Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. febrúar 2002 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp dómsmálaráðherra á blaðamannafundi vegna umferðaröryggisáætlunar

Ávarp dómsmálaráðherra á blaðamannafundi vegna umferðaröryggisáætlunar
þann 6. febrúar 2002.


Ágætu gestir


Með ályktun Alþingis árið 1996 um umferðaröryggisáætlun var ákveðið að byggja starf okkar í umferðaröryggismálum á stefnumótun til lengri tíma. Gerð var áætlun sem náði til ársins 2001 þar sem sett voru ákveðin markmið og áætlun um aðgerðir til þess að ná þeim. Í kjölfarið urðu vinnubrögð á þessu sviði markvissari og skipulegri og sambærileg því sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar. Enn er þó brýn þörf á að gera betur því tjón á mönnum og munum í umferðinni er stórfellt og langtum meira en við getum sætt okkur við.

Með umferðaröryggisáætlun sem gekk í gildi árið 1997 var sett markmið um að færri en 200 myndu slasast alvarlega eða látast í umferðinni á ári fyrir lok viðmiðunartímabilsins. Meðaltal síðustu fjögurra ára þar á undan var 278 látnir eða alvarlega slasaðir. Í stuttu máli náðist þetta markmið á árinu 2001 þrátt fyrir að veruleg aukning hafi orðið á bifreiðaeign og þar með magni umferðar í landinu. Ég tel að þessi þróun bendi óneitanlega til þess að árangur hafi náðst eins og að var stefnt og það megi rekja til ýmissa þátta, svo sem aukins eftirlits lögreglu, hertra viðurlaga, en sektir voru hækkaðar verulega áliðnu sumri, bættrar ökukennslu, áróðurs, aukinnar vitundar meðal almennings og síðast en ekki síst til þess að unnið var eftir skýrri framtíðarsýn.

Nú er lögð fram ný áætlun um aukið umferðaröryggi sem mynda á rammann um starf okkar á þessu sviði næstu 10 árin. Stefnan er sett á að Ísland verði orðið fyrirmyndarland í umferðinni fyrir árið 2012. Það er metnaðarfullt markmið en alls ekki fráleitt. Ný markmið um fækkun slysa eru sett fram og áætlun um aðgerðir til þess að þau verði að veruleika innan áratugar. Starfshópur sem ég skipaði til þess að vinna að þessu verkefni lauk nýlega gerð tillagna um umferðaröryggisáætlun fyrir tímabilið 2002 til 2012. Í starfshópnum voru Óli H. Þórðarson, framkvæmdastjóri Umferðarráðs, formaður sem kynna um skýrsluna nánar hér á eftir, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík og Rögnvaldur Jónsson framkvæmdastjóri tæknisviðs Vegagerðarinnar. Áður hafði Umferðaröryggisnefndin, sem lauk störfum í árslok 2000, skilað drögum að áætluninni sem meðal annars voru tekin til umræðu á Umferðarþingi 2000. Í nefndinni áttu sæti Þórhallur Ólafsson, formaður Umferðarráðs, Georg Kr. Lárusson, forstjóri Útlendingaeftirlitsins og og Rögnvaldur Jónsson framkvæmdastjóri tæknisviðs Vegagerðarinnar. Er ástæða til þess að þakka þessum einstaklingum fyrir þeirra vinnu og öðrum sem komið hafa að þessu verki, svo sem starfsmenn Umferðarráðs.


Í skýrslu starfshópsins er áhersluatriðum og tillögum hópsins skipt upp í átta kafla sem eru eftirfarandi:
   1. Skipan umferðaröryggisstarfsins.
   2. Öruggari hraði.
   3. Bílbelti - öryggisbúnaður.
   4. Öruggari ökumenn - ökunám, endurmenntun og ökupróf.
   5. Áfengi, lyf - þreyta.
   6. Öruggari vegir, götur og umhverfi vega.
   7. Auknar forvarnir - löggæsla, fullnusta og upplýsingar.
   8. Aðrar tillögur starfshópsins.
Í upphafi hvers kafla eru helstu áhersluatriði og tillögur listaðar upp og síðan er nánar fjallað um hvert og eitt atriði í kaflanum. Í tillögum starfshópsins sem undirbúið hefur þessa áætlun er því eins og sjá má tekið á öllum helstu viðfangsefnum sem varða umferðaröryggi. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að stefna sem þessi á ávallt að vera til endurskoðunar, enda er lagt upp með það í skýrslunni að á hverju ári taki Alþingi til umfjöllunar árangur liðins árs og fjalli um aðgerðaáætlun næsta árs. Tillögur starfshópsins mynda ákveðin ramma utan um það starf sem framundan er, þó einstakar tillögur séu ef til vill umdeilanlegar og þurfi frekari skoðun.

Samhliða þessari skýrslu verður lögð fram tillaga til þingsályktunar þar sem lagt verður til í samræmi við skýrslu starfshópsins að stefnt skuli að 40% fækkun alvarlegra umferðaslysa fyrir lok ársins 2012 miðað við þann árangur sem náðist á gildistíma síðustu umferðaröryggisáætlunar. Ríkisstjórn Íslands samþykkti þessa tillögu á fundi sínum í morgun. Stefnt er að því takmarki fyrir árið 2012 að færri en 120 látist eða slasist alvarlega í umferðinni árlega. Ef þetta markmið næst yrðum við vissulega fyrirmyndarland í alþjóðlegu samhengi.

Ein af tillögum starfshóps um Umferðaröryggisáætlun snýr að eflingu slysarannsókna og Rannsóknarnefndar umferðarslysa. Á síðustu árum hefur sú nefnd unnið mikilvægt frumkvöðlastarf í rannsóknum dauðaslysa hér á landi. Í samræmi við tillögur þeirrar nefndar hef ég ákveðið í samráði við heilbrigðisráðherra að setja á fót nefnd til þess að fara yfir heildarskipulag á viðbúnaði samfélagsins vegna slysa. Hópurinn á að fjalla um stjórn og samræmingu aðgerða bæði á vettvangi og fyrir landið í heild, um þjálfun heilbrigðisstarfsmanna í meðhöndlun slasaðra, einkum viðbrögðum á vettvangi og aðra þætti í skipulögðum viðbrögðum þjóðfélagsins vegna slysa með það að markmiði að hér á landi verði komið á heildarskipulagi á þessu sviði.

Formaður starfshópsins verður Jón Baldursson, yfirlæknir, en auk þess er tilnefna Almannavarnir ríkisins, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Ríkislögreglustjóri fulltrúa í hópinn og heilbrigðis- og tyggingamálaráðuneyti tvo fulltrúa.

Önnur af tillögum starfshópsins er að þjálfun og aðhald að ungum ökumönnum verði aukið, m.a. með stigskiptu ökunámi með endurmenntun og akstursmati. Þessi tillaga er í samræmi við niðurstöður nefndar undir forystu Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, formanns allsherjarnefndar alþingis, sem skilaði skýrslu til mín á síðasta ári. Lagafrumvarp sem snýr að þessu er í vinnslu innan ráðuneytisins og verður væntanlega til umfjöllunar á Alþingi í vor.

Mikið verk er fyrir höndum á sviði umferðaröryggismála og brýnt að málefnið fái þann stuðning sem nauðsynlegur er svo árangurinn sem stefnt er að náist, ekki síst á vettvangi stjórnmálanna. Þó má aldrei gleymast í umræðu um umferðaröryggismál að það eru fyrst og síðast ökumenn sjálfir sem ráða því hve öruggt er að fara um götur og vegi landsins. Á endanum er það því í höndum okkar ökumanna að tryggja að Ísland verði fyrirmyndarland í umferðinni.

Eins og ég sagði áðan mun Óli H. Þórðarson, framkvæmdastjóri Umferðaráðs gera nánari grein fyrir tillögum starfshópsins. Einng er hér með okkur Þóra Ásgeirsdóttir frá IMG-Gallup sem gera mun grein fyrir skoðanakönnun sem Vegagerðin, Umferðarráð og embætti Ríkislögreglustjóra stóðu fyrir um umferðarmálefni.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira