Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. apríl 2012 DómsmálaráðuneytiðÖgmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2010

Ávarp á fundi innanríkisráðuneytisins um hatursáróður

Ávarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á morgunverðarfundi í Iðnó 26. apríl 2012


Gættu hugsana þinna, þær verða að orðum

Gættu orða þinna, þau verða gjörðir

Gættu gjörða þinna, þær verða að vana

Gættu að vananum, hann verður innræti þitt

Gættu að innræti þínu, það ræður örlögum þínum.

Einhvern veginn svona komst Lao Tse að orði, þótt tilvitnunin hafi reyndar verið eignuð fleirum. En þetta kom upp í hugann í tengslum við þennan fund sem við sitjum hér í dag því í þessari speki erum við minnt á að orð eru til alls fyrst, eins og íslenska máltækið segir, og það sem meira er: Að orð eru máttug.

Umræðan í samtímanum er á köflum hatursfull og stundum þannig að ástæða er til að hafa áhyggjur af. Ekki aðeins vegna þess að hatursorðræða getur leitt til hatursglæpa, heldur vegna hins – sem er ekki síður alvarlegt – að hatursorðræða vegur að lýðræðinu og tjáningarfrelsinu. Hún gerir það að verkum að ákveðnir hópar eða einstaklingar óttast að tjá sig eða koma fram vegna holskeflu af hatursfullum ummælum sem um þá falla.
Internetið hefur opnað flóðgáttir. Þær gáttir geta verið jákvæðar en einnig neikvæðar. Í senn opna þær á skoðanaskipti, lýðræðislega umræðu og eru farvegur upplýsinga en um leið opna þær á óhróðurinn sem dynur af miklum þunga á mörgu fólki; iðulega fyrir þær sakir einar að tilheyra tilteknum hópum: Vera útlendingur, vera kona í réttindabaráttu, vera trúaður, trúlaus, eða transmanneskja, svo fá dæmi séu tekin.

Einhverjum kann að þykja það meinlaust, að sitja heima við tölvuna og hamra niður nokkur ljót orð sem eru síðan birt á vefnum eða láta orð falla í skólanum, á veitingastað eða á förnum vegi. En við vitum betur. Öll eigum við minningar um eitthvað sem einhver sagði og særði okkur, jafnvel svo djúpt að við finnum enn til ef við rifjum það upp. Stundum geta orð ein og sér lamað fólk. Það er hægt að eyðileggja börn til frambúðar, með orðum. Og það er tímabært að taka það alvarlega. Orð eru til alls fyrst segir jú máltækið. En síðan þarf ekkert að fylgja því orðin ein geta öðlast sjálfstætt líf. Þau geta glatt og þau geta meitt.

Ábyrgð manna á orðum sínum er jafn mikilvæg lýðræðinu og frelsi manna til þess að tjá hugsanir sínar. Að orða hugsanir sínar og tjá þær verður að nálgast með þeirri virðingu sem þessi réttindi eiga skilið, annað grefur ekki aðeins undan inntaki þeirra þýðingu heldur lýðræðinu sjálfu.

Orðræða getur verið af ýmsu tagi. Hún getur átt sér það markmið að lýsa samstöðu eða andstöðu við sjónarmið eða málstað, hún getur haft það að markmiði að kalla eftir upplýsingum, fá fram fleiri sjónarhorn og viðhorf en hún getur líka verið því marki brennd að slökkva á öllu þessu. Yfirleitt er síðari tegundin ad hominem – hún beinist að manninum en ekki málefninu; gerir lítið úr honum eða henni, veldur óþgægindum og leiða, jafnvel ótta. Skrif þar sem andstæðingurinn er nefndur oftar á nafn en málefnið sem til umræðu er, skrif sem gera því skóna að viðkomandi sé ekki sjálfráður gerða sinna, handbendi annarra; slík skrif eru iðulega af þessum toga. Þau eru ólýðræðisleg og kæfandi enda sett fram til að kæfa.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins hefur Ísland fengið athugasemdir og tilmæli um að við þurfum að gera betur í að sporna gegn hatursfullri umræðu. Er þar einkum nefnd fordómafull orðræða gegn útlendingum og eru íslensk stjórnvöld hvött til að grípa til aðgerða til þess að sporna gegn henni.

Fundurinn hér í dag er liður í að bregðast við þessum áskorunum, en einnig tilraun til þess að ná saman ólíkum aðilum til þess að fjalla um stöðuna eins og hún er – og ennþá frekar til að ræða hvernig hún má best vera.

Allt leiðir þetta hugann að því, að ekki verður allur vandi leystur með lögum. Né reglugerðum. Ef til vill trúum við of mikið á lög og reglur. Allar heilbrigðar manneskjur hafa meðfæddan og innra með sér siðferðisáttavita, sem vísar í rétta átt, burtséð frá lögum og stundum á móti lögunum. Siðferðisbrestur verður ekki lagaður með lagasetningu. Siðferðisleg áttavilla verður aðeins bætt með uppeldi. Gott siðferði er einsog ávöxtur sem þroskast með ræktun og umhyggju.

Gættu hugsana þinna, þær verða að orðum

Gættu orða þinna, þau verða gjörðir

Gættu gjörða þinna, þær verða að vana ...

Það eru ekki til nein lög um kurteisi. Ekki heldur gegn siðleysi. Eina leiðin til að berjast gegn siðleysi, mannvonsku og haturstali er að að tala gegn því. Það gerum við hér, því orð eru máttug, líka til góðs. Við trúum að kærleikurinn sé máttugri en hatrið.

Mér er mikil ánægja að fá að koma að þessum fundi í dag og hlakka til að heyra það sem hér mun koma fram. 

 

 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum