Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. júní 2017 DómsmálaráðuneytiðSigríður Á. Andersen 2016-2017

Grein dómsmálaráðherra í Ferðafélagann - ferðahandbók Íþróttafélags lögreglumanna

Kæru ferðafélagar

Þegar daga fer að lengja og sólin að skína bregst ekki að landsmenn grípur brennandi ferðalöngun. Hvort sem löngunin leiðir til stuttra dagsferða út fyrir bæjarmörkin eða í lengri bílferðir út á land með tjald í skottinu eða hjólhýsi í eftirdragi, eigum við það sammerkt að vilja upplifa og finna fyrir náttúrunni þegar birta tekur. Það er ekki bara bíllinn sem heillar því hjól, hestar eða tveir jafnfljótir leiða okkur á sama stað – frá amstri hversdagsins í endurnærandi náttúruna. Kannski er það langur og oft harkalegur veturinn sem kveikir þennan ferðaneista en hvaðan sem hann kemur ber að taka honum fagnandi og njóta útiveru, samveru og ósnortinnar náttúrunnar til hins ítrasta.

En þegar fólk heldur á vit ævintýranna innan landsteinanna þarf að hafa eitt og annað í huga, svo sem tryggan áfangastað, föt og fæði, afþreyingarmöguleika en umfram allt þarf öryggið að vera með í för. Mikið álag á vegum landsins vegna aukins fjölda ferðamanna kallar enn frekar á sérstaka varúð við akstur því sameiginlegt markmið allra þeirra sem leggja af stað er að koma heilir heim. Það er því mikið traust sem við leggjum á samferðarfólk okkar í umferðinni þegar við setjumst undir stýri og traustið er gagnkvæmt. Það veltur á hverjum og einum að taka ábyrgð á sér og bregðast ekki traustinu sem þeim er falið í umferðinni, sýna árvekni, athygli og tryggja að upplifun allra verði góð.

Lögreglulið landsins er aldrei langt undan og leggur sitt lóð á vogarskálarnar við að tryggja öryggi okkar í umferðinni sem og annars staðar. Sýnileg og trygg löggæsla skiptir oft sköpum og ýtir við þeim sem tekið hafa traustið sem lagt er á herðar þeirra í umferðinni af meiri léttúð. Hraðaeftirlitið spilar þar stórt hlutverk ásamt frekari eftirliti með bifreiðum og ökumönnum þeirra. Skjót viðbrögð lögreglunnar og annarra viðbragðsaðila þegar eitthvað bregður út af er einnig til eftirbreytni og ber að þakka.

En umfram allt verðum við að hafa í huga þá ábyrgð sem við tökumst á hendur þegar við höldum út á land, hvort sem við keyrum á litlum fólksbifreiðum, stórum jeppabifreiðum, hjólum í kantinum eða þeysumst um veginn á mótorhjóli með vindinn í andlitið. Mannslífin eru í húfi og þau ber ekki að taka af léttúð. Bregðumst ekki trausti samferðafólksins og komum heil heim frá þessu ferðasumri sem nú fer í hönd.

 Góða ferð!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira