Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. nóvember 1999 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp dómsmálaráðherra á dómsmálaþingi

Ávarp dómsmálaráðherra á dómsmálaþingi 25. - 26. nóv. 1999


Góðir áheyrendur,

Það er mér sérstök ánægja að ávarpa ykkur í upphafi þessa dómsmálaþings, sem mun vera hið 6. í röðinni.

Viðfangsefni þingsins eru áhugaverð. Í fyrsta lagi verður hér rætt um bættar aðferðir við skýrslutöku af börnum í sakamálum. Við erum nú að reyna nýjar lausnir á ævagömlu vandamáli, sem vafalaust hefur oftast verið dulið. Vonandi eiga þær lausnir eftir að bæta réttaröryggi í landinu um leið og vernd barna okkar og afkomenda þeirra er verulega aukin í slíkum tilvikum. Þetta eru erfið mál fyrir alla þá sem að þeim koma og það þarf að vanda sérstaklega til meðferðarinnar. Það hefur verið gert sérstakt átak á þessu sviði og það verður áhugavert að kynnast reynslu manna af því.

Í öðru lagi verður hér rætt um íslenskt réttarfar í ljósi Mannréttindasáttmála Evrópu, sem Eiríkur Tómasson prófessor hefur nú ítarlega krufið til mergjar eins og fram mun koma í framsögu hans og í bók hans um efnið, sem einmitt nú er að koma út.

Á þeim áratug sem nú kveður hafa miklar og róttækar breytingar orðið á réttarkerfi okkar, sem ykkur eru vel kunnar. Nýir straumar hafa blásið á sviði réttarins og þær hugmyndir sem þeim hafa fylgt hafa nú skotið rótum í kerfi sem eðli málsins samkvæmt er fremur tregt til breytinga. Vafalaust mun ekki von á jafn rótttækum breytingum í bráð, en enn eigum við þó nokkrum verkefnum ólokið á þeirri braut sem mörkuð var í upphafi áratugsins og vil ég þá fyrst og fremst minnast á heildarendurskoðun laganna um meðferð opinberra mála. Einnig er brýnt að hegningarlögin verði áfram til endurskoðunar, en á síðustu árum hafa verið gerðar á þeim talsverðar breytingar. Danir og Norðmenn hafa haft sín hegningarlög til endurskoðunar og mér þykir rétt að við höfum hliðsjón af þeirra lagastarfi þegar árangur þess liggur fyrir. Hlutverkið er auðvitað að færa refsiákvæði saman í heildstæðan bálk og fara yfir efni og mikilvægi hvers um sig ásamt því að fella inn í almennu hegningarlögin margt úr sérrefsilögum sem sett hafa verið á síðustu áratugum. Ef til vill er hægt að fella einhver refsiákvæði úr gildi og önnur þarf að skerpa.

Skammt er nú þess að bíða að fljót tímans beri okkur inn í nýtt árþúsund í tímatalinu. Á því árþúsundi sem senn er á enda höfum við búið við réttarríki og réttarvenjur sem uppruna sinn eiga í þeim reglum og réttarhugmyndum sem forfeður okkar mótuðu áður en afkomendur þeirra lögðu á haf út og gerðust landnámsmenn á Íslandi. Í þrjár og hálfa öld þróaðist íslenska réttarríkið og íslensk lagasmíð í stofnunum þjóðveldisins.

Á ofanverðri 13. öld tók við veigamikil lögtaka erlends réttar með lögbókunum Járnsíðu sem gilti í 10 ár og síðan Jónsbók, sem enn er í gildi að litlum hluta. Hún er langlífasta lögbók á Norðurlöndum.

Meginákvæði hennar giltu fram á 18 öld, er þau véku fyrir réttarreglum dansks einvaldskonungs og hófst þá stórfelld lögtaka dansks réttar, sem að nokkru bar keim af Rómarrétti, er gengið hafði í endurnýjun lífdaganna sunnar í Evrópu.

Með endurreisn Alþingis á 19 öld og auknu sjálfstæði þjóðarinnar var þróuninni snúið við og íslensk lagasmíð hófst á nýjan leik, þótt menn hafi í raun oft stuðst við erlendar og þá einkum danskar fyrirmyndir.

Á þessari öld höfum við síðan, á veigamiklum sviðum, samræmt íslensk lög erlendum fyrirmyndum. Þar má í fyrsta lagi nefna norræna lagasamvinnu, sem við höfum tekið þátt í allt frá því að við fengum sjálfstæði 1918. Þar með er ekki sagt að straumurinn hafi eingöngu verið til okkar. Með þátttökunni í norrænum lagasmíðanefndum hafa embættismenn okkar komið á framfæri hugmyndum, sem orðið hafa hlutar af hinum samnorrænu textum. Þá má nefna
lagasamræmingu í tengslum við þátttöku okkar í starfsemi Evrópuráðsins og
loks hina stórfelldu lagasamræmingu sem fylgir aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Íslendingar eru líkar aðilar að stefnumarkandi samþykktum annarra alþjóðastofnana, svo sem Sameinuðu þjóðanna. Þar má t.d. nefna mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og sáttmála þeirra um réttindi barna. Slíkar stefnumarkandi samþykktir hafa orðið tilefni lagasetningar hér á landi.

Það líka sérstakt við lagasamvinnu okkar á síðari hluta aldarinnar að komið hefur verið á fót sérstökum dómstólum sem túlka ákvæði samninga sem við höfum gerst aðilar að, í ljósi tilvika sem upp koma í aðildarríkjunum og snerta þau réttindi sem borgurunum eru veitt með þessum samningum. Í þessum samþjóðlegu dómstólum sitja dómarar frá aðildarríkjunum, þ.á.m frá Íslandi og á úrskurði dómstólanna hefur nokkrum sinnum reynt í íslenskum dómsmálum.

Ég á hér að sjálfsögðu við Mannréttindadómstól Evrópu og EFTA-dómstólinn. Þá hafa Íslendingar skuldbundið sig til þess að taka tillit til dóma dómstóls EB í nánar tilteknum tilvikum, en þar eigum við ekki aðild að eins og alkunna er.

Hin viðamiklu áhrif erlends réttar á íslenskan landsrétt og áhrif þeirra samþjóðlegu dómstóla sem ég nefndi, hafa vakið upp spurningar um fullveldi okkar og sjálfstæði í löggjafarstarfi og menn geta velt því fyrir sér hvert stefni á nýju árþúsundi.

Hér komum við að því, að inntak sjálfra hugtakanna "fullveldi" og "sjálfstæði" er að breytast. Þreföldun mannfjölda á jörðinni á þessari öld og fyrirsjáanleg aukning hans á þeirri næstu ásamt stórauknum samgöngum, viðskiptum og fólksflutningum yfir landamæri hefur m.a. kallað á stóraukna samvinnu milli ríkja. Sú samvinna hefur fengið akkerisfestu í ýmsum alþjóðastofnunum, sem sett hafa sér leikreglur er aðildarríkin hafa skuldbundið sig til að beygja sig undir. Stefna ríkis í innanríkismálum getur orðið að stórvandamálum nágrannaríkjanna, t.d. þegar mannfjöldi leggur á flótta til næstu ríkja undan afleiðingunum af gerðum eigin stjórnvalda eða þegar óheft framleiðsla fíkniefna leitar markaða í öðrum ríkjum. Við þessar aðstæður hlýtur fullveldi í löggjafarstarfi ávallt að taka mið af þeim samþjóðlegum leikreglum, sem samstarfsríkin hafa komið sér saman um.

Á næsta árþúsundi munum við sjá enn meira af slíkum svæðisbundnum eða alþjóðlegum leikreglum. Mörg af nágrannaríkjum okkar í Evrópu hafa t.d. framselt löggjafarvald sitt í ríkum mæli til yfirþjóðlegra stofnana Evrópusambandsins. Um leið hafa þær endurskilgreint sjálfstæði sitt á þann veg að þátttaka þeirra í samþjóðlegum samtökum og hlýðni þeirra við reglur
þeirra brjóti ekki í bága við sjálfstæðið svo framarlega sem þær hafi átt aðild að setningu reglnanna.

Hvað sem þessu líður, þá er ljóst að þjóðir álfunnar eiga samleið í öllum meginatriðum. Grundvallarréttindi fólks eru í stórum dráttum hin sömu skv. þeim sáttmálum sem gerðir hafa verið um mannrétttindi. Við erum þegar aðilar að innra markaði Evrópusambandsins ásamt 17 öðrum ríkjum og útlit er fyrir að a.m.k. 12 Evrópuríki bætist innan skamms við í þann hóp. Þar gilda m.a. reglur um frjálsa för fólks með tilteknum skilmálum, en hún kallar aftur á margvíslega samræmingu laga og stjórnsýslu eins og við höfum fundið fyrir á síðustu misserum.

Á nýju árþúsundi mun þessi samræmingarþróun í löggjafarstarfi og löggjafarframkvæmd halda áfram. Evrópa er aðeins hluti heimsbyggðarinnar og hin svæðisbundna þróun þar á vafalaust eftir að finna sér samsvörun í lagasamræmingu á heimsvísu.

Ég hef á síðustu mánuðum átt þess kost að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi dómsmálaráðherra. Þar vil ég fyrst nefna samstarf norrænna dómsmálaráðherra og samstarf norrænna og baltneskra ráðherra, en fundir þeirra voru haldnir hér á landi í þetta skiptið. Norræna samstarfið stendur á gömlum grunni og fátt kemur þar á óvart, enda samskipti og upplýsingaskipti tíð á milli ráðuneyta hinna norrænum ríkja. Það er forvitnilegt að kynnast vandamálum baltnesku ríkjanna.

Dómsmálaráðherrar þeirra hafa m.a. skýrt frá vandkvæðum sem skapast af því, að dómarar ríkjanna "hugsi enn á rússnesku" og að dómskerfi þeirra sé langt frá því að vera skilvirkt. Vafalaust gætu þeir margt lært af réttar- og dómstólakerfi okkar og e.t.v. eigum við eftir að veita þeim einhverja aðstoð við endurskipulagningu á sviði dómsmálakerfisins. En mér er enn ljósara en áður, hvað verðmætt það er að búa við einfalt og gegnsætt dóms- og stjórnsýslukerfi, þar sem vel upplýstur almenningur er á verði gegn hvers konar misferli valdsins.

Ég átti þess líka nýlega kost að sitja alþjóðlegan fund í húsakynnum Sameinuðu þjóðanna í New York, þar sem saman komu konur í embættum dómsmálaráðherra. Það var afar minnistæður fundur og ekki síður fundur sem ég átti í framhaldinu með Janet Reno, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Afbrot takmarkast ekki við landamæri og hið alþjóðlega eðli þeirra hefur magnast upp við þá stórfelldu samgöngu- og fjarskiptabyltingu sem orðið hefur. Tölvuglæpir, barnaklám og peningaþvætti fer nú fram um fjarskiptalínur heimshornanna á milli. Fíkniefnasmygl margfaldast í skjóli stóraukinnar og hraðrar umferðar ferðamanna milli ríkja. "Hvít þrælasala" blómstrar sem afleiðingar örbirgðar í vanþróuðum ríkjum og skipulagðrar glæpastarfsemi í hinum þróaðri ríkjum. Um þetta ræddum við og um það hvernig unnt er að bæta löggæslu og dómgæslu. Alþjóðlegt og svæðisbundið samstarf yfirvalda á öllum stigum er hér í lykilhlutverki.

Hér komum við líka að hlutverki dómstóla. Það er ekki nóg að dómstólar séu skilvirkir og vel mannaðir. Það er nauðsynlegt að gæta þess jafnan að byggja þarf upp traust almennings á dómstólunum. Skoðanakannanir hérlendis hafa m.a. sýnt að slíku trausti er ábótavant. Fyrir margt löngu sagði heimspekingurinn Montaigne: (montanj) "Hversu marga dómsúrskurði hef ég ekki séð sem voru saknæmari en sjálft afbrotið". Þetta átti auðvitað við um allt annað umhverfi og aðra tíma en nú, en stundum bregður þó fyrir bergmáli af slíkri skoðun. Ég held að við eigum mikið verk að vinna í því að kynna almenningi betur starf dómstólanna, ekki síst upprennandi kynslóðum. Það þarf í vaxandi mæli að bjóða skólafólki í heimsókn til dómstólanna, þar sem hlutverk þeirra og mikilvægi í samfélaginu sé skýrt. Það þyrfti einnig að halda kynningar um sama efni fyrir fjölmiðlafólk. Ég vil gjarna eiga samvinnu við dómstólaráð um þetta efni og ég veit reyndar að hugmyndir sem þessar hafa þar verið til umfjöllunar.

Stjórnsýsla okkar og stjórnsýslureglur hafa á síðustu árum verið að breytast í takt við stjórnsýslu Vestur-Evrópuþjóða. Stjórnsýslulög, upplýsingalög, meðalhófsregla , umboðsmaður Alþingis. Allt á þetta sér fyrirmyndir í samstarfsríkjum okkar í Evrópu. Þróunin mun verða á sama veg svo langt sem við sjáum , en til viðbótar koma áhrif tölvu- og fjarskiptatækninnar, sem opna nýjar víddir á sviði stjórnsýslunnar. Þegar hafa fjölmargar stjórnsýslustofnanir hins opinbera komið sér upp vefsetrum, þar sem margvíslegar upplýsingar er að finna um viðfangsefni þeirra. Næsta skref er væntanlega að öll eyðublöð sem borgararnir þurfa að fylla út í sambandi við stjórnsýsluna, verða fáanleg á netinu. Lokaskrefið er að þegar þróuð hefur verið auðveld aðferð fyrir rafrænar undirskriftir, geta menn sent hvers konar umsóknir á rafrænan hátt til viðkomandi stjórnsýslustofnana og þegar að því kemur, skiptir ekki öllu máli hvar stofnanir eru til húsa. Þær geta verið hvar sem hægt er að ná tengingu við fjarskiptanet landsmanna og hægt verður að senda umsóknirnar hvenær sem er sólarhringsins. Lokastigið er svo væntanlega þegar þróuð hefur verið nægileg gervigreind í tölvukosti stjórnsýslustofnana til að afgreiða a.m.k. öll einfaldari mál og úrskurði - en ég kýs að skiljast við viðfangsefnið áður en kemur að þeirri "fögru, nýju veröld" - svo að vitnað sé til heitis frægrar bókar.

Þá er líka komið að því að selja ráðhús og ráðuneytishús til annarra nota, meðan að tölvunum verður komið fyrir í ódýrara húsnæði .

Ég ætla ekki að spá fyrir um örlög dómstólanna á næsta árþúsundi, en ég hygg þó að tilvik mannlífsins séu nægilega fjölbreytileg og flókin til þess tölvur mannsheilans geti einar leyst þau og að dómstólunum verði því forðað frá þeirri úreldingu, sem vafalaust bíður ýmissra annara stofnana á nýju og tölvuvæddu árþúsundi.

Góðir áheyrendur,

Ég hef hér leyft mér að taka flugið eitthvað fram á næsta árþúsund. Það er þó meira gert til upplyftingar en til að boða niðurstöður hávísindalegrar könnunar.

Fyrir okkur sem hér erum, skiptir mestu máli að vinna okkar verk eins vel og nokkur kostur er. Skilvirkni, nákvæmni og réttsýni eru okkar einkunnarorð. Skýr og réttlát löggjöf - skilvirkar og vel mannaðar stofnanir - eru þau tæki, sem við höfum til að viðhalda því réttarríki, sem við viljum skapa okkur og afkomendum okkar um langa framtíð.


Ég þakka ykkur öllum fyrir mikilvæg störf ykkar í þjónustu réttarríkisins og velferðar þjóðfélagsins og óska ykkur farsældar í því vandasama hlutverki.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum