Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. mars 2011 DómsmálaráðuneytiðÖgmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2010

Ávarp á ráðstefnu ríkissaksóknara og Ákærendafélags Íslands

Ávarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á ráðstefnu ríkissaksóknara og Ákærendafélags Íslands.


Góðir ráðstefnugestir.

Það er mér ánægja að ávarpa þessa ráðstefnu ríkissaksóknara  og Ákærendafélags Íslands.
Ákæruvaldið á Íslandi hefur tekist á við fordæmalaus verkefni á undanförnum misserum og árum og sér ekki fyrir endann á erfiðum verkefnum, einkum á sviði efnahagsbrota en einnig og ekki síður á sviði ofbeldisbrota. Þessa sögu þekkjum við öll og einnig hitt hvaða ráðstafana hefur verið gripið til í skipulags- og kerfisbreytingum og að einhverju leyti er mönnum kunnugt um hvað framundan er í þeim efnum enda margt sprottið upp úr samráði við mörg þau sem hér eru.


Vegna bankahrunsins var gripið til sérstaks úrræðis með stofnun embættis sérstaks saksóknara sem er óvenjulegt úrræði á óvenjulegum tíma. Varðandi efnahagsbrotarannsóknir þá er það ljóst að endurmeta þarf tilhögun rannsóknar á efnahags- og fjármunabrotum með það að markmiði að auka skilvirkni og réttaröryggi.

Ákveðið hefur verið að sameina efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og embætti sérstaks saksóknara og er verið að vinna að lagabreytingum í ráðuneytinu sem að þessu snúa. Ríkislögreglustjóri, ríkissaksóknari, settur ríkissaksóknari í málum sérstaks saksóknara sem og sérstakur saksóknari hafa bent á að sterk rök séu fyrir því að innan þriggja ára verði til ný rannsóknarstofnun sem annist alla rannsókn og saksókn í alvarlegum, flóknum og umfangsmiklum fjármuna- og efnahagsbrotamálum.

Ég tel að stefna eigi að því að koma á laggirnar einni sterkri stofnun er taki yfir allar rannsóknir efnahagsbrota á víðtækum grundvelli. Nú er rannsóknum og ákærumeðferð fjármuna- og efnahagsbrota sinnt hjá mörgum stofnunum þ.e. efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans, embætti sérstaks saksóknara, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, skattrannsóknarstjóra, tollstjóra, fjármálaeftirlitinu, samkeppniseftirliti og ríkissaksóknara. Núverandi skipan rannsóknar mála er varða fjármuna- og efnahagsbrot þykir flókin, ógegnsæ og óhagkvæm auk þess sem hætta er á tvíverknaði. Oft eru rannsakaðir afmarkaðir þættir í háttsemi lögaðila og einstaklinga hjá mörgum stofnunum sem eru hluti af mun víðtækari ætlaðri brotastarfsemi og jafnvel teknar skýrslur af sömu einstaklingum vegna sömu háttsemi með skömmu millibili. Þrátt fyrir aukið samráð umræddra stofnana má ætla að hvergi í kerfinu sé unnt að hafa yfirsýn yfir hina ætluðu refsiverðu háttsemi og engin ofangreindra stofnana hefur valdboð gagnvart hinum til að safna saman upplýsingum eða taka yfir rannsókn jafnvel þó ljóst sé að þannig yrði viðkomandi rannsókn markvissari og málshraða gagnvart sakborningum betur gætt. Rök hníga því eindregið að því að taka þetta kerfi til gagngerrar endurskipulagningar.

Við þessa endurskipulagningu verður litið til reynslu Norðurlandanna. Auk þeirrar lagabreytingar sem nú er unnið að varðandi sameiningu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og embættis sérstaks saksóknara er í ráði að hefja könnunarviðræður milli ráðuneyta um þá nýskipan að sameina rannsóknir og saksókn í fjármuna- og efnahagsbrotamálum í eina efnahagsbrotarannsóknarstofnun með svipuðum hætti og í Noregi í samræmi við þær tillögur sem ég vísaði til.

Varðandi ofbeldisbrot þá er mikilvægt að vel sé fylgst með þróun brota á því sviði, einkum varðandi heimilisofbeldi sem gjarnan er fylgifiskur þjóðfélags í kreppu. Senn kemur fram í þinginu frumvarp um svokallaða austurríska leið um að veita lögreglu vald til að fjarlægja ofbeldismanninn af heimilinu í stað þess að þolendurnir þurfi að víkja.

Kynferðisbrot er sá málaflokkur þar sem reynir hvað mest á allt réttarkerfið og það er skylda stjórnvalda að fjalla um þessi mál á opinberum vettvangi. Kemur þar margt til. Á þessu stigi ætla ég að nefna það eitt að hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá ríkir ekki nægilegt traust til réttarkerfisins á þessu sviði af hálfu fjölda brotaþola og samtaka sem mynduð hafa verið þeim til skjóls. Í stað þess að afneita þeirri staðreynd er brýnt að á vandanum sé tekið. Það þarf að sjálfsögðu að gera með réttsýni og sanngirni á alla vegu að leiðarljósi.

Þá hafa rækilega verið gerð skil í opinberri umræðu áformum um að auðvelda lögreglu rannsóknir á skipulagðri brotastarfsemi með rýmkuðum en þó mjög takmörkuðum rannsóknarheimildum. Í innanríkisráðuneytinu vinnum við að lagabreytingum sem þetta varða og er mjög mikilvægt að vandað sé til verka. Það á ekki síst við um lagalega umgjörð og skilgreiningar að byggja á fyrir dómsvaldið sem veitir heimildir fyrir slíkar rannsóknir og þá einnig eftirlitshlutverkið sem hvílir hjá embætti ríkissaksóknara. Auknar rannsóknarheimildir án virkra öryggisventla eru tómt mál um að tala því rannsóknarheimildirnar, dómsúrskurðirnir byggðir á takmarkandi regluverki, og síðan eftirlitið eru algerlega óaðskiljanlegir þættir. Þess vegna neita ég því ekki að mér brá í brún þegar ríkissaksóknari lýsti því yfir að af hálfu síns embættis hefði eftirlitið ekki verið sem skyldi á undanförnum árum. Ríkissaksóknari hefur án efa ekki ráðið neinu um leturstærð Frétttatímans sem sló þessari frétt upp á forsíðu í síðustu viku. En það má viðkomandi fjölmiðill eiga að umgjörð fréttarinnar var til marks um hve alvarlegar slíkar fullyrðingar eru.


Ríkissaksóknari kenndi um fjársvelti sem hann hefði margoft vakið athygli ríkisvaldsins á. Ítrekað hefði hann skrifað ráðuneyti dómsmála og sagt að fjárskortur kæmi í veg fyrir að embættið gæti skipulega fylgst með því að rannsóknarheimildir lögreglu væru í samræmi við uppkveðna dómsúrskurði.


Ég er ekki í hópi þeirra sem tel að opinberar stofnanir eigi að þegja um það sem aflaga fer hjá framkvæmdavaldi, hvað þá ef fjársvelti hamlar lögbundnu hlutverki þeirra. Í mínum huga ber þeim þá beinlínis skylda til að láta í sér heyra.  Ég lít því á umkvartanir ríkissaksóknara sem jákvæða brýningu – tilraun til að vekja athygli á alvarlegri brotalöm sem nauðsynlegt er að taka á.

Það er um margt fróðlegt að stíga inn í heim réttarkerfisins; heim sem ég vil hafa þannig að ég geti borið fyrir honum verðskuldaða virðingu. Það vil ég geta gert sem þjóðfélagsþegn ekki síður en sem ráðherra dómsmála eða ráðherra mannréttindamála. Formaður Lögmannafélagsins sagði í blaðagrein að það væri ákveðinn veikleiki fyrir nýjan ráðherra dómsmála að hafa ekki lögfræðipróf upp á vasann. Ég las það í greinina að honum þætti þetta vera bæði veikleiki fyrir ráðherrann og réttarkerfið. Ekki er ég þessu sammála þótt vissulega sé það svo að menntun á því sviði sem starfsvettvangurinn tengist hljóti alltaf að koma að gagni. En ég minnist þess að þegar ég var heilbrigðisráðherra að þá vildu einhverjir læknar meina að tími væri kominn til að fá lækni í ráðherrastól. Ég svaraði því til að nær væri að fá sjúkling í embættið – þann aðila sem reynslu hefði af þjónustu kerfisins. Þetta setti ég fram í gamni en þó jafnframt af alvöru í bland.

En ástæðan fyrir því að ég er formanni Lögmannafélagsins ósammaála er eftirfarandi: Veikleiki réttarríkisins íslenska er að mínu mati sá að á skortir að þrískipting valdsins sé virt og að virðingin sé gagnkvæm, ekki bara gagnvart réttarkerfinu heldur einnig gagnvart hinum pólitíska valdþætti. Og það er fyrir þann þáttinn sem ég ætla að leyfa mér að taka upp hanskann á þessum vettvangi.

Þegar ég sté inn í vé dómsmálatráðuneytisins vakti fljótlega athygli mína varnaðarorðin sem ég alls staðar heyrði um hve varlega ég yrði að fara gagnvart ákæruvaldi og dómsvaldi í yfirlýsingum og jafnvel í samræðu við fulltrúa þessara valdþátta. Misstigi ráðherrann sig væri voðinn vís; honum yrði brigslað um tilraunir til að hafa óeðlileg áhrif á réttarkerfi sem ætti að starfa sjálfstætt. Sama gilti jafnvel um löggæsluna almennt. Þessi varnaðarorð voru sprottin af virðingu fyrir réttarkerfinu og sjálfstæði þess. Varnaðarorðin hafa þó orðið mér mikið umhugsunarefni hvað snertir hlutverk hinna lýðræðislega kjörnu fulltrúa; hins pólitíska valdþáttar.

Hér fjöllum við um ákærurvaldið. Það er hluti af framkvæmdavaldinu en jafnframt á landamærunum við dómsvaldið. Og þannig viljum við að það sé í störfum sínum: Sem mest óháð hinu pólitíska framkvæmdavaldi. Við lítum þannig á ákæruvaldið sem hluta af sjálfstæðu réttarkefi.


Þarna verður þó aldrei skorið á öll tengsl á milli enda á samfélagið – og þá væntanlega í gegnum kjörna fulltrúa sína – að geta haft áhrif á áherslur. Réttarkerfið hlýtur að eiga að endurspegla í einhverjum mæli réttarvitundina í samfélaginu. En hvernig tryggjum við landamærin þarna á milli? Hvernig tryggjum við landamærin á milli réttarkefisins og stjórnmálanna?


Það gerum við með gagnkvæmri virðingu og hreinskiptinni, opinni umræðu. Sjálfstæði er ekki fengið með því að þagga niður gagnrýnisraddir heldur miklu fremur með því að leyfa þeim að blómstra. Sé gagnkvæm virðing fyrir hendi og sjálfstraust fyrir hendi – trú á þau grunngildi sem við reisum stjórnskipan okkar á – þá þola einstök verk umræðu og gagnrýni ef því er að skipta. Þannig ganrýndi ég harðlega úrskurð Hæstaréttar, þar sem lýðræðisleg kosning til stjórnlagaþings var ógilt vegna formgalla en lýsti því jafnframt yfir að ég myndi fyrir mitt leyti hlíta þeim úrskurði til hins ítrasta. Sjálfstæði er ekki varið með afneitun heldur samtali. Aðeins þannig getur almenningur, sem réttarkerfið á að verja, skilið mikilvægi þess og fengið þá tilfinningu – og þá þannig að fyrir henni sé innistæða – að réttarfarið vinni fyrir fólk.

Eins og ég vék að þá er því ekki að neita að á tilteknum sviðum hef ég orðið var við ákveðna tortryggni þarna í millum. Það er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Ég sótti ráðstefnu í Rómarborg síðastliðið haust á vegum Evrópuráðsins. Ráðstefnan fjallaði um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Ráðstefnugestir hlýddu á vitnisburð þolenda. Sá vitnisburður var átakanlegur en um leið uppörvandi. Ástæðan var sú að fram kom í máli margra fyrirlesara að jákvæðra strauma yrði nú vart. Nú væri hafin samræða á milli þolenda ofbeldisins og réttarkefisins. Það sem áður hafi verið þagað yfir væri nú rætt opið. Við það hefði skapast skilningur og í kjölfarið traust þar sem það var áður ekki fyrir hendi. Ungur maður flutti áhrifamikla ræðu. Hann sagði frá erfiðri reynslu úr æsku, hvernig hann hefði verið misnotaður af stjúpa sínum um langt árabil. Erfiðast hafi verið að ná aldrei að finna hjálpandi hönd þegar eftir var leitað, þegar hann hafi reynt að nálgast réttarkerfið hafi það verið kalt og fráhrindandi niðurbrotnum unglingsdreng. Þetta væri nú að breytast sagði hann. Til marks um það væri þessi ráðstefna í Róm þar sem fulltrúar réttarkerfsins og brotaþolar væru að talast við, deila reynslu og sýn sinni á vandann. Það gagnaðist öllum hlutaðaeigandi aðilum.


Af þessu þurfum við að draga lærdóma. Við þurfum að spyrja hvort verið geti að sú tortryggni sem ríkt hefur af hálfu kvennahreyfinga og margra fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis í garð löggæslu, ákæruvalds og dómsvalds sé vegna þess að aðilar hafa ekki átt opna og hreinskiptna samræðu; hafi ekki nálgast með það að markmiði að efla skilning og traust. Ef svo er þá er það sameiginlegt verkefni að fá úr þessu bætt og höfum við í innanríkisráðuneytinu, ráðuneyti mannrétttinda, stigið skref í þá átt með viðamiklu samráði og langar mig til þess að nota tækifærið til þess að þakka öllum þeim sem lagt hafa gott til málanna í þessu samhengi.

Dómstólar og einnig ákæruvaldið vilja að stjórnmálin sýni sér tilhlýðilega virðingu. En á móti hljótum við lýðræðislega kjörnir fulltrúar almannasjónarmiða – að ætlast til þess að á okkur sé einnig hlustað, að réttarkerfið sýni lýðræðinu þá virðingu sem því ber.

Réttarkefið á að vera sjálfstætt og á engan hátt háð pólitísku duttlungavaldi. Það á að verja minnihlutasjónarmið engu síður en meirhlutasjónarmið. En svo sterkt þarf það að vera, búa yfir slíkum innri styrk og sjálfstrausti, að það sé ævinlega galopið fyrir gagnrýni; opið fyrir lýðræðisstraumum samtíðarinnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum