Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. janúar 2001 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp dómsmálaráðherra við opnun á nýrri skrifstofu Persónuverndar

Ávarp Sólveigar Péturdóttur dóms- og kirkjumálaráðherra við opnun á nýrri skrifstofu Persónuverndar 26. jan. 2001


Góðir gestir

Þjóðfélagshættir taka nú örum breytingum og svo er með hlutverk hins opinbera. Það eru ekki liðnir margir áratugir síðan tækninýjungar opnuðu leið til þess að unnt væri að fylgjast með gjörðum einstaklinga í ríkum mæli á auðveldan og ódýran hátt. Með því t.d. að tengja saman ýmsar tölvutækar skrár á kennitölu einstaklinga sem stöðugt verða til í viðskiptum og þjónustu varð nú unnt að gera úttekt á lífsmynstri þeirra og nánast fylgjast með athöfnum þorra fólks á kerfisbundinn hátt. Það væri t.d. hægt að fylgjast með því hvaða bækur hver einstaklingur fær lánaðar á almennings- bókasöfnum, hvernig innkaupum hans á neysluvörum er háttað, hvernig heilsufari hans er háttað, í hvaða félagasamtökum hann er eða styður með fjárframlögum o.s.frv.

"Big brother is watching you", er setning úr frægri breskri skáldsögu, sem fjallaði um líf fólks undir alræðisstjórn, sem fylgdist með hverri hreyfingu þegnanna og nánast hverri hugsun þeirra. . Þar voru hinir óþekku, sem veltu fyrir sér "röngum" hugmyndum sendir í afplánun á Íslandi. Þetta var ömurleg veröld, sem mannkynið ætti að varast og er ég ekki þá að ræða um Íslandsdvöl hinna óþekku.

Bókin vakti á sínum tíma miklar umræður á Vesturlöndum og leiddi til aukinnar umhugsunar um persónuvernd og um það hvernig bregðast ætti við hinum nýju aðstæðum í upplýsingasöfnun og úrvinnslu upplýsinga um einstaklinga. Þetta varð svo síðar tilefni til lagasetningar og lagaframkvæmdar, sem verið hefur að þróast í það að verða sérstök svið í löggjöf réttarríkja.

Hér á landi var fyrsta lagasetningin á þessu sviði "lög um kerfisbundna skráningu á upplýsingum, er varða einkamálefni", en þau voru nr. 63 frá 5. júní 1981. Lögin tóku gildi 1. janúar 1982 og var með þeim komið á fót sérstakri "tölvunefnd. sem annaðist eftirlit með framkvæmd laganna, en hér var um mikið brautryðjendastarf að ræða.

Lögin féllu úr gildi skv. sólarlagsákvæði í árslok 1985, en þá tóku við gildi ný lög nr. 39 frá 15. júní 1985 með sama nafni er höfðu 4 ára gildistíma og féllu því úr gildi í árslok 1989.

Þriðju lögin tóku gildi í ársbyrjun 1990 og hétu þau lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121 frá 28. desember 1989. Í þeim lögum var ýmsu breytt frá fyrri löggjöf og höfðu þau ekki sólarlagsákvæði að geyma. Skv. lögunum hafði tölvunefnd áfram eftirlit með framkvæmd laganna og var hlutverk hennar nánar skilgreint og aukið.

Fjórðu lögin sem tóku gildi um síðastliðin áramót eru Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77 frá 23. maí árið 2000. Þessi lög hafa að geyma verulegar breytingar á löggjöf og lagaframkvæmd og nú er komið á fót sérstakri stofnun, "Persónuvernd", sem við kynnum hér í dag og fögnum þeirri starfsaðstöðu sem henni hefur verið búin hér að Rauðarárstíg 10 (Laugavegi 118).

Mikil verkefni hafa bætzt við á sviði persónuverndar á síðustu árum og má segja að fyrra fyrirkomulag hafi verið sprungið. Hér á ég sérstaklega við persónuvernd á sviði ýmis konar rannsókna í læknisfræði og á fleiri sviðum, þar sem einsleitni og ættfræðivitneskja þjóðarinnar hefur skapað grundvöll fyrir rannsóknum sem erfiðara væri að vinna í stærri samfélögum.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur séð um uppeldi Tölvunefndar frá upphafi og lagt henni til starfslið frá upphafi til fullorðinsára. Það hefur séð hana dafnast og bregðast við nýjum og auknum verkefnum og ég hlýt að gleðjast yfir því að skila henni fullorðinni í nýjum búningi til Persónuverndar. Það hefur ekki sleppt hendinni af henni, en samskiptin komast nú í nýtt form með nýrri starfsstöð.

Ráðuneytið hefur lagt á það áherslu að vel sé búið að hinni nýju stofnun Persónuvernd frá upphafi og ég vona að menn sannfærist um að það hafi vel tekist.

Ég vil við þessi tímamót leggja áherslu á sjálfstæði Persónuverndar í störfum. Ákvörðunum stjórnar stofnunarinnar verður ekki áfrýjað með stjórnsýslukæru til ráðuneytis heldur verður að leita til dómstóla til að fá þeim hnekkt. Þetta styrkir mjög stöðu stofnunarinnar í daglegu eftirliti og eftirrekstri, en það tryggir fagleg vinnubrögð hennar að jafnt í stjórn hennar sem starfslið hafa valist viðurkenndir sérfræðingar á þessu sviði.

Stjórn Persónuverndar skipa nú :

Páll Hreinsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sem jafnframt er skipaður formaður stjórnarinnar,
varamaður hans er skipuð Erla S. Árnadóttir,
Valtýr Sigurðsson, héraðsdómari, sem skipaður er varaformaður,
varamaður hans er Gunnar Thoroddsen lögfræðingur,
Haraldur Briem læknir, tilnefndur af Hæstarétti Íslands,
varamaður hans er Vilhelmína Haraldsdóttir
læknir, Anna Soffía Hauksdóttir prófessor,
varamaður hennar er Dagný Halldórsdóttir verkfræðingur,
Guðbjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri,
varamaður hennar er Óskar B. Hauksson verkfræðingur.


Forstjóri er Sigrún Jóhannesdóttur lögfræðingur og stýrir hún daglegri
starfsemi stofnunarinnar.

Ég vil óska stofnuninni, stjórn hennar og starfsliði öllu til heilla með þessa starfsaðstöðu um leið og ég þakka starfið og samvinnuna á liðnum árum.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum