Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. júní 2000 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ræða dómsmálaráðherra vegna opnunar á nýrri lögreglustöð á Hólmavík

Opnun nýrrar lögreglustöðvar á Hólmavík 22. júní 2000


Sýslumaður, sveitarstjórar, þingmenn kjördæmisins og aðrir góðir gestir

Mér er það sönn ánægja að fá að vera með ykkur hér í dag þegar við fögnum mikilvægum degi í sögu embættis sýslumannsins á Hólmavík við opnun nýrrar lögreglustöðvar í bænum. Er þetta mikilvægt skref í þá átt að bæta svo um munar aðbúnað lögreglunnar á Hólmavík og efla löggæsluna í héraðinu. Eins er dagurinn merkilegur fyrir sveitarfélög hér á svæðinu, Hólmavíkur-, Kirkjubóls- og Broddaneshrepp, sem fá hér nýtt húsnæði fyrir starfsemi slökkviliðs, en slíka aðstöðu hefur skort sárlega. Eiga þessi sveitarfélög þakkir skildar fyrir framtak sitt og samvinnu um þetta mikilvæga verkefni. Eins og við sjáum fagna veðurguðirnir hér með okkur í dag og undirstrikar það náttúrufegurð umhverfisins. Hér í þessu sögufræga umhverf hef alla tíð búið dugmikið fólk eins og við sjáuum dæmi hér um alls staðar í kringum okkur.

Lögreglan á Hólmavík fær nú í fyrsta skipti mjög góða aðstöðu til þess að sinna störfum sínum en fram til þessa hefur aðstaða hennar verið, eins og ykkur er kunnugt, í kjallara embættisbústaðarins á staðnum. Var flatarmál þeirrar lögreglustöðvar aðeins um 25 fm og lofthæð um 2 metrar. Þar var engin fangaklefi, snyrtiaðstaða léleg, nær ekkert rými fyrir áhöld og tæki lögreglunnar og engin bílageymsla, svo ekki sé minnst á óhagræði og jafnvel hættu af því að hafa lögreglustöð staðsetta í kjallara íbúðarhúss, þar sem innangengt var á milli.

Það hafði líka verið ljóst allt frá árinu 1981 þegar gamla húsnæðið var tekið í notkun sem lögreglustöð, að þessa aðstöðu mátti í besta falli nýta til bráðabirgða um stuttan tíma. Hún var hins vegar með öllu ófullnægjandi sem framtíðarhúsnæði.

Það er skoðun mín að undanfarin ár hafi margvísleg og jákvæð uppbygging átt sér stað hjá sýslumannsembættinu og í lögregluliði Hólmavíkur. Á árinu 1998 voru innviðir sýsluskrifstofunnar endurbættir og færðir til nútímahorfs, en skömmu áður hafði íbúð sýslumanns í embættisbústaðnum verið lagfærð verulega. Á síðasta ári náðist sá merki áfangi að tvöfalda fjölda lögreglumanna við embættið, en þá var annarri fullri stöðu lögreglumanns bætt við þá einu stöðu lögreglumanns sem hér var fyrir.

Eins og gefur að skilja eru því gerbreyttir möguleikar lögreglunnar að halda uppi löggæslu í umdæminu. Ekki er síst mikilvægt það aukna starfsöryggi sem felst í því fyrir lögreglumennina sjálfa að starfa tveir saman við embættið. Auk þess verður öll löggæsla markvissari og samfelldari með þessu móti. Tími og fyrirhöfn sparast nú með því að ekki þarf lengur að færa fanga til nærliggjandi sýslumannsembætta á Ísafirði eða Blönduósi, þar sem nýja lögreglustöðin er búin tveimur fangaklefum.

Reyndar er erfitt að tala um "nærliggjandi" sýslumannsembætti þar sem Hólmavík nýtur þeirrar sérstöðu að vera í nokkurri fjarlægð frá næsta embætti til beggja átta, Um 224 km eru til Ísafjarðar, um 200 km til Blönduós, en styst er til Búðardals, eða um 140 km um Laxárdalsheiði þegar hún er fær. Þrátt fyrir lítið lið hefur tekist að byggja upp ágæta löggæslu í umdæminu. Er það mikið verkefni í ljósi þess að umdæmið er afar víðfeðmt og oft yfir erfiða vegi að fara. Hefur árangur embættisins aukist verulega á milli áranna 1998 og 1999 sem sést m.a. af tæplega 40% fjölgun skráðra mála og tæplega 63% fjölgun sekta. Lögreglan hefur sinnt almennum forvörnum og m.a. haldið fyrirlestra fyrir nemendur grunnskólans. Þetta tel ég mjög mikilvægt. Hér er mjög vel þjálfaður fíkniefnaleitarhundur sem hefur sannað gildi sitt. Hann hefur gengið meira að segja undir próf og kom þar vel út. Ég vil sérstaklega nefna það að hér er fylgst sérstaklega með öllum pósti á Ísafjörð og leitað í póstbifreiðum. Þá má nefna það að gott samstarf hefur verið við sýslumanninn og lögregluna á Blönduósi sem ég hef nýverið heimsótt, en þar er einmitt lögð áhersla á grenndarlöggæslu og forvarnir eins og hér í þessu umdæmi. Þá hefur verið mjög góð samvinna við embætti ríkislögreglustjóra.

Ég efast ekki um að hin nýja lögreglustöð virkar hvetjandi á störf lögreglunnar hér til þess að leggja enn frekari metnað í störf sín. Síðast en ekki síst er þessi nýja bygging, þar sem lögregla og slökkvilið sameinast um aðstöðu, mjög mikilvægt öryggisatriði fyrir íbúa á Hólmavík og nágrenni og styttir mjög viðbragðstíma og samhæfingu þessara aðila þegar slys ber að höndum.

Mig langar að óska sýslumanni og sveitarfélögunum sem standa að byggingunni, ásamt íbúum öllum hér, hjartanlega til hamingju með þennan áfanga. Megi gæfa fylgja þeim sem vinna þau vandasömu störf sem hér eru unnin í þágu íbúa í umdæminu.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum