Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. janúar 2000 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ræða við undirritun árangursstjórnunarsamn. við sýslumanninn í Rvk

Ræða við undirritun árangursstjórnunarsamnings við sýslumanninn í Reykjavík, 26.01.00.


Tilefni þessa fundar hér í dag er undirritun árangursstjórnunarsamnings sýslumannsins í Reykjavík og dómsmálaráðuneytisins og jafnframt að kynna ykkur þá margbreytilegu starfsemi sem fer fram hér á embættinu. Í umdæmi sýslumannsins í Reykjavík eru rúmlega 120 þúsund íbúar og er það liðlega fjórum sinnum fleiri íbúar en í næstfjölmennasta umdæmi sýslumanns sem er sýslumannsins í Hafnarfirði, þar sem 28 þúsund manns búa. Sýslumaðurinn í Reykjavík fer með stjórnsýslu ríkisins eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um. Aðalviðfangsefni embættisins eru almenn umboðsstörf s.s. þinglýsingar, aðfarargerðir, nauðungarsala, sifjamál, dánarbú, yfirlögráð og lögbókandagerðir. Ljóst er að mikill málafjöldi fer um hendur starfsmanna embættisins. Hér er unnið að málum af vandvirkni og kostgæfni. Því er vert að nota tækifæri sem þetta til að gera grein fyrir helstu málaflokkum embættisins og hver þróunin hefur verið í starfseminni á undanförnum árum.

Fjöldi þinglýstra skjala hefur sífellt farið vaxandi á undanförnum árum og á samanburði á fjölda þinglýstra skjala á árinu 1994 og síðasta ári kemur í ljós að aukningin nemur 16 %. Þessi fjölgun á þinglýstum skjölum sýnir meiri efnahagsleg umsvif. Athyglisvert er að á þessu sama tímabili þá fer fjárnámsbeiðnum fækkandi, sem að einhverju leyti má rekja til breyttra starfshátta innheimtumanna ríkissjóðs. Jafnframt hefur fjölda seldra fasteigna á nauðungarsölu stöðugt fækkað frá árinu 1995 þannig að fjöldi seldra fasteigna árið 1999 var 162 á móti 380 á árinu 1995, og verður það að teljast ánægjuleg þróun fyrir almenning og fyrirtæki í landinu. Þrátt fyrir fjölgun þinglýstra skjala er afgreiðslutími á þinglýstu skjali nú aðeins tveir dagar og beiðnir um útgáfu veðbókarvottorða eru að jafnaði afgreiddar samdægurs. Það má því segja að hér á embættinu sé lagt kapp á að veita skilvirka og góða þjónustu. Í sumum málaflokkum er þó álitamál hversu heppilegt það er að afgreiðslutími sé mjög stuttur og á ég þá helst við hin viðkvæmu sifjamál, þ.e. hjónaskilnaði og t.d. ágreiningsmál um umgengni barna, og verður þar að meta hvað á best við í hverju einstöku tilviki á því sviði. Þá má nefna að fjöldi borgaralegra hjónavígsla hefur aukist úr 120 á árinu 1994 og upp í 167 á síðasta ári. Á miðju ári 1996 tóku gildi lög um staðfesta samvist og voru þá staðfestar 17 samvistir samkynhneigðra para. Síðustu þrjú ár hefur fjöldi staðfestinga á samvist haldist jafn, þ.e. 10 á ári að jafnaði. Ég mun láta sýslumanninum eftir að gera frekari grein fyrir áhugaverðum tölum í erindi sínu.

Stöðug endurskoðun á starfseminni er í gangi og sífellt verið að meta hvað það er sem betur má fara. Í því sambandi vil ég gjarnan minnast á framfaraverkefni sem dómsmálaráðuneytið og embættið hafa undirbúið að frumkvæði ráðuneytisins. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs, sem felst í því að öllum foreldrum sem eiga í ágreiningsmálum vegna umgengni foreldris og barns er boðið upp á ráðgjöf, eins konar sáttaumleitan, sem hefur að markmiði að hjálpa foreldrum að leysa ágreiningsmál sín með samningi, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Öllum má vera ljóst hve miklu farsælli lausn það er að foreldrar nái samkomulagi um umgengni heldur en að þurfa að hlíta stjórnvaldsúrskurði, og á það bæði við um foreldra og barn. Tveir reyndir sálfræðingar, sem hafa sérhæft sig í fjölskylduráðgjöf, hafa verið ráðnir til að sinna þessari ráðgjöf, þeir Jóhann Loftsson og Gunnar Hrafn Birgisson, og voru fyrstu sáttafundir haldnir hér á embættinu í gær. Til þess að ráðgjöfin þjóni sem best tilgangi sínum er að jafnaði gert ráð fyrir að foreldrar mæti saman í allt að þrjú viðtöl. Allt það sem foreldrum og sálfræðingi fer á milli er trúnaðarmál og stjórnvöld eiga ekki aðgang að þeim upplýsingum sem þar koma fram. Ég hvet fólk eindregið til þess að kynna sér þessa þjónustu.

Þetta tilraunaverkefni fer einungis fram hér á embætti sýslumannsins í Reykjavík en ef árangur verður góður, eins og vonir standa sannarlega til, kann það að verða grundvöllur að breytingum á barnalögunum nr. 20/1992, þannig að lögfest verði skylda ríkisins til þess að bjóða öllum foreldrum, sem eiga í umgengnis- og forsjármálum, upp á slíka ráðgjöf sérfræðinga. Þessari ráðgjöf er ekki einungis ætlað að vera til hagsbóta fyrir foreldra og börn, heldur einnig að leiða til fækkunar á stjórnvaldsúrskurðum og dómum í þessum viðkvæmu og vandmeðförnum málum.

Þá er ánægjulegt að segja frá því að nýlega hafa verið gerðar töluverðar endurbætur á húsnæði embættisins og vil ég sérstaklega nefna að útbúið hefur verið afar vistlegt bókaherbergi þar sem ráðgjöf sálfræðinganna í umgengnismálum mun einnig fara fram. Það er málað í hlýlegum litum og kappkostað að skapa notalegt umhverfi. Sýslumaðurinn mun lýsa endurbótunum frekar hér á eftir og veita ykkur kost á að skoða húsakynnin. Einnig verða tök á að beina fyrirspurnum til okkar hér á eftir um þessa þjónustu og starfsemi embættisins.


En víkjum nú að öðru tilefni fundarins.
Þessi árangursstjórnunarsamningur markar lokapunktinn í gerð árangursstjórnunarsamninga við alla sýslumenn á landinu. Fyrsti samningur þessarar tegundar var gerður við sýslumanninn í Hafnarfirði í desember 1998. Alls hefur þá dómsmálaráðuneytið undirritað 27 árangursstjórnunarsamninga, 26 við sýslumenn, auk samnings við Almannavarnir ríkisins.

En hvað er árangursstjórnun? Í árangurstjórnun eru teknar upp ýmsar faglegar stjórnunaraðferðir sem styðja hver aðra og stuðla að auknum árangri í rekstri. Almenningur og fyrirtæki gera auknar kröfur um bætta opinbera þjónustu án aukins kostnaðar og þetta er ein leið ríkisins og ráðuneytanna að bregðast við þeim. Lykilatriði í árangursstjórnun er að stofnun eða embætti setur sér skýr markmið sem eru kunn starfsmönnum embættisins og ráðuneytinu. Þá eru gerðar kerfisbundnar mælingar á árangriog eftirfylgni tryggð með því að fylgst er með hvernig gengur að ná settum markmiðum, ávallt með það að leiðarljósi að læra af reynslunni og gera sífellt betur.

Í árangursstjórnunarsamningi þessum er lýst starfsramma embættisins og stigið mikilvægt skref til að koma á markvissari samskiptum milli ráðuneytisins og embættisins. Þar er kveðið á um að sýslumaður skuli gera langtímaáætlun til 3ja ára um helstu verkefni, forgangsröðun og áherslur á tímabilinu sem ráðuneytið skuli fara yfir og samþykkja. Ársáætlun skal jafnframt gerð sem og ársskýrsla þar sem fram á að koma samanburður á árangri og markmiðum ársins.

Með því að skilgreina hlutverk stjórnanda embættisins, sýslumannsins, og samskipti hans við ráðuneytið er fest í sessi sjálfstæði sýslumannsins um stjórnun og rekstur embættisins.

Árangursstjórnunarsamningurinn, sem hér verður nú undirritaður, er gerður til fimm ára, en hvor aðili um sig getur óskað eftir endurskoðun innan þess tíma.


Samhliða því að gera árangursstjórnunarsamning við sýslumanninn í Reykjavík afhendi ég honum hér með erindisbréf. Lagaskylda hvílir á ráðuneytum samkvæmt starfsmannalögum að setja forstöðumönnum stofnana erindisbréf. Í erindisbréfi er mælt fyrir um ábyrgð forstöðumanns á rekstri stofnunar gagnvart ráðherra og eru þar tilgreind helstu verkefni hlutaðeigandi embættis lögum samkvæmt.

Að lokum vil ég nota tækifærið og óska sýslumanninum í Reykjavík og öllu starfsfólki hans til hamingju með þær endurbætur sem gerðar hafa verið á húsnæðinu og vona að hið vistlega starfsumhverfi muni auðvelda vinnu þeirra og þannig leiða til betri þjónustu við almenning.

Um leið ég þakka fyrir hlýlegar móttökur hér í dag óska ég starfsmönnum embættis sýslumannsins í Reykjavík velfarnaðar í starfi.



Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
26. janúar 2000.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum