Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. mars 2000 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp dómsmálaráðherra á Málþingi um sakhæf börn og réttarkerfið

Ávarp dómsmálaráðherra á Málþingi um sakhæf börn og réttarkerfið, 29.02.2000

Fundarstjóri, ágætu málþingsgestir.

Ég vil byrja á því að taka fram að það er mér sönn ánægja að segja nokkur orð við upphaf þessa málþings, en mér þykir umfjöllunarefnið afar áhugavert.

Ég hef kynnst ýmsum hliðum þessara mála í störfum mínum, ekki síst í þann tíma sem ég gengdi formennsku í barnaverndarnefnd Reykjavíkur og nú sem dómsmálaráðherra. Dómsmálaráðuneytið fer með mikilvægt stefnumótunarhlutverk í þessum málaflokki, og hefur unnið markvisst að undanförnu, eins og ég mun fjalla nánar um hér á eftir.

En "hvenær eru börn börn" er stundum spurt og vísað til þess að víða í löggjöf er að finna dæmi um það að börn og ungmenni öðlist ýmis réttindi við mismunandi tímamörk, eftir aldri þeirra og þroska og á þau séu einnig lagðar skyldur eftir aldri þeirra og þroska. Þannig verða börn sakhæf við 15 ára aldur, skólaskyldu lýkur og þau verða sjálfstæðir skattþegnar við 16 ára aldur, 17 ára geta þau öðlast ökuréttindi og ýmis réttindi eru bundin við 18 ára aldur og enn má nefna að miðað er við hærri aldursmörk, eða 20 ár til áfengiskaupa. Engin rökbundin nauðsyn er til að hafa sama aldursmark á öllum sviðum og aðalatriðið er ekki það hvort alls staðar sé miðað við sama aldursmark, heldur það hvaða afleiðingar það hefur í hverju tilviki.

Málefni ungra afbrotamanna þurfa sífellt að vera til skoðunar. Hinn 17. júlí 1998 skipaði dómsmálaráðherra, að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, samstarfsnefnd ráðuneyta til að fjalla um málefni ungra afbrotamanna og gera tillögur til úrbóta. Hlutverk nefndarinnar var að meta umfang vandans, gera grein fyrir lagareglum sem varða unga afbrotamenn og börn sem hætt er við að stefni á braut afbrota og gera grein fyrir þeim úrræðum sem umræddum börnum bjóðast. Nefndin lauk störfum í maí 1999 og skilaði mér skýrslu sinni, sem kynnt var opinberlega í júní sama ár. Nefndin benti á nauðsyn heildstæðrar skráningar á landsvísu á málefnum sem varða afbrot barna til að unnt sé að meta vandann, umfang hans og þróun frá ári til árs. Í þessu sambandi má geta þess að það er sérstakt fagnaðarefni að nú hefur tekist að samræma tölvuskráningu mála hjá lögreglustjóraembættum. Sú skráning er í raun vísir að heildstæðri afbrotafræðilegri skráningu á landsvísu. Nefndin aflaði upplýsinga um afbrot framin af börnum frá embætti Lögreglustjórans í Reykjavík og barnaverndar- og félagsmálanefndum í stærstu umdæmum landsins. Þessar upplýsingar benda til þess að vandinn sé allnokkur, en á grundvelli þeirra er þó ekki hægt að fullyrða að hann fari vaxandi eða þróun hans að öðru leyti. Þess skal þó getið að einstaklingum yngri en 18 ára sem dæmdir voru í skilorðsbundið eða óskilorsbundið fangelsi á síðustu árum hefur fjölgað nokkuð, en þeir voru 44 á árinu 1996, 76 á árinu 1997 og 114 á árinu 1998. Þetta bendir til þess að alvarlegum brotum hjá börnum fari fjölgandi. Í skýrslu nefndarinnar er gerð ítarleg grein fyrir þeim meðferðarheimilum sem starfa á vegum Barnaverndarstofu, en jafnframt lagt til að rýmum verði fjölgað. Á fundi ríkisstjórnarinnar í júní sl. var samþykkt að setja á laggirnar bráðamóttöku fyrir 8-10 unglinga sem eiga við hegðunar- og geðraskanir að stríða. Bráðamóttakan mun taka yfir neyðarvistun barna frá meðferðarstöðinni Stuðlum, en með því fjölgar einnig rýmum á Stuðlum í greiningarvistun. Á umræddum ríkisstjórnarfundi var einnig samþykkt að bæta við einu langtímameðferðarheimili. Með þessum aðgerðum hefur ríkisstjórnin komið til móts við tillögur nefndarinnar.

Í skýrslunni er að finna upplýsingar um þau mál sem lokið var árið 1998 með niðurfellingu saksóknar. Mál þessi eru greind eftir aldri sakbornings og embættum. Samkvæmt þessum upplýsingum voru tæplega 21% sakborninga undir 18 ára aldri en 34,5% yngri en 21 árs. Þessu úrræði er því all nokkuð beitt þegar ungir brotamenn eiga í hlut. Einnig eru mál sakborninga yngri en 21 árs þar sem fallið er frá saksókn greind eftir brotum og kynjum. Flest málanna vörðuðu brot gegn almennum hegningarlögum og fjöldi kvenna var um 20%

Nefndin telur niðurfellingu saksóknar heppilegt úrræði í sumum tilvikum, svo sem þegar brot er ekki alvarleg og framið af yfirsjón sem ætla verður að sé einstakt tilvik. Þannig gefst barninu tækifæri á að komast hjá sakfellingu og refsingu, sem getur reynst því íþyngjandi til framtíðar litið. Hins vegar varar nefndin við óhóflegri beitingu þessarar heimildar, enda getur hún ekki átt við í alvarlegri tilvikum þar sem nauðsynlegt er að barnið sæti ábyrgð samhliða því sem komið er til móts við þarfir þess.

Í skýrslunni leggur nefndin til að kannað verði hvort ekki sé unnt að auka stuðning við börn meðan þau sæta eftirliti á skilorðstíma. Þá telur nefndin rétt að kannað verði hvort ekki sé ástæða til að beita eftirliti í auknum mæli og með virkari hætti þegar refsing er skilorðsbundin. Þessi tillaga er nú til sérstakrar athugunar í ráðuneytinu. Hafa ber í huga í þessu sambandi að þegar um er að ræða ungmenni yngri en 18 ára má ábyrgð foreldra ekki gleymast, en samvinna þeirra við opinbera aðila sem annast skilorðseftirlit er mikilvæg til að árangur náist. Gæta verður þess og sérstaklega að hafa persónuréttindi þeirra ungmenna sem í hlut eiga ávallt í heiðri, en það bindur óhjákvæmilega hendur þeirra sem annast skilorðseftirlit nokkuð, ekki er t.d. unnt að krefjast þess skilyrðislaust að ungmenni sem mætir til skilorðsfulltrúa láti í té blóðsýni til að staðreyna megi hvort um vímuefnanotkun sé að ræða.

Í skýrslunni kemur fram að Fangelsismálastofnun og Barnaverndarstofa hafa gert með sér samning um að gera föngum yngri en 18 ára kleift að afplána refsingu utan fangelsa með vistun á meðferðarheimili. Þessu fagnar nefndin og leggur til að áfram verði unnið á þessari braut. Þannig verði í öllum tilvikum komist hjá því að börn afpláni refsingu innan fangelsa með fullorðnum föngum jafnvel án tillits til vilja þeirra sjálfra. Telur nefndin þann kost vænlegri en að komið verði á fót sérstöku fangelsi eða fangelsisdeild fyrir börn. Í skýrslunni er einnig fjallað um gæsluvarðhald barna og lagt til að Barnaverndarstofu verði falið að vista börn í gæsluvarðhaldi til að þau hafi ekki samneyti við eldri fanga. Í skýrslunni er þess einnig getið að stefnt hefur verið að byggingu nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu þar sem sérstaklega verði gætt að atriðum sem varða heilbrigðismál fanga þar á meðal sérstakri aðstöðu þar sem hugað verði að greiningu á mismunandi þörfum fanga.

Meðal þess sem nefndin lagði til í skýrslu sinni var að samvinna verði aukin meðal heilsugæslu, skóla, Barnaverndarstofu, félagsmálayfirvalda, barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, SÁÁ og annarra stofnana sem veita einstaklingum undir 18 ára aldri heilbrigðisþjónustu. Ríkisstjórnin ákvað í sama mánuði að skipa starfshóp til að leita leiða með hvaða hætti best sé að samhæfa meðferðarstarf fyrir börn og unglinga á vegum Barnavernarstofu, barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og annarra þeirra aðila sem veita börnum þjónustu.

Skýrslu nefndarinnar kynnti ég enn fremur á árlegum sumarfundi dómsmálaráðherra Norðurlanda, sem haldinn var hér á landi í júní sl. Ákváðu ráðherrarnir á fundinum að tillögu minni að setja á fót vinnuhóp embættismanna til að fjalla um málefni ungra afbrotamanna. Hópnum er meðal annars ætlað að miðla upplýsingum milli landanna um úrræði og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn brotum barna og ungmenna. Einnig mun hópurinn fjalla um sérstöðu barna með tilliti til refsinga og huga að því hvort önnur viðurlög geti átt betur við og komið í stað refsinga. Þá er gert ráð fyrir því að hópurinn kanni hvernig styrkja megi forvarnir gegn afbrotum barna, en í þeim efnum er einnig mikilvægt að huga að vanda tengdum fíkniefnaneyslu.

Norræn samvinna er töluverð á þessu sviði en í dag fer einmitt fram í Kaupmannahöfn fundur embættismanna um málefni ungra afbrotamanna. Þar er um að ræða vettvang til þess að miðla reynslu og læra af frændum okkar á Norðurlöndum. Þess má geta að í vinnslu er sameiginleg skýrsla um aðgerðir og stefnu í þessum málaflokki á Norðurlöndunum.
Ég hef lagt mikla á herslu á að stefnumótun sé byggð á traustum upplýsingum, tölfræðilegum mælingum og öðrum rannsóknum.

Bráðlega verða kynntar fyrstu niðurstöður rannsókna sem unnar hafa verið fyrir dómsmálaráðuneytið og Rauða krossinn um sérstaka rannsókn sem taki til afbrota- og ofbeldishegðunar ungs fólks. Í þessum rannsóknum verða ýmis atriði tekin, m.a. heildstæð rannsókn á umfangi og útbreiðslu ofbeldis meðal íslenskra unglinga. Svör nemendanna sjálfra yrðu þungamiðjan í slíkri vinnu en með því að flétta saman við þau upplýsingum frá lögreglu, heilbrigðisstofnunum og skólum mætti dýpka og skerpa þessa mynda.Greining á tengslum ofbeldis við félagslega skýringarþætti, þar á meðal við jafningjahópinn, fjölskylduna, skólann og fleira.

Á vegum ráðuneytisins er nú unnið að viðamikilli rannsókn á refsiákvörðunum og sakarmati dómara í þremur brotaflokkum; kynferðisbrotum, líkamsárásamálum og fíknibrotum.
Enn má nefna verkefni á sviði afbrotafræði sem er rannsókn á ítrekunartíðni afbrota á Íslandi, þ.e. endurhvarfi einstaklinga til afbrotahegðunar eftir að þeir hafa sætt einhvers konar refsingu. Leitað verður svara við mikilvægum spurningum um það hvaða þættir auka eða minnka líkur á ítrekun. Um er að ræða samstarf bandarískra afbrotafræðinga, sem starfa við Missouri-háskóla í Bandaríkjunum, dósents við Háskóla Íslands og lögfræðings með stuðningi dómsmálaráðuneytisins, en undir það heyra allar þær stofnanir sem nauðsynlegt er að fá upplýsingar frá. Niðurstöður verða án efa stjórnvöldum bæði hér og erlendis afar gagnlegar við mat á því hvaða aðgerðir eru í raun vænlegar til árangurs í baráttunni gegn afbrotum. Upplýsingar um ítrekunartíðni eru mikilvægur þáttur í mati á því hve mikil áhrif fangelsun og aðrar refsitegundir hafa til að draga úr afbrotahegðun, ekki síst meðal ungra afbrotamanna. Upplýsingar um það hvers konar einstaklingar og aðstæður eru líklegastar til að ítrekun eigi sér stað, geta orðið stjórnvöldum að liði við að móta nýjar aðferðir til að draga úr hættu á ítrekuðum afbrotum og auðvelda endurkomu brotamanna inn í þjóðfélagið.

    Nauðsyn þess að staðinn sé vörður um mannréttindi brotamanna er svo sannarlega ekki síður fyrir hendi þegar um börn og ungmenni er að ræða, en það er auk þess sérstaklega mikilvægt að þess sé gætt við fullnustu refsingar ungmenna að ekki sé misst sjónar á því hvert markmiðið er með refsingu ungs brotamanns.

    Þegar refsingu er beitt vegna afbrots er það almennt gert með vísun til sjónarmiða um að draga verði brotamann til ábyrgðar fyrir brot sitt, að hann fái makleg málagjöld svo og með vísun til almennra og sérstakra varnaðaráhrifa. Meðferðarstefna við fullnustu refsinga byggir hins vegar á því sjónarmiði að markmið refsingarinnar sé að gera brotamenn að betri mönnum eða endurhæfa þá. Meðferðarstefnan var ríkjandi í fangelsismálum á Norðurlöndum í kringum 1970, en hefur verið á undanhaldi síðustu áratugi. Meira virðist nú bera á þeim viðhorfum til refsinga sem byggja á endurgjaldssjónarmiðum, sem getur auðvitað í ýmsum tilvikum verið skiljanlegt, sem helst í hendur við þá tilhneigingu sem virðist vera til aukinnar refsigleði í þjóðfélaginu. Það er þó afar mikilvægt að vakað sé yfir því að slíkt nái ekki til refsinga barna og ungmenna.

    Þegar ungir afbrotamenn eiga í hlut er meðferðarstefnan að mínu mati það sem leggja ber til grundvallar við fullnustu refsingar. Fangelsismálastofnun og Barnaverndarstofa hafa, svo sem fyrr var nefnt, gert með sér samkomulag með það að markmiði að vistun fanga, yngri en 18 ára, verði að jafnaði á meðferðarheimilum sem rekin eru samkvæmt ákvæðum laga um vernd barna og ungmenna þar sem fram fer sérhæfð meðferð, enda sé talið að það sé þeim fyrir bestu. Í skýrslu nefndar um unga afbrotamenn er að finna upplýsingar um fjölda dóma og viðurlagaákvarðanna á hendur börnum yngri en 18 ára sem bárust fangelsismálastofnun á árunum 1996 til 1998. Samkvæmt þeim voru 2 einstaklingar dæmdir í óskilorðsbundið fangelsi árið 1996, 3 árið 1997 og 9 árið 1998, eða samtals 14 ungmenni á þremur árum.

    Í samkomulagi Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu kemur m.a. fram að við meðferð fanga og þjónustu við þá, gildi að mestu almennar reglur um vistun barna á meðferðarheimilum samkvæmt barnaverndarlögum og að ágreiningur sem upp kunni að koma um inntak meðferðar eða aðra slíka þætti meðan vistun varir, svo sem um samskipti við nákomna, réttindi og agaviðurlög fari samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna. Þá segir í samkomulaginu að áður en fangi er fluttur á meðferðarheimili til afplánunar skuli að jafnaði liggja fyrir skriflegur samningur við hann og forsjáraðila hans um vistun í meðferð í að minnsta kosti 6 mánuði, óháð lengd refsitímans, eða úrskurður barnaverndarnefndar. Ef ungmenni hefur hlotið óskilorðsbundinn dóm í skemmri tíma en 6 mánuði kann að vera að það telji vænlegra að afplána í fangelsi en vistast á meðferðarheimili í 6 mánuði. Reynir þá á foreldra ungmennisins, sem enn er ósjálfráða, og á barnaverndarnefnd að taka þá ákvörðun sem samrýmist hagsmunum barnsins best. Ungmenni sem verður 18 ára á refsitímanum fær að ljúka afplánun á meðferðarheimilinu. Með þessu samkomulagi er að mínu mati stigið stórt skref í rétta átt við fullnustu refsinga ungra afbrotamanna.

    Þegar börnum og ungmennum er refsað með það að markmiði að leiða þau inn á réttar brautir, bæta gildismat þeirra, kenna þeim að bera virðingu fyrir öðrum og að virða reglur þjóðfélagsins er þess vænst að þau geti orðið sér og öðrum til gagns á lífsleiðinni. Ef unglingar á glapstigum njóta ekki viðeigandi leiðsagnar áður en sjálfræðisaldri er náð, er hætt við að þeir sem ekki sjá af sjálfsdáðum villur síns vegar, fái ekki tækifæri til að læra af mistökum sínum og fari á mis við þann stuðning sem þeir þurfa til að ná þeim þroska sem þeim er nauðsynlegur til að verða löghlýðnir borgarar og nýtir þjóðfélagsþegnar.

    Við verðum jafnframt að gera okkur grein fyrir samspili fíkniefnaneyslu og afbrotum ungmenna, sem ég tel að sé síst vanmetið. Aðgerðir til þess að sporna við neyslu fíkniefna eru því fallnar til þess að hamla gegn því að ungmenni leiðist inn á braut afbrota. Baráttan gegn fíkniefnaváinni er áherslumál í dómsmálaráðuneytinu, en ég nauðsynlegt að takast á við þennan vanda með margþættum aðgerðum. Það er gert með eflingu löggæslunnar og samvinnu við erlend ríki, með löggjafarbreytingum, markvissu forvarnarstarfi og síðast en ekki síst með samvinnu yfirvalda, félagasamtaka og hins almenna borgara.

    Brotamenn á aldrinum 15 til 18 ára, sakhæfir en enn ósjálfráða, eru í senn skjólstæðingar refsivörsluyfirvalda, dómstóla, barnaverndaryfirvalda og foreldra sinna Ef rétt er á málum haldið er það von mín og trú að með samvinnu þessara aðila verði náð þeim uppbyggingar og meðferðarmarkmiðum sem að er stefnt og að jafnframt verði vörður staðinn um réttindi þeirra barna og ungmenna sem í hlut eiga.

    Margt hefur áunnist í málefnum ungra afbrotamanna á síðustu árum og ýmislegt er í deiglunni. Þessi málefni verðskulda athygli og vinnu, og er þetta málþing því lofsvert framtak, og verður vonandi til þess að efla starfið enn frekar og skerpa sýn okkar á þessi viðkvæmu viðfangsefni.

    Var efnið hjálplegt?
    Takk fyrir

    Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

    Af hverju ekki?

    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum