Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. maí 2017 DómsmálaráðuneytiðSigríður Á. Andersen 2016-2017

Frelsi til að tjá sig - grein í Morgunblaðinu 21. maí​

Ég var spurð að því í vikunni á alþingi hver afstaða mín væri til þess að breyta ákvæðum hegningarlaga er lúta að ærumeiðingum. Í dag er kveðið á um sektir eða fangelsi allt að 1-2 árum vegna ærumeiðinga, móðgana eða aðdróttana hvers konar. Flest ærumeiðingabrot njóta þeirrar sérstöðu umfram önnur hegningarlagabrot að ekki verður ákært í þeim nema sá sem telur brotið á sér óski sérstaklega eftir því. Meiðyrðamál eru þannig einkarefsimál. Sérstaða þessara mála er þó einnig önnur og veigameiri. Mat á því hvort brotið hafi verið gegn æru manns er snúnara heldur en mat á því til dæmis hvort maður hafi orðið fyrir líkamsárás.

Það er alveg ljóst að æra manna nýtur réttarverndar og hefur gert frá fornu fari. Bæði stjórnarskrá og mannréttindasáttmálar sem Ísland hefur skuldbundið sig til að fylgja mæla svo fyrir. Mannorð manns er hluti af sjálfsmynd og persónuleika sem vissulega er hluti af því einkalífi sem hver maður á rétt á. En í hverju felst æra manns? Er ekki mannorð manns í raun bara álit annarra á viðkomandi manni? Á maður rétt á að menn hafi tiltekna skoðun á viðkomandi? Nei. Menn mega sem betur fer hafa þær skoðanir á mönnum og málefnum sem þeir vilja. Hugsanalögreglan hefur ekki (enn) verið stofnuð. En þegar kemur að því að segja hug sinn þá eru mönnum nokkur takmörk sett með áðurnefndum ákvæðum laga. Á þau mörk hefur einkum reynt við umfjöllun fjölmiðla um þjóðþekkta einstaklinga og aðra sem gegna stöðum sem fjölmiðlar hafa metið að varði almenning einhverju.

Þeir sem sakaðir eru um ærumeiðingar tefla fram tjáningarfrelsinu sem líkt og mannorðið er einnig varið af stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Það má þó segja að tjáningarfrelsið sé skör lægra sett því í stjórnarskrá er gert ráð fyrir þeim möguleika að tjáningarfrelsi eins sé skert með lögum vegna mannorðs annars. En þá þarf slík skerðing að samrýmast lýðræðishefðum og vera nauðsynleg. Meðalhófið vegur þungt hér eins og svo oft. Nokkrir dómar hafa fallið hér á landi sem hafa skert tjáningarfrelsi með vísan til æru manna. Sektir eða fangelsi heyra þó sögunni til enda fáheyrt að dómkrafa sé um um slíkt. Undanfarið hefur Mannréttindadómstóll Evrópu gert athugasemdir við þessa dóma og vísað til þess að meðalhófs hafi ekki verið gætt við túlkun lagaákvæða um ærumeiðingar. Undir það má taka. En það er líka ástæða til þess að endurskoða lagaákvæðin þótt dómar hafi ekki fundið að þeim. Það kann hins vegar að vera ofmat á lögum að ætla þeim að tryggja háttvísi í orðræðu.

Það er full ástæða til standa vörð um tjáningarfrelsið án þess þó að missa sjónar á friðhelgi einkalífsins sem felst í mannorðinu en minnug þess að tjáningarfrelsið nær til viðtekinna skoðanna sem annarra.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 21. maí 2017.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum