Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. október 2001 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp dóms-og kirkjumálaráðherra á Kirkjuþingi 2001

Ávarp
dóms-og kirkjumálaráðherra
á Kirkjuþingi 2001Biskup Íslands og frú,
Aðrir virðulegir biskupar,
Forseti Kirkjuþings,
Kirkjuþingsfulltrúar
og góðir gestir.


Það er mér sönn ánægja að vera meðal ykkar við upphaf Kirkjuþings og fá að ávarpa þingið.

Þau vatnaskil sem urðu á samskiptum og verkaskiptingu ríkis og kirkju með þjóðkirkjulögunum í upphafi árs 1998 og sá farvegur sem þau mál hafa verið í síðan, hafa að mínu mati reynst heilladrjúg fyrir þjóðkirkjuna. Þó að þjóðkirkjan hafi með auknu sjálfstæði fengið vald til að leysa sjálf fleiri mál en áður og aukið frumkvæðisvald, stendur hlutverk ríkisvaldsins áfram óbreytt í því að styðja þjóðkirkjuna og vernda hana. Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu er ætlað að hafa yfirumsjón með því að ríkisvaldið veiti þjóðkirkjunni þann stuðning sem því ber samkvæmt lögum og það hefur ennfremur umsjón með því að þjóðkirkjan og stofnanir hennar fari að lögum.

Þáttur kirkjuþings er orðinn enn veigameiri en áður var eftir þessa breytingu. Kirkjuþingið hefur jafnt og þétt verið að styrkjast í sessi og eflast og finna sína fjöl, ef svo má að orði komast. Síðla árs 1999 skiluðu tveir prófessorar í lagadeild Háskóla Íslands álitsgerð um valdsvið og verkefni kirkjuþings annars vegar og kirkjuráðs hins vegar. Meðal annars í ljósi þessarar álitsgerðar hefur smám saman hefur verið að mótast enn skýrari mynd af því hvaða hlutverki kirkjuþingi er ætlað að gegna, og hvert sé valdsvið þess og verkefni. Þjóðkirkjulögin hefðu í raun réttri átt að kveða skýrar á um það, en margvíslegar ástæður voru fyrir því, að sú varð ekki raunin. Ég vil nota tækifærið til þess að lýsa ánægju minni með störf kirkjuþings undir forystu forseta þess, Jóns Helgasonar.

Þjóðkirkjan hefur öll skilyrði til að sinna mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu. Hún stendur að sjálfsöðgu á bjargi trúar sinnar og orðs eilífs lífs. Hvað ytri umgjörð varðar þá býr þjóðkirkjan við traust kerfi og lagaumgjörð. Um leið og hún hefur á sér yfirbragð festu, skjóls og öryggis, sem er mikilsvert á viðsjárverðum og ótryggum tímum, hefur hún sveigjanleika og góða möguleika til að laga sig að síbreytilegum aðstæðum í þjóðfélaginu og reyndar í heiminum öllum. Hún hefur líka mikilvægan boðskap að flytja í þeim efnum.

Þrátt fyrir að kirkjuþing fjalli um og samþykki starfsreglur um margvísleg málefni kirkjunnar, sem áður fyrr voru í formi laga frá Alþingi, eru viss löggjafarmálefni ennþá hjá ríkisvaldinu. Mig langar að gera í stuttu máli grein fyrir slíkum málum og framgangi þeirra.

1. Lög um Kirkjubyggingasjóð.

Lán úr sjóðnum hafa ekki verið veitt undanfarin ár, enda fé ekki verið veitt til hans á fjárlögum, og því snýst rekstur hans fyrst og fremst um rekstur eigna, sem eru sjóður og útistandandi kröfur hjá sóknum er hafa fengið lán. Þá er ljóst að Jöfnunarsjóður sókna veitir sambærilega lánafyrirgreiðslu til sókna og kirkjubyggingasjóður á að gera. Eignum kirkjubyggingasjóðs er ætlað að styrkja ábyrgðardeild Jöfnunarsjóðs sókna sem nýlega hefur verið mynduð. Ábyrgðardeildin veitir ábyrgð á lánum til sókna samkvæmt ákveðnum reglum. Ég mun því leggja fram frumvarp á Alþingi um að kirkjubyggingasjóður verði lagður niður og að hann renni í Jöfnunarsjóð sókna. Með sameiningunni, ef samþykkt verður, er verið að einfalda stjórnsýslu og bæta þjónustu. Setja þarf reglugerð um ábyrgðardeild Jöfnunarsjóðs sókna í tengslum við lagasetninguna.

2. Lög um breyting á þjóðkirkjulögunum að því er varðar skipun sóknarpresta.

Á síðasta kirkjuþingi var óskað álits Kirkjuþings á frumvarpi til laga er fól í sér að dóms- og kirkjumálaráðherra hætti afskiptum af skipun sóknarpresta og að biskup Íslands skyldi skipa þá presta, sem og aðra presta. Kirkjuþing ályktaði að vísa þessu máli til prestastefnu. Þar komu fram skiptar skoðanir um málið, og varfærnislega ályktað að ekki væri tímabært að taka þetta skref. Eftir að hafa tekið málið til skoðunar að nýju, m.a. í ljósi álits prófessors í lagadeild Háskóla Íslands og umsagnar guðfræðildeildar Háskóla Íslands, hef ég sannfærst æ betur um að rétt sé að leggja fram frumvarp til laga að nýju, þar sem veitingarvaldið verði alfarið fært til biskups Íslands. Tilfærslan á skipan þessara presta veldur engum þáttaskilum og þaðan af síður nokkrum úrslitum um samband ríkis og kirkju. Ég hef hvorki séð fram komin nein sannfærandi lögfræðileg rök né önnur veigamikil og haldbær rök, svo sem guðfræðileg, sem mæla gegn því að þessi breyting verði gerð. Hér er eingöngu um formlega breytingu að ræða sem ekki hefur í för með sér hina minnstu breytingu á réttarstöðu þeirra sóknarpresta, sem ráðnir verða eftir að lög þar að lútandi taka gildi. Breyting af þessu tagi er jafnframt liður í þeirri stefnumörkun þjóðkirkjulaganna að veita þjóðkirkjunni meira sjálfstæði. En eins og við lagasetningu þjóðkirkjulaganna voru uppi raddir efasemdarmanna um hvort það væri þorandi. Þjóðkirkjan á að ganga með djörfung inn í nýtt árþúsund í þjónustu herra síns, Ég hef því ákveðið að leggja frumvarp hér að lútandi fyrir Kirkjuþing að nýju, þar sem verið er að færa eðlilegt hlutverk yfirstjórnar þjóðkirkjunnar til hennar sjálfrar.


3. Lög um breyting á lögum um kirkjugarða, o.fl.

Nefnd sem ég skipaði snemma á þessu ári hefur verið að endurskoða vissa þætti í lögum um kirkjugarða, greftrun líka og líkbrennslu. Nefndin er mjög langt komin í störfum sínum, þótt álitaefnin sem skilgreind voru í skipunarbréfi til hennar hafa að mati nefndarinnar reynst umfangsmeiri og flóknari en ráð var fyrir gert. Ég stefni að því að leggja fram frumvarp hér að lútandi fyrir Kirkjuþingið á næstu dögum til kynningar og umsagnar í samræmi við ákvæði 23. gr. þjóðkirkjulaganna. Mér rétt eðlilegt að skýra kirkjuþingi frá því, að meðal atriða sem nefndin er sammála um að leggja til breytingar á, er að heimilað verði að ösku látinna manna verði dreift yfir sjó eða vötn eða óbyggðir, en slíkt er heimilt víða á Vesturlöndum þótt svo hafi ekki verið hér á landi; að nýtt svonefnt kirkjugarðaráð taki við störfum skipulagsnefndar kirkjugarðanna og stjórnar Kirkjugarðasjóðs, og að aukins samræmis skuli gæta þegar sveitarfélög leggja til land undir kirkjugarða og efni í girðingar og að settar verði viðmiðunarreglur í þessum efnum.

Á árinu 1998 var samþykkt Jafnréttisáætlun fyrir þjóðkirkjuna. Hún tekur mið af gildandi jafnréttislögum. og stefnumörkun stofnana og stjórnvalda landsins og kirkjulegra alþjóðasamtaka sem þjóðkirkjan er aðili að, svo sem heimsráði kirkna og Lútherska heimssambandinu. Ég fagna því að margt hefur áunnist hjá þjóðkirkjunni í þessum efnum á undanförnum árum. En betur má ef duga skal. Þegar ég lít hér út í salinn sé ég mjög fáar konur í hópi 21 kirkjuþingsfulltrúa, reyndar aðeins eina konu. Ég hvet þjóðkirkjuna til að rétta hlut kvenna innan kirkjunnar og vinna ötullega að framgangi þeirra markmiða sem hún hefur sett sér á grundvelli þingsályktunar frá Alþingi 1993 um framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna, þ.á m. að bæði kynin skuli eiga einn fulltrúa af þremur eða tvo fulltrúa af fimm í nefndum og ráðum kirkjunnar.

Ég átti því láni að fagna nýverið að geta tekið á móti starfsbróður mínum, Johannes Lebech kirkjumálaráðherra frá Danmörku, og eiga við hann gagnlegar viðræður um kirkjuleg málefni. Afskipti ríkisvaldsins í Danmörku af kirkjumálum eru langtum meiri en hér á landi, eins og mörgum ykkar er kunnugt, og taldi Lebech að margt athyglisvert væri í skipulagi íslensku þjóðkirkjunnar, sem hann taldi að Danir gætu sótt sér fyrirmynd til.
Athyglisvert þótti mér að heyra hann lýsa forundirbúningi barna að fermingu í Danmörku, en þar eru börn 9-10 ára vanin við kirkjusókn og látin taka þátt í ýmiss konar kirkjustarfi fram að hinni venjulegu fermingu. Þjóðkirkjan ætti að gaumgæfa, hafi hún ekki þegar gert það, hvort heppilegt gæti verið að taka upp svipað fyrirkomulag hér á landi.
Það vakti sérstaka athygli mína í máli ráðherrans að í Danmörku fjölgar stöðugt trúfélögum vegna innstreymis af fólki frá öðrum heimshlutum og þar eru nú til að mynda 18 trúfélög Múslima. Við upplifum hér á þessum tímum svipaða reynslu, þótt í minni mæli sé, sökum fjölgunar fólks sem upprunnið er í öðrum samfélögum. Það reynir að sinna trúarþörf sinni með stofnun trúfélaga í anda þeirrar trúarbragða sem fólkið er alið upp við. Nýjasta dæmið er til dæmis trúfélag fólks sem alið er upp í rétttrúnaðarkirkjunni. Okkur ber að virða rétt manna til þess að ástunda sín trúarbrögð og sýna þessari þróun umburðarlyndi. Fjölmenningarsamfélög nútímans eru samfélög fjölbreyttra trúarbragða.

Þá þykir mér rétt að gera grein fyrir stöðunni á máli viðræðna sem staðið hafa yfir á milli viðræðurnefndar þjóðkirkjunnar annars vegar og viðræðunefndar ríkisins hins vegar um prestssetur og prestssetursjarðir. Nefndir beggja aðila hafa komið saman reglubundið og unnið vel saman og farið yfir þau gögn sem fyrir liggja um prestssetur. Mikil vinna var í því fólgin að fara yfir gögnin og ég er þakklát fyrir þá miklu vinnu sem fulltrúar viðræðunefndar þjóðkirkjunnar lögðu að mörkum í því sambandi. Heita má að tæknilegum þætti málsins sé lokið, og af ríkisins hálfu hafa verið tekin saman drög að væntanlegu samkomulagi milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um prestsetur og afhendingu þeirra til þjóðkirkjunnar. Einungis er eftir að ákveða hvaða fjárhæð skuli greidd til Kirkjumálasjóðs þjóðkirkjunnar og með hvaða hætti sú fjárhæð skuli greidd. Ég tel orðið skammt í að unnt verði að ljúka málinu, og vona að svo geti orðið sem fyrst, því mér er ljóst að það þoli ekki mikla bið að leyst verði úr fjárhagsvanda Prestssetrasjóðs.

Góðir þingfulltrúar,
Ég vil þakka biskupi Íslands, kirkjuþingi og kirkjunni allri fyrir góða samvinnu á liðnum árum,
Ég vil ljúka máli máli mínu með því að árna kirkjuþingi allra heilla og velfarnaðar við vandasöm störf og óska þess um leið að störf þess verði kirkju og söfnuðum landsins til blessunar um ókomna tíð.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira