyrsta skurðinn. Ég hefi aldrei greitt neitt eftirgjald eftir jörðina, enda svo umsamið, að það gengi upp í ræktunina. Var svo umsamið, að ég ræktaði fyrir kr. 1000.- á ári, sem var umsamið eftirgjald. Þá á ég heimreiðina annað en ristarhliðið, svo og plógræsi."

Lögmaður eignarnámsþola hefur krafist þess, að eignir leiguliðans, Ásmundar Eiríkssonar, verði metnar í þessari matsgerð, ásamt öðru sem jörðinni tilheyrir.

Matsnefndin telur það fyrir utan verksvið sitt að meta önnur eignarréttindi í þessari matsgerð en þau, sem tilheyra dánarbúi Sigurliða Kristjánssonar og Helgu Jónsdóttur. Ekki er því haldið fram í málinu, að leiguliða hafi verið sagt upp ábúð sinni, og ekki hefur skýrsla hans um eignir sínar á jörðinni verið vefengd.

Jóhann H. Níelsson hrl. hefur einnig gætt réttar Hjartaverndar og Reykjavíkurborgar í málinu. Hafa þessir aðilar óskað að það komi fram í málinu, og var það fært í fundarbókina, að þeir dragi í efa forkaupsrétt Grímsneshrepps til þess hluta jarðarinnar, sem þeim er ætlaður með erfðaskránni.

Skógræktarstjóri, Sigurður Blöndal, hefur sjálfur mætt í málinu, vegna Skógræktar ríkisins. Hann var sammála málflutningi Jóhanns H. Níelssonar, að því er varðaði matssjónarmið og matsforsendur. Þá bendir hann sérstaklega á það ákvæði erfðaskrárinnar, að það sé vilji gefendanna, að jörðin haldist áfram í ábúð. Segir hann, að Skógræktin muni virða þetta ákvæði erfðaskrárinnar, og sé af þeim sökum ekki ástæða til þessa eignarnáms.

Matsnefndin telur það fyrir utan verksvið sitt, að taka afstöðu til þeirra álitaatriða, sem fram hafa komið í máli Hjartaverndar, Reykjavíkurborgar og Skógræktar ríkisins.

Lögmaður eignarnema hefur eindregið mótmælt því, að nokkur hluti jarðarinnar verði metin sem sumarbústaðaland.

Þegar virt eru ákvæði 1. gr., 10. gr. og 12. greinar jarðalaga nr. 65/1976, verður að fallast á það með eignarnema, að ekki sé á valdi eða verksviði Matsnefndar að skipta jörð þessari í sumarbústaðalóðir og meta landið á því verði, sem greitt er á frjálsum markaði fyrir slíkar lóðir.

IV.

Atriði þau sem til mats koma eru eftirfarandi:

A.   Lönd

Svæði   1.   Land sunnan Ásgarðsár (Búrfellslækjar) en vestan Sogsvegar, að Sogi og Álftavatni.
   Stærð 128 hektarar.

   "   2.   Land sunnan Ásgarðsár en austan Sogsvegar, að landamerkjum Miðengis.
         Stærð 162 hektarar.

   "   3.   Ræktað og ræktanlegt land jarðarinnar norðan Ásgarðsár.
         Áætlaðir 75 hektarar.

   "   4.   Beitiland neðan fjalllendis norðan Ásgarðsár, að landamerkjum við Syðri Brú.
         Stærð 333 hektarar.

   "   5.   Fjalllendi. Allt land ofan línu á milli Gildruhóls og Skefilfjallatáar.
         Stærð 70 hektarar.

   "   6.   Land Vegagerðar ríkisins v. laga. Þegar nýtt.
         Stærð 12 hektarar.

Land Ásgarðs reyndist alls 780 hektarar samkvæmt mælingu Vals Þorvaldssonar á mskj. nr. 7.

B.   Girðing.

Frá Álftavatni, á mörkum við Miðengi, að stofnbraut og meðfram henni að vestan, allt að Ásgarðsá. Lengd 2450 m.

C.   Vegir, hlið, bílastæði.

Lengd vega 645 m. Bílastæði 200 m².

D.   Trjágarður v. sumarbústað m. fjölbr. gróðri. Girðing um 160 m. Steyptir hornstólpar og hlið. Hellulagðir stígar með tröppum 56 m². Steyptur vegghluti með líparíthellum.

E.   Sumarbústaður. Flatarmál hæðar 117.4 m². Kjallari 39.6 m². Fastar rekkjur og dýnur. Rafstöðvarhús með rafstöð og olíugeymi. Dælukofi m. vatnsdælu, frárennsli og rotþró.

F.   Veiðihús.

Flatarmál 60 m.², ásamt tilheyrandi geymsluhúsi og ýmsum búnaði.

G.   Búslóð og allir aðrir fylgihlutir sumarbústaðar, ásamt hefilbekk, skektu og utanborðsmótor.

H.   Veiði.

Landlýsing.

Svæði 1.   Syðsti hluti landsins næst landamerkjagirðingu er frekar flatlent með skörpum hallaskilum næst Álftavatni. Hér er frekar leirkenndur móajarðvegur ofan á hrauntungu. Mótar greinilega fyrir hraunbrúninni norðar á landinu. Á víð og dreif vaxa gulvíðibrúskar og birkikjarr, en botngróður er fjölbreytilegur heilgrasa- og blómgróður, ívafið nokkru lyngi.

Fyrir norðan hrauntunguna tekur við mýrardrag. Hallar landi þar niður í átt að vík við Álftavatn, nokkru framan við Sogið. Lægð þessi nær allar götur upp að þjóðvegi (stofnbraut), og er í raun framhald svonefndrar Kringlumýrar sem er mjög flatlent og rakt land austan þjóðvegarins. Drag þetta er smáþýft og mjög grösugt, en þar gætir að mestu hálfgrasa sakir rakaástands, enda er lækjarfar neðst í landinu. Nyrst er þó þurrlent með vallendisgróðri. Það gróðurlendi er þó slitrótt. Gömul girðing þversker landið og er efniviður hennar ónýtur. Norðan mýrarflákans tekur við samfelld hraunbreiða allt norður undir Ásgarðsá. Þar er nyrðri brún hennar. Þessu svæði hallar í átt að Sogi. Á landinu, niður undir Sogi er sumarbústaður dánarbúsins og veiðihús spölkorn norðar. Land þetta er á köflum mjög mishæðótt einkum niður undir Sogi. Af hraunlendi að vera getur landið talist vel gróið enda lengi friðað. Botngróður er að mestu leyti heilgrös og blómjurtir, lyng, loðvíðir og gulvíðir. Á víð og dreif er umtalsverður birkigróður. Á stöku blettum, einkum um miðbik svæðisins, gætir all vöxtulegra trjáa, en oftar er trjágróður þéttvaxinn og kræklóttur 1-1,5 m á hæð. Norðan sumarbústaðar er land allt á köflum dældóttara en sunnan hans. Víða eru þar djúpir, skjólgóðir grösugir bollar á milli kjarrgróinna hraunkamba og hóla. Nokkru fyrir norðan veiðihúsið eru leyfar af ónýtri vírgirðingu, sem er til óþurftar við notkun landsins til beitar. Norðarlega á landinu í námunda við Sog er örlítil seftjörn með lækjarsytru, en meðfram Soginu eru djúpar kvosir á milli hraunbrúna. Austast og nyrst er landið flatara ef undan er skilinn Digrihóll, en úr honum virðist hafa verið tekinn bruni áður fyrr, en er nú lokaður.

Land þetta er afgirt allt frá Álftavatni og upp að þjóðvegi, og meðfram veginum allt norður að Ásgarði. Lengd á girðingu er um 2450 m. Er hún 6 strengja netgirðing með gaddavírsstreng að ofan og neðan og galvanhúðuðum prófílstaurum. Bil milli staura er breytilegt eftir aðstæðum, frá 4-7 m. Um 1170 m. frá syðri landarmerkjum við þjóðveginn er tvívængja grindahlið á girðingunni m. vönduðum steyptum hliðarstólpum álímdum líparíthellum. Þaðan liggur ofaníborinn bugðóttur vegur að sumarbústað og veiðihúsi. Lengd vegar að bílastæði við sumarbústað er um 515 m. Bílastæðið sem er röskl. 200 m² að stærð er vel ofaníborið. Frá fyrrnefndum vegi liggur hliðarvegur til norðurs að veiðihúsi. Er hann 130 m. og endar í grasbala hjá veiðihúsinu.

Svæði 2.

Meðfram suðurmörkum lands, frá Smalahól og allt norður að Ásgarðsá, er landið ein samfelld allhá hraunbreiða, lækkandi til vesturs, ef undan er skilin svonefnd Kringlumýri sem vikið er að hér að framan. Er ekki laust við tjarnarmyndun á svæði þessu í votviðratíð. Hraunið er mishæðótt enda um apalhraun að ræða. Fremur er það gróðurlítið að undanskildum kjarrgróðri sem fyrirhittist á víð og dreif.

Svæði 3.

Land þetta er allt norðan Ásgarðsár, neðan fjalllendis, allt að norður landamerkjum jarðarinnar. Matsnefndinni telst svo til að til viðbótar á þessu svæði megi enn taka sæmilega hagkvæmt land til ræktunar, þannig að heildarstærð ræktaðs og ræktanlegs lands gæti orðið allt að 75 ha.

Svæði 4.

Landslag og landgæði eru hér mjög breytileg og gróðurlendi til beitar slitrótt. Gróðurvana melar, jarðvegsrýrir grjótásar og holt eiga ríkastan þátt í þessu. Skyggnir, handan Ásgarðs, og víðáttumikið svæði umhverfis hann er t.d. að mestu gróðurvana land. Hér og þar á milli grjótása og holta eru ýmist mýrarlágar eða grámosa- og lyngmóar. Þess gætir einkum austan til og suður eftir landinu, sunnan Búrfellsvegar í átt að Ásgarðsá. Á víð og dreif er vottur kjarrgróðurs og slitringur graslendis. Á landinu vottar óneitanlega fyrir gróðureyðingu vegna uppblásturs. Allt þetta á sinn þátt í því, að land á þessu svæði nýtist ekki til ræktunar. Annað beitiland á þessu svæði eru stöku valllendisbrúnir utan í ásunum. Í heild er beitiland mislent og samhengislítið, en gróðurlendi má þó teljast sæmilegt til umræddra nytja. Svipur landsins bendir þó til, að það sé viðkvæmt og hafi þolað illa þann beitarþunga sem á því hefur verið.

Svæði 5.

Neðst í fjalllendinu eru sundurlausir gróðurgeirar, sem teygja sig upp eftir hlíðum Búrfells, en gróðurhulan hverfur er ofar dregur, enda brattlent. Greinileg einkenni jarðvegseyðingar er víða á svæðinu, sundurgrafnar rásir og gil af völdum vatns og vinda. Í heild er landið hrjóstrugt, enda liggur það hátt, eða sem því næst frá 200-500 m. hæðar y.s., allt upp að vatni á Búrfelli.

Það skal tekið fram að jörðin Ásgarður á upprekstrarrétt í sameiginlegu afréttarlandi Grímsneshrepps, en afrétturinn telst Lyngdalsheiði, Hrafnabjargarháls, Skjaldbreiður og umhverfi. Afréttur þessi er ekki afgirtur.

Lýsing sumarbústaðar dánarbúsins.

Ekki hefur fengist upplýst um byggingaár bústaðarins, sem byggður hefur verið í tveim áföngum. Eldri hlutinn hefur verið á einni hæð, 48 m² að flatarmáli, en nýrri hlutinn er 69,4 m² og er þar kjallari undir að mestum hluta. Flatarmál er því samtals 117,4 m² að viðbættu flatarmáli kjallara. Undir einu þaki. Máttarstoðir byggingarinnar er timburgrind klædd timburklæðningu. Eldri hlutinn var upprunalega með málaðri vatnsklæðningu ytra, sem síðar hefur verið klædd lituðum plastpanel. Nýrri hlutinn er múrhúðaður og kvartshraunaður. Kjallari er aftur á móti steyptur í hólf og gólf ásamt loftplötu hans. Loft hússins er tréklæðning á þéttum lárétt liggjandi bitum. Þakið er næst því að teljast frekar lágt valmaþak með breiðu þakskeggi, klætt bárujárni. Rennur með 5 niðurföllum. Afrennsli röralögð. Þak er timbur- og pappaklætt á þéttum sperrum. Undir er nokkurt geymslurými. Hæð þess er 1,25 m að mæni, og rými 50-60 m3. Lofthæð innanhúss er alls staðar 2.28 m, nema í kjallara, þar er hæð 1.92 m. Tenging nýrri og eldri húshluta hefur farið þannig fram, að inngangur er inn úr yngri viðbyggingunni, þar sem aðalinngangur er, og í eldri hlutann. Hefur anddyri hans verið lagt niður, en þar hefur verið steypt plata utanhúss, 23 m² að flatarmáli.

1.   Eldri hluti bústaðar hvílir á steyptum súlum, 50 x 40 cm. með hlöðnu hraungrýti á milli í stað grunns. Þannig er frá gengið að loftrás virðist greið undir timburgólfi þessa húshluta. Eru m.a. loftristar á 4 stöðum í þessum tilgangi. Í eldri hluta bústaðar eru 4 herbergi ásamt svefnskoti (alkove). Auk þess er mjög lítið og gamalt salerni m. smáhandlaug. Í tveimur herbergjanna eru fastir svefnbekkir, og einfaldur klæðaskápur á austurvegg í öðru þeirra, sem upprunalega hefur verið lítið eldhús. Herbergi þessi eru panelklædd og máluð. Dúkar eru á gólfum. Ástand herbergjanna virðist allgott nema gólf munu þarfnast endurbóta á blettum.

Mjög rúmgóð setustofa með útskoti er í þessum eldri hluta, en í skotinu eru 2 fastir svefnbekkir með dýnum og innbyggðum klæðaskáp. Veggir og loft stofunnar eru klæddir vönduðum birkikrossviði og mynda efstu hlutar veggja ásamt jöðrum lofts bogadregið hvolf. Á gólfi eru plötur úr vatnsheldum krossvirði, auðsjáanlega nýlega settar. Stofan er björt, enda stór gluggi á suðurvegg fyrir miðri stofu, og annar minni á vesturvegg. Einfalt gler er í öllum gluggum hússins.

2.   Nýrri hluti bústaðar.

Í þessum hluta er forstofa næst anddyri, sem skreytt er ytra með marmaraplötum, eldhús, borðstofa, innri gangur, húsbóndaherbergi, gestaherbergi, bað og snyrtiherbergi. Klæðning og innréttingar eru sem hér segir:

a.   Forstofa. Veggir klæddir í 1.9 m. hæð lökkuðum spónaplötum, viðarplötum, klæddar mahónílistum á samskeytum. Að öðru leyti eru veggir og loft málað og gólf dúklagt. Úr rúmgóðri forstofu er innangengt í eldhús, borðstofu, kjallara og innri gang, og eru hurðir allar hér svo og gerefti úr mahóní.

b.   Eldhús. Mjög rúmgott. Borðkrókur ásamt borði og föstum bekkjum fyrir 4 í horni við suðurglugga. Krókurinn klæddur viðarlíkisplötum úr plasti í 1.35 m. hæð. Að öðru leyti virðist máluð krossviðarklæðning í eldhúsinu, nema hvað 2-3 flísaraðir eru fyrir ofan borð og eldavél. Skápar hylja verulegan hluta suðurveggjar, eða allt frá því að borðkrók sleppir. Lítið fast vinnuborð klætt plastplötu skagar út frá vegg handan borðkróks. Í því eru 5 hirslur. Við vesturvegg er eldhúsborð að endilöngu klætt plastplötu með stálkanti. Undir borðinu eru góðar hirslur, 6 skúffur og 3 skápar. Gluggi er á veggnum með opnanlegu miðfagi. Á norðurvegg er stór 5 hurða hilluskápur, 25 cm frá lofti. Undir er tvíhólfa sérsmíðaður stálvaskur með stálklæðningu upp á vegg og stórri framlengdri plötu sem klæðir alveg út á borð vesturveggjar. Undir vaski eru skápar. Til hliðar við vask er 4 hellu hraðsuðueldavél, af Westinghousegerð, í afþiljuðu borði ofan á 2 skápum. Umgjörð plötuvélarinnar er úr ryðfríu stáli, sama gildir um stálhlíf sem fella má yfir vélina og verður þá í sömu hæð og vaskur. Til hliðar við vélina stendur gömul gljábrennd (hvít) kokseldavél í flísalögðu hólfi. Er hún tengd reykháf hússins og stendur á ryðfrírri stálplötu. Vélin er í fullgóðu ástandi og höfð sem varavél. Loftræsting er fyrir ofan eldavél. Á gólfi eru góðar línolíumdúksflísar og klæða þær um 15 cm upp á vegg og sökkul skápa. Allar eldhúshirslur eru málaðar beinhvítar, en viður þeirra er trúlega fura.

c.   Borðstofa.

Gólf eru úr vönduðum 5 cm. br. oregon pine borðum. Veggir klæddir í 1.9 m. hæð völdum lökkuðum viðarplötum. Þar fyrir ofan eru málaðar plötur og er sama gerð í lofti með skreytingalistum. Einn franskur horngluggi er í stofu þessari.

d.   Innri gangur kemur í framhaldi af forstofu. Þaðan er innangengt í geymsluris m. lausum stiga. Sömuleiðis í húsbændaherbergi, gestaherbergi, bað- og snyrtiherbergi. Hurðir og gerefti úr mahóníviði. Vegg- og loftklæðning lakkaðar viðarplötur. Á gólfi línolíumdúkur.

e.   Húsbændaherbergi.

Rúmgott herbergi klætt lökkuðum krossviði á veggjum og lofti, nótaður með listum í lofti. Nýlegur dúkur á gólfi. Mjög gott skáparými, 2 fastir skápar. Sá stærri 4 hurða við vinstri vegg þegar inn er komið. Sá minni þriggja hurða t.h. við dyr. Hann afþiljar annað tveggja fastra svefnplássa sem fyrir hendi eru.

f.   Gestaherbergi.

Frekar lítið herbergi inn af innri gangi með málaðri krossviðarklæðningu. Við einn vegg er góður innbyggður skápur frá gólfi í loft. Einn fastur svefnbekkur. Grænleitar gúmmíflísar á gólfi.

g.   Bað- og snyrtiherbergi.

Á veggjum eru að hluta til hvítmálaðar viðarplötur. Í herberginu er gott baðker með blöndunartæki. Sömuleiðis nýlegt vatnssalerni. Stór vaskur með spegli yfir. Einnig skápur, glerhilla m.m. Baðker er klætt hvítum flísum að framan, en á vegg fyrir ofan kerið og yfir enda þess er gerviflísaklæðning (plötur). Á gólfi er gúmmídúkur sem farinn er að láta á sjá. Loftræsting er í herberginu.

Kjallari.

Alsteyptur. Útveggir einangraðir og fínpússaðir. Innanmál er 35.8 m², hæð undir loft 1.92 m. Samtals 68.74 m3. Inngangur er í kjallara á miðjum gafli bústaðar. Þar eru tvö herbergi ásamt búrherbergi. Beint inn af dyrum er mjög stórt herbergi. Þar er 4-5 m² miðstöðvarketill af erlendri gerð. Innsti hluti herbergis er að hluta til aðgreindur með léttum skilrúmum sem eru um 1.5 m á hæð. Fremsti hluti herbergis er klæddur gerviflísum sem ná 1,3 m. upp, að öðru leyti er allur kjallarinn vandlega málaður í hólf og gólf. Handlaug og niðurfall er við einn vegg. Á norðurvegg eru hillur fyrir áhöld og tæki. Sömuleiðis er sér kolastía. Rafleiðslur og lagnir frá miðstöðvarkatli utan á liggjandi. Öll rör vandlega bronsuð. Til hliðar er minna herbergi, sem er verkfæra- og veiðarfærageymsla ásamt smíðaaðstöðu. Er þar stór hefilbekkur af gömlu gerðinni. Á vegg eru áhaldaskápar. Úr herberginu eru tröppur að íbúð efri hæðar. Inn af herberginu tekur við minna herbergi, sem upprunalega var ætlað sem köld geymsla (búr). Milligerð er léttur veggur með 3 gluggum. Málað í hólf og gólf. Hillur á suðurvegg og skápur klæðir norðurvegg. Lítill UPO kæliskápur knúinn gasi stendur á gólfi. Í herbergi þessu er góður stokkur fyrir loftræstingu.

Miðstöðvarkerfi.

Við kolakynntan ketil í kjallara er tengdur 150 l hitavatnskútur fyrir bað og eldhús. Frá katlinum liggja nokkuð sver rör í miðstöðvarofna, sem eru í öllum vistarverum á efri hæð, en þensluker miðstöðvar er í risi. Þar eru einnig 3 vatnsgeymar fyrir kalt vatn sem dælt er úr Álftavatni. Hver um sig rúma geymarnir um 100 l vatns. Á miðstöðvar kerfinu eru 200 l af frostlegi.

Rafmagn.

Orkugjafi rafmagns er rösklega 14 h loftkæld Lister dieselvél m. rafal, sem staðsett er í sérbyggðu rafstöðvarhúsi sem falið er í kvos í nokkurri fjarlægð frá bústað. Vélin er 1 fasa 220 volta og framleiðir 8-9 kw. Húsið er úr hlöðnum steini 18 m3 að rúmmáli með steyptu gólfi ásamt 55-60 cm. háum sérsökkli fyrir vélina. Jarðvegi er fyllt að húsinu á þrjá vegu, og steypt þak þess er hulið grasrót. Þannig ber mjög lítið á mannvirki þessu, og ónæði er ekki innanhúss frá gangi vélarinnar. Tveir nýlegir Caterpillar rafgeymar eru við vélina, annar til vara. Hægt er að gangsetja og stöðva dieselvélina með því að ýta á hnapp í töflu inni í bústaðnum. Skammt ofan við mótorhúsið er niðurgrafinn olíugeymir. Í öllum vistarverum bústaðar eru raflagnir bæði fyrir loftljós, veggljós og innstungur, og virðist ekkert hafa verið til sparað hvað þetta snertir.

Dælukofi. Skammt frá vatnsbakkanum er hlaðið og lokað skýli með járnþaki, um 1,4 m3. Í því er nýleg vatnsdæla af gerð Trige Titan, en það er aflmikil sog- og þrýstidæla fyrir kalt vatn. Rafmagn að dælu er tekið í kapli ofanjarðar, frá kjallara bústaðar, þar sem gangi dælunnar er stjórnað.

Bryggjuaðstaða er fyrir hendi við vatn. Um er að ræða timburfleka 2 x 9 m, en þar er bátur með utanborðsmótor.

Rotþró.

Allt afrennslisvatn frá íbúðarhúsinu fer í steypta tvíhólfa rotþró sem að öllu leyti er niðurgrafin og falin í horni bílastæði rétt utan garðveggjar.

Matsnefnd virðast framantalin mannvirki í alla staði traust og vönduð, og ekkert virðist áfátt um viðhald eignanna.

Fylgihlutar bústaðar. Hér mun aðeins gerð grein fyrir helstu hlutum.

Í setustofu er 8 sæta raðstólasett, áklæði leðurlíki og 3 sófaborð.

Í borðstofu er borð með 6 tilh. stólum og skenk.

Í útskoti (alkove) er laus hillu- og skápasamstæða.

Í öðrum herbergum eru ýmis húsgögn s.s. borð, stólar. Að auki eru margir dreglar og minni teppi á gólfum, myndir og veggljós ásamt loftljósum og útiljósum. Fyrir gluggum eru gluggatjöld. Fyrir hendi í borðstofu er 12 manna matar- og kaffistell. Í eldhúsi er margvíslegur glervarningur auk búsáhalda og annarra lausra eldhústækja. Í kjallara er hefilbekkur og kæliskápur.

Garður, gróður og girðing.

Umhverfis íbúðarhúsið er trjágarður, girtur að hluta til. Sérstaklega hefur verið vandað til þess hluta sem að bílastæði snýr. Þar er steyptur veggur, nær 20 m. ásamt hliðstólpum, hvort tveggja skreytt líparíthellum. Að öðru leyti er um netgirðingu að ræða á galvanhúðuðum þéttstæðum prófilsstólpum, um 70 að tölu. Vegsummerki næst húsi benda til að jarðvegur hefur verið fluttur til og land jafnað, en þar er lárétt grasflöt sem nær nokkuð til suðurs með fláa. Frá hliði að íbúðarhúsi og að hluta til meðfram húsi eru hellulagðir gangar og steyptar tröppur að flatarmáli 56 m². Við aðalinngang eru 2 stór þrep lögð skífum. Á stöku stað í garðinum er birkikjarr og stakstæðar birkihríslur, en verulega mikið hefur verið gróðursett af öðrum trjátegundum, s.s. furu, greni, lerki, ösp, hegg, gráreyni, venjul. reyni m.m. Þegar eru mörg stór og stæðileg tré í garðinum sem setja svip á umhverfið, en vitað er að Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt gerði skipulag að garðinum árið 1963.

Veiðihús.

Bústaður þessi er 60 m² að flatarmáli, stendur á upphækkuðum hlöðnum grasigrónum bala. Risbyggt timburhús. Máttarstoðir trégrind, klædd láréttri málaðri vatnsklæðningu úr góðviði. Vinkilbygging með útipalli og gengur þakið sem skyggni um 1½ m. fram á pallinn. Undirstöður hússins er hlaðinn og uppfylltur húsgrunnur. Loftar vel undir. Ris er timburklætt á sperrum lagt pappa, klæddum máluðu bárujárni. Nýjar rennur og niðurföll. Reykháfur upp úr þaki. Í húsinu eru 3 herbergi og eldhús ásamt litlu snyrtiherbergi. Aftur af eldhúsi er lítill gangur, en þar eru bakdyr. Aðalinngangur er um trépall en þar er komið inn í litla forstofu. Er innangengt úr henni í aðrar vistarverur hússins utan salernis. Strax til hægri handar er svefnskáli klæddur oregon pine viði á gólfi og veggjum. Í framhaldi er minni svefnskáli. Veggir þar klæddir brúnum krossviði, en í lofti oregon pine viður. Venjulegt viðargólf. Í framhaldi af gangi er lítið eldhús. Veggir þess klæddir máluðum krossviði, panell í lofti og timburgólf. Eldhúsinnrétting mjög einföld og smá í sniðum. Lítill kolakynntur ketill til hliðar í eldhúsi ásamt 2 gashellum og vaski. Úr eldhúsi innangengt á gang og út um bakdyr. Inn í lítið snyrtiherbergi með vaski og salerni er aðeins aðgangur utan frá. Herbergi þessi eru klædd máluðum viðarplötum en panell í lofti. Stór, rúmgóð panelklædd stofa með fölskum bitum í lofti og timburgólfi er í gagnstæðri álmu. Miðstöðvarlögn er í húsinu tengd katli í eldhúsi. Ofnar í öllum herbergjum. Gólfi í öllu húsinu hallar þannig að til óþæginda er, en það virðist ekki há byggingunni að öðru leyti. Trépallur utanhúss er tæplega 12 m², úr 8" borðum, borinn uppi af þverbitum. Utan um pall er 95 cm hár tvöfaldur veggur úr vatnsklæðningu. Slitróttur hellulagður gangstígur er við húsið, alls 14 m², austan húss er rotþró. Rúmfleti og tilheyrandi takmörkuð húsgögn eru í húsinu og verður það metið í húsverðinu. Í húsinu er ekkert rafmagn. Framundan bústað eru 6-7 gróðursett reyniviðartré í þyrpingu 2,5-5,0 m á hæð.

Í brekku milli veiðihúss og Sogs er gömul rislág verkfærageymsla 10 m² að grunnfleti. Sléttar asbestplötur eru á þaki en járnklæðning á hliðum og öðrum gafli. Framgafl klæddur lóðréttum borðum. Hellulagður stígur og grjótlögð þrep að geymslu. Niður undir vatnsborði er lítil vatnsdæla og lögn heim að húsinu, en vatn er tekið spölkorn úti í ánni.

Vegir.

Frá þjóðvegi að sumarbústað er 515 m. langur vegur. Ofaníburður er bruni. Út frá honum er 130 m vegur að grasbala við veiðihús.

Veiði.

Frá landamerkjum við Álftavatn og norður að Neðstatanga er um 1180 m strandlína. Frá Neðstatanga að Ásgarðsá er strandlínan um 2500 m. og frá Ásgarðsá að Markalæk við Syðri-Brú er strandlínan um 2950 m. Þannig er heildar strandlínan meðfram fastalandinu 6630 m.

Lengd Ásgarðsár frá Sogi og upp að mörkum við Búrfell og Miðengi er um 2060 m. Af því eru um 930 m fyrir neðan brú á þjóðvegi.

Á mskj. nr. 17 er skýrsla frá veiðimálastofnun um árlegan fjölda veiddra laxa á stöng í Sogi fyrir Ásgarðslandi, allt frá árinu 1946 til og með 1979. Á þessu tímabili virðist hafa orðið mest veiði árið 1972, um 459 skráðir laxar, en á árinu 1979 er hún komin niður í 124 laxa, og á þessu ári er veiðin talin 122 laxar. Árið 1972 stingur mjög í stúf með fjölda veiddra laxa á stöng. Ólafur Ólafsson sem gjörþekkir allt veiðisvæðið fyrir Ásgarðslandi, upplýsti í vettvangsgöngu dagana 18. og 19. ágúst 1979, að hann hefði aðstoðað við að sleppa verulegu magni laxaseiða, bæði göngu- og pokaseiðum í Sogið á árunum 1969 og 1970, en seiðin voru fengin úr eldisstöð Skúla Pálssonar að Laxalóni. Um veiði á öðrum laxfiskum s.s. bleikju er ekki getið, en bleikja er þó talin umtalsverð, einkum í Álftavatni. Þannig eru skráðar 43 bleikjur í veiðibók árið 1979. Helstu veiðistaðir á lax sumarið 1979 eru Breiðan með 39 stk., Frúarsteinn 15 stk., Bryggjan 13 stk., Gíbraltar 11 stk., Bátalón 6 stk., Hlíðin 6 stk., Neðstitangi 5 stk., og Ystanöf 5 stk. Aðrir staðir þaðan af minna.

Samkvæmt leigusamningi á mskj. nr. 11, við Stangveiðifélag Reykjavíkur, greiðir leigutaki kr. 8.000.000 í leigugjald fyrir veiðiréttindi og afnot veiðihúss, og tilheyrandi búnaðar þess, árið 1980. Er leyfilegur stangafjöldi á hinu leigða svæði þrjár stengur samtímis. Þar við bætist viðgerð á skolplögn svo og viðgerð á vatnsdælu, eða að láta nýja í té. Ennfremur skal leigutaki annast viðhald girðinga umhverfis allt sumarbústaðasvæðið svo gripheldar séu. En þessa þætti telur eignarnámsþoli vægt metna á kr. 1.000.000 í greinargerð sinni á mskj. nr. 10. Í framhaldsgreinargerð eignarnema á mskj. nr. 14, telur hann að leiga SVFR fyrir ána hafi verið rúmar kr. 7.000.000 á árinu 1979 og að tilsvarandi leiga fyrir árið 1980, sé rúmar kr. 8.000.000.

Matsnefndin hefur undir höndum miklar upplýsingar og gögn um sölur og möt á lóðum og jörðum víðs vegar um landið. Þegar virt eru þau atriði, sem rakin hafa verið að framan, ýmsar mælitölur á verðbreytingum og öðru því, sem máli skiptir að áliti matsmanna, telur Matsnefndin hæfilegt að meta eignir þær, sem að framan er getið, sem hér segir:

A.
Svæði    1.   Grunnverðmæti landsins ...............................   kr.   5.760.000
   "   2.   Grunnverðmæti landsins ...............................   "   2.916.000
   "   3.   Grunnverðmæti landsins ...............................   "   7.500.000
   "   4.   Grunnverðmæti landsins ...............................   "   8.995.000
   "   5.   Grunnverðmæti landsins ...............................   "   140.000
      Landverð samt.   kr.   25.311.000
B.   Girðing ...............................................................   kr.   1.960.000
C.   Vegir, bifr.stæði m. fl. ........................................   "   2.370.000
D.   Trjágarður m. tilheyrandi ...................................   "   2.200.000
E.   Sumarbústaður, m. fylgibúnaði ..........................   "   31.000.000
F.   Veiðihús m. fylgibúnaði ....................................   "   7.000.000
G.   Búslóð sumarbústaðar ........................................   "   2.000.000
         Mannvirki samt.   kr.   46.530.000

H.   Veiðihlunnindi í Sogi, Álftavatni og
   Ásgarðsá metin á ................................................   kr.   52.500.000

         Alls   kr.   124.341.000

og er þá miðað við, að matsfjárhæðin verði greidd innan 40 daga frá uppkvaðningu þessa úrskurðar.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 1.500.000 í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 2.400.000.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, hreppsnefnd Grímsneshrepps f.h. hreppsins, greiði eignarnámsþola dánarbúi Sigurliða Kristjánssonar og Helgu Jónsdóttur kr. 124.341.000 og kr. 1.500.000 í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 2.400.000.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum