Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. nóvember 2012 DómsmálaráðuneytiðÖgmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2010

Ávarp innanríkisráðherra á ráðstefnunni lýðræði á 21. öld 10. nóvember

Valdið til fólksins  – power to the people. Valdið á að fara til fólksins, ekki vegna þess að það sé skynsamlegt - ekki vegna þess að við treystum fólki. Ekki vegna þess að við treystum fólki  til að taka skynsamlegar ákvarðanir – ekki vegna þess að VIÐ höfum ákveðið að þannig eigi það að vera.
Nei, valdið á að vera hjá fólkinu vegna þess að þar á valdið heima.
Það er réttur.
Það er grundvallarréttur hvers og eins að ráða sínu lífi að því marki að hann eða hún skaði ekki aðra; valdi ekki öðrum tjóni. Þetta voru heimspekingar 19. aldar, menn á borð við John Stuart Mill, búnir að koma auga á. Rauður þráður anarkismans var einnig af þessum toga, snerist um rétt einstaklingsins og réttleysi yfirvalds. Þriðji þátturinn, sem ég tel veigamikinn í mótun lýðræðis- og velferðarþjóðfélags tuttugustu aldarinnar, er svo sósíalisminn, jafnaðar- og samvinnuhugsjónin.

Samvinna – að vinna saman – krefst samhæfingar, sameiginlegrar ákvarðanatöku.
Lýðræðishugsun 20. aldarinnar byggði á fulltrúalýðræði. Það hlaut hún að gera af ýmsum ástæðum. Sú veigamesta var tæknileg. Erfiðleikum var háð að kalla fólk að kjörborði til ákvarðanatöku um brennandi mál. Það var tímafrekt og kostnaðarsamt. Þess vegna kaus fólk fulltrúa til að fara með vald sitt á fulltrúasamkomum – í sveitarstjórnum eða á þjóðþingum.

Og það eru einmitt þessir fulltrúar sem stundum heyrast segja að þeir treysti fólkinu eða eftir atvikum að þeir treysti ekki fólkinu til að fara með valdið. Í rauninni ætti engu máli að skipta hvað þeim finnst. En það er hins vegar umhugsunarvert að svo öfugsnúnir geta hlutirnir orðið að fulltrúarnir verða svo stórir upp á sig að þeir telji sig ekki lengur vera fulltrúa annarra – verkamenn fólksins – heldur sjálf uppspretta valdsins, þess umkomnir að veita almenningi einkunnagjöf um hæfi eða vanhæfi til ákvarðanatöku um eigið líf.
Nú er hins vegar runnin upp ný öld. Öld hins beina lýðræðis. Það er verkefni okkar að gera það að veruleika.
Þetta er önnur ráðstefnan sem við efnum til hér í þessu húsi um nákvæmlega þetta efni. Á fyrri ráðstefnunni sem haldin var í fyrra horfðum við sérstaklega til svissneska módelsins sem lýðræðisfrömuðurinn Bruno Kaufmann kynnti okkur. Á þeirri ráðstefnu var einnig fjallað um nándarlýðræði, hverfa- og svæðalýðræði.
Þá var einnig komið inn á íbúalýðræði af þeirri gerð sem kynnt verður á þessari ráðstefnu af gestum okkar frá New York – fjárhagsáætlunargerð með þátttöku íbúanna en að þessu sinni verður farið dýpra í þær aðferðir sem eru að ryðja sér til rúms í þessum efnum.
Á ráðstefnunni í dag er sjónum einnig beint að barna- og ungmennalýðræði – mikilvægi þess að hlustað sé á börn og ungmenni og tekið mark á þeim. Lýðræðið – lýðræðisleg hugsun, er uppeldislegt atriði og alist börn upp í lýðræðislegri hugsun og þjálfun eru mun meiri líkur á því að samfélagið geti orðið lýðræðislegt í reynd.
Á Íslandi eru allar forsendur fyrir því að nýta tæknina í þágu opinnar gagnsærrar stjórnsýslu og lýðræðis. Þannig býður Internetið upp á meiri og skjótari upplýsingar til íbúanna og má hæglega nýta það á gagnvirkan máta til þess að hafa íbúana með í ráðum við ákvarðanatöku. 
Það er athyglisvert að þegar litið er til fjarskiptainnviða, tölvueignar, aðgengis að Interneti og tölvulæsis eru Íslendingar í hópi fremstu þjóða heims – ef marka má alþjóðlegar kannanir sem gerðar eru reglulega.
Eins má segja að þjóðin sjálf sé í hópi fremstu þjóða varðandi upplýsingatæknina því hún er tilbúin til að nota hana sér til gagns og gamans. Alþjóðlegar kannanir sýna, svo ekki verður um villst, að Íslendingar eru í hópi þeirra þjóða sem nota mest þá þjónustu sem er í boði á Netinu, hvort sem um er að ræða þjónustu opinberra aðila eða fyrirtækja. Sem dæmi má nefna að netnotendur hafa undanfarin ár mælst flestir á Íslandi og Noregi af öllum ríkjum innan hins Evrópska efnahagssvæðis.
Annað er svo uppi á teningnum þegar litið er á framboð á þjónustu á Netinu. Í könnunum sem gerðar hafa verið á síðustu árum hefur komið í ljós að á Íslandi er framboð á opinberri Netþjónustu með því minnsta sem gerist í Evrópu. Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar gert kannanir sem snúa beint að umræðuefni dagsins í dag því þær hafa mótað svokallaða rafræna þátttökuvísitölu. Á árinu 2010 var Ísland í 135. sæti meðal þjóða heims í slíkri könnun en í  könnuninni 2012 hafði staðan batnað nokkuð því þá var Ísland í 84. sæti af 193. Á svipuðum stað eru Burkina Faso, Paraguay, Suður Afríka, Úkraína og Andorra.
Fimm efstu eru Holland, Lýðveldið Kórea, Kazakhstan, Singapore og Bretland.
Hér er verið að mæla gagnkvæm (tvíhliða) samskipti opinberra aðila við almenning og hagsmunaaðila á Netinu. Undir þetta fellur því notkun samfélagsmiðla, rafrænar viðhorfskannanir, kosningar, möguleikar til að tjá sig um málefni áður en ákvörðun er tekin í stefnumótunarferli, lagagerð o.fl.
Séu allar framangreindar upplýsingar skoðaðar í samhengi má sjá að þjóðin er tilbúin til að nýta tæknina í samskiptum við opinbera aðila og innviðirnir eru að nokkru til staðar en stofnanir ríkis og sveitarfélaga sitja eftir og nýta ekki tæknina sem skyldi – nýta ekki þau tækifæri sem við blasa.
Úr þessu þarf augljóslega að bæta þó ekki væri nema til að ná aukinni hagræðingu fyrir almenning og hið opinbera. Ég vil þó segja að úrbætur eru enn nauðsynlegri og brýnni vegna þess að tækifæri til að auka möguleika almennings til lýðræðislegrar þátttöku eru vannýtt.
Hér þarf hið opinbera að líta gagnrýnið í eigin barm. Þó þurfum við að forðast að gerast of alhæfingarsöm. Á vegum ríkisins hefur margt vel verið gert og má að nokkru leyti kenna hruninu um hve lítið hefur hreyfst á allra síðustu árum. En mig langar í þessu samhengi til að hrósa Reykjavíkurborg fyrir framsýni á þessu sviði en margt er til fyrirmyndar hjá borginni og hefur á vegum hennar verið unnið ákveðið frumkvöðlastarf hvað varðar rafrænar kosningar og á sviði lýðræðislegs samráðs, allt kennt við „Betri Reykjavík" .
Og ekki ætla ég að gerast svo hógvær að ég nefni ekki okkar hlut hjá Innanríkisráðuneytinu og í því samhengi sérstakt átak sem vð höfum efnt til í því skyni að örva lýðræðisþróunina en þessi rástefna er liður í því átaki. Vil ég einnig nefna sérstaklega nýtt lagafrumvarp sniðið að rafrænni tilraunakosningu í sveitarfélögum. Þá leggjum við mikið kapp á að auka rafræna þjónustu sem aftur á að auka upplýsingastreymi og gagnsæi.
En hvað sjálfsgagnrýnina áhrærir þá á hún almennt við um hið opinbera. Við þurfum að stíga markvissari skref. Danir, svo dæmi sé tekið, hafa einsett sér að hafa alla opinbera þjónustu i rafrænu formi á árinu 2015. Þarna eru þeir langt á undan okkur. Þó eru til þau svið  hjá okkur sem eru í góðu lagi hvað varðar nýtingu á rafrænni tækni og nefni ég þar Vegagerðina sem nýtir sér tæknina vel í þjónustu við landsmenn og til að greiða fyrir framkvæmdum og fylgjast með framgangi þeirra.
Tæknin er eitt. Viðhorfin eru svo annað. Það hefur verið ljót lenska hjá alltof mörgum þjónustuaðilum og utanumhöldurum að veita lágmarksupplýsingar, helst eins litlar og kostur er. Þessu þarf að snúa við. Opinberir aðilar eiga beinlínis að brenna í skinninu að koma upplýsingum og þjónustu á framfæri – ávallt til þjónustu reiðbúnir.
Allar þær upplýsingar sem hið opinbera býr yfir, öll skjöl og gögn eiga að verða aðgengileg nema nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Það á að heyra sögunni til að toga þurfi upplýsingar upp á kerfinu.
Síðan er það tregðan að gefa frá sér valdið. Hvorki var ég sáttur við afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga né meirihluta Alþingis þegar þessir aðilar sameinuðust um að þrengja lýðræðistillögur sem ég hafði sett fram í frumvarpi um sveitarstjórnarlög síðastliðið haust.
Við atkvæðagreiðslu um frumvarpið á þingi kom fram breytingartillaga um að þrengja möguleika fólks til að kalla eftir almennri atkvæðagreiðslu.
Í atkvæðaskýringu við þetta tækifæri sagði ég eftirfarandi: „Eins og fram hefur komið við umræðuna þá er ég mjög andvígur þessari breytingatillögu. Sveitarstjórnarlög eru sett sem lagarammi fyrir sveitarstjórnarstigið. Þar á af sanngirni að gæta hagsmuna þeirra sem fara með stjórnina í sveitarfélögum og hinna sem lúta stjórn. Einn mikilvægasti þáttur þessa frumvarps er lýðræðisþátturinn og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fimmtungur kjósenda í sveitarfélögi geti krafist almennrar atkvæðagreiðslu um það sem hugur þeirra stendur til. Núna ætla þeir sem eru stjórnunarmegin í tilverunni að þrengja lýðræðisþáttinn, hækka þröskuldinn til að krefjast atkvæðagreiðslu og þrengja málefnasviðið. Þetta er gert þrátt fyrir það að niðurstaða í atkvæðagreiðslu er ekki bindandi, nokkuð sem hefur verið gagnrýnt hér mjög mikið. Þetta er atkvæðagreiðsla um lýðræði annars vegar og fulltrúavald hins vegar. Ég segi nei og hvet alla til að segja nei og styrkja lýðræðisþróun í landinu.“
Í atkvæðagreiðlsunni urðu þessi sjónarmið undir einsog áður er vikið að.
Fulltrúalýðræðið vildi með öðrum orðum ekki gefa frá sér valdið. Ég sagði í upphafi að það ætti ekki að skipta máli hvað fulltrúunum fyndist um spurningu dagsins um hvort valdið ætti að ganga til fólksins. Sjálfir væru þeir ekki uppspretta valdsins heldur handhafar þess og til tiltekinna afmarkaðra verkefna.  
En staðreyndin er vitanlega sú að fulltrúalúðræðið hefur tögl og hagldir eins og dæmin sanna.
Í  rauninni er ekkert undarlegt að stofnanakerfi stjórnmálanna skuli vera efins um beint lýðræði. Ástæðan er sú að margir stjórnmálamenn líta á beint lýðræði sem ógn við tilveru sína. Beint lýðræði komi til með að fækka þeim viðfangsefnum og ákvörðunum sem þeir eru nú einir um. Síðan er það að sjálfsögðu hitt að krafan um almenna atkvæðagreiðslu er oftar en ekki sett fram vegna óánægju með ákvarðanir eða ákvarðanaleysi stjórnmálamanna. Krafan um almenna atkvæðagreiðslu verður þannig auðveldlega skilin af þeirra hálfu sem vantraust á þá og án efa er oft nokkuð til í því.
Þetta skýrir hvers vegna margir stjórnmálamenn tala beint lýðræði niður og telja það jafnvel veikja samfélagið. Dæmin tala hins vegar skýru máli um hið gagnstæða. Jafnan þegar lýðræðið verður virkt og lifandi, leita menn þekkingar til að grundvalla skoðanir sínar á. Í umræðunni sem fram fer má jafnan sjá sterkar vísbendingar um að ákvarðanir sem grundvallast á þekkingu og ákvarðanir sem grundvallast á lýðræði stangast ekki á. Þvert á móti, þegar þetta tvennt kemur saman verður til uppbyggjandi afl, og fyrir vikið verður samfélagið allt og öflugra.
Dæmi um þessa nálgun er aðferð sem kennd er við borgina Porto Alegre í Brasilíu og hefur gefist vel víða um heim og byggir á miðlun upplýsinga, víðtæku samráði, rökræðum íbúanna og lýðræðislegri ákvörðunartöku.
Ég andmæli þeirri skoðun sem stundum er haldið á loft að lýðræði í of stórum skömmtum leiði til ranglætis og bendi á að ástæðuna fyrir félagslegu ranglæti, hvort sem er í Sviss eða einstökum fylkjum Bandaríkjanna þar sem beint lýðræði tíðkast, tel ég vera aðra en beina ákvarðanatöku almennings. Ég tel að hún hafi meira með stöðu þjóðfélagsmála almennt að gera, óháð formlegu lýðræðislegu valdi. Skýringuna er að finna í viðhorfum í þjóðfélaginu, tíðarandanum. Ef hann er ekki innstilltur til varnar velferðinni þá mun velferðin eiga erfitt uppdráttar hvort sem er í almennri atkvæðagreiðslu eða í fulltrúalýðræði. Og besta ráðið til að breyta tíðarandanum – viðhorfunum í samfélaginu er rökræða í aðdraganda lýðræðislegrar ákvarðanatöku.
Ein er sú kenning sem þingræðissinnar hafa hampað mjög, en hún er sú að almenningi sé ekki treystandi til að kjósa um fjárhagsleg málefni og þá allra síst skatta. Þetta er auðvitað fyrirsláttur þeirra sem vilja að valdið sé hjá elítunni en ekki hjá almenningi, sem til hátíðabrigða er nefndur sauðsvartur almúginn. Þetta hefur oft verið afsannað og er eitt frægasta dæmið þegar Svisslendingar ákváðu að leggja sérstakan skatt á sjálfa sig árið 1992 til að fjármagna Gotthard göngin, sem liggja í gegnum sjálf Alpafjöllin. Göngin verða tilbúin
árið 2017 og verða þá að fullu greidd.
Annað dæmi, aðeins 5 daga gamalt, er atkvæðagreiðsla í Kaliforníu þar sem meirhluti íbúa ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu að hækka skatta, og skyldi sú skattahækkun renna til þess að efla menntakerfið. Almenningur veit hvað hann syngur. Og svo geta þingræðissinnar haldið
áfram í það óendanlega að vantreysta almenningi, en þó ekki meir en almenningur vantreystir þingræðinu, því það er í kringum 90%.

Það kom skýrt fram þjóðaratkvæðagreiðslunni nú nýlega  um tillögur Stjórnlagaráðs að íbúarnir vilja í auknum mæli taka þátt í ákvarðanatöku um mál sem þá varðar.
Að þeir láti ekki gott heita að kjósa á fjögurra ára fresti heldur vilji hafa dagleg áhrif ef svo ber undir og taka þátt í mikilvægum ákvörðunum.
Öll kerfi eiga sinn líftíma og engin mannvirki eru eilíf. Woodrow Wilson, forseti Bandaríkjanna, sagði fyrir hundrað árum síðan að ríkisstjórnarvaldið, sem ætti að vera í höndum almennings hefði lent í höndum stjórnmálaelítunnar sem aftur væru strengjabrúður sérhagsmunaafla. Það væri einsog reist hefði verið ósýnilegt baktjald aftan við hið sýnilega lýðræði, þar sem öllum ráðum er ráðið.
Þetta var sagt fyrir 100 árum. Og ekki hefur það batnað.
Jón Sigurðsson forseti sagði: "Alþingi er fyrir fólkið, ekki höfðingjana." Þá voru 9 dagleiðir frá Lagarfljóti í Suður-Múlasýslu til Reykjavíkur segir í Ísafold árið 1890 og ritstjóri tekur fram að þetta sé "raunar alls engum manni hin minnsta vorkunn að fara einhesta, og hafa hestinn alveg jafngóðan eftir sem áður".
Við erum sem sagt enn að notast við aðferðir einsog þær sem tíðkuðust 1890 í lýðræðismálum, þegar blöð bárust á mánaðarfresti og póstur litlu oftar. Nú tekur hins vegar einn dag að senda bréf, tæpan klukkurtíma að fljúga frá Egilsstöðum og eina sekúndu að senda tölvupóst. Svo ekki sé minnst á síma og sjónvarp. Og öll þróun hefur orðið einsog að sitja í hraðfara sportbíl nema hvað stjórnarfarið varðar. Þar endaði malbikið snemma og nú hafa allir atvinnuhættir, menntun og samskiptatækni farið svo langt fram úr þróun stjórnarhátta að þingræðiskerfið einsog við þekkjum það er löngu sprungið. Stór ágreiningsmál sem verða aðeins leyst í þjóðaratkvæðisgreiðslu hrannast upp og um þau næst engin sátt og á meðan stór mál halda áfram að vera óleyst, eykst spennan í þjóðfélaginu og allt stjórnmálastarf ónýtist og koðnar niður. Lukkuriddarar ríða um héruð og hafa hátt. Harðstjórar fá tækifæri og grípa þau.

Það er kominn tími til að setja lýðræði á oddinn, koma þingræðinu fyrir á Þjóðminjasafninu og setja í stjórnarskrá ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Til þess þarf einfaldan þingmeirihluta í tvígang og gæti verið komið í lög á næsta ári. Það eru engin rök sem mæla gegn þessu, engin tæknileg vandkvæði, engin veður eða óvegir sem hamla þessari lausn. Enginn vill mæla gegn þessum þörfu framförum en margir eru til að tefja.

Einsog John Lennon sagði

Say you want a revolution
We better get on right away

Við biðjum um byltingu
og brunum af stað

Power to the people!

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum