Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. mars 2000 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp við kynningu á rannsókn um ofbeldi meðal unglinga.

Kynning á rannsókn um ofbeldi meðal unglinga 9.3.2000,
ávarp ráðherra


Ágætu gestir.

Ég vil byrja á því að bjóða gesti velkomna. Til þessa fundar er boðað til þess að kynna könnun Rannsókna og greiningar á ofbeldi meðal unglinga, en dómsmálaráðuneytið og Rauði krossinn standa sameiginlega að þessu verki. Ég vil byrja á því að þakka Rannsóknum og greiningu, sérstaklega prófessor Þórólfi Þórlindssyni og Ingu Dóru Sigfúsdóttur félagsfræðingi fyrir vel unnið verk. Rauða krossinum þakka ég fyrir samstarfið, og þeirra áhuga og frumkvæði í þessum málum.

Skýrslan sem er lögð fram hér í dag skerpir sýn okkar á ofbeldi meðal unglinga og orsakir þess. Hún gefur okkur líka mynd af útbreiðslu þess og samanburð við stöðu mála í öðrum ríkjum, en samkvæmt henni óttast u.þ.b. fjórðungur íslenskra unglinga að verða fyrir ofbeldi í skóla, samanborið við t.d. um 6% danskra ungmenna og um 15% ungmenna í Svíþjóð og Noregi.

Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna rík tengsl milli ofbeldishegðunar unglinga og ákveðinna þátta í félagslegu umhverfi þeirra. Unglingar sem leggja rækt við nám eru síður líkleg til þess að beita ofbeldi, en þeir sem sjá ekki tilgang í náminu. Vinirnir skiptir einnig verulegu máli, en eftir því sem vinnuhópurinn er álitinn hlynntari ofbeldi þeim mun líklegri virðist unglingur til að beita því sjálfur. Samkvæmt könnuninni virðast t.d. jákvæð viðhorf til ofbeldis í vinhópi drengja tvöfalda líkur á því að þeir beiti aðra ofbeldi.

Svipaða sögu er að segja um samskipti unglinga við foreldra sína. Þeir sem telja sig eiga auðvelt með að fá umhyggju og hlýju frá foreldrum sínum, og verja tíma með þeim eru mun ólíklegri til þess að beita ofbeldi. Einnig koma í ljós sterk tengsl milli vímuefnaneyslu unglinga og ofbeldi þeirra á meðal.

Rannsóknin bregður því ljósi á samspil ofbeldis unglinga og ýmissa þátta í félagslegu umhverfi þeirra. Hún gefur okkur mynd af þeim vanda sem við er að etja, en jafnframt nokkra leiðsögn um það hvernig beri að bregðast við. Við vitum meira um eðli vandans og á hvaða þáttum ber að taka.

Niðurstöðurnar sýna að aðhald og eftirlit foreldra er lykilatriði, og styður vissulega þá skoðun að betur þurfi að virkja foreldra í þessum efnum, ekki síst til þess að draga úr óæskilegum áhrifum jafningjahópsins.

Ljóst er að mestu máli skiptir að sem flestir vinni saman; foreldrar, kennarar, þeir sem skipuleggja íþrótta og tómstundastarf, ásamt yfirvöldum. Samþættingin allra þessara afla í samfélaginu, bæði starfsemi yfirvalda og grasrótarstarfsins, mun skila okkur árangur. Sóknarfærin felast í því að við stillum saman krafta okkar.

Ég legg í mínum störfum mikla áherslu á eflingu grenndarlöggæslu, sem er byggð á þessari sýn um samstarf og samstillt átak í samfélaginu. Ég hef sérstakan áhuga á því að efla samvinnu lögreglu, foreldra, skóla og félagasamtaka um forvarnir og málefni ungs fólks.

Með grenndarlöggæslu og auknum tengslum borgara og lögreglu aukast líkur á því að borgarar veiti lögreglu upplýsingar um brotastarfsemi. Þannig geta lögreglumenn leitast við að grípa inn í áður en vandamálin verða illviðráðanleg. Til dæmis hafa hverfislögreglumenn oft getað gripið inn í fíkniefnaneyslu meðal ungmenna eftir að hafa fengið upplýsingar um slíkt. Í slíkum málum er samstarf við foreldra afar mikilvægt.

Þekking lögreglumanna á hverfinu eða bæjarfélaginu, íbúum þess og ekki síst traust íbúa til lögreglumannsins leiðir því til þess að lögreglan fær oft mun betri upplýsingar um ýmsa brotastarfsemi og á auðveldara með að vinna úr þeim upplýsingum í ljósi fyrri reynslu og þekkingar. Traust milli unglinga og lögreglu hefur einnig áhrif á viðhorf unglinganna til laga og réttar, og sýnir að lögreglan vinnur með þeim, en ekki gegn þeim. Þetta traust skapast t.d. með starfi lögreglumanna í skólunum, í félagsmiðstöðvunum – og í raun hvar sem unglingarnir halda sig.

Samtvinnun hefðbundinnar löggæslu og hverfislöggæslu, og efling grenndarlöggæslu hefur sannað sig og sýnt að hún er líkleg til árangurs. Þar sem lögreglan hefur lagt rækt við forvarnarstarf, tekið þátt í fræðslu í skólunum, verið í sambandi við Félagsþjónustuna, stofnanir og fyrirtæki á svæðinu og kynnt sér aðstæður og vandamál sem upp hafa komið innan svæðisins lætur árangurinn ekki á sér standa – sem lýsir sér meðal annars í ánægju borgaranna.

Nú vinnur Lögreglan í Reykjavík samkvæmt minni ósk að ýtarlegum tillögum um framtíðar-fyrirkomulag grenndarlöggæslu í borginni. Þær verða teknar til frekari vinnslu í ráðuneytinu og framtíðarstefna mótuð og hrint í framkvæmd.

Sú könnun sem hér er kynnt sýnir að forvarnarstarf þarf að beinast að því að bæta félagslegt umhverfi ungmenna, sem styður þá skoðun mína að uppbygging grenndarlöggæslu eigi að vera forgangsmál.

Veruleg ábyrgð hvílir á stjórnvöldum, en málið varðar svo sannarlega fleiri. Fjölskyldan, skólinn, og félagsstarfið gegna veigamiklu hlutverki í að halda utan um lífstíl ungmenna og brynja þau fyrir þeim straumum menningar og lífsstíls sem taldir eru óæskilegir. Við þurfum í raun á viðhorfsbreytingu að halda, ekki bara meðal unglinga, heldur einnig meðal foreldra.

Ofbeldi hefur valdið vaxandi áhyggjum meðal fólks hér á landi, jafnt sem erlendis og kastljós fjölmiðla beinist æ meira að því. Tölur frá lögreglunni sýna að tilkynningum vegna líkamsárása hefur fjölgað á síðustu árum.

Það hlýtur því að vera sameiginlegt markmið okkar allra að ná árangri á þessu sviði og snúa þróuninni til betri vegar – framtíðin byggist á því.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum