Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. október 2012 DómsmálaráðuneytiðÖgmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2010

Ávarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á ráðstefnu um mannréttindasáttmála SÞ fyrir fatlað fólk 11. október

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á Allsherjarþinginu 13. desember 2006, en tók gildi 3. maí 2008. Ísland var eitt þeirra ríkja sem skrifaði undir sáttmálann þegar opnað var fyrir undirskriftir 30. mars 2007 og gerði það án fyrirvara við nokkurt ákvæði hans.

Með undirritun sinni tóku íslensk stjórnvöld fyrsta skrefið að fullgildingu sáttmálans, sem fer fram í tveimur þrepum; undirritun og fullgildingu. Með þessari aðferð gefst ríkjum ráðrúm til þess að undirbúa og aðlaga regluverk ríkisins að ákvæðum sáttmálans og tryggja að til þess bærar einingar samfélagsins samþykki ráðstöfunina. Með undirritun skuldbinda stjórnvöld sig til þess að brjóta ekki í bága við ákvæði sáttmálans, heldur vinna regluverk og framkvæmd í átt að ákvæðum hans og kröfum. Fyrst eftir að sú vinna hefur átt sér stað á heimavelli kemur að þætti fullgildingarinnar. Ég lýsi þessu til þess að leggja áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld taki skuldbindingar sínar á grundvelli alþjóðlegra samninga alvarlega. Raunveruleg réttarbót á grundvelli slíkra samninga er að breytingar verði á landslögum, framkvæmd og viðhorfum heima fyrir. Það er verk sem tekur tíma og krefst sameiginlegs átaks fjölmargra aðila í samfélaginu. Svo er í hvert sinn sem Ísland undirgengst mannréttindaskuldbindingar á alþjóðlegum vettvangi.

Í þessu ferli hafa aðskiljanlegir aðilar mismunandi hlutverk. Þótt takmark allra hlutaðeigandi sé eitt og hið sama er ekkert óeðlilegt við togstreitu þeirra í millum í ferlinu. Stjórnvöld bera ábyrgð á breytingum á lögum og regluverki. Þau eiga ekki að undirgangast neinar skuldbindingar nema hugur fylgi máli, nema orð og athöfn fylgist að því mannréttindaskuldbindingar mega aldrei verða orðin tóm. Að þessu leyti mega stjórnvöld ekki fara fram úr sjálfum sér heldur vera sjálfum sér samkvæm þótt það taki tíma. En stjórnvöldin mega þó ekki gerast værukær og þar koma hagsmuna- og baráttusamtök eins og Öryrkjabandalagið til sögunnar.  Þau gegna mikilvægu hlutverki. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka ÖBÍ og vil ég nefna formann bandalagsins, Guðmund Magnússon, sérstaklega, fyrir gott samstarf sem einmitt er fólgið í jákvæðu og uppbyggilegu aðhaldi og eftirrekstri. Það er mikilvægt að geta unnið saman að breytingum í samfélaginu, eins og við eru tvímælalaust að gera á þessu sviði. Framkvæmdavaldið vill ekki fara hraðar en svo að ekki verði lofað upp í ermina, Öryrkjabandalaginu liggur hins vegar á því mannréttindi þoli enga bið. Biðin sé aldrei réttlætanleg. Í þessu tvennu er sú togstreyta fólgin sem knýr okkur áfram. Framþróun verður ekki í þöglu og stöðnuðu umhverfi.

Sú ríkisstjórn sem nú situr í landinu hefur hafið vegferðina við fullgildingu sáttmálans. Vinnan er byrjuð. Alþingi samþykkti síðastliðið vor tillögu velferðarráðherra að framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks, og á grundvelli hennar hefur innanríkisráðuneytinu formlega verið falið það vandasama verk að halda utan um innleiðingarvinnuna. Áfangasigrar hafa náðst og mikilvæg skref hafa þegar verið tekin. Árið 2010 skilað nefnd undir forystu Helga Hjörvars alþingismanns skýrslu með tillögum að aðgerðum svo fullgilda mætti sáttmálann og hafa þær nýst vel. Dæmi um úrbætur í formi lagabreytinga árið 2011 má nefna:

  •  Ný lög um réttindagæslu fatlaðs fólks og
  • Viðurkenningu íslenska táknmálsins með lögum
  • Árið 2010 höfðu verið sett lög um mannvirki og gefin út ný byggingarreglugerð sem taka mið af algildri hönnun með hliðsjón af ákvæðum sáttmálans um aðgengi fatlaðs fólks.
  • Aðgengi að opinberum vefjum hefur verið stórbætt, og ráðist hefur verið í átaksverkefni sem ætlað er að bæta meðal annars aðgengi fatlaðra, rafræna þjónustu og lýðræðislega virkni á vefjum opinberra stofnana og sveitarfélaga. Í þessu skyni hefur ríkisstjórnin samþykkt ný aðgengisviðmið fyrir opinbera vefi til þess að bæta aðgengi að þeim, m.a. fyrir blinda, sjónskerta og aðra sem þurfa að nota hjálpartæki við lestur efnis og notkun vefja almennt, en að auki er nú unnið að uppsetningu nýrrar vefþulu sem Blindafélagið hefur þróað á vef innanríkisráðuneytisins.
  • Í upphafi þingvetrar lagði ég svo fram frumvarp til breytinga á kosningalögum til þess að tryggja að framkvæmd kosninga yrði í samræmi við 29. gr. sáttmálans. Þar er gert ráð fyrir að einstaklingur sem ekki getur hjálparlaust greitt atkvæði í kosningum ráði því sjálfur á hvern hátt honum er veitt aðstoð.

En þó að margt hafi áunnist á starfstíma ríkisstjórnarinnar bíður annað. Og það verður að segjast eins og er að því fer fjarri að við höfum staðið okkur vel á á sumum sviðum en góðir hlutir eru að gerast. Á fundi sínum síðastliðinn þriðjudaginn samþykkti ríkisstjórnin að veita 10 milljónum króna til að klára þau verk sem útaf standa svo að fullgilda megi sáttmálann. Skipuð verður samstarfsnefnd ráðuneyta um að undirbúa fullgildingu sáttmálans og öll ráðuneyti munu yfirfara löggjöf á sínu málefnasviði og leggja til breytingar til samræmis við ákvæði sáttmálans. Öll ráðuneyti  koma að vinnunni, enda varða hagsmunir fatlaðs fólks alla þætti samfélagsins.

Í þessari vinnu eru stór atriði sem þarf að skoða bæði lög og framkvæmd. Við viljum vanda okkur svo að réttaráhrif sáttmálans verði raunveruleg. Við viljum ekki segjast gera eitthvað sem síðan reynist innihaldslaust eða hefur ekki tilætluð áhrif.

Skýrslur frá Evrópuráðinu og Sameinuðu þjóðunum segja okkur að tiltekin ákvæði sáttmálans hafi reynst vandasöm í framkvæmd hjá aðildarríkjum. Við þurfum að nýta tækifærið og læra af reynslu annarra og nýta okkur á jákvæðan hátt þau mistök sem kunna að hafa verið gerð annars staðar við innleiðinguna til þess að falla ekki sömu gryfjur og aðrir hafa hrapað í.

Á þessu málþingi í dag fjöllum við um tvær greinar Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Annars vegar um þann hluta 4. gr. þar sem fjallað er um hlutverk hagsmunahópa og hins vegar um 33. gr. þar sem fjallað er um samhæfingu stjórnsýslunnar og sjálfstæðan eftirlitsaðila.

Í síðstu viku stóð innanríkisráðuneytið fyrir opnum fundi um hvort setja eigi á laggirnar sjálfstæða mannréttindastofnun á Íslandi. Við höfum fengið hvatningu á grundvelli allra samninga sem Ísland er aðili að hjá Sþ til þess að koma á fót slíkri stofnun, frá mannréttindafulltrúa SÞ og mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins.

Eins og sérfræðingar fjölluðu um á þeirri málstofu hefur áhersla á slíkar stofnanir fengið síaukið vægi í alþjóðlegri umræðu.

Við erum nú að skoða þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir staðráðin í því að verða við þeim og þannig að markmiðin sem að er stefnt náist. Þar er að ýmsu að hyggja. Smátt samfélag kann að leita annarra lausna en stórt. Við þurfum að hyggja að samlegðaráhrifum og því hvernig fjármunir nýtist sem best. Í mínum huga er stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar ekki spurning um hvort heldur hvenær hún verður að veruleika því eitt er víst að við verðum og viljum axla skyldur okkar á grundvelli 33. gr. sáttmálans um eftirlit. Á markvissan og ígrundaðan hátt þurfum við að komast að niðurstöðu. Að því er nú stefnt. Erindi og umræður hér í dag verða mikilvægt innlegg í þá vinnu.
Ég hlakka til að fylgjast með umræðunni. Þurfi ég að bregða mér frá er það til að taka þátt í umræðu og atkvæðagreiðslu á Alþingi um lagabreytingar um réttindi í kjörklefanum sem ég áður hef nefnt. Þar þarf fundarstjórinn hugsanlega einnig að verða afsakuður en hann hefur aldrei látið sig vanta þegar á hefur þurft að halda í réttindabaráttu fatlaðs fólks.

Ég óska okkur öllum til hamingju með þetta málþing. Það er vitnisburður um þann ásetning okkar að halda fram á við í réttindabaráttunni ekki aðeins fyrir fatlað fólk heldur samfélagið í heild sinni. Vilji samfélag kalla sig mannréttindasamfélag þá þarf það að sýna í orði og verki að svo sé í raun.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum