Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. mars 2000 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp dómsmálaráðherra á fundi um eftirlitsmyndavélar í miðbæ Reykjavíkur

Eftirlitsmyndavélar í miðbæ Reykjavíkur,
ávarp dómsmálaráðherra á fundi27. mars 2000.



Ágætu gestir

Það er mér mikil ánægja að vera hér í dag og taka þátt í kynningu á árangri af eftirlitsmyndavélum sem hafa verið reknar í miðbæ Reykjavíkur frá því í nóvember 1998. Þá var upphaf þessa verkefnis einmitt kynnt fyrir fjölmiðlum, m.a. af hálfu dómsmálaráðherra hér í húsakynnum lögreglunnar í Reykjavík. Hér er um að ræða samstarfsverkefni Lögreglustjórans í Reykjavík, dómsmálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Pósts og síma. Markmið með starfrækslu eftirlitsmyndavéla er fyrst og fremst að koma í veg fyrir afbrot í miðborginni og auka þannig öryggi borgaranna og upplýsa framin afbrot.

Til þess að meta árangur af verkefni eins og starfrækslu eftirlitsmyndavéla, er nauðsynlegt að bera saman ástand mála fyrir og eftir uppsetningu eftirlitsmyndavéla og draga ályktanir af þeim niðurstöðum sem koma út úr slíkum samanburði. Það er einmitt það sem leitast er við að gera í mjög áhugaverðri áfangaskýrslu sem gerð hefur verið á vegum lögreglustjórans í Reykjavík og kynnt er hér í dag. Að mínu mati hafa myndavélarnar náð árangri í því markmiði sem að var stefnt með þeim. Eins og fram kemur í skýrslu lögreglustjórans hefum brotum á borð við eignaspjöll og líkamsárásir fækkað í miðborginni og er það mjög jákvæð þróun. Vissulega kunna fleiri þættir að hafa áhrif á þessa þróun svo sem breyttur opnunartími veitingastaða, en þó er ótvírætt að eftirlitsmyndavélarnar hafa a.m.k samverkandi áhrif á þessu sviði.

Það er líka margt annað afar áhugavert sem kemur fram í þessari áfangaskýrslu um áhrif eftirlitsmyndavélanna. Til að mynda er því lýst í skýrslunni að myndskeið úr upptökum eftirlitsmyndavélanna hafa komið að góðu gagni við að upplýsa sakamál og jafnvel verið notuð sem sönnunargögn fyrir dómi, þar sem sakfelling er byggð á slíku sönnunargagni. Einnig hafa myndavélarnar gert lögreglunni kleift að koma í veg fyrir að brot eigi sér stað og grípa inn í aðstæður þar sem slík hætta er að skapast. Því má ekki heldur gleyma að myndavélar leiða til þess að unnt er að nýta betur þann mannafla sem er við störf hjá lögreglunni hverju sinni, vegna þess að lögreglan getur metið í gegnum myndavélarnar hversu mikinn mannafla er nauðsynlegt að senda á vettvang. Þegar lögregla er komin á vettvang eykst einnig starfsöryggi hennar til muna vegna eftirlitsmyndavélanna.

Ég ætla að láta starfsmönnum lögreglustjórans í Reykjavík eftir að kynna nánar einstaka atriði í áfangaskýrslunni um árangur af eftirlitsmyndavélunum. Það er skoðun mín að vel hafi tekist til með notkun eftirlitsmyndavéla lögreglunnar í Reykjavík, þegar niðurstöður áfangskýrslunnar eru skoðaðar. Ég hef orðið vör við mikinn áhuga bæði einkaaðila og opinberra aðila á því að koma upp öryggismyndavélum til þess að auka öryggi á tilteknum svæðum. Við verðum hins vegar að hafa í huga að myndatökur af þessu tagi kunna að ganga nærri friðhelgi einkalífs manna og eru háðar ákveðnum meginreglum um persónuvernd. Það er því ákveðin ástæða fyrir því að starfræksla eftirlitsmyndavéla af þessu tagi verður að hvíla á mjög skýrum reglum sem tölvunefnd tekur út og viðurkennir og slíkar reglur verða að vera háðar ströngu eftirliti.

Að mínu mati gefur reynslan af eftirlitsmyndavélum í miðbæ Reykjavíkur fullt tilefni til þess að kanna hvort rétt sé færa sér tæknina enn frekar í nyt á þessu sviði þannig að lögreglan beiti myndavélum í ríkara mæli til þess að upplýsa afbrot. Það getur einnig átt við um önnur bæjarfélög en Reykjavík. Ég hef ákveðið að fela ríkislögreglustjóra að kanna nánar frekari möguleika á notkun eftirlitsmyndavéla og leita viðhorfa lögreglustjóra í öðrum umdæmum í því sambandi. Það er a.m.k. ljóst að eftirlitsmyndavélar af þessu tagi eru raunhæfur kostur í viðleitni löggæslunnar til þess að fækka afbrotum og auka öryggi borgaranna. Það hlýtur að vera takmark okkar allra.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum