Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. nóvember 2011 DómsmálaráðuneytiðÖgmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2010

Hvað ef? Ávarp á hátíðarsýningu í Þjóðleikhúsinu 15. nóvember 2011

Hvað ef?
Ávarp Ögmundar Jónassonar á hátíðarsýningu í Þjóðleikhúsinu

15. nóvember 2011

Ágæta samkoma,

Sumar sögur eru kannski endurteknar of oft. Og það er þannig um mig að mér hættir til að endurtaka sögur sem hafa haft mikil áhrif á mig, breytt því hvernig ég hugsa, hvernig ég sé hlutina. Endurtekning getur einmitt verið þannig komin til að boðskapurinn skiptir máli. Ein af þessum sögum gerist fyrir tæpum 100 árum síðan þegar rætt var um stofnun félags sem myndi hafa það að markmiði að vinna gegn slysum á Íslandi. Til stóð að kalla það Björgunarfélag Íslands.  Fyrirmyndin var sótt til Björgunarfélags Vestmannaeyja sem var stofnað árið 1918 og eins og gefur að skilja lá beint við að hið nýja félag, sem skyldi starfa á landsvísu, fengi þetta heiti, Björgunarfélag Íslands.


En þá steig fram maður að nafni Guðmundur Björnsson. Hann var landlæknir á Íslandi á þessum tíma. Hugsun hans var sú að félagið ætti ekki að einbeita sér eingöngu að björgun, heldur einmitt líka að því að koma í veg fyrir slysin. Í þessu felst grundvallarmunur, en þó þarf hvort tveggja að koma til. Við þurfum að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann en líka að hafa þekkingu og færni til að bjarga barni ef svo illa vill til að það dettur ofan í brunn. Guðmundur Björnsson, sem var bróðir hennar ömmu minnar –kannski þess vegna þykir mér svo vænt um þessa sögu – var höfundur að nafni Slysavarnarfélags Íslands.

Einmitt þetta þykir mér mikilvægt þegar við setjumst hér niður í aðalsal Þjóðleikhússins ásamt stórum hópi unglinga til að horfa á fræðslusýninguna Hvað ef? Þar er tekist á við hið vandasama verkefni að styrkja unglinga til að geta tekið ákvörðun um að neyta ekki áfengis, tóbaks eða annarra vímuefna. Einnig er lögð áhersla á að ætli unglingar sér á annað borð að drekka áfengi þá fresti þeir því eins lengi og mögulegt er. Hvers vegna? Jú, vegna þess að afleiðingarnar geta verið margfalt skaðlegri því yngri sem einstaklingurinn er.
Stundum er sagt að gamla fólkið trúi öllu, að á miðjum aldri trúi maður engu, en unga fólkið?
Það viti allt.
Það er erfitt að vara sá sem allt veit.
Það getur þó líka verið góð tilfinning í augnablikinu og ekkert alltaf sérstaklega skemmtileg þau sem segja að svo sé ekki.
En samt verður það að segjast að það er gott að klæða sig í lopapeysu í kulda og í regnkápu í regni. Og að það er gott að bíða eftir grænu ljósi, þótt enginn bíll sé í augsýn. Og það er líka gott að bíða rólegur eftir þroskanum og skynseminni.

Ég held að það gæti verið öllum gagnlegt að lesa texta Magnúsar Eiríkssonar um Gleðibankann – það var held ég fyrsta lagið okkar í evrópsku söngvakeppninni. Magnús sagði að í sínum banka – Gleðibankanum -  þýddi ekki að taka meira út en maður leggur inn og að þar væri ekki tekið við neinum blúsuðum timbruðum tékkum – einsog það hét.

Þetta uppgötva allir fyrr eða síðar. Og því ekki fyrr?

Ég sá sýningu Gunnars Sigurðssonar og félaga á síðasta ári og get sagt frá því hér að mér þótti mikið til hennar koma. Ég veit jafnframt að Gunnar hefur haldið þessu verkefni gangandi með sinni þrautseigju allt frá árinu 2005. Af viðbrögðum unglinganna sem voru leikshúsfélagar mínir í fyrra að dæma þá nær sýningin til þeirra og það má líka lesa af ótal ummælum á vefsíðu sýningarinnar. Að nýta töfra leikhússins með þessum hætti er skemmtilegt og áhrifaríkt í senn. Undirtónn sýningarinnar er engu að síður alvarlegur, eins og hann á að vera, enda er viðfangsefnið þess eðlis. Hér getur verið um líf eða dauða að tefla.
Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta, enda gerir sýningin það með mun áhrifameiri hætti en ég gæti nokkurn tímann gert, hvað þá í stuttu ávarpi. Ég óska aðstandendum til hamingju með sýninguna og hvet ykkur sem hér sitjið til að fylgjast með af athygli. Kannski getur sýningin breytt viðhorfum og jafnvel einhverju miklu meira í ykkar lífi.

                                   Takk fyrir



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum