Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. febrúar 2001 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp ráðherra við opnun Íslenska lögfræðivefsins í Iðnó 7. febrúar 2001.

Ávarp Sólveigar Pétursdóttur, dóms- og kirkjumálaráðherra, við opnun Íslenska lögfræðivefsins í Iðnó 7. febrúar 2001


Góðir gestir

Ein af mikilvægustu stoðum réttarríkisins er aðgangur almennings að upplýsingum um lög og rétt. Í aldanna rás hefur verið reynt að tryggja þennan aðgang með birtingu laga. Til forna var það gert með upplestri laga á þingum þar sem fjöldi manna koma saman, þannig voru þau sögð upp af lögsögumanni á Alþingi að Lögbergi og í héraði á leiðarþingum sem goðar héldu. Í þá daga þurftu menn að treysta á munnlega geymd réttarins öðru fremur. Þegar prenttæknin nær fótfestu verða lög smám saman tiltæk almenningi í rituðu máli og ákvæði um birtingu laga var síðan tekið inn í nýja stjórnarskrá árið 1874 og hefur síðan verið skilyrði fyrir gildistöku laga.

Það er til marks um nýja tíma að stjórnvöld leitast við að gera lög og rétt aðgengilegri með aðstoð nýrrar tækni. Á vef Alþingis má finna löggjöf og lögskýringargögn, Hæstiréttur birtir dóma sína á netinu jafnóðum og þeir falla, og ráðuneyti leitast við að birta allar reglur og upplýsingar sem varða starfsvið þeirra. Nú er í undirbúningi enn einn vefurinn, réttarheimild.is, þar sem verður að finna allar helstu réttarheimildir íslensks réttar: Löggjöf, reglugerðir, dóma, úrskurði stjórnvalda og alþjóðasamninga.

Þetta eru miklar framfarir og stuðla mjög að auknu réttaröryggi fyrir almenning. Í dag verður opnaður vefur sem einkafyrirtæki stendur að, þar sem almenningur getur fengið upplýsingar um lögfræðileg úrlausnarefni og leiðbeiningar sem geta orðið að liði. Þetta er gott framtak sem hefur allar forsendur til þess að bæta enn aðstöðu almennings til þess að þekkja rétt sinn, hvort sem það er í samskiptum við aðra einstaklinga eða stjórnvöld.

Það er engum blöðum um það að fletta að löggjöf okkar verður sífellt flóknari og umfangsmeiri, sem skýrist ekki síst af því að samfélag okkar er margbrotnara en áður var. Mér kæmi ekki á óvart að leikmenn sjái löggjöfina oft sem mikið völundarhús. Íslenski lögfræðivefurinn verður vonandi sem leiðarvísir um þetta völundarhús og kemur sem flestum til góða.

Ég vil að lokum óska aðstandendum vefsins til hamingju og óska þeim jafnframt alls hins besta í þeim verkum sem framundan eru.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum