Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. júlí 2000 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp dómsmálaráðherra við afhjúpun mannvirkis við Suðurlandsveg í Svínahrauni

Ávarp dómsmálaráðherra við afhjúpun mannvirkis við Suðurlandsveg í Svínahrauni 26.7.2000


Biskup Íslands
Aðrir gestir

Ég vil byrja á því að þakka Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Umferðarráði fyrir þetta framtak. Það mannvirki sem hér hefur verið sett upp minnir á lífsháskann í umferðinni og að skilin milli lífs og dauða geta verið stutt. Tilgangurinn er ekki að hræða einn eða neinn, heldur undirstrika blákaldan veruleika.

Í síðustu viku boðaði ég átak undir yfirskriftinni "Bætt umferðarmenning – burt með mannfórnir", og kallaði eftir stuðningi og samstarfi sem flestra í þjóðfélaginu. Við þurfum samstillt þjóðarátak til þess að stuðla að bættri umferð og framtak af þessum toga er liður í því.

Umferðarátakið snýst um hvort tveggja aukið eftirlit og aukna fræðslu. Lögreglan hefur skipulagt hert eftirlit og fylgir því markvisst eftir, og fjölmiðlaumfjöllun, sem beinist sérstaklega að ungum ökumönnum, hefur þegar farið af stað.

Flest dauðaslys í umferðinni verða af völdum hraðaksturs, ölvunarakstur eða vegna þess að bílbeltin hafa ekki verið spennt. Allt eru þetta þættir sem við ökumenn getum stjórnað sjálfir – þess vegna getum við snúið þróuninni til betri vegar. Við getum sannarlega bætt umferðarmenninguna og bægt mannfórnum frá.

Ég hef nýjar tölur um umferðarbrotamál fyrstu sex mánuði ársins fyrir allt landið. Tilvik um meinta ölvun við akstur voru 1.201 sem er 40% aukning frá síðasta ári. Kærur vegna hraðakstur voru 8.651 sem 10% aukning frá síðasta ári. Mál þar sem bílbelti voru ekki notuð voru 900 sem er 100% aukning frá síðasta ári. Þetta eru alvarleg tíðindi um aukningu umferðarlagabrota.

Ökumenn bera mikla ábyrgð. Þeir hafa ekki aðeins eigið líf í höndunum, heldur einnig farþeganna og annarra vegfarenda. Það mannvirki sem hér stendur er í senn áminning til ökumanna um þessa ábyrgð og hvatning til að rísa undir henni.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum