Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 540/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 540/2020

Þriðjudaginn 11. febrúar 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. október 2020, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 6. ágúst 2020 og var umsóknin samþykkt. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. október 2020, var kæranda tilkynnt að óljóst væri hvort hann teldist vera í virkri atvinnuleit í skilningi laga nr. 54/2006 þar sem hann svaraði hvorki tölvupósti né síma. Óskað var eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna þessa og bárust skýringar daginn eftir. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. október 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hann teldist ekki í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. október 2020. Með bréfi, dags. 5. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 7. janúar 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. janúar 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé ekki sammála ákvörðun Vinnumálastofnunar. Kærandi kunni ekki íslensku og hafi takmarkaða tölvukunnáttu en sé virkur í atvinnuleit á annan hátt. Kærandi hafi einungis misst af tveimur símtölum en hann reyni að svara tölvupóstum. Kærandi hafi ekki fengið neitt atvinnutilboð og þurfi aðstoð við að finna starf á Íslandi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar en þar sé tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu.

Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Hinn tryggði skuli þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara, sbr. 3. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda hafi ekki náðst í hann vegna boðunar í viðtal hjá ráðgjafa stofnunarinnar. Kærandi hafi fengið tilkynningu 30. september 2020 frá stofnuninni að þann 1. október á milli klukkan 13 og 15 myndi ráðgjafi hringja í hann og taka við hann símaviðtal. Þegar ráðgjafi stofnunarinnar hafi haft samband virtist uppgefið símanúmer vera skráð á vinnufélaga kæranda. Ráðgjafinn hafi fengið uppgefið númer kæranda frá vinnufélaganum sama dag og gert tvær tilraunir til að ná tali af kæranda en hann hafi ekki svarað. Þann 6. október 2020 hafi jafnframt verið reynt að ná sambandi við kæranda en án árangurs. Þann 16. október 2020 hafi ráðgjafi stofnunarinnar tilkynnt til Greiðslustofu að kærandi hafi ekki svarað boðuðu símaviðtali og að nokkrum sinnum hafi verið reynt að ná í kæranda. Kæranda hafi verið gefinn kostur á að skila skýringum til stofnunarinnar vegna þessa. Kærandi hafi veitt þær skýringar að hann sé virkur í atvinnuleit eins mikið og núverandi ástand heimsins leyfi. Vinnumálastofnun telji umsækjendur um atvinnuleysisbætur sjálfa bera ábyrgð á atvinnuleit sinni. Það sé grundvallarskilyrði þess að unnt sé að bjóða atvinnuleitanda starf að hann svari símhringingum og öðrum sendum boðum. Kærandi hafi ekki svarað símtölum frá Vinnumálastofnun, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Að mati Vinnumálastofnunar séu skýringar kæranda ekki gildar í skilningi laga nr. 54/2006.

Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur að vera virkir í atvinnuleit telji Vinnumálastofnun að synja beri umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, enda liggi ekki fyrir hvort hann sé virkur í atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að hann væri ekki í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

a. er fær til flestra almennra starfa,

b. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,

c. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,

d. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,

e. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,

f. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,

g. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,

h. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og

i. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er Vinnumálastofnun heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunna að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Hinn tryggði skal þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Í gögnum málsins liggur fyrir að ráðgjafi Vinnumálastofnunar hugðist taka símaviðtal við kæranda 1. október 2020 sem kæranda var tilkynnt um daginn áður. Þegar ráðgjafinn hringdi í kæranda kom í ljós að uppgefið símanúmer var hjá vinnufélaga hans. Ráðgjafinn fékk uppgefið símanúmer kæranda og gerði tilraun til þess að ná sambandi við kæranda þann dag en án árangurs. Nokkrum dögum síðar, eða 6. október 2020, hringdi ráðgjafinn tvisvar sinnum í kæranda en hann svaraði ekki. Kærandi var inntur eftir skýringum vegna þessa og tók kærandi fram að hann væri virkur í atvinnuleit eins og ástand heimsins leyfði. Á grundvelli þessa tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að synja umsókn kæranda eins og hin kærða ákvörðun er orðuð en í því fólst að greiðslur til kæranda voru stöðvaðar. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að það sé grundvallarskilyrði þess að unnt sé að bjóða atvinnuleitanda starf að hann svari símhringingum og öðrum sendum boðum. Þar sem kærandi hafi ekki svarað símtölum frá stofnuninni liggi ekki fyrir hvort hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006.

Við mat á því hvort heimilt sé að stöðva greiðslur til kæranda á þeirri forsendu að hann sé ekki í virkri atvinnuleit kemur til skoðunar hvort gögn málsins sýni fram á það með óyggjandi hætti, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Líkt og Vinnumálastofnun hefur bent á er mikilvægt  að atvinnuleitendur séu í samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar til þess að unnt sé að aðstoða viðkomandi við atvinnuleit og hafa eftirlit með virkni viðkomandi. Í máli þessu liggur hins vegar ekki fyrir að Vinnumálastofnun hafi gert frekari tilraunir til að ná sambandi við kæranda en með framangreindum símtölum, svo sem með því að senda honum tölvupóst eða skilaboð með beiðni um að hafa samband. Þá liggur ekki fyrir að kærandi hafi verið upplýstur um afleiðingar þess að svara ekki símtölum frá stofnuninni. Að því virtu verður ekki fallist á að fyrir liggi staðfesting þess efnis að kærandi hafi ekki verið í virkri atvinnuleit í skilningi 14. gr. laga nr. 54/2006 þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. október 2020, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum