Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. júní 2002 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Ávarp ráðherra vegna skýrslu um klám og vændi

20. júní 2002

Ræða dóms- og kirkjumálaráðherra við kynningu á skýrslu nefndar
sem falið var að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis

Ágætu gestir.

Fyrir rúmu ári var kynnt rannsókn á vændi á Íslandi og félagslegu umhverfi þess. Þessi rannsókn var unnin fyrir dómsmálaráðuneytið af fyrirtækinu Rannsóknum og greiningu. Vakti rannsóknin athygli enda var þar að finna haldgóðar upplýsingar um stöðu þessara mála hér á landi.

Rannsóknin leiddi í ljós að vændi virðist þrífast í ýmsum myndum hér á landi, aðallega þó óskipulagt. Ekkert var þó hægt að meta umfang þess en í skýrslunni var dregin upp mynd af aðstæðum þeirra sem stunda vændi og fjallað um félagslegar aðstæður og bakgrunn einstaklinganna. Sérstök áhersla var í rannsókninni á ungt fólk sem aflar sér tekna með vændi, aðallega fyrir fíkniefnum. Einnig vöktu athygli vísbendingar um tengsl vændis við starfsemi nektardansstaða.

Þessi rannsókn var að mínum dómi mikilvæg af ýmsum ástæðum. Hún tók á máli sem farið hefur dult og legið í þagnargildi lengi, og fjallaði um málið án fórdóma eða öfga. Hún var einnig mikilvægt innlegg í almenna umræðu um þetta svið sem því miður hefur oft á tíðum ekki verið nægilega yfirveguð. Markmið rannsóknarinnar var því meðal annars að leggja grundvöll að málefnalegri umræðu.

Þegar niðurstöður umræddrar rannsóknar lágu fyrir kynnti ég einnig ákvörðun mína um að skipa nefnd sem hefði það hlutverk að gera tillögur um viðbrögð við þessum niðurstöðum. Var nefndinni falið að meta vandann frá þverfaglegum sjónarhóli. Meðal annars að fara yfir gildandi refsilög, stuðningsúrræði við þolendur og fleira.

Ég taldi þó ekki ástæðu til að bíða með nokkrar breytingar , og lagði því fyrir Alþingi fumvarp á síðasta starfsári þess um stækkun refsiramma fyrir vörslur barnakláms annars vegar og hins vegar ákvæði sem leggur bann við því að kaupa kynlífsþjónustu af ungmennum yngri en 18 ára. Þessar breytingar hafa nú tekið gildi.

Ég vil jafnframt nefna að ég hef falið refsiréttarnefnd það verkefni að fara yfir þau ákvæði hegningarlaganna sem fjalla um kynferðisbrot gegn börnum. Sérstaklega finnst mér þörf á að skoða nánar þau ákvæði þar sem umráðamenn barna brjóta gegn trúnaði og trausti þess, en þá er jafnframt um að ræða töluverðan aldursmun á milli brotamanns og brotaþola. Er það mitt álit að hækka beri refsirammann í slíkum brotum og ennfremur taka til skoðunar hvort eðlilegt sé að kveða á um lágmarksrefsingu þar að lútandi.

Sigríður Ingvarsdóttir, héraðsdómari var skipaður formaður nefndarinnar. Aðrir nefndarmenn voru Þórólfur Þórlindsson, prófessor, skipaður án tilnefningar, Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, tilnefndur af Lögreglunni í Reykjavík, Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, tilnefnd af samgönguráðherra, Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, tilnefndur af félagsmálaráðherra, Sigurður Guðmundsson, landlæknir, tilnefndur af Heilbrigðisráðherra, Lára Björnsdóttir félagsmálastjóri, tilnefnd af Reykjavíkurborg. Dís Sigurgeirsdóttir, lögfræðingur úr dómsmálaráðuneytinu, var ritari nefndarinnar.

Eins og við var að búast hefur nefndin nú skilað vel unnum og góðum tillögum til úrbóta á þessu sviði, og leggur fram vandaða skýrslu hér í dag. Ég hef fylgst vel með vinnu nefndarinnar og kynnt mér þær tillögur sem lagðar eru fram hér í dag. Tillögurnar beinast margar að þáttum sem heyra undir verkefnasvið dómsmálaráðuneytisins og munu fara í frekari úrvinnslu í ráðuneytinu. Aðrar varða önnur ráðuneyti og stofnanir og hljóta þar að að fá vandaða skoðun.

Tillögur skýrslunnar verða teknar til frekari umfjöllunar í dómsmálaráðuneytinu og munu verða teknar til skoðunar hjá refsiréttarnefnd. Tillögurnar eru athyglisverðar, en ljóst er að um ýmsar þeirra geta verið skiptar skoðanir. Efni skýrslunnar verður kynnt nánar á eftir en ég vil byrja á því að nefna nokkur áhersluatriði:

Nefndin leggur áherslu á mikilvægi forvarna annars vegar og stuðningsráðstafana við þá sem hafa leiðst út í vændi hins vegar. Er lagt til að komið verið á samráðsvettvangi þar sem unnið verði að forvörnum og hjálparúrræðum í takti við þær þarfir sem fyrir hendi eru hverju sinni.
Nefndin leggur til að nýjar áherslur verði í löggjöf um klám og vændi. Lagt er til að fellt verði úr lögum ákvæði sem kveður á um refsinæmi þess að stunda vændi sér til framfærslu og jafnframt sett lög sem gera refsivert að bjóða til sölu kynlífsþjónustu á almannafæri. Réttilega er bent á þessum breytingum til stuðnings að núgildandi lög geta leitt til þess að þeir sem stunda vændi leiti sér síður aðstoðar, t.d. hjá lögreglu.
Lagt er til að að almennt bann við dreifingu og birtingu á klámi verði afnumið en þess í stað verði lögð áhersla að uppræta gróft klám, svo sem barnaklám, dýraklám og ofbeldisfullt klám. Báðar þessar breytingar, varðandi vændi og klám, eru í takt við breytingar sem gerðar hafa verið í nágrannalöndum okkar og miða að því beina sjónum að vandamálum sem almenn samstaða er um að taka þurfi á.
Jafnframt eru athyglisverðar tillögur um verslun með fólk og innleiðingu sérstaks hegningarlaga ákvæðis sem taki á slíkri háttsemi, tillögur sem snúa að nektardansstöðum, klámefni á Netinu og alþjóðlegu samstarfi. Í skýrslunni er að finna umfjöllun um verslun með fólk og tillögur um úrbætur, svo sem hjálparúrræði og upplýsingagjöf.

Ég ætla ekki að fjalla í ítarlegu máli um skýrsluna sem hér er til kynningar. Nefndarmenn eru hér á fundinum og munu kynna efni hennar en ég er hins vegar tilbúin til þess að svara þeim spurningum hér kunna að vakna.

Ég vil að lokum þakka nefndarmönnum fyrir mikla og góða vinnu, sem er mikilvægt innlegg inn í umfjöllun um vændi og klám á Íslandi og mun án nokkurs vafa skila okkur áleiðis á þessu sviði.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum