Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20sj%C3%A1var%C3%BAtveg%20og%20fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta.

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A] f.h. [B ehf.], dags. 31. maí 2022, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, um úthlutun byggðakvóta á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C].

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C] og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni.

 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 4. maí 2022, sem birt var á vefsíðu Fiskistofu: www.fiskistofa.is, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022. Umsóknarfrestur var til og með 18. maí 2022. Matvælaráðuneytið hafði þá úthlutað 300 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Tálknafjarðarhrepps samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 919/2021, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022, sem komu öll í hlut byggðarlagsins Tálknafjarðar. Úthlutunin var tilkynnt Tálknafjarðarhreppi með bréfi, dags. 21. desember 2021.

Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn [C]  með umsókn til Fiskistofu, dags. 11. maí 2022.

Hinn 20. maí 2022 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Kæranda var tilkynnt að úthlutað hefði verið tilteknu magni af byggðakvóta til bátsins [C]. Ákvörðun Fiskistofu var byggð á 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 995/2021 og auglýsingu nr. 505/2022, um (3.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, sbr. og auglýsingu nr. 522/2022, um (1.) breytingu á þeirri auglýsingu.

Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til matvælaráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um ákvörðunina.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 31. maí 2022, kærði [A] f.h. [B ehf.], til matvælaráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C]

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að í 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, komi fram að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemi í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fái úthlutað skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna og skuli úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Ráðherra sé heimilt að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna. Á 585. fundi sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps þann 20. janúar 2022 hafi verið samþykkt að sækja um að settar verði sérreglur um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022. Matvælaráðuneytið hafi samþykkt sérreglur fyrir Tálknafjarðarhrepp, sbr. auglýsingu nr. 505/2022 hvað varði viðmiðun úthlutunar til fiskiskipa og vinnsluskyldu innan Vestur-Barðastrandarsýslu á afla sem telja eigi til byggðakvóta. Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021 séu skýr skilyrði fyrir afhendingu byggðakvóta hvað varði vinnsluskyldu og áritun sveitarstjórnar. Þar segi að fiskiskipum sé skylt að landa þeim afla sem telja eigi til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu frá 1. september 2021 til 31. ágúst 2022. Skilyrði þess að afla teljist landað til vinnslu sé að honum sé haldið aðskildum frá öðrum afla ásamt því að vera vigtaður og skráður sérstaklega við vigtun á hafnarvog. Aflinn skuli nema, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þess aflamarks sem þau fái úthlutað samkvæmt reglugerðinni. Eigandi fiskiskips skuli gera skriflegan samning við fiskkaupanda um magn sem landað verði til vinnslu hjá viðkomandi vinnsluaðila þar sem fram komi að vinnsluaðili skuldbindi sig til að vinna aflann og skuli bæjar- eða sveitarstjórn árita samninginn til staðfestingar. Í 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. segi að úthlutun aflamarks fari fram á grundvelli vigtarnóta sem borist hafi Fiskistofu og skuli úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt. Í 3. mgr. 6. gr. sé kveðið á um að afli sem boðinn sé upp á fiskmarkaði teljist ekki sem landaður afli til vinnslu og í 4. mgr. 6. gr. sé útskýrt hvað átt sé við með vinnslu. Með vinnslu samkvæmt 1. mgr. sé átt við flökun, flatningu, frystingu, söltun eða herslu. Í auglýsingu á vef Fiskistofu þann 4. maí 2022 sé skýrt að staðfesting á vinnslusamningi skuli fylgja umsókn um byggðakvóta. Þegar kæranda hafi borist bréf Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, ásamt yfirlitsblaði þar sem skipting milli fiskiskipa komi fram, hafi vakið furðu fjöldi þeirra fiskiskipa sem fái úthlutað byggðakvóta á grunni vinnslusamnings, sem staðfestur sé af Tálknafjarðarhreppi. Kærandi hafi ekki vitneskju um aðrar fiskvinnslur en tiltekna fiskfvinnslu á Patreksfirði í Vestur-Barðastrandarsýslu sem hafi leyfi til þess að vinna botnfiskafla. Það sé á ábyrgð sveitarfélagsins að staðfesta að afli sé sannarlega unninn innan Vestur-Barðastrandarsýslu, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021 og samþykktar reglur, þ.e. auglýsing nr. 505/2022. Fiskistofa úthluti byggðakvóta til fiskiskipa á grundvelli vinnslusamninga og því kæri kærandi ákvörðun Fiskistofu á þeim grunni að vinnslusamningar sem staðfestir séu af sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps við aðra vinnsluaðila en umrædda fiskvinnslu eigi ekki við rök að styðjast, þ.e. séu ekki undirritaðir í samræmi við lög, reglugerðir og auglýsingu nr. 505/2022, sbr. auglýsingu nr. 522/2022 í Stjórnartíðindum og auglýsingu á vef Fiskistofu, dags. 4. maí 2022.

Engin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni.

Með tölvubréfi, dags. 1. júní 2022, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 28. júní 2022, segir að bátur kæranda, [C]  hafi verið meðal þeirra sem fengu úthlutað byggðakvóta með ákvörðun Fiskistofu, dags. 31. maí 2022. Með umsókn kæranda hafi fylgt yfirlýsing um vinnslu afla vegna byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2021/2022 sem staðfest hafi verið af sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps. Með umsóknum allra báta á Tálknafirði hafi fylgt yfirlýsing um vinnslu afla vegna byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2021/2022 sem staðfest hafi verið af sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps. Í 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 sé að finna ákvæði um vinnsluskyldu á þeim afla sem telja eigi til mótframlags byggðakvóta. Þar komi fram að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemi í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fái úthlutað samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna og skuli úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Með auglýsingu nr. 505/2022 hafi verið staðfestar sérreglur fyrir Tálknafjörð en vinnsluskylda sé áfram skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta innan byggðarlagsins Tálknafjarðar. Í þeim byggðarlögum sem hafi vinnsluskyldu hafi Fiskistofa viðhaft þá framkvæmd að óska eftir því að umsækjendur um byggðakvóta skili til Fiskistofu yfirlýsingu um vinnslu afla vegna byggðakvóta. Í því felist að hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórn undirriti yfirlýsingu og staðfesti að vinnslusamningur sé til staðar á milli vinnslu og útgerðaraðila. Ástæða þess að Fiskistofa óski eftir umræddu gagni sé sú að í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021 sé það m.a. skilyrði fyrir afhendingu byggðakvóta að eigandi fiskiskips geri skriflegan samning við fiskkaupanda um magn sem landað verði til vinnslu hjá viðkomandi vinnsluaðila, þar sem fram komi að vinnsluaðili skuldbindi sig til að vinna aflann. Í sama ákvæði sé kveðið á um að bæjar- eða sveitarstjórn skuli árita samninginn til staðfestingar. Fiskistofa hafi kallað eftir yfirlýsingu um framangreint í þeim tilgangi að gera umsækjendum um byggðakvóta grein fyrir því að vinna verði aflann og upplýsa hlutaðeigandi bæjar- og sveitarstjórnir um hvernig umsækjendur hyggist vinna aflann og þar með hvort líkur séu á því að skilyrði 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 og viðeigandi sérreglna um vinnslu verði uppfyllt þegar komi að því að afhenda byggðakvóta á grundvelli mótframlagsins. Tekið sé fram að eigandi fiskiskips geti gert fleiri en einn samning um vinnslu og geti skipt um vinnslu á tímabilinu. Með hliðsjón af efni kærunnar telji Fiskistofa ástæðu til að taka til endurskoðunar orðalag um um framangreint í auglýsingu eftir umsóknum um byggðakvóta. Úthlutun byggðakvóta feli í sér úthlutun takmarkaðra gæða sem séu eftirsóknarverð og feli í sér verðmæti. Fiskistofu sé falið að annast úthlutun aflamarks sem komi í hlut einstakra byggðarlaga samkvæmt reglugerð nr. 995/2021. Fiskistofa fari að þeim reglum sem settar hafi verið fyrir úthlutun í viðkomandi byggðarlagi. Samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins verði ákvarðanir og athafnir Fiskistofu að eiga sér stoð í lögum og geti Fiskistofa ekki án lagastoðar eða heimildar í stjórnvaldsfyrirmælum vikið frá þeim skilyrðum sem ráðherra hafi sett. Í tilfelli kæranda hafi Fiskistofu ekki verið heimilt að miða ákvörðun um úthlutun byggðakvóta í byggðarlaginu Tálknafirði við það hvar fyrirhugað væri að vinna aflann sem telja ætti til mótframlags fyrir úthlutun byggðakvóta. Af þeirri ástæðu hafi það ekki komið til skoðunar við úthlutun byggðakvóta hvar tilgreint væri að aflinn yrði unninn. Fiskistofa taki hins vegar mið af því hvort skilyrði um vinnslu þess afla sem telja eigi til mótframlags byggðakvóta sé uppfyllt þegar komi að afhendingu byggðakvóta á grundvelli mótframlagsins. Sé umrætt skilyrði ekki uppfyllt komi ekki til afhendingar byggðakvóta og flytjist það aflamark sem eftir sé yfir á næsta fiskveiðiár og sé úthlutað með þeim aflaheimildum Tálknafjarðar sem komi til úthlutunar á því fiskveiðiári. Með hliðsjón af framangreindu telji Fiskistofa að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins í ljósritum: 1) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, um úthlutun byggðakvóta til bátsins [C]  og yfirlit um úthlutun byggðakvóta til byggðarlagsins Tálknafjarðar, dags. 20. maí 2022. 2) Tilkynning á vefsíðu Fiskistofu, dags. 4. maí 2022. 3) Tíu yfirlýsingar um vinnslu afla vegna byggðakvóta fiskveiðiársins 2021/2022.

Með tölvubréfi, dags. 29. júní 2022,sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu til kæranda og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með tölvubréfi, dags. 12. júlí 2022, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá kæranda, [B ehf.], við framangreinda umsögn Fiskistofu. Þar segir að taka verði af allan vafa um framkvæmd undirritunar yfirlýsingar um vinnslu afla vegna byggðakvóta því undanfarin fiskveiðiár hafi útgerðaraðilar fengið úthlutað byggðakvóta en ekki fengið hann afhentan þar sem skilyrði um vinnslu hafi ekki verið uppfyllt. Það leiði til þess að byggðakvóti flytjist á milli fiskveiðiára og hafi það aukist. Kærandi vilji koma því á framfæri við matvælaráðuneytið að fara yfir og endurskoða framkvæmd úthlutunar byggðakvóta í ljósi þess að stór hluti byggðakvóta til fiskiskipa á Tálknafirði flytjist milli ára. Fiskiskip fái úthlutað byggðakvóta með ákvörðun Fiskistofu en fái hann ekki afhentan þar sem skilyrði um vinnsluskyldu séu ekki uppfyllt, þrátt fyrir að staðfestar yfirlýsingar um vinnslu á afla liggi fyrir. Á tvær af tíu yfirlýsingum sem fylgdu umsögn Fiskistofu vanti undirritun eiganda/útgerðaraðila, þrátt fyrir það hafi sveitarstjórn staðfest þær, við þær yfirlýsingar geri kærandi athugasemd. Kærandi hafi talið að staðfesting sveitarstjórnar á yfirlýsingu um vinnslu afla væri staðfesting á því að uppfyllt væru skilyrði auglýsingar nr. 505/2022. Fiskistofa telji sér hins vegar ekki heimilt að miða ákvörðun um úthlutun byggðakvóta í byggðarlaginu Tálknafirði við það hvar fyrirhugað sé að vinna aflann sem telja á til mótframlags fyrir úthlutun byggðakvóta.

 

 

Rökstuðningur

I. Kæruheimild samkvæmt 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 gildir eingöngu um ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa og höfnun slíkra umsókna. Einnig er það meginregla í íslenskum rétti að ekki er hægt að kæra setningu reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla með stjórnsýslukæru og ber að vísa frá kærum sem eingöngu varða það efni. M.a. gildir kæruheimild samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eingöngu um stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, þ.e. þegar teknar eru ákvarðanir um rétt eða skyldu manna en ekki um samningu reglugerða né annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.

Það er mat ráðuneytisins að málsástæður í stjórnsýslukæru kæranda í máli þessu varði að hluta aðeins lögmæti ákvæða auglýsingar nr. 505/2022 um (3.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, að því er varðar Tálknafjörð. Kæran beinist hins vegar jafnframt að tiltekinni ákvörðun Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til bátsins [C] en umrædd ákvörðun er kæranleg til matvælaráðuneytisins samkvæmt framangreindu ákvæði 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006. Kæran barst innan lögboðins kærufrests.

Með vísan til framanritaðs telur ráðuneytið ekki ástæðu til að vísa frá kæruefni í kærunni og verður hún tekin til efnismeðferðar.

 

II. Stjórnsýslukæra í máli þessu er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, en þar kemur fram að ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt greininni sé heimilt að kæra til ráðuneytisins, þ.e. nú matvælaráðuneytisins. Að mati ráðuneytisins verður að skýra ákvæðið með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum nr. 116/2006. Í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er hugtakið aðili máls ekki skilgreint en í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur hins vegar fram að það eigi ekki einungis við um þá sem eigi beina aðild að máli heldur geti einnig fallið undir aðila máls samkvæmt lögunum þeir sem hafi óbeinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls. Þá kemur þar einnig fram að það sem ráði úrslitum um það efni sé hvort viðkomandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta af stjórnvaldsákvörðun, sbr. Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3282.

Kæruheimild í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 byggir samkvæmt framanrituðu á því að kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta sem beinlínis reynir á við úrlausn tiltekins máls sem kært er til ráðuneytisins.

Bátur kæranda, [C] hefur samkvæmt ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, fengið úthlutað af þeim 300 þorskígildistonnum af byggðakvóta sem úthlutað var til Tálknafjarðar í Tálknafjarðarhreppi, sbr. bréf matvælaráðuneytisins til Tálknafjarðarhrepps, dags. 21. desember 2021. Úthlutun af byggðakvóta Tálknafjarðar í Tálknafjarðarhreppi til annarra báta í byggðarlaginu samkvæmt ákvörðunum Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, hefur því áhrif á úthlutun byggðakvóta til báts kæranda þar sem hún fer einnig fram af framangreindum byggðakvóta sem úthlutað hefur verið til byggðarlagsins.

Með vísan til framanritaðs er það mat ráðuneytisins að kærandi hafi lögvarinna hagsmunaað gæta af úrlausn þess máls sem hér er til umfjöllunar en samkvæmt því verður kæran tekin til efnismeðferðar.

 

III. Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í 1. mgr. kemur fram að á hverju fiskveiðiári sé ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. laganna sem hér segir: 1. Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. 2. Til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun, þannig: a. Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski. b. Til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 995/2021, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2021/2022 sem eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2021 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2021. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum er víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 995/2021.

Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu nr. 505/2022, um (3.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2021/2022, sbr. og auglýsingu nr. 522/2022, um (1.) breytingu á þeirri auglýsingu, sem ekki hafa áhrif á úrlausn þessa máls.

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Tálknafirði í Tálknafjarðarhreppi fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 995/2021 og auglýsingu nr. 505/2022, sbr. og auglýsingu nr. 522/2022.

Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan eru í 1. gr. reglugerðar nr. 995/2021 talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2021/2022 en samkvæmt a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar eru þau m.a. að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, við lok umsóknarfrests. Báturinn [C] hafði slíkt leyfi við lok umsóknarfrests og uppfyllti önnur skilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 995/2021. Báturinn fékk úthlutun samkvæmt þeim viðmiðunum sem koma fram í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 995/2021.

Það er mat ráðuneytisins að þær málsástæður sem koma fram í stjórnsýslukærunni og beinast að því að tilteknir aðilar hafi ekki skilað vinnslusamningi með umsóknum um byggðakvóta á Tálknafirði hafi ekki áhrif á úrlausn málsins. Ekki kemur fram í reglugerð nr. 995/2021 að skylt sé að skila slíkum samningum með umsókn heldur er gert ráð fyrir því að þeim sé framvísað við löndun á mótframlagi fyrir úthlutaðan byggðakvóta, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 995/2021.

Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður kæranda í stjórnsýslukærunni og öðrum gögnum málsins geti ekki haft áhrif á úrlausn þessa máls.

Með vísan til framanritaðs og þegar af þeirri ástæðu sem þar kemur fram er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C] en samkvæmt því verður ákvörðunin staðfest.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. maí 2022, um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 til bátsins [C].


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum