Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. júlí 2000 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ræða dómsmálaráðherra við kynningu niðurstaðna ESPAD-könnunar 2000 - BSÍ 28.9.2000.

Ræða dómsmálaráðherra við kynningu niðurstaðna ESPAD-könnunar 2000. BSÍ 28.9.2000.



Heilbrigðisráðherra
Góðir gestir

Ég vil byrja á því að þakka Áfengis- og vímuvarnarráði fyrir að boða til þessa fundar. Sú könnun sem hér er kynnt er mikilvægt framlag í rannsóknum á umfangi og eðli vímuefnavandans. Hún gefur tilefni til þess að meta stöðuna og störfin sem þegar hafa verið unnin, og horfa fram á við.

Þessi vettvangur fundarins, Umferðarmiðstöðin, minnir okkur á þá miklu ferðahelgi sem framundan er. Því miður hefur borið mikið á vímuefnaneyslu ungmenna þá helgi.

Þegar við kynntum rannsókn um stöðu vímuefnaneyslu í íslenskum grunnskólum fyrir ári síðan lýsti ég yfir ánægju minni með að sjá í fyrsta sinn í langan tíma lægri tölur, sem bentu til að dregið hefði úr neyslu vímuefna meðal unglinga. Á niðurstöðum þeim sem kynntar eru hér í dag sjáum við að enn dregur úr neyslunni þannig að nú getum við í alvöru farið að tala um að þróunin hafi snúist við.

Einna markverðast er að dregið hefur verulega úr hassneyslu þessa aldurshóps, úr 17% árið 1998 í 12% árið 2000. Það er athyglisvert í þessu sambandi að það er ekki aðeins neyslan í tíunda bekk sem minnkar. Hún minnkar líka í áttunda og níunda bekk. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem það hefur komið fram í fyrri rannsóknum að neyslan fylgir árgöngum. Með því að draga úr neyslu í yngri árgöngum vonum við að neyslan verði minni þegar fram í sækir.

Einnig er gleðilegt að sjá að verulega hefur dregið úr bæði reykingum, (þeir sem reykja daglega fækkar úr 24% 1998 í 16% árið 2000), og áfengisdrykkju meðal unglinga (þeir sem höfðu orðið drukknir síðustu 30 daga fyrir könnina voru 43% 1998, en 32% árið 2000).

Í ljósi þessara niðurstaðna minni ég á að margir aðilar hafa lagst á eitt í forvarnarstarfi, sem beint er að börnum og unglingum innan 16 ára aldurs. Má þar nefna gott starf áætlunarinnar um Ísland án eiturlyfja og framlagi þeirra fjölmörgu aðila sem koma að því verkefni. Bæði opinberir aðilar og einkaaðilar koma að forvörnum, og unga fólkið sjálft sýnir mikið frumkvæði, svo sem með jafningjafræðslunni og hinum nýstofnuðu Evrópusamstökum ungsfólks gegn eiturlyfjum, PATH, sem íslensk ungmenni eiga ríkan þátt í og ríkisstjórnin hefur stutt heilshugar.

Fyrir ári síðan lofaði ég því að skoða nánar þá þætti sem snéru að framboði vímuefna. Það hef ég gert, en á undanförnum mánuðum hafa aðgerðir lögreglu hvað varðar sölu og dreifingu vímuefna verið stórefldar. Það starf hefur, eins og allir vita borið árangur, jafnvel svo mikinn að ýmsir aðilar eru nú farnir að kvarta yfir því að of hart sé gengið að þeim sem stunda innflutning og sölu á ólöglegum vímuefnum. Á meðan ég sit sem dómsmálaráðherra, mun ég sjá til þess að þeirri stefnu sem mótuð hefur verið, verði fram fylgt.

Árið 1999 var meira haldlagt af fíkniefnum en nokkru sinni fyrr, 767 fíkniefnamál komu upp og 890 einstaklingar voru handteknir. Þessum afrekum í löggæslunni hefur verið gerð góð skil í fjölmiðlum. En þessum árangri má þakka meiri áherslu á þennan málaflokk, markvissari skipulagningu löggæslunnar, fjölgun lögreglumanna sem einbeita sér að fíknaefnalöggæslunni, auknum fjárveitingum og nánu samstarfi lögreglunnar og tollgæslunnar. Við höfum skerpt okkur í baráttunni við fíkniefninni og árangurinn er að líta dagsins ljós.

Þessar aðgerðir beinast vitaskuld fyrst og fremst gegn framboði fíkniefna. En þær hafa einnig varnaðaráhrif, jafnvel forvarnargildi. Aðgerðir lögreglu minna stöðugt á alvöru þessa að neyta eða höndla með fíkniefni, og sýnir hvers konar ógöngum þeir lenda í sem temja sér slíkan lífstíl.

Það liggur fyrir að mikið er af fíkniefnum í umferð og hrollvekjandi mál koma hvað eftir annað upp, bara í þessari viku fengum við af því fregnir að einstaklingur hefði gert tilraun til þess að smygla mörg þúsund e-töflum til landsins. En ég vona að rétt sé að draga þá ályktun af þeirri könnun sem hér er kynnt að vímuefnin ná síður til unga fólksins – bæði vegna þess að slegið hafi verið á framboðið og eftirspurnin minnkað.

Ríkisstjórnin hefur ekki aðeins lagt áherslu á aukna löggæslu heldur hefur lögreglan í vaxandi mæli tekið þátt í forvarnarstarfi á undanförnum árum. Það er reyndar þróun sem er að eiga sér stað víða í Evrópu og mun án efa gera það áfram, en ég sótti í vor fund dómsmálaráðherra ESB í Portúgal þar sem forvarnir gegn afbrotum voru til umræðu. Þar var forvarnahlutverk lögreglunnar mjög til umræðu.

Sem dæmi um verkefni af þessum toga má nefna að lögreglan í Reykjavík er samstarfsaðili að fræðsluverkefninu "Hættu áður en þú byrjar" ásamt Félagsþjónustunni í Reykjavík og Marita – forvarna- og hjálparstarfi. Verkefnið er vímuvarnaverkefni sem ætlað er 9. og 10. bekk grunnskólans. Farið var af stað með verkefnið haustið 1998 og hefur verið farið með fræðsluna í 9. og 10. bekki í grunnskólum Reykjavíkur, einnig hefur verið var farið í fjölmarga grunnskóla á landsbyggðinni. Á fundum með nemendum er lögð áhersla á að þeir taki meðvitaða afstöðu gegn neyslu vímuefna. Hugmyndafræðin snýst um mikilvægi þess að undirbúa unglingana undir þá stund þegar og ef þeim verður boðið að neyta fíkniefna, að þá hafi þau þegar tekið meðvitaða og upplýsta afstöðu á móti fíkniefnum, "hætti áður en þau byrja". Seinni hluti fræðslunnar fer svo fram á kvöldfundi með kennurum og foreldrum unglinganna. Á síðasta ári tóku tæplega 5000 nemendur þátt í þessu fræðsluverkefni og það er að miklum hluta sá hópur sem könnunin sem hér er til umræðu tekur til.

Lögregluembætti á landsbyggði hafa mörg hver sýnt mikið frumkvæði. Sem dæmi má nefna lögregluna á Blöndósi, sem heimsækir skólana reglulega, heldur forvarnarfundi með unglingum og börnum, og hefur gefið út fræðslubækling.

Reynslan sýnir að þar sem lögreglan hefur lagt rækt við forvarnarstarf, tekið þátt í fræðslu í skólunum, verið í sambandi við Félagsþjónustuna, stofnanir og fyrirtæki á svæðinu og kynnt sér aðstæður og vandamál sem upp hafa komið innan svæðisins lætur árangurinn ekki á sér standa – sem lýsir sér meðal annars í ánægju borgaranna.

Ég legg því í mínum störfum mikla áherslu á eflingu grenndarlöggæslu, sem er byggð á sýn um samstarf og samstillt átak í samfélaginu. Efla þarf enn samvinnu lögreglu, foreldra, skóla og félagasamtaka um forvarnir og málefni ungs fólks. Þettu eru allt mikilvægir þættir sem móta hið félagslega umhverfi ungmenna og geta brynjað þau gegn óæskilegum áhrifum og ógnum.

Ég hef í starfi mínu lagt áherslu á að byggja stefnumótun á niðurstöðum rannsókna og tel ómetanlegt að fá þessar traustu upplýsingar sem hér eru kynntar til að vísa veginn í áframhaldandi starfi. Ég vil þakka Rannsóknum og greiningu sérstaklega fyrir vel unnin störf.

Við höfum ástæðu til þess að vera bjartsýn þegar við sjáum baráttuna þoka málum í rétta átt. En þetta er aðeins eitt skref í langri vegferð sem okkur ber að halda óhikað áfram. Heill og hamingja einstaklinga, fjölskyldna og þjóðar eru í húfi.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum