Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. október 2001 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Haustfundur Landvara 19.10.2001

Ávarp ráðherra á haustfundi Landvara
19.10.01



Góðir áheyrendur

Ég vil fyrst fá þakka fyrir það tækifæri sem ég fæ hér til þess að ávarpa þennan fund og lýsa stöðu tveggja mála, sem verið hafa til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu að undanförnu

Ég ætla að koma beint að efninu. Í fyrsta lagi vil ég nefna vagnlestir. Beiðni um leyfi fyrir flutningabílum sem leyft verði að hafa viðeigandi tengivagn, þannig að heildarlengd vagnlestarinnar að meðtöldu tengibeisli sé 25,25 metrar hefur verið til skoðunar í ráðuneytinu. Því er ekki ekki að leyna að ráðuneytið hefur fengið neikvæðar umsagnir um slík leyfi og hafa menn talið að þau hafi í för með sér skert umferðaröryggi, einkum í sambandi við framúrakstur minni bíla. Einnig hefur komið fram að slíkar vagnlestir séu óvíða leyfðar og þar sem það er gert sé vegakerfið mun fullkomnara en hér er, m.a. oft á tíðum með sérstakar akreinar fyrir flutningabíla. Þetta hefur verið vegið og metið á móti þeim hagsmunum atvinnugreinarinnar að nýta betur starfslið og tæki með því að geta flutt meira í hverri ferð.

Ég hef nú ákveðið að breyta reglugerð um stærð og þyngd ökutækja á þann veg að leyfa megi slíkar vagnlestir til reynslu í tvö ár, en málið verði síðan tekið upp og framhaldið metið í ljósi reynslunnar. Leyfin verði bundin nokkrum skilyrðum um mestu lengd farrýmis eftirvagns, snúningsboga, hraðatakmarkara, ABS læsivörn, merkingar og takmarkanir á aksturstíma og akstursleiðum. Það verður unnið að krafti að því að útfæra þetta og breytingin á reglugerðinni mun sjá dagsins ljós fyrir næstu mánaðamót. Eins og áður segir vil ég láta reyna þetta í 2 ár til að byrja með, en ég vil taka fram að komi í ljós að þessi breyting valdi aukningu slysa í umferðinni, þá áskil ég mér engu að síður rétt til að fella hana úr gildi.

Í öðru lagi vil ég nefna óskir um sérstakan ljósabúnað á vöruflutningabílum til þess að auðvelda akstur við erfið akstursskilyrði svo sem í vatnsveðri samfara myrkri. Í umræðunni um þetta hafa menn farið svolítið í hringi og ekki ávallt ljóst hvort átt er við auka háljós eða sérstaka ljóskastara á bílum. Þá hefur orðalag núverandi reglugerðar sem leyfir notkun sérstakra ljósa í skafrenningi verið gagnrýnt, þar eð þá hentar slík notkun ekki sökum endurkasts frá ískristöllum í snjónum. Hér er um það sama að ræða og nefnt var varðandi vagnlestirnar, það er að að óskirnar vekja upp mikla umræðu um umferðaröryggi. Yfirleitt virðist talið að notkun mikillar lýsingar á bifreiðum geti valdið glýju hjá þeim sem á móti koma og jafnframt geti hún valdið blindu hjá þeim sem nota lýsinguna. Á móti kemur öryggi flutningabifreiðanna gagnvart lausagöngu búfjár á þjóðvegum. Við höfum mikið velt fyrir okkur reglum nágrannaríkjanna um lýsingu á bifreiðum sem aka á þjóðvegum og höfum komist að því að þar eru dæmi þess að leyfð séu tvö aukapör af háljósum , annað neðarlega á bíl og hitt á toppi. Ekki er hægt að nota þessi pör samtímis og þau eru tengd hinum venjulegu háljósum á bílnum. Hér skiptir líka máli hvað heildarlýsingin er mikil sem frá bílnum stafar.

Um notkun ljóskastara við akstur á þjóðvegum í öðrum ríkjum, höfum við ekki upplýsingar að því undanskildu að í gær bárust okkur óljósar upplýsingar um að slíkt væri látið viðgangast í Svíþjóð. Ég tel hins vegar að ekki sé hægt að ganga lengra í breytingum a.m.k. að sinni en að leyfa aukapör af háljósum, þar á meðal á ofan á þaki flutningabíls að framan, þannig að lýsingin bæti sjónskilyrði ökumanns gagnvart merkistikum og lausagöngu búfjár. Þetta verður bundið skilyrðum og ég vil taka fram að komi í ljós að breytingin valdi slysum þá verður reglunum aftur breytt í fyrra horf.
Þar með er ekki sagt að ég vilji gera tilraunir með umferðaröryggi sem að sjálfsögðu gengur fyrir öllu, en ég vil trúa málflutningi ykkar um að umferðaröryggi skerðist ekki við þessa breytingu og vona svo sannarlega að ekki komi annað í ljós.

Breyting á reglugerðinni ætti einnig að sjá dagsins ljós nú fyrir mánaðamótin á sama hátt og breytingin varðandi vagnlestirnar.

Góðir áheyrendur.

Sú breyting sem nú er orðin, þegar vöruflutningabifreiðar hafa tekið við þeim farmi, sem áður fór með strandflutningaskipum, hefur vissulega mikil áhrif á umferðina. Vissulega hafa þjóðvegirnir tekið miklum framförum hér á landi , en það er þó langt frá að þeir séu sambærilegir við megin umferðarræðar í öðrum Evrópuríkjum. Við verðum að hafa þessa staðreynd í huga þegar við fjöllum um reglur, sem varða umferðina og umferðaröryggi.

En þýðing atvinnugreinar ykkar hefur stórlega aukist og stjórnvöld mun eftir föngum reyna að koma til móts við hagsmuni hennar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum