Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. júní 2012 DómsmálaráðuneytiðÖgmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2010

Ávarp á málþingi innanríkisráðuneytisins og Lagadeildar HÍ um skýrslutökur af börnum í sakamálum

Ávarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á málþingi innanríkisráðuneytisins og Lagadeildar HÍ, 7. júní 2012


Ágæta samkoma,

Ég vil byrja á að bjóða ykkur velkomin til þessa fundar sem innanríkisráðuneytið og lagadeild Háskóla Íslands halda í sameiningu. Með ráðuneytinu og lagadeild hefur tekist gott samstarf um að ræða meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu og er þessi fundur liður í því. Viðfangsefnið er vissulega afmarkað, en engu að síður mikilvægt í stóra samhenginu. Stóra samhengið er þetta: Á hverju ári koma upp hundruð kynferðisbrotamála á Íslandi. Þolendur eru oftast ungir og í skuggalega mörgum tilfellum börn. Tæplega 70% þeirra sem sóttu ráðgjöf hjá Stígamótum á síðasta ári voru börn þegar ofbeldi gegn þeim var framið, 70%.

Í þessu samhengi skulum við hafa hugfast að börn eru börn til 18 ára aldurs. Við fyrirtöku á framkvæmd Íslands á Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem fram fór í Genf í fyrra  spannst umræða um ólíka réttarvernd barna eftir því hvort þau eru yngri en fimmtán ára eða á aldrinum 15-18 ára. Voru viðraðar áhyggjur af því að sökum þess að samræðisaldur á Íslandi er 15 ár nytu börn á aldrinum 15-18 ára ekki nægilegar réttarverndar gagnvart kynferðislegu ofbeldi.

Við höfum hins vegar áréttað að þau njóti verndar, enda sé með öllu óheimilt að beita börn – eins og aðra – kynferðislegu ofbeldi þótt þau megi lögum samkvæmt stunda kynlíf. Milli kynlífs og ofbeldis sé skýr lína. Mörkin þar á milli þurfi að ræða, fremur en að gera kynlíf unglinga á aldrinum 15-18 ára ólöglegt.

En börn á aldrinum 15-18 ára njóta engu að síður ekki sömu réttarverndar og önnur börn. Verði þau fyrir kynferðislegu ofbeldi fá þau ekki aðgang að Barnahúsi og þeirri þjónustu sem þar er boðið upp á. Þeirri spurningu er varpað fram hér í dag hvort þessi munur sé réttlætanlegur. Ekkert bendir til þess að afleiðingar af ofbeldi séu á einhvern hátt vægari fyrir börn á þessum aldri en önnur börn, jafnvel þótt gerendur kunni að vera nær þeim sjálfum í aldri.

Hitt atriðið sem við tökum til umræðu hér í dag er reynslan af skýrslutökum í Barnahúsi.

Fyrir það fyrsta veltum við því upp hvort fyrsta skýrslutaka af barni eigi að fara fram fyrir dómi eða ekki. Þau sjónarmið vega þungt að barn eigi ekki að þurfa að endurtaka sögu sína oft á ólíkum stöðum í kerfinu. Þetta fyrirkomulag hefur þó ákveðna vankanta. Aðeins hluti þeirra mála þar sem skýrslutaka fer fram ratar inn á borð til dómstóla og skýrslutakan fyrir dómi er því til lítils gagns. Jafnramt hefur verið bent á að verjandi sakbornings hefur beinan aðgang að fyrstu skýrslutöku og getur upplýst sakborning um hvað þar fer fram. Þetta kann að torvelda sönnunarfærslu ákæruvaldsins.

Þegar Barnahúsi var komið á laggirnar árið 1999 voru ýmsar efasemdarraddir á lofti um að rétt væri að útbúa slíka sérlausn utan um meðferð kynferðisbrotamála þar sem börn eiga í hlut. Einkum lutu efasemdirnar að því að færa skýrslutökur úr dómsal og yfir í annað umhverfi. Fyrir vikið var dómurum í sjálfsvald sett hvort þeir nýttu sér Barnahús eður ei. Reyndin hefur hins vegar verið sú að allir héraðsdómar landsins hafa nýtt sér Barnahús, að undanskildum Héraðsdómi Reykjavíkur sem notar aðstöðuna afar sjaldan en tekur skýrslu af börnum í sérútbúnu herbergi í húsnæði dómstólsins.

Ég tel að reynslan hafi kennt okkur að Barnahús sé til góðs fyrir börn og að reglum réttarkerfisins sé með engu móti teflt í tvísýnu með því að láta skýrslutökur fara fram þar. Ég er mjög afdráttarlaust á þeirri skoðun að börn á Íslandi verði að sitja við sama borð í þessum efnum. Ég spyr: Er það virkilega svo að lagabreytingu þurfi til, til að tryggja slíkt jafnræði? Á fundum sem ég hef sótt í starfi mínu sem ráðherra dómsmála og mannréttinda hef ég margoft orðið var við hve mikillar virðingar Barnahús er aðnjótandi.

Sendinefndir gera sér ferð til Íslands til að skoða húsið og kynna sér starfsemi þess. Ég tel að við eigum að efla þessa starfsemi og hvet til þess að stjórnsýslan, stjórnmálin og réttarkerfið sameinist um það.

Ég bind vonir við þennan fund og hlakka til að hlýða á erindin og fylgjast með umræðunum.

 

                                                               Takk fyrir

 

 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum