Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. janúar 2000 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ræða við undirritun samninga um TETRA fjarskiptakerfið

Undirritun samninga um TETRA fjarskiptakerfið, 20.01.00.

Ræða dómsmálaráðherra


Undirritun á samningi, sem hér fer á eftir, um kaup á stafrænni fjarskiptaþjónustu sem byggir á svokölluðum TETRA staðli, á sér nokkuð langan aðdraganda.

Á árinu 1996 var vinnuhópi á vegum dómsmálaráðherra og samgönguráðherra falið að kanna hvort og þá með hvaða hætti mætti bæta og samræma fjarskiptakerfi ýmissa viðbragðsaðila á landinu til að ná fram auknu öryggi og hagræðingu. Niðurstaða vinnuhópsins var sú að best væri að nota svokallað TETRA fjarskiptakerfi. En til þess að skýra það strax í upphafi þá stendur skammstöfunin TETRA fyrir Terrestrial Trunked Radio sem er opinn staðall, sem viðurkenndur hefur verið af staðlastofnun Evrópu á sviði fjarskipta (European Telecommunications Standards Institute) þannig að allir geta framleitt tæki og búnað fyrir þann staðal.

Í júní 1998 var yfirlögregluþjónum á embættum lögreglustjóra í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Selfossi og á embætti ríkislögreglustjóra falið að kanna og gera tillögur um framtíðarskipulag fjarskiptamála lögreglunnar. Þá þegar var ljóst að TETRA fjarskiptakerfið væri metnaðarfullt markmið þar sem það væri dýrt í uppsetningu. Forsenda fyrir því að setja upp slíkt kerfi væri því sú að tryggt væri að fleiri notendur kæmi að kerfinu en lögreglan. Samstarf komst á milli ríkislögreglustjóra og slökkviliðs Reykjavíkur um að kanna möguleika á því að koma TETRA fjarskiptakerfi á. Í skýrslu vinnuhóps yfirlögregluþjóna var lagt til að komið yrði upp TETRA fjarskiptakerfi og að uppsetning og rekstur kerfisins yrði boðið út þannig að lögreglan og Reykjavíkurborg hefðu samvinnu við gerð þjónustusamnings við uppsetningaraðila. Gert var ráð fyrir að útbreiðslusvæði kerfisins tæki í fyrstu atrennu til sex umdæma lögreglustjóra, en það eru umdæmi lögreglustjóranna í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík, Keflavíkurflugvelli og Selfossi.

Útboð á vegum Ríkiskaupa fór síðan fram í júní á síðasta ári og tók það til 1000 stöðva samtals, og eru Reykjavíkurborg ætlaðar 400 og ríkinu 600. Af þessu 600 stöðvum er áætlað að 500 stöðvar verði notaðar í þágu lögreglu og 100 fyrir aðra hjá ríkinu.

Ég vil lýsa ánægju minni með samstarfið við Reykjavíkurborg um notkun TETRA fjarskiptakerfisins, en það samstarf gerir bæði ríki og Reykjavíkuborg kleift að velja besta fjarskiptakerfi sem völ er á að mati þeirra sem best þekkja til.

Vert er að vekja athygli á að Ísland verður í fararbroddi á þessu sviði þar sem fyrirsjáanlegt er að TETRA fjarskiptakerfi mun verða í notkun hjá fjölmörgum viðbragðsaðilum og strax í upphafi verða notendur lögreglan í áður upptöldum umdæmum, Flugmálastjórn og Vegagerð ríkisins, og hjá borginni a.m.k. slökkviliðið í Reykjavík og almannavarnir Reykjavíkur. Fjölmargir aðrir aðilar hafa sýnt áhuga á kerfinu. Notendur úr ýmsum áttum geta verið að nota kerfið samtímis í lokuðum hópum án þess að trufla hver annan. Mikilvægt er að sem flestir og helst allir sem koma að neyðarþjónustu með einhverjum hætti noti sama fjarskiptakerfið í stað ótal talstöðvakerfa. Ef sú staða kemur upp að margir viðbragðsaðilar þurfa að vinna saman t.d. við almannahættuástand vegna náttúruhamfara þá getur stjórnandi fjarskipta TETRA tengt þá saman í talhóp á svipstundu og bein milliliðalaus fjarskipti þeirra á milli farið fram.
Eins og menn muna gekk umferðastjórnun ekki sem skyldi þegar fagnað var 50 ára afmæli sjálfstæðis okkar á Þingvöllum 1994. Nú stendur fyrir dyrum Kristnitökuhátíð, sem verður haldin á Þingvöllum í júní nk. Forsendan fyrir því að koma á skipulagðri umferðarstjórnun þegar hugsanlega allt að 75 þúsund manns streyma til Þingvalla eru samræmd fjarskipti og með tilkomu TETRA verður það mögulegt og unnið er að því að kerfið verði komið í notkun á þeim tíma.

Ég vil líka sérstaklega benda á að með tilkomu kerfisins og þeim möguleikum sem það býður upp á verður verulega bætt þjónusta við almenning og aukið öryggi hans. Hægt er að taka dæmi um að alvarlegt bílslys verði rétt neðan við Litlu-Kaffistofuna í Svínahrauni. Með því að koma fyrir GPS staðsetningartæki við TETRA stöð í lögreglubíl er mögulegt fyrir þann sem er á stjórnstöð að sjá strax hvaða lögreglubíll er næstur slysstað. Á þessum stað liggja mörk tveggja lögreglustjóra, þ.e. lögreglustjórans í Kópavogi og lögreglustjórans á Selfossi, og það kann að vera að lögreglubifreið frá öðrum hvorum þeirra sé nálægt slysstað þó svo slysið sé ekki innan umdæmis hans. Með því að senda þá lögreglubifreið á vettvang sem næstur er slysstað hægt að veita borgurunum hraðari og öruggari þjónustu.
  Ég ætla ekki að lýsa margbreytilegum möguleikum TETRA fjarskiptakerfisins og tæknihliðum þess frekar heldur læt það eftir þeim sem hér tala á eftir. Þó vil ég minnast á eitt öryggisatriði sem skiptir lögreglumenn, sem og aðra notendur, afar miklu máli. Það er öryggishnappur bæði á hand- og bílstöðvum. Ef lögreglumaður í hættu ýtir á þennan hnapp, koma samstundis boð á skjái stjórnstöðvar og einnig á skjái allra talstöðva í sama talhópi. Þessi boð hafa forgang yfir allt annað í kerfinu. Eftir að einhver hefur ýtt á öryggishnapp er kerfið allt á aðvörun þar til neyðarkallinu hefur verið sinnt og aðeins er hægt að afturkalla það með því að komast í þá stöð sem upprunalega sendi það. Hér er því ekki aðeins um að ræða miklar umbætur fyrir öryggi almennings heldur einnig hins almenna lögreglumanns sem sinnir útköllum.

  Að lokum vil ég taka það fram að TETRA fjarskiptakerfi er ekki aðeins mikilvægt fjarskiptatæki og öryggistæki heldur einnig stjórnunartæki og veitir lögreglunni möguleika á að nýta betur mannafla og tæki og ná þannig því markmiði sem ávallt ber að stefna að: það er að ná fram betri löggæslu og þar með betri þjónustu við almenning.

  Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem unnu að undirbúningi þessa framfaraverkefnis.


  Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
  20. janúar 2000.
  Var efnið hjálplegt?Nei
  Takk fyrir

  Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

  Af hverju ekki?

  Hafa samband

  Ábending / fyrirspurn
  Ruslvörn
  Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

  Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira