Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. júní 2001 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp dómsmálaráðherra við opnun nýs vefjar Kvennaathvarfsins, 19. júní 2001.

Ávarp dómsmálaráðherra við opnun nýs vefjar Kvennaathvarfsins,
19. júní 2001


Góðir gestir,

Ég vil byrja á því að óska ykkur öllum til hamingju með daginn. Eins og við þekkjum hér er þessi dagur tileinkaður réttindabaráttu kvenna, þar sem þennan dag 1915 undirritaði Kristján X nýtt stjórnarskrárfrumvarp, sem fékk konum kosningarétt í fyrsta sinn hér á landi.

Það, sem ef til vill færri vita, er að Klemens Jónsson, landsritari, fékk nokkru ráðið um hvaða dagur var valinn til undirritunar. En sagan segir að hann hafi valið afmælisdag dóttur sinnar, Önnu, sem þá varð 25 ára þann 19. júní 1915.

Í dag er við hæfi að minnast þeirra áfanga, sem jafnréttisbaráttan skilaði konum á síðustu öld. Mörgum hrindrunum var hrundið úr vegi og grundvöllur skapaður fyrir þátttöku kvenna í opinberu lífi. En þótt lagalegu jafnrétti hafi víða verið náð, þekkja flestir að fullt jafnræði með kynjunum hefur ekki skapast í reynd, og er þar nokkuð í land á mörgum sviðum.

Á nýafstaðinni ráðstefnu í Vilníus voru jafnréttismál til umræðu. Ráðstefna þessi var sjálfstætt framhald af ráðstefnunni Konur og lýðræði við áraþúsundamót, sem ríkisstjórn Íslands stóð að og fór fram í Reykjavík haustið 1999. Í Vilníus var því meðal annars fjallað um þau fjölmörgu verkefni, sem ákveðið var að koma í framkvæmd á Reykjavíkurráðstefnunni, og mörg hver hafa vakið verðskuldaða athygli hér á landi. Var augljóst að uppkeran var ríkuleg.

Á ráðstefnunni í Vilníus var brugðið ljósi á það vandamál, sem verslun með konur í Evrópu er óumdeilanlega orðið. Fóru meðal annars fram pallborðsumræður, sem ég tók þátt í fyrir Íslands hönd, um stöðu þeirra mála og leiðir til að takast á við vandann. Hér á Íslandi höfum við óneitanlega orðið vör við þessa þróun, sem krefst þess, að við spyrnum við fótum. Viðbrögðin verða meðal annars að felast í aðstoð við þær konur, sem lenda ógöngum. Í máli mínu á ráðstefnunni lagði ég einnig áherslu á þörfina á samstarfi við frjáls félagasamtök, sem vinna við að aðstoða konur eins og Samtök um kvennaathvarf eru gott dæmi um. En einnig er afar mikilvægt að auka lögreglusamstarf milli ríkja, bæði milli þeirra ríkja, þar sem þessi starfsemi fer fram og heimkynna stúlkanna. Við sjáum til dæmis að Danir hafa þegar gripið aðgerða og hér á landi er mál í rannsókn hjá lögreglunni.

Ég tilkynnti á fundi hjá samtökum um kvennaathvarf í maí í fyrra að ég hygðist standa fyrir gerð rannsóknar á vændi á Íslandi. Sú rannsókn var kynnt í vetur og hafði að mínu mati verulegu áhrif á umræðuna um þessi mál hér landi. Einnig var unnin skýrsla um samanburð á lagaumhverfinu hér hvað varðar vændi, klám o.fl. og annars staðar á Norðurlöndunum. Í kjölfar þessa skipaði ég nefnd sérfræðinga til þess að gera tillögur til úrbóta með hliðsjón af skýrslunni og vænti ég tillagna nefndarinnar í haust.

Mikið af málaflokkunum, sem heyra undir dómsmálaráðherra, tengjast með sérstökum hætti konum og börnum. Sem dómsmálaráðherra hef ég til dæmis reynt að takast á við vandamál, sem tengjast ofbeldi, sem beinist sérstaklega að konum með ýmsum hætti. Það er staðreynd að þolendur ofbeldisbrota eru konur að stórum hluta, og reyndar eru þær þolendur í mun fleiri málum en þeim, sem koma upp á yfirborðið og fá meðferð innan réttarkerfisins. Aðgerðir til þess að vernda konur sérstaklega fyrir ofbeldi eru einn veigamesti liðurinn í átaki, sem gert hefur verið til þess að efla verulega vernd brotaþola. Ég tel að verulega margt hafi áunnist á því sviði.

Á undanförnum áratug hafa verið gerðar víðtækar breytingar á refsilögum, lögum um meðferð refsimála fyrir dómstólum til þess að auka refsivernd og bæta stöðu þolenda ofbeldisbrot, sem hefur komið konum sérstaklega til góða. Má þar sérstaklega nefna lög um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, sem tryggja þolendum ofbeldisbrota greiðslu bóta úr ríkissjóði. Einnig vil ég nefna víðtækar breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, sem tryggja brotaþola í ofbeldismálum, aðstoð réttargæslumanns í tengslum við rannsókn og rekstur sakamáls gegn meintum brotamanni. Seinni hluta árs 1997 skipaði dómsmálaráðherra þrjár nefndir, sem falið var að fjalla um heimilisofbeldi og gera tillögur um úrlausnir á því sviði. Tvær nefndanna fjölluðu sérstaklega um hvernig mætti gera úrbætur á þessu sviði, annars vegar á rannsóknarstigi hjá lögreglu og hins vegar innan dómskerfisins. Nefndirnar skiluðu tillögum sínum vorið 1998 og hefur markvisst verið unnið að því að fylgja þeim eftir.

Fyrir ári síðan varð að lögum frá Alþingi frumvarp um nálgunarbann, sem ég lagði fram. Þar var tvímælalaust um að ræða mjög mikilvæga réttarbót fyrir þolendur ofbeldisbrota, sérstaklega konur, og er þetta stórt skref í viðleitni til þess að sporna við heimilisofbeldi. Með því að beita nálgunarbanni má koma í veg fyrir heimilisofbeldi og bregðast við því í þeim tilvikum, sem því hefur verið beitt. Markmið nálgunarbanns er þannig að vernda fórnarlamb ofbeldisbrota og fyrirbyggja frekara ofbeldi.

Þegar heimilisofbeldi kemur upp á yfirborðið, er sérstaklega brýnt að gefa barninu sérstakan gaum. Þá ríður á að tekið sé á málum af varfærni og fagmennsku, og barnið hljóti þann stuðning, sem það þarf á að halda. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að taka fram í þessum hópi.

Ég hef lagt áherslu á að þessi nálgun sé viðhöfð í stjórnkerfinu og lagði því fram frumvarp, sem nýlega var samþykkt á Alþingi, sem gerir sýslumönnum skylt að bjóða aðilum umgengnis- og forsjármála sérfræðiráðgjöf til lausnar máli. Tilgangur ráðgjafarinnar er sá að aðstoða aðila við að finna lausn máls með tilliti til þess, sem er barni fyrir bestu og lagði ég fram frumvarpið eftir góða reynslu af tilraunaverkefni við sýslumannsembættið í Reykjavík.

--
Stofnun kvennaathvarfs var mikið framfaraspor á sínum tíma. Með því var tekið á vandamáli, sem lengi hafði legið í þagnargildi – jafnvel ekki viðurkennt að til staðar væri í samfélaginu. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og þögnin verið rofin. Þó er ljóst að enn er þörfin fyrir þessa starfsemi brýn.

Því er sérstaklega gleðilegt að Samtök um Kvennaathvarf opni nú heimasíðu til kynningar á starfsemi sinni. Það er mikilvægt að almenningur sé meðvitaður um þörfina á þeirri aðstoð, sem Kvennaathvarfið veitir, og að hún sé til staðar. Vefurinn mun þjóna sem upplýsingaveita um heimilisofbeldi. Meðal efnis eru upplýsingar um starfsemi Kvennaathvarfsins, spurningalistar til að meta ofbeldi, greinar um ofbeldi gegn konum og niðurstöður rannsókna. Heimasíðan er gott framtak og mun ekki síst koma þeim til góða, sem þurfa á þeirri aðstoð að halda, sem samtökin veita, með ráðgjöf og viðtölum og í neyðarathvarfinu.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka ykkur aðstandendum samtakanna, bæði stjórninni og starfsmönnum, fyrir gott og óeigingjarnt starf. Það myndi vanta mikið í íslenskt samfélag ef ykkar starf væri ekki fyrir hendir. – Ég þakka fyrir.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum