Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. júní 1999 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp á málþingi Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands á Þingvöllum

Ávarp Sólveigar Pétursdóttur dóms- og kirkjumálaráðherra á málþingi Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands á Þingvöllum 4. júní 1999



Fundarstjóri – góðir málþingsgestir


Það var vel til fundið hjá félögum dómara og lögmanna að taka upp þann sið að koma saman til fræðilegra umræðna hér á Þingvöllum í sumarbyrjun – hér þar sem lagamenn landsins komu árlega saman allt frá því er Úlfljótur hóf sínar lögskýringar árið 930 til þess að Alþingi var flutt til Reykjavíkur árið 1800. Val umræðuefna á þessum ráðstefnum sýnir vel, hvað íslenskir lögfræðingar standa framarlega í þróun lögfræðinnar jafnt hér á landi sem í nágrannaríkjunum. Mannréttindi eru málefni sem þurfa að vera til stöðugrar umræðu og það á ekki síst við um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Ég hef eins og kunnugt er tekið við starfi dómsmálaráðherra fyrir fáum dögum og er ég önnur konan sem gegnir því, en sú fyrsta var Auður Auðuns sem var dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Jóhanns Hafstein 1970 – 1971.

Mér er það sérstök ánægja að vera boðið að ávarpa þennan hóp hér enda þekki ég mörg ykkar persónulega bæði úr námi og starfi og auðvitað sem lærifeður. Við hljótum að líta svo á, að okkar "fag" nýtist vel í mínu starfi sem og auðvitað á fleiri sviðum. En það kann að vera að lögfræðingum henti ekki að láta til sín taka á öllum sviðum mannlífsins. Til dæmis skrifaði Bjarni Þorsteinsson í bréfi til sonar síns Steingríms Thorsteinssonar árið 1854: "Ég hef aldrei heyrt að skáld hafi verið góðir júristar. Sú kalda skynsemi á að præsidera hjá júristunum en ímyndunarkrafturinn hjá skáldunum". Þetta var auðvitað ritað fyrir daga Tómasar en ég er ekki frá því að hann hafi jafnvel verið þessu sammála. Og enn eru menn að velta fyrir sér hæfileikum lögfræðinga. Þannig segir nútímaskáldið Sverrir Stormsker: " Lögfræðingurinn tekur allt með í reikninginn".

Ég er að sjálfsögðu ekki reiðubúin til þess að flytja hér stefnuyfirlýsingu um störf mín sérstaklega, en ég gæti auðvitað lesið fyrir ykkur stefnuyfirlýsingu hinnar nýju ríkisstjórnar þar sem margt athyglisvert er að finna. Það ætla ég ekki að gera í þetta sinn, en aðeins að stikla á nokkrum atriðum er varða viðfangsefni okkar sem hér erum stödd.

Í starfi mínu sem formaður allsherjarnefndar Alþingis síðustu 8 ár hef ég fjallað um mörg framfaramál er dómsmálakerfið varðar og því kynnst þeim málaflokki allvel. Á síðasta áratug aldarinnar hafa orðið miklar breytingar á lagaumhverfi dómsmála og réttargæslu og er ekki að vænta álíka breytinga á allra næstu árum, en að sjálfsögðu er alltaf þörf á því að þróa þetta lagaumhverfi þannig að agnúar sem upp koma séu af því sniðnir og það sé jafnan í stakk búið til þess að mæta nýjum aðstæðum í þjóðfélaginu.

Það sem helst er á döfinni í löggjafarmálum og á sérstakt erindi við lögmenn og dómara er fyrirhuguð endurskoðun á lögum um meðferð opinberra mála. Þó ekki sé langt um liðið frá setningu þeirra laga er ástæða til að taka þau til skoðunar meðal annars til að tryggja betra samræmi milli þeirra og laganna um meðferð einkamála eftir því sem við þykir eiga. Heildarendurskoðun laganna um meðferð opinberra mála er mikið og vandasamt verk og því mun það fyrirsjáanlega taka nokkurn tíma. Af þeim sökum voru gerðar þær breytingar á lögunum á Alþingi nú í vor sem ekki þóttu þola bið og lutu að því að bæta réttarstöðu brotaþola. Við heildarendurskoðun laganna er ástæða til að athuga sérstaklega hvernig þessi síðasta breyting á lögunum mun reynast í framkvæmd og gera nauðsynlegar breytingar ef ástæða þykir til. Auk heildarendurskoðunar laganna um meðferð opinberra mála við ég nefna að nú er orðið tímabært að fara með skipulegum hætti yfir lögin um meðferð einkamála og lög á sviði fullnusturéttarfars til að meta hvort ástæða sé til að gera einhverjar breytingar, en vænta má í ljósi góðrar reynslu af þessari löggjöf að þær breytingar verði minniháttar. Þá vil ég geta þess að huga þarf að því hvernig ný lög um lögmenn og lög um dómstóla reynast í framkvæmd og gera viðeigandi breytingar ef ástæða þykir til. Við þessa athugun á réttarfarlöggjöfinni er mikilvægt að leita samráðs við lögmenn og dómara.

Í kjölfar þess að sett hafa verið ný lög um alla þætti réttarfars hefur á undanförnum árum gefist svigrúm innan ráðuneytisins til að sinna öðrum aðkallandi verkefnum, en það hefur meðal annars verið nýtt til að endurskoða refsilög. Á undanförnum tveimur árum hafa fjölmörg frumvörp um breytingu á refsilögum verið samþykkt á Alþingi og af þeim má helst nefna að bætt hefur verið við hegningarlögin ákvæðum um refsinæmi tölvubrota, varðhaldsrefsing hefur verið afnumin, fyrningarreglur laganna endurskoðaðar, bætt hefur verið við lögin nýjum kafla um fyrirkomulag refsiábyrgðar lögaðila og reglur laganna um reynslulausn hafa verið endurskoðaðar. Þá var lagt fram á síðasta þingi frumvarp þar sem lagt er til að bætt verði við hegningarlögin ákvæði um refsinæmi alvarlegra meiriháttar umhverfisbrota. Það frumvarp hlaut ekki afgreiðslu og verður væntanlega endurflutt nú í haust. Einnig er fyrirhugað að leggja fram á næsta þingi frumvarp um endurskoðun á ákvæðum hegningarlaga um eignarupptöku. Fleiri atriði á sviði refsilaga eru til skoðunar innan ráðuneytisins en verða ekki rakin í einstökum atriðum að svo stöddu. Ég vil leggja á það sérstaka áherslu að áfram verði unnið að endurskoðun refsilaga þannig að þau verði í sem bestu samræmi við þörfina á hverjum tíma og þróun á þessu sviði í nágrannalöndum okkar.

Á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er enn aukin áhersla á fíkniefnavarnir og tel ég að þar þurfi að samþætta aðgerðir á mörgum sviðum. Hér er ekki einungis um að ræða aðgerðir á sviði löggæslu og tollvörslu sem takmarka aðgengi að fíkniefnum heldur verða til að koma margvíslegar aðgerðir til þess að takmarka eftirspurnina, aðgerðir, sem félagasamtök, skólar, foreldrar og stjórnvöld verða að sameinast um.

Góðir málþingsgestir

Á næsta ári eru liðin 1000 ár frá því að hér voru sett lög um kristnitöku þjóðarinnar. Lögin mörkuðu tímamót í þjóðlífi okkar og trúarlífi og þau voru einnig tímamótalög á sviði lögfræðinnar. M.a. var þar að finna "aðlögunarákvæði" eins og við höfum t.d. séð í löggjafarflóði því er fylgdi EES-samningsins og á ég þá við ýmsa breytni er ekki samræmdist hinum nýja trúarsið, en sem leyfð var að takmörkuðu leyti. Það væri auðvitað vel við hæfi að lögmenn og dómarar minntust þessarar lagasetningar með því að setja hana hér á svið að vori. En það yrði auðvitað slegist um það milli dómara og lögmanna hver ætti að leika hlutverk Þorgeirs Ljósvetningagoða og því ætla ég ekki að gera þetta að minni tillögu.

Ég óska ykkur fróðleiks og frjós málþings og vænti góðrar samvinnu við ykkur á embættisferli mínum sem dómsmálaráðherra.
    Var efnið hjálplegt?
    Takk fyrir

    Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

    Af hverju ekki?

    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum