Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. apríl 2004 DómsmálaráðuneytiðBjörn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra 2003-2009

Meðalhóf milli ríkis og kirkju.

Prestastefna í Grafarvogskirkju,

27. apríl, 2004.

  

Innan við ár er liðið, síðan mér gafst í fyrsta sinn tækifæri til að ávarpa þátttakendur í prestastefnu sem kirkjumálaráðherra. Þá hittumst við á Sauðárkróki en nú komum við saman í hinni glæsilegu kirkju hér í Grafarvogi.

Sem þingmaður Reykvíkinga og borgarfulltrúi hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því mikla starfi, sem prestar og annað starfsfólk kirkjunnar vinnur hér. Enginn þarf að velkjast í vafa um, hve miklu það skilar samfélaginu. Stórhugur safnaðarins birtist vel í kirkjubyggingunni sjálfri en hún er þó aðeins ytri umgjörð um öflugt safnaðarstarf og allt annað, sem kallar fólk þúsundum saman hingað.

Samfélag í trú og gleði er viðfangsefni prestastefnu að þessu sinni og í kynningu á efnistökum er meðal annars sagt, að hér verði rætt um samfélagsþróun, um borgarsamfélagið, kirkjutónlist og um sókna- og prestakallaskipan.

Allt eru þetta brýn og vekjandi viðfangsefni.

Nýlega las ég um nýja bók, sem heitir Jesús í Peking: Hvernig kristindómur er að breyta Kína og raska hnattrænu valdajafnvægi. Höfundur bókarinnar heitir David Aikman og er fyrrverandi fréttastjóri bandaríska vikuritsins Time í Peking. Hann rekur sögu Kína og kristinna áhrifa á hana en leggur sig einkum fram um að lýsa stöðunni eins og hún blasir við honum á líðandi stundu.

Í Kína starfa nú söfnuðir mótmælenda og katólskra undir verndarvæng kommúnistaflokksins og þar eru einnig þúsundir heima- eða heimilissafnaða, sem tæknilega eru ólöglegir en ráða á hinn bóginn oft yfir stórum og áberandi byggingum. Aikman segir, að kínversk stjórnvöld viti vart í hvorn fótinn þau eigi að stíga gagnvart kristindóminum. Ákafir flokksmenn líti á öll trúarbrögð sem ógn við sig og sína en sérfræðingar við Félagsvísindastofnun Kína fullyrði, að kristni hafi veitt Vesturlöndum styrk sinn.

Aikman sækir efnivið sinn í viðtöl við kristna Kínverja, frumkvöðla í atvinnulífi, listamenn, stjórnarerindreka og trúnaðarmenn flokksins. Hann telur, að „kristnir menn í Kína, bæði katólskir og mótmælendatrúar séu frekar um 80 milljónir en um 21 milljón eins og segir í opinberum gögnum“ og að „líklegt sé, að kristnir verði um 20 til 30 af hundraði íbúa Kína innan þriggja áratuga.“

Höfundurinn hallast að því sama og aðrir, sem geta sér til um þróun mála í Kína og hagvöxtinn þar, að vöxtur og útbreiðsla kristinnar trúar þar muni að lokum raska hnattrænu valdajafnvægi.[1]

Þetta kom í huga minn, þegar ég leit á það viðfangsefni ykkar hér, að fjalla um kirkju og samfélagsþróun. Þar sem menn vilja ná árangri og virkja til þess hug og hönd mannsins, vegnar þeim að jafnaði best, þegar þeir tileinka sér hin kristnu viðhorf. Þau byggjast á ábyrgð einstaklingsins á eigin gjörðum, fyrirgefningu og kærleika í garð náungans.

Umræður um stöðu kristni og kirkju setja vaxandi svip á þjóðfélagsumræður líðandi stundar, vegna þess að heimurinn allur stendur frammi fyrir hættu á óöld og hryðjuverkum. Hættan á að nokkru rætur í ólíkum trúarheimum, þótt ekki sé um að ræða átök milli þessara heima.

Sami höfundur, David Aikman, og ritar um Jesús í Peking hefur nýlega sent frá sér bók um trúarviðhorf George Bush, forseta Bandaríkjanna. Umræðurnar um trú forsetans minna á, hve erfitt getur verið fyrir vestræna stjórnmálamenn að finna meðalhófið milli eigin trúarþarfar og þess, sem umborið er af öðrum. Nýlega var haft eftir frægum Hollywood-leikara, að eitt hefði hann lært af lífinu og það væri að treysta þeim aldrei, sem teldi sig hafa einkarétt á því að hafa Guð í liði með sér.

Þessi ummæli eru sprottin af deilum í Bandaríkjunum um það, hvort Bush sé með hernaðarlegan messíasar-komplex en Ralph Nader, einn mótframbjóðenda Bush í forsetakosningunum, komst þannig að orði: „Tölum um aðskilnað ríkis og kirkju: Enginn slíkur aðskilnaður er til í heilabúi Bush og það er ákaflega óþægilegt að búa við það.“

Óþægindin vegna þessa virðast teygja sig hingað til lands ef marka má þessi orð, sem birtust nýlega í forystugrein íslensks dagblaðs:

„Hér á landi og víðast hvar í Evrópu utan Bretlands eru ofsatrúarmenn taldir vera sérvitringar, sem ekki séu nothæfir til stjórnmála. Ofsatrúarmenn á jaðri geðveikinnar eru hins vegar ekki aðeins viðurkenndir stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, heldur sitja beinlínis við stjórnvölinn.

Vandamál Íslands er hið sama og vandamál alls mannkyns um þessar mundir, hvernig eigi að haga seglum eftir vindum er blása frá heimsveldi, sem rambar um eins og dauðadrukkið sé.“[2]

Mér þykir líklegt, að höfundur þessara orða setji Bretland í sérstakan bás meðal Evrópulanda, vegna þess að sagt var frá því, að þeir hefðu beðið saman í Camp David Bush og Tony Blair, forsætisráðherra Breta.

Ég minnist þess úr sögutímum hjá Ólafi Hanssyni í Menntaskólanum í Reykjavík, að hann lýsti því þannig fyrir okkur, að þeir, sem væru haldnir messíasar-komplexi teldu sig þess umkomna að frelsa og umbreyta heiminum á eigin forsendum, allir yrðu að lúta þeim og vilja þeirra, þeir þyrftu ekki að leggja bænarefni fyrir neinn. Hvernig á að bregðast við, ef það er til marks um að vera haldinn þessum komplexi, að menn biðji um leiðsögn Guðs, jafnvel þótt þeir séu forseti Bandaríkjanna eða forsætisráðherra Bretlands?  Aikman segir í bók sinni um Bush, að hann hafi aldrei sagt, að Guð hafi sagt sér að fara í stríð. Hann hafi verið ákaflega varkár í orðum sínum.

En hvert stefnir, ef afsiðunarkrafa vestrænna þjóðfélaga er á þann veg, að þeir, sem taka þátt í stjórnmálastarfi mega ekki játa trú sína opinberlega.  Þeim sé bannað að viðurkenna, að við töku erfiðra ákvarðana, leiti þeir styrks hjá þeim, sem öllu ræður.

Mér er spurn: Hver er sá hér meðal okkar að hann telji sig þess umkominn að taka allar stærstu ákvarðanir lífsins án þess að eiga nokkra stund með Drottni sér til hjálpar? Er nokkur hér sem telur sig svo viðbúinn að mæta hverju sem vera skal, að Drottinn hefði þar engu við að bæta sem máli skipti og því til lítils að ráðslagast sérstaklega við hann umfram aðra?

Hitt á að sjálfsögðu  við um stjórnmálamenn eins og aðra, sem Jesús sagði um bænina: En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Ég þarf ekki að segja neinum hér, hvor þeirra gerði betri för og fór réttlættur heim, faríseiinn sem barði sér á brjóst og auglýsti guðhræðslu sína fyrir öllum sem heyra vildu og sjálfsagt fleirum, eða sá sem stóð álengdar, fann til misgjörða sinna og bað þess eins að Guð yrði sér syndugum líknsamur.

Hvað sem öllu þessu líður, er of langt gengið, ef stjórnmálamenn, sem játa trú sína á Jesúm Krist opinberlega, eru taldir „ofsatrúarmenn á jaðri geðveikinnar.“

Ég nefni þetta hér við upphaf prestastefnu um samfélag í trú og gleði meðal annars í því skyni að rifja upp gildi fyrirmyndarinnar í kristnu samfélagi.

Frá barnæsku er lögð áhersla á það í kristnu uppeldi, að hverjum manni sé dýrmætast að geta lagt sig og þá, sem honum eru kærastir, eða þau málefni, sem á sækja hverju sinni, í hendur kærleiksríks og almáttugs Drottins. Kennt er, að hverjum manni sé hollt og eigi að vera ljúft að biðja fyrir náunga sínum og málefnum, sem hann snerta eða þjóðfélag okkar og heimsbyggðina alla. Í boðskap Krists og útleggingu á orðum hans er veitt leiðbeining um inntak og anda bænarefnanna.

Í ljósi þess, sem að ofan er sagt, má spyrja, hvort grafið sé markvisst undan trausti á þá, sem játa trú á Krist. Slíka menn megi ekki kjósa til forystustarfa í vestrænum lýðræðisríkjum. Vilji svo óheppilega til, að þeir nái kjöri, verði þeir að minnsta kosti að skilja á milli ríkis og kirkju í eigin heilabúi og alls ekki skýra frá því opinberlega, ef þeir biðjast fyrir við töku umdeildra ákvarðana.

Sé þetta þróunin í samfélagi okkar Vesturlandabúa er hin kristna fyrirmynd ekki lengur leiðarljós þeirra, sem vilja bæta þjóðfélagið og auka velferð íbúa þess. 

 

Góðir áheyrendur!

Hér á prestastefnu á einnig að ræða um það, sem nefnt er fjölmenning nútímans.

Undanfarið hefur því verið haldið fram, að með frumvarpi til breytinga útlendingalögum sé ég að vega að hjúskap Íslendinga og útlendinga, þegar leitað er leiða til að þessi athöfn sé ekki misnotuð í því skyni einu að afla fólki dvalarleyfis. Þetta er ekki sanngjarn málflutningur, því að tilgangur hinna umdeildu ákvæða frumvarpsins er einfaldlega að koma í veg fyrir, að til málamynda eða fyrir nauðung gangi fólk til hjúskapar til þess eins að fá dvalarleyfi á Íslandi.

Síðustu misseri hafa íslensk útlendingayfirvöld haft afskipti af um 60 einstaklingum vegna gruns um, að þeir hafi komið hingað til lands og fengið dvalarleyfi á grundvelli málamyndahjónabands. Þessar grunsemdir hafa hins vegar ekki dugað til að komast til botns í málunum vegna ágalla í gildandi lögum. Ég trúi því ekki, að nokkur hér inni sé þeirrar skoðunar, að gera eigi hjúskap að slíku skálkaskjóli. Ég tel þvert á móti, að hér átti menn sig á mikilvægi þess, að yfirvöld hafi tæki til að sporna við slíku. Tillögur mínar miða að því að smíða slík tæki með lögum.

Allar þessar umræður um breytingar á útlendingalögunum minna á, hve hér er um viðkvæmt og vandmeðfarið mál að ræða. Hitt verður þó enn viðkvæmara, þegar tekið er til við að ræða fjölmenningarmálefni á trúarlegum forsendum, eins og við þekkjum frá öðrum löndum. Við erum ekki komin á það stig í opinberum umræðum hér á landi, en bæði sjálfsagt og eðlilegt fyrir presta að ræða þau álitamál í sinn hóp.

 

Góðir áheyrendur!

Þegar ég var að lesa um kristindóminn í Kína, leitaði hugur minn til séra Jóhanns Hannessonar, sem var þar kristniboði og ég kynntist ungur sem þjóðgarðsverði á Þingvöllum.  Sáðkornin, sem hann og aðrir kristniboðar skildu eftir í Kína, bera nú meiri ávöxt en nokkurn gat órað fyrir í landi Konfúsíusar og kommúnisma. Fordæmi séra Jóhanns, sem einnig sat prestastefnu á sínum tíma, minnir okkur enn á, að vegir Guðs eru órannsakanlegir.

Ég vil þakka þetta tækifæri til að reifa þau mál, sem mér finnst mikils virði að fá að hreyfa, þegar ég kem á ykkar fund, ágætu prestar. Ég vil einnig þakka gott samstarf við biskup, presta og aðra forystumenn þjóðkirkjunnar, frá því að við hittumst hér síðast á prestastefnu.

Ég viðurkenni fúslega, að fá mál varðandi starf þjóðkirkjunnar koma inn á mitt borð sem ráðherra. Það segir mér aðeins, að þeir, samningar, sem gerðir hafa milli ríkis og kirkju um sjálfstæði kirkjunnar virka eins og að var stefnt.

Hin veraldlegu úrlausnarefni í samskiptum ríkis og kirkju taka á sig ýmsar myndir og þau verða leyst í krafti laga og samninga, sem byggjast á gagnkvæmu trausti og góðum rökum.

Ég árna ykkur heilla í mikilvægum störfum ykkar og bið kirkjunni, prestum og söfnuðum Guðs blessunar í því starfi að breiða út orð þess, sem hefur öll okkar ráð í hendi sér.





[1] Foreign Affairs, 83. árgangur, 3. hefti 2004, bls. 158.

[2] DV, Endurkoma Krists, forystugrein eftir Jónas Kristjánsson, 24. apríl, 2004.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum