Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. nóvember 2011 DómsmálaráðuneytiðÖgmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2010

Ávarp á kynningarfundi um fjarskiptaáætlun

 

Ávarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á hádegisverðarfundi um fjarskiptaáætlun 2011 til 2014, 2. nóvember 2011


Góðir fundarmenn.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því talsímastrengir voru lagðir um landið og Ísland komst í samband við umheiminn árið 1906 þegar sæsímastrengur kom í land á Seyðisfirði.

Við höfum upplifað ýmsar byltingar í fjarskiptamálum þjóðarinnar síðan og þær ekki minnstar nú á allra síðustu árum. 

Fjarskiptasjóður og uppbyggingin

Fjarskiptaáætlun er efni þessa fundar og sú áætlun sem nú er að renna út er ein byltingin. Verkefni sem fjarskiptasjóður hefur haft á sinni könnu í gegnum fjarskiptaáætlun hafa verið nokkur eins og þið öll þekkið. Þar naut sjóðurinn fjármagns sem fékkst með sölu Símans. Eitt þeirra verkefna hefur verið uppbygging á farsímaneti landsmanna á öllum helstu þjóðvegum og ferðamannasvæðum og á þeim svæðum landsins sem það verður ekki rekið á markaðsforsendum. Annað verkefni var að bjóða landsmönnum öllum hvar sem þeir hafa heilsársbúsetu uppá að geta verið í háhraðanetsambandi með þokkalegum afköstum.

Þessir áfangar eru grunnurinn að þeim árangri og þeirri stöðu sem fjarskiptamál okkar eru nú í og með því erum við meðal fremstu þjóða í farsímanotkun og netvæðingu. 

Ég reyni hins vegar ekki að fara út í að greina frá tæknilegum atriðum á þessum sviðum, þið eruð öll margfróð um tækninýjungar og hér á eftir verður nánar farið út í ýmis tækniatriði auk þess sem þeir sérfræðingar sem eru hér með mér í dag geta svarað spurningum um þau atriði. 

Slökum ekki á

Enn er talsvert óunnið á fjarskiptasviðinu og því mikilvægt að við höldum áfram og slökum ekki á í uppbyggingu fjarskiptainnviða landsins. Við ætlum að halda forystu okkar í hlutfalli íbúa sem notfæra sér netið hvar sem þeir búa á landinu og ekki bara að bjóða netsamband heldur öruggt samband með hraða og bandbreidd eða afköstum sem nauðsynleg eru. Við ætlum líka að viðhalda og efla möguleika til gagnaflutninga um landið og til og frá landinu og við sjáum að á þessu sviði eru ýmsir atvinnumöguleikar sem við getum þróað í samráði og samstarfi við atvinnugreinina fjarskipti. 

Fjarskiptasjóður starfar áfram

Næsta verkefni okkar er að leggja fyrir Alþingi fjarskiptaáætlun áranna 2011 til 2014 með nýjum og metnaðarfullum markmiðum.

Við megum ekki láta deigan síga í þessum efnum ef við ætlum að halda forskoti okkar og bjóða öllum landsmönnum að sitja við sama borð þegar fjarskipti eru annars vegar.

Við munum leggja til við Alþingi að lögum um fjarskiptasjóð verði breytt á þann veg að lögin um fjarskiptasjóð gildi ótímabundið og að sjóðurinn starfi áfram. Honum verði falið það verkefni að fylgja eftir þeim verkefnum sem sett eru fram í þingsályktun um fjarskiptaáætlun.

Fjarskiptaáætlun

Fjarskiptaáætlun næstu fjögurra ára verður kynnt rækilega hér á eftir. Áætlunin hefur verið til umsagnar á vef innanríkisráðuneytisins og er hægt að senda ráðuneytinu athugasemdir og ábendingar til 10. nóvember. Eftir það verður smiðshöggið rekið á áætlunina sem síðan verður lögð fyrir Alþingi í lok nóvember til umfjöllunar og afgreiðslu. 

Verkefni næstu ára

Við þurfum að halda vel á spöðunum til að geta byggt á þessum grunni sem lagður hefur verið Við þekkjum vel stöðu ríkissjóðs en engu að síður gerum við ráð fyrir að við getum sett fram fyrstu verkefnin í nýrri áætlun. Og þau verkefni eru víða:

  • á sviði aðgengilegra og greiðra fjarskipta
  • á sviði hagkvæmra og skilvirkra fjarskipta
  • á sviði öruggra fjarskipta
  • á sviði umhverfisvænna fjarskipta

Á öllum þessum sviðum þarf að skilgreina, kortleggja og setja fram verkefnin, vernda innviðina, auka möguleika og þjónustu um landið og eiga samráð við atvinnuveginn um hvaða verkefni hann tekur að sér og hver séu verkefni stjórnvalda, hvar landamærin liggja þarna á milli.

Varðandi alþjónustuna vil ég nefna að í frumvarpi til breytinga á fjarskiptalögum legg ég til að alþjónustan muni einnig ná til háhraðanettenginga og að alþjónustusjóður greiði þau verkefni. Með því er ætlunin að sjá til þess að heimili landsins eigi kost á að lágmarki þeirri tengingu sem skilgreind er í reglugerð um alþjónustu hverju sinni. Lágmarkstengingahraði verði endurskoðaður reglulega til hækkunar eftir því sem kröfur aukast.

Ég hef ekki nefnt póstþjónustuna sérstaklega hér en það er ljóst að þar eru breytingar framundan. Við þurfum – erum nauðbeygð – til að innleiða pósttilskipun sem gerir ráð fyrir að öll dreifing verði gefin frjáls. Þar hljótum við að stíga skref eftir okkar þörfum og þar hljótum við líka að skoða hvernig hin rafrænu samskipti og hin rafræna dreifing getur hjálpað okkur og þessir þættir stutt hver annan. Hér munum við fara eins varlega og við eigum kost á.

Í lokin þetta:

Við þurfum umfram allt að ræða þessa áætlun, þessa stefnu og þessi verkefni. Við þurfum að vinna þetta verkefni saman og vera samstiga í næstu skrefum í uppbyggingu. 

Við þurfum að vera sammála um að vernda þessa verðmætu og nauðsynlegu innviði og við þurfum að huga vel að öryggi netisins bæði gagnvart ytri áföllum og innri misnotkun.

Við erum komin langt með fjarskiptainnviðina en verkinu er hvergi nærri lokið. Við þurfum að huga bæði að verkefnum morgundagsins og verkefnum lengra inn í framtíðina.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum