Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. maí 2001 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp dómsmálaráðherra á ráðstefnu Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa um börn, áföll og missi

Ávarp dómsmálaráðherra á ráðstefnu Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa um börn, áföll og missi

Flutt á Grand Hótel 18. maí 2001.



Fundarstjóri,
Ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir að vera boðið hingað til að ávarpa þessa ráðstefnu um börn, áföll og missi. Hér er um að ræða afar gott framtak af hálfu fundarboðenda, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa. Fyrir liggur metnaðarfull dagskrá, þar sem aðalfyrirlesarinn er virtur bandarískur fræðimaður, dr. Phyllis Silverman.

Það viðfangsefni, sem í dag verður til umfjöllunar, er mikilvægt og þarft að ræða. Við verðum ávallt að hafa í huga, að börn hafa ekki sömu möguleika og við, hinir fullorðnu, til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Því er sérstaklega brýnt að skoða öll mál frá sjónarhóli barnsins. Í reynd var framfaraskref þegar embætti Umboðsmanns barna var komið á fót, sem hefur það sérstaka hlutverk að gæta hagsmuna barna í stjórnkerfinu og þjóðfélaginu almennt.

Ég hef mikinn áhuga á málefnum barna og hef lagt áherslu á þetta svið í störfum mínum sem ráðherra. Ég gengdi um hríð stöðu formanns barnaverndarnefndar í Reykjavík og hef búið að þeirri reynslu síðan.

Hér í dag verða þau áföll sem börn verða fyrir rædd frá ýmsum hliðum, enda er lífið margbreytilegt og svo ótal margt getur átt sér stað, sem raskar högum barns og setur líf þess í uppnám á viðkvæmu mótunarskeiði. Þá ríður á að tekið sé á málum af varfærni og fagmennsku, og barnið hljóti þann stuðning, sem það þarf á að halda.

Þetta viðfangsefni kemur að ýmsu leyti til kasta dómsmálaráðuneytisins. Meðal þeirra málaflokka, sem heyra undir ráðuneyti mitt, eru mannréttindamál, þar á meðal mál er varða grundvallarréttindi barna, hjúskap og skilnað, og mál sem falla undir gildissvið barnalaga og ættleiðingarmál.

Á undanförnum árum hefur orðið nokkur viðhorfsbreyting til þess hvernig skuli höndla mál þegar börn eiga í hlut. Oft var það svo áður að lítið var lagt upp úr afstöðu barnsins eða leitast við að upplýsa það um gang mála. Þróunin hefur gengið í þá átt að viðurkenna sjálfstæðan rétt barna til þess að fá upplýsingar um eigin mál og hafa áhrif á niðurstöðuna.. Þetta á ekki síst við um réttarkerfið. Þessa má til dæmis sjá merki í barnalögunum, sem gera ráð fyrir að börnum sé gefinn kostur á að tjá sig í ágreiningsmálum um forsjá og þeim megi skipa sérstakan talsmann við úrlausnina ef þörf er á.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem fullgiltur hefur verið af Íslands hálfu, er kveðið á um grundvallarréttindi barna. Aðildarríkjum samningsins er skylt að sjá til þess, að það sem barni er fyrir bestu, skuli ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld gera ráðstafanir, sem varða börn. Þessi grundvallarregla hafði verið höfð að leiðarljósi við lagasmíð og stjórnsýsluframkvæmd í ráðuneytinu löngu fyrir daga samnings Sameinuðu þjóðanna og hefur lengi átt fastan sess í norrænum barnarétti.

Það að hagsmunir barns skulu ætíð hafðir að leiðarljósi er að mínu mati sjálfsögð meginregla og tel ég nauðsynlegt að minnt sé á hana hvarvetna þar sem málefni barna eru til umfjöllunar. Hef ég því beitt mér fyrir lagasetningu, þar sem þessi sjálfsagða meginregla er beinlínis orðuð. Í nýjum lögum um ættleiðingar, sem tóku gildi á síðasta ári, er til dæmis skýrt tekið fram að eigi megi veita leyfi til ættleiðingar nema sýnt þyki að ættleiðing sé barninu fyrir bestu.

Það er ánægjulegt að greina frá því hér, að nýlega var samþykkt á Alþingi frumvarp, sem ég lagði fram til breytingar á barnalögum og gerir sýslumönnum skylt að bjóða aðilum umgengnis- og forsjármála sérfræðiráðgjöf til lausnar máli. Þessi breyting á barnalögum þoldi að mínu mati ekki bið, og því lagði ég frumvarpið fram þótt heildarendurskoðun barnalaga, sem nú fer fram vegum ráðuneytisins, sé ekki lokið. Í lögunum, sem taka gildi þann 1. júní næstkomandi, segir að tilgangur ráðgjafar sé að aðstoða aðila við að finna lausn máls með tilliti til þess, sem er barni fyrir bestu. Þessi nýja löggjöf snertir beint umfjöllunarefni þessarar ráðstefnu, og vil ég því gera því sérstök skil.

Lagafrumvarp þetta lagði ég fram eftir að hafa á síðasta ári mælt fyrir um að bjóða skyldi upp á slíka ráðgjöf til reynslu við sýslumannsembættið í Reykjavík. Í skýrslu um þetta tilraunaverkefni kemur fram, að á fyrstu sjö mánuðunum, sem boðið var upp á ráðgjöf til aðila, sem deildu um forsjá eða umgengni barna sinna, náðist samkomulag í yfir 90 prósent tilfella. Er það er töluvert betri árangur en þorað var að vonast eftir.

Skilnaður foreldra er oftast talsvert áfall fyrir börn og setur þau úr jafnvægi tilfinningalega. Börn óska þess jafnan að foreldrar þeirra búi áfram saman, jafnvel þó að samkomulagið á heimilinu hafi verið slæmt. Skilnaður foreldra hefur oftast í för með sér ýmsar róttækar breytingar á högum barnanna, sem reyna talsvert á tilfinningalíf þeirra.

Afar óæskilegur fylgifiskur skilnaðar fyrir börnin er missir daglegra samskipta við foreldrið, sem þau búa ekki hjá. Mjög misjafnt er hvernig til tekst með samskiptin eftir skilnað og íslensk rannsókn frá 1994 sýndi að í 14 prósent tilvika höfðu börn enga umgengni við foreldri án forsjár eftir skilnað og að í um 37 prósent tilvika var umgengnin síbreytileg.

Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að tíðir og miklir árekstrar milli foreldra hafa slæm áhrif á líðan og aðlögun barna þeirra. Verði börnin vitni að miklum árekstrum milli foreldra skapar það í sjálfu sér vanlíðan hjá þeim. Rannsóknir benda einnig til að skilnaðarbörn, sem búa við gott atlæti, eru betur aðlöguð er börn, sem búa við mikið ósætti hjá báðum foreldrum sínum. Ef börn hins vega búa áfram við deilur foreldranna, þrátt fyrir skilnaðinn, hefur það að sjálfsögðu slæm áhrif á þau. Langtímaáhrif skilnaða á börn eru mest undir því komin, hvort foreldrunum tekst að setja niður deilur sínar með því að skilja eða ekki. Því miður magnast deilurnar hins vegar stundum um tíma á meðan á skilnaðarferlinu stendur.

Gott samkomulag foreldra skiptir sköpum fyrir velferð barnanna. Gagnkvæmt traust og góð samvinna eftir skilnað leggur grunnin að uppbyggjandi samskiptum þeirra varðandi börnin. Raunveruleg samvinna foreldranna þjónar þannig hagsmunum barnanna best.

Það er ánægjulegt að greina frá því að í október á síðasta ári var gerð könnun á viðhorfi foreldra og barna þeirra, sem fengið höfðu sérfræðiráðgjöf í umgengnis- og forsjárdeilum á embætti sýslumannsins í Reykjavík á fyrstu sjö mánuðum ársins. Leiddi könnunin í ljós, að í um það bil 80% tilfella leið foreldrum vel eða sæmilega vel með framkvæmd samningsins. Það, sem er sérstakt gleðiefni, er að í 95% tilfella leið börnunum vel eða sæmilega vel með framkvæmd samningsins, sem komist hafði á. Þetta er að sjálfsögðu það sem stefnt er að, að börnunum líði vel með samskipti sín við báða foreldra sína þótt þeir búi ekki saman.

Hagsmunir barns, eða það sem barni er fyrir bestu, er hugtak, sem fræðimenn hafa ekki orðið á eitt sáttir um skilgreiningu á, en hugtakið er eins og áður segir engu að síður grundvallarregla barnaréttar. Almenn sátt virðist þó vera um það meðal fræðimanna, að það sé börnum fyrir bestu að tengsl foreldra þeirra einkennist af gagnkvæmum stuðningi annars við hitt og góðri samvinnu þeirra á milli, hvort heldur þau eru gift eða skilin.

Það er því von mín og trú að sú breyting, sem samþykkt hefur verið á barnalögum um ráðgjöf, sem hefur þann tilgang að finna lausn, sem barni er fyrir bestu, muni verða til þess að velferð fleiri barna verði tryggð eftir skilnað foreldra þeirra. Ég mun nú síðar í dag hitta alla sýslumenn landsins þar sem dómsmálaráðuneytið stendur fyrir fræðslufundi fyrir þá til að undirbúa þá sem best undir það hlutverk, sem þeim er falið með lagabreytingunni og mun fylgja því eftir, að sem best verði vandað til framkvæmdar þessa mikilvæga verkefnis.

Hvernig til tekst er auðvitað einnig háð því að foreldrar kjósi að þiggja þá sérfræðiráðgjöf sem þeim mun standa til boða, þeim að kostnaðarlausu. Þegar vel tekst til með sérfræðiráðgjöf í forsjár- og umgengnismálum er sannarlega unnt að draga úr neikvæðum áhrifum þess áfalls, sem skilnaður foreldra er iðulega fyrir barn.

Ég vil að lokum þakka gott hljóð og vona að ráðstefnan hér í dag dýpki skilning okkar á viðfangsefninu og styrki framfarir á þessu sviði. Þetta framtak Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa er til fyrirmyndar, en vönduð og uppbyggileg umræða er nauðsynleg fyrir allar stéttir sem fást við jafn viðkvæm og krefjandi verkefni.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum