Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. janúar 2001 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Löggæsla á nýrri öld - hvað er til úrbóta? Ræða flutt á ráðstefnu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu

Löggæsla á nýrri öld – hvað er til úrbóta?


Ræða flutt á ráðstefnu Samtaka sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu, 19 jan. 2001.


Ráðstefnustjóri,
Borgarstjóri,
Góðir gestir.

Mér er það sérstök ánægja að vera hér með ykkur í dag og ræða löggæslumál á höfuðborgarsvæðinu og framtíðarsýn í þessum málaflokki. Mig langar að reifa í nokkrum orðum helstu stefnumál mín á sviði löggæslunnar og hvernig ég sé þróun þeirra fyrir mér á nýrri öld. Frá því að ég tók við embætti dómsmálaráðherra vorið 1999 hef ég varið stærstum hluta starfa minna í málefni sem tengjast löggæslunni. Þetta er mál sem kemur okkur öllum við. Eitt mikilvægasta einkenni þess að löggæslumál séu í góðu horfi, er að ákveðin öryggistilfinning sé merkjanleg hjá almenningi.

Ég hef þá trú að hinn almenni borgari í Reykjavík og í nágrannasveitarfélögunun telji öryggi sínu vel borgið, þótt því miður fréttum við stundum af alvarlegum glæpum sem eiga sér stað í þjóðfélaginu. Skoðanakannanir sem gerðar hafa verið um afstöðu almennings til lögreglunnar styðja þetta. Síðast þegar Gallup á Íslandi kannaði traust borgaranna til lögreglunnar kom í ljós að um x landsmanna bera mikið traust til lögreglunnar, og hafði traustið aukist frá því síðasta könnun hafði verið gerð.

Um leiðir til þess að efla öryggiskennd borgaranna í gegnum markvissa löggæslu væri hægt að fjalla í löngu máli. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það að forvarnir eru gríðarlega mikilvægar til að ná þessu marki og eins og við vitum öll, þá byrja þær heima og bera foreldrar því mikla ábyrgð að þessu leytinu. Annað lykilatriði í þessu samhengi er að lögreglan verði sýnilegri hinum almenna borgara. Með því að leggja aukna áherslu á grenndarlöggæslu, aukna þátttöku lögreglunnar í forvarnarstarfi ekki síst í hverfum borgarinar þar sem unglingar eru margir, aukið samstarf við almenning, íbúasamtök og fleiri aðila getum við náð góðum árangri.

Ef litið er til reynslu erlendis frá er ljóst að unnt er að ná árangri á fjölmörgum sviðum með þessu móti og fækka afbrotum. Ég vil líka leggja áherslu á að lögreglan hefur ákveðnu þjónustuhlutverki að gegna, henni ber að aðstoða borgarana og greiða úr ákveðnum vandamálum sem kunna að koma upp. Þetta hlutverk hennar er mikilvægt til þess að almenningur beri traust til lögreglunna og virðingu fyrir starfi hennar.

Ríkislögreglustjóri setti það markmið á síðari hluta ársins 1998 að fækka afbrotum um 20% og lagði fyrir alla lögreglustjóra að taka mið af þessu markmiði við skipulagningu og stjórnun löggæslunnar. Í því sambandi hefur sérstök áhersla verið lögð á innbrot, þjófnaði, ofbeldisbrot og eignaspjöll. Við höfum náð langt í áttina að þessu markmiði, einkum þegar tekið er mið af ástandinu í Reykjavík, þótt árið 1999 hafi reynst okkur erfitt vegna fjölgunar brota í sumum brotaflokkum.

Á árinu 2000 fækkaði t.d. verulega alvarlegum kynferðisbrotum og ofbeldisbrotum. Einnig fækkaði innbrotum í borginni umtalsvert, frá árinu áður, en þó verður að hafa í huga að þeim hafði fjölgað töluvert árið 1999. Ég vil líka taka sérstaklega fram að öryggismyndavélar í miðbæ Reykjavíkur, sem er samvinnuverkefni dómsmálaráðuneytis, lögreglunnar og borgaryfirvalda hafa gefið mjög góðan árangur í því að fækka brotum í miðbænum. Þær hafa aukið öryggi bæði borgaranna sjálfra og ekki síður starfsöryggi lögreglumannanna.

Annað af megin markmiðum mínum er að stefna markvisst að meira umferðaröryggi, bæði innan borgarmarkanna en ekki síður á helstu umferðaræðum sem liggja frá Reykjavík, Reykjanesbraut, Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Nú er í undirbúningi viðamikið samstarf ríkislögreglustjóra og Vegagerðarinnar um átak til þess að draga úr umferðarhraða á þessum meginakbrautum. Stefnt er að því að þessir aðilar, auk lögreglustjóra í umdæmum á SV-horninu geri árangursstjórnunarsamning þar sem árangur í því að draga úr hraðakstri verði mældur.

Á síðast ári urðu óvenju mörg banaslys í umferðinni, sem hlýtur að valda öllum Íslendingum áhyggjum. Þessar hörmungar eru vitaskuld skýr skilaboð til okkar allra að taka til hendinni í þessum efnum, bæði til stjórnvalda, og auðvitað ökumanna sem í reynd ráða mestu um hve öruggar götur og vegir landsins eru.

Umferðareftirlit felst að meginstefnu í frumkvæðisvinnu lögreglumanna. Málafjöldi lögreglu hverju sinni segir því ekki aðeins töluvert um hegðun ökumanna, heldur einnig og jafnvel enn frekar um virkni lögreglunnar. Á síðasta ári varð veruleg aukning skráðra mála hjá Lögreglunni í Reykjavík hvað varðar umferðarhraða, ölvunarakstur og réttindaleysisakstur. Um 27000 mál voru skráð hjá lögreglunni í Reykjavík í ár miðað við rúmlega 23000 í fyrra. Þetta er skýr vísbending um að lögreglan sé á réttri braut og áherslur hennar skili árangri.

Umferðareftirlit er auðvitað aðeins einn af þeim þáttum sem skapa umferðaröryggi, en þar hefur vegakerfið einnig áhrif, lög og reglur, ökutækin og síðast en ekki síst ökumenn sjálfir. Forvarnarstarf á nýrri öld verður að beinast að öllum þessum þáttum málsins.


Eitt af alvarlegustu og erfiðustu vandamálunum sem steðja að lögreglunni og reyndar þjóðfélaginu öllu er fíkniefnavandinn. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um mjög hertar aðgerðir gegn þessari vá eru hafa fjárveitingar til fíkniefnalöggæslu verið auknar verulega, sérstaklega með því að efla ávana og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík. Þetta hefur tvímælalaust leitt til verulegs árangurs á þessu sviði, það sést af fjölda mála af stærðargráðu sem áður voru óþekktar. Hvert stóra fíkniefnamálið rekur annað þar sem magn haldlagðra efna vex hröðum skrefum.

Á fjárlögum síðasta árs voru fjárveitingar til fíkniefnalöggæslu hækkaðar um 50 m.kr. Þar af runnu 20 milljónir til lögreglustjórans í Reykjavík til ráðningar 5 lögreglumann sérstaklega til að sinna fíkniefnalöggæslu, einkum götueftirliti og forvarnarstarfi. Þá runnu 12 milljónir til ráðningar sérstakra fíkniefnalögreglumanna í Kópavogi, á Selfossi og í Keflavík auk þess sem 12 milljónum var veitt til tækjakaupa og fjölgun fíkniefnahunda. Á þessu ári eru fjárveitngar aftur hækkaðar um 50 milljónir til þess m.a. að fjölga í fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík um 5 manns og 1 fikniefnalögregumaður bætist við í Hafnarfiði. Við erum að tala um gríðarlegar fjárhæðir og að mínu mati hafa alger straumhvörf orðið í fíkniefnalöggæslunni. Hefur lögreglan sett sér ákveðin stefnumið til þess að vinnar eftir á þessu sviði þar sem sérstök áhersla er lögð á eftirfarandi atriði:
· Sérstök áhersla er lögð á að uppræta e-töfluvandann en þetta fíkniefni er litið mjög alvarlegum augum af lögreglu og dómstólum.
· Áhersla er lögð á að auka alþjóðleg samskipti og þekkingu á hinum alþjóðlega fíkniefnamarkaði til þess að betur takist að rjúfa innflutningsleiðir til landsins.
· Sérstök áhersla er lögð á öflugar aðgerðir gegn sölu og neyslu fíkniefna á útihátíðum.
· Stefnt er að því að efla enn frekar samstarf lögregluliða á Suð-Vesturhorninu sem gaf góðan árangur á síðsta ári, en lögreglan í Reykjavík gegnir þar lykilhlutverki

Þegar við ræðum eru þróun löggæslunnar á nýrri öld, sérstaklega hvað varðar fíknefnamál blasir það við að alþjóðleg samvinna vegur stöðugt þyngra á því sviði. Þau stóru mál sem lögreglan hefur unnið að undanfarin ár, snúast oft að stórum hluta um samskipti við erlend lögregluyfirvöld. Það þýðir ekki uppræta aðeins smásölu á fíkniefnum, þótt nauðsynlegt sé að stemma stigu við henni til dæmis með virku götueftirliti lögreglunnar.

Aðeins tæpir tveir mánuðir eru nú þar til Schengen samkomulagið gengur í gildi gagnvart Íslandi og öðrum Norðurlöndum. Með því opnast möguleikar á nánari lögreglusamvinnu við önnur Evrópuríki en við höfum áður kynnst. Einn mikilvægasti þáttur varðandi lögreglusamstarfið er uppsetning sameiginlegs miðlægs gagnabanka, Schengen upplýsingakerfisins – þar sem eftir ströngum reglum eru settar inn upplýsingar um t.d. eftirlýsta einstaklinga, einstaklingar sem neita á um innkomu á Schengen svæðið en einnig um stolna eða týnda mundi, svo sem vegbréf eða skotvopn. Öll lögreglulið á landinu munu hafa aðgang að þessum gagnabanka svo og útlendingaeftirlitið að hluta. Schengen upplýsingakerfið leiðir til mjög aukins upplýsingaflæðis og auðveldar allt samstarf á milli yfirvalda Schengen ríkjanna.

Til að tryggja að allar þær upplýsingar sem settar eru inn í gagnabanka Schengen séu réttar og í samræmi við reglur, starfar svokölluð SIRENE skrifstofa, (Supplementary Information Request on National Entry) í hverju aðildarríkjanna að Schengen. Hér á landi er það ríkislögreglustjóri sem rekur SIRENE skrifstofuna, en það er jafnframt hluti af alþjóðadeild embættisins sem er lykilaðili í öllum alþjóðlegum lögreglusamskiptum, t.d. bæði INTERPOL og EUROPOL í framtíðinni.

Veigamesta hlutverk SIRENE skrifstofunnar er að yfirfara og leggja mat á allar þær upplýsingar er leggjast eiga inn í upplýsingakerfið. Skrifstofa þessi er einnig einskonar miðpunktur lögregluembætta fyrir landið allt sem og gagnvart öðrum Schengen löndum, þegar dreifa skal upplýsingum í gegnum upplýsingakerfið Ef til að mynda franska lögreglan lýsir eftir peningafalsara í upplýsingakerfinu og sá finnst á Íslandi, þá munu SIRENE skrifstofur þessara tveggja landa sjá um dreifingu allra þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru á milli landanna og varða til að mynda handtökuna og væntanlegt framsal hins handtekna til Frakklands.

Fundarboðendur óskuðu eftir því að ég setti fram skoðun mína á því hvort færa eigi lögregluna að einhverju leyti yfir til sveitarfélaganna. Ég hef ekki séð sannfærandi rök fyrir slíkum breytingum. Ég hef ekki trú á því að hún muni eflast við slíkar breytingar, hvorki að hún verði skipulegri né skilvirkari. Reyndar virðist almenningur einnig vera þessarar skoðunar, en samkvæmt skoðanakönnun sem Landssamband lögreglumanna lét gera fyrir sig telur meirihluti landsmanna löggæsluna betur komna í höndum ríkisvaldsins. Slíkar breytingar eru ekki heldur á stefnuskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga. Lögreglan er undir einni stjórn og það er ljóst ekki heppilegt að ætla að búta niður störf lögreglunnar, það yrði stjórnsýslulega mjög erfitt, verkaskipting óskýr og engin trygging fyrir bættri þjónustu. Hitt er annað mál að afar mikilvægt er að gott samstarf og náið sé milli lögregluyfirvalda og sveitarfélaganna, og tel ég rétt að huga að því hvernig það mætti auka. Frá því ég kom í þetta embætti hef ég lagt ríka áherslu á það að hafa samráð við íbúa þessa lands um löggæslumál, ég hef fundað með mörg bæjarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu. Ég og mitt fólk höfum sótt hverfafundi, ýmsar samráðnefndir eru starfandi og lögreglan hefur verið mjög virk í slíku samstarfi, sem er auðvitað nauðsynlegt.

Þegar litið er til fjölda lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu má e.t.v. segja að hann hafi ekki fylgt nægilega fjölgun íbúa, það á þó sérstaklega við um Kópavog og Hafnarfjörð, en Reykjavík stendur betur hvað þetta varðar.

Kópavogur: Lögreglan í Kópavogi er í nokkurri sérstöðu miðað við önnur lögregluumdæmi á höfuðborgarsvæðinu. Þar hefur íbúum fjölgað gífurlega mikið á undanförnum árum en lögreglumönnum ekki. Í liðinu eru nú 26 lögreglumenn en íbúafjöldi er um 23.500 manns. Þetta þýðir að um 900 íbúar eru um hvern lögreglumann sem er það hæsta á landinu. Í Reykjavík er sama tala 418 íbúar um hvern lögreglumann, sem þýðir að fjöldi lögreglummanna í Reykjavík samsvarar nokkurn veginn landsmeðtali, en í Hafnarfirði eru um 750 á hvern íbúa. Hafa verður í huga að Kópavogur nýtur góðs af nálægð við Reykjavík. Á síðasta ári var bætt við einni stöðu fíkniefnalögreglumanns í liðið í Kópavogi. Nauðsynlegt er að fjölga í liðinu.

Hafnarfjörður: Í liðinu í Hafnarfirði eru nú 38 lögreglumenn en tæplega 29.000 íbúar og sem áður segir þýðir að um 750 íbúar eru um hvern lögreglumann sem er frekar há tala miðað við landsmeðaltal. Íbúum í Hafnarfirði hefur fjölgað á síðustu árum án þess að lögregluliðið hafi stækkað sem því nemur. Á þessu ári er stefnt að því að bæta við stöðu fíkniefnalögreglumanns hjá embættinu. Rekstur lögreglunnar í Hafnarfirði hefur gengið vel og engin sérstök vandamál uppi, nema að lögreglumenn eru tiltölulega fáir m.v. íbúafjölda. Lögreglan í Hafnarfirði hefur engu að síður geta tekið virkan þátt í umferðareftirliti á Reykjanesbraut og m.a. gert sérstakan samstarfssamning við lögregluembættin í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli um virkt umferðareftirlit á Reykjanesbraut.


Þegar litið er til framtíðar löggæslumála á Íslandi verður það ekki gert án þess að gera mat á þeirri stöðu sem nú er uppi. Lögreglan á Íslandi telur nú 666 heimiluð stöðugildi sem þýðir að hér er 1 stöðugildi fyrir hverja 420 íbúa. Þetta er hlutfallslega stórt lögregulið í samanburði við nágrannaríki okkar, t.d. eru yfir 500 íbúar um hvern lögreglumann bæði í Noregi og Danmörku. Á síðustu fimm árum hefur lögreglumönnum á Íslandi fjölgað um cirka 10%.

Samkvæmt samanburði OECD frá 1999 verja aðeins svíar stærri hlutdeild af landsframleiðslunni en Íslendingar af Norðurlandaþjóðum til öryggis- og löggæslumála. Þrátt fyrir að samanburður af þessum toga sé ávallt ófullkominn gefur hann okkur vísbendingar um að hér á landi sé staðið vel að verki. Samkvæmt samþykktu fjárlagafrumvarpi fyrir 2001 eiga rúmlega 5,5 milljarðar að renna til löggæslumála. Í fyrra var framlagið ríflega 5 milljarðar, um 4,5 milljarðar 1999 og rétt rúmlega 4 milljarðar árið 1998. Þetta er veruleg aukning – jafnvel þótt mið sé tekið af verðlagshækkunum. (35% aukning mínus verðlagshækkanir) Þessar tölur sýna svart á hvítu að alls ekki hefur verið þrengt að starfsemi lögreglunnar á síðustu árum. Þvert á móti hafa fjárframlögin verið aukin jafnt og þétt.



Við verðum einnig að hafa í huga að Ísland er friðsælt land þar sem tíðni afbrota, sérstaklega hvað varðar hin alvarlegri, er óvenju lítil sé tekið mið af þeim ríkjum sem við helst viljum bera okkur saman við. Við leggjum því fram meira fjármagn, og höfum aukið það verulega á síðustu árum, og höfum stærra lögreglulið en margar þær þjóðir sem kljást við alvarlegri vandmál.

Staða löggæslumála hér á landi er því góð í upphafi nýrrar aldar. Það á hins vegar ekki að draga úr metnaði okkar til þess að gera enn betur. Menntun lögreglumanna er að mínu mati lykilatriði þegar til lengri tíma er litið. Unnið hefur verið að því að undanförnu að efla lögregluskólann og fjárframlög aukin, þannig að gert hefur verið kleift að fjölga þeim sem útskrifast úr skólanum árlegaog einnig hefur verið stuðlað að frekari menntun lögreglumanna erlendis. Hvorutveggja leggur grundvöllinn að framförum í löggæslu.

Það er einnig mikilvægt að aðbúnaður og aðstæður lögreglumanna séu góðar, enda sinna þeir afar krefjandi störfum. Á vegum dómsmálaráðuneytisins starfaði nefnd sem fjallaði um starfslokaaldur lögreglumanna, en hann er hærri hér en víðast annars staðar. Ég tel að framtíðarsýnin hljóti að vera sú að lögreglumönnum gefist færi á að láta af störfum fyrr en nú er, þótt ekki sé víst að forsendur sé fyrir því strax eða það geti gerst í einu vetfangi.

Skipulag lögregluliðanna og stærð þeirra verður að vera í takt við aðstæður hverju sinni. Taka verður mið af byggðaþróun og öðrum þeim hræringum sem komandi tímar leiða fram.

Alþjóðlegt samstarf lögreglunnar mun vega þungt á komandi árum og áratugum, enda legg ég, eins og áður sagði, ríka áherslu á uppbyggingu á þeim þætti í starfsemi lögreglunnar.

Tæknin gefur möguleika til framfara í löggæslu, ekki síst fjarskipta- og upplýsingatækni. Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og TETRA-kerfi hefur verið komið á fót og mun leiða til verulegs hagræðis í störfum lögreglunnar þegar fram líða stundir. Nýtt fjarskiptakerfi mun auka möguleika til skilvirkari skipulagningar starfsins og stjótvirkari viðbragða. DNA-greiningar hafa að mörgu leyti þegar bylt rannsókn afbrot á Íslandi. En held að við höfum þó aðeins fengið nasasjón af því sem koma skal. Nú er unnið að samningu lagafrumvarps í dómsmálaráðuneytinu um stofnun DNA-gagnabanka og hefur ráðuneytið m.a. fengið tilboð frá bandarísku alríkislögreglunni um hugbúnað fyrir slíkan og mun einn lögreglumaður fara erlendis til þess að kynna sér þessa tækni.

Að mörgu leyti tel ég að spennandi tímar séu framundan í löggæslumálum og hef ég trú á því að málaflokkurinn fái stærri sess í stjórnmálaumræðunni, en oft áður. Ég held að við Íslendingar höfum allar forsendur til þess að tryggja að lögreglan geti sinnt hlutverki sínu með sama myndarbrag og áður. Íslendingar bera traust til lögreglunnar, en öllu skiptir að svo verði áfram á nýrri öld.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum