Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. júní 2017 DómsmálaráðuneytiðSigríður Á. Andersen 2016-2017

Ávarp dómsmálaráðherra á prestastefnu í Wittemberg 6. júní

Biskupinn yfir Íslandi frú Agnes Sigurðardóttir, Regionalbischof dr. Johann Schneider, vígslubiskupar, prestar, góðir gestir.

Það er ánægjulegt að fá að taka þátt í setningu prestastefnu, sem nú er haldin utan Íslands. Það leiðir af sjálfu sér, að ekki er ráðist í að flytja prestastefnu úr landi nema af verulegu tilefni. Og tilefnið er ærið, á því ári þegar þess er minnst að 500 ár eru liðin frá þeim atburði sem talinn er marka upphaf siðbótarinnar. Það er ekki nema sjálfsagt að íslensk kirkja og íslenskir prestar hugsi til siðbótarinnar, svo miklu máli sem hún skiptir í þeim grunni sem kirkjan stendur á og getur ekki án verið.

Hér í þessari fallegu og sögufrægu borg Wittenberg á siðbótin rætur sínar. Hér festi Marteinn Lúther upp hið afdrifaríka skjal á dyr Hallarkirkjunnar og kom þar með á framfæri í 95 greinum kenningum sínum um kristna trú. En hér á þessum slóðum rifjum við líka upp upphaf prentlistarinnar í Evrópu sem leiddi af starfi Gutenbergs. Þar var lagður annar grundvöllur sem varð til þess að við Íslendingar fengum aðgang að bókum og ritum og þar átti kirkjan – biskupar, prestar og forráðamenn hennar – ekki minnstan hlut með forgöngu sinni um að fá prentiðnina til Íslands. Hér á þessum slóðum fléttast þannig saman ævistarf tveggja frumkvöðla sem leiddi af sér breytingar sem höfðu áhrif á kirkjusöguna, iðnsöguna, Evrópusöguna og mannkynssöguna þegar við horfum á þessa þróun í stóru samhengi og ekki síður áhrif á einstaklinga sem lifðu þessa byltingu sjálfir fyrir 500 árum og kynslóðanna sem á eftir komu.

Um siðbótina hefur æði mikið verið sagt og ritað, svo sem nærri má geta þegar horft er til þýðingar hennar í sögunni. Á þeim tímum þar sem einfaldar skýringar eru í hávegum hafðar, ekki síst ef þær eru bornar fram með alvörusvip og hæfilegum þótta, er auðvelt að skýra siðbótina með því að benda á spillingu innan kaþólsku kirkjunnar og deilur innan hennar um auð og embætti. En sú einfalda skýring nægir ekki þeim sem vill skilja siðbótina, sér til gagns. Þar skiptir fleira miklu máli.

Ástand kirkjunnar, þegar leið að siðbót, var á margan hátt dæmi um það sem gerist þegar kirkja verður viðskila við mikilvæg atriði í grunni sínum og rótum. Þannig hefur ástandi kirkjunnar í upphafi sextándu aldar verið lýst þannig, að það hafi einfaldlega verið alvarlegt einkenni þess sjúkdóms kirkjunnar sem falist hafi í fráhvarfi frá þeim grundvallarhugmyndum sem gera kristindóminn ólíkan öllum öðrum trúarbrögðum, og í því að kirkjan hafi gleymt fyrir hvað hún stóð og hvað í raun felist í kristindóminum.

Kristinn maður er frjálsastur allra, en jafnframt bundnastur allra, er haft eftir Lúther. Einstaklingnum stendur til boða þetta algera frelsi að standa einn og milliliðalaust gagnvart Guði, en er jafnframt bundin gagnvart kærleikanum, fagnaðarerindinu og öðrum mönnum, meðbræðrum sínum.

Hér kann að vera kjarninn í frjálslyndisstefnu lúterstrúar – og um leið hinnar evangelisku lútersku kirkju sem hefur verið í fararbroddi fyrir margvíslegum umbótum allar götur síðar. Kirkju sem hefur sem slík verið í forgöngu fyrir margvíslegar umbætur í mannréttindamálum. Frjáls en jafnframt bundin – kærleikanum og manngildinu.

Samkvæmt Lúther var Guðsorðið fagnaðarerindi, en ekki lögmál eða regluverk sem færa á sjálfkrafa vald til stofnana, hópa eða einstaklinga. Einstaklingarnir saman eru samfélagið – kirkjan.

Lúther var mótmælandi, mótmælti stöðnuðu og íhaldssömu kerfi en þurfti að gjalda fyrir það. Eðlilega snerist kaþólska kirkjan til varnar. Hún vildi ekki að neinn drægi í efa vald hennar, áhrifamátt eða óskeikulleika. Kirkjan og páfinn höfðu valdið og máttinn sín megin og það var háskalegt að hreyfa við þessum grunni.

En hreyfingin var farin af stað – það var ekki aftur snúið og stuðningur breiddist út. Fyrir það erum við, sem hér erum saman komin í dag, þakklát. Við fögnum í vöggu siðbótarinnar og hér er sagan sem lætur engan ósnortinn.

Þetta er sú hugmyndafærði sem vestræn samfélög byggja á – lýðræðisleg þjóðfélög þar sem borin er rík virðing fyrir frelsi einstaklingsins en um leið skyldur hans gagnvart náunganum - mannréttindum. Það er notalegt að tilheyra þeirri hugmyndafræði sem var mörkuð hér í Wittenberg fyrir 500 árum.

Góðir áheyrendur.

Einhverjum kann að þykja undarlegt að dómsmálaráðherra fái orðið við setningu prestastefnu. En dómsmál og kirkjumál hafa lengi fylgst að innan íslenska stjórnarráðsins, þótt kirkjumálin hafi í tilefni af bankahruni horfið úr nafni ráðuneytisins. En mörg eru þau hugtökin sem við þekkjum bæði af vettvangi dómssalanna og kirkjunnar. Réttlætið er eitt. Margir treysta á dómskerfið til að ná fram réttlæti, og ef ekki réttlæti þá að minnsta kosti maklegum málagjöldum þeirra sem þau eigi skilið. En þegar réttarkerfið útdeilir maklegum málagjöldum hugsar það fyrst og fremst um gjörðir hvers og eins. Ef ég man refsiréttinn minn rétt þá má hugur manns vera fullur af glæpsamlegu ráðabruggi daginn út og inn, en það er honum refsilaust svo lengi sem hann kemur engu í verk. Í lögfræðinni hefur sá maður réttinn sín megin sem fylgir reglunum, og iðulega því frekar sem nákvæmnin og smásmyglin í breytninni er meiri. En kristindómurinn horfir aðeins öðruvísi á málin. Þar er líka horft til sálarinnar, sem enn hefur ekki orðið lögpersóna. Sé sálin ekki á réttu róli kemur fyrir lítið þótt athafnir mannsins séu lofsamlegar í augum annarra. „Réttlættir af trú, höfum við því frið við Guð, sakir Drottins vors Jesú Krists“, skrifar Páll postuli í Rómverjabréfinu. Marteinn Lúther lagði áherslu á að hver maður yrði sinn eigin prestur og bæri ábyrgð á eigin trúarlífi og er þar kominn þýðingarmikill hluti siðbótarinnar sem hafði í för með sér endurskilgreiningu á hlutverki kirkjunnar og jók mjög þýðingu samvisku hvers og eins manns.

Ég nefndi hugtakið réttlæti, sem þekkist vel í bæði dómsmálum og kirkjumálum. Annað sem miklu getur skipt á báðum sviðum, eru játningar. Í sakamáli er ómetanlegt að fá góða játningu. Játning, sem gefin er af fúsum og frjálsum vilja og kemur heim og saman við öll sönnunargögn, leysir yfirleitt sakamálið. Að fenginni játningunni kemur niðurstaðan eins og af sjálfri sér. Það er hægt að leysa málið án játningarinnar og er oft gert, en það er torsóttara og grundvöllurinn verður aldrei alveg sá sami. Í kirkjunni skipta játningarnar ekki minna máli. Það skiptir kirkju öllu máli hvað það er sem hún játar og hvað það er sem hún játar ekki. Án játninganna verður undirstaðan á reiki og undirstaða sem er á reiki veldur sjóveiki á landi. Auðvitað eru þeir til sem telja játningar tómt stagl sem enginn eigi að eyða tíma sínum í. Presturinn geti auðveldlega orðið vel metinn félagsfræðingur þótt hann hafi fyrir löngu gleymt öllum játningum. En þær eru samt undirstaðan sem engin kristin kirkja getur án verið. Ég þarf ekki að segja neinum hér inni hver það var sem tók fram, að kenning hans væri ekki hans eigin, heldur þess sem sendi hann. Kristin kirkja lítur svo á að hún sé send til að flytja boðskap, sem ekki er hennar eigin.

Góðir áheyrendur.

Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins segir að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi. Þegar minnst er þess að hálft árþúsund sé liðið frá upphafi siðbótarinnar, sem svo oft er kennd við Martein Lúther, koma þessi orð upp í hugann. Þau ákveða ekki aðeins að kristin kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, heldur einnig að sú kristna kirkja skuli vera evangelisk lútersk. Þess er sjálfsagt að minnast á afmælisári siðbótar Marteins Lúthers. En ekki aðeins á því ári, heldur á öllum árum, svo lengi sem stjórnarskrárákvæðið stendur á sínum stað.

Góðir áheyrendur.

Ég þakka fyrir að fá það tækifæri til að fá að taka þennan litla þátt í prestastefnu, nú þegar íslenskir prestar minnast hins merka atburðar sem varð hér í Wittenberg fyrir fimm hundruð árum. Ég vona að prestastefnan verði hinni evangelisku lútersku kirkju til gagns og blessunar og þeim, sem hana sækja, til hvatningar og uppörvunar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira