Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. júlí 2017 00-Fréttasafn

Ávarp dómsmálaráðherra á Skálholtshátíð sunnudaginn 23. júlí 2017

Biskupinn yfir Íslandi frú Agnes Sigurðardóttir, sr. Karl Sigurbjörnsson biskup, frú Margot Kaasler biskup, vígslubiskupar, prestar, góðir gestir.

Það er ánægjulegt að koma hingað að Skálholti, einum merkasta og sögufrægasta stað á Íslandi. Ég kem héðan úr Reykjavík, beint úr póstnúmeri 101 sem í dag er vart nefnt á nafn án vísunar til kaffidrykkju og nánast letilífs. Stundum er fjallað um miðbæ Reykjavíkur þannig að ætla mætti að þar gangi lífið hægar en annars staðar, þar gerist nánast ekkert sem skipti máli. Samt er það svo, eða ef til vill er það vegna þess, að í miðborginni er nánast öll stjórnsýsla Íslands. Og við Austurvöll eru teknar ákvarðanir sem margar skipta máli þótt oft fari meira fyrir fréttum af þeirri þrætubók sem er vissulega stunduð þar af kappi. Þetta undirstrikar að Reykjavík er höfuðstaður Íslendinga og miðbærinn höfuðstaður stjórnsýslunnar. En þannig hefur þetta ekki alltaf verið.

Það var einmitt hér að Skálholti sem Íslandssagan mótaðist. Hér hafa hið veraldlega og andlega yfirvald setið og ráðið ráðum sínum með margvíslegum afleiðingum fyrir land og þjóð, allt frá byrjun 11. aldar. Þegar kirkjan efldist á 12. og 13. öld óx Skálholtsstaður og varð sannkallaður höfuðstaður Íslands. Fornleifafræðingar og sagnfræðingar hafa upplýst okkur um að hér hafi verið fjölmennasta byggð landsins með kirkjubyggingum sem voru einstakar í evrópskri byggingasögu. Í kirknatali Páls Jónssonar biskups frá því um 1200 segir að Skálholt sé dýrlegastur bæja á Íslandi.

Það eru því hartnær þúsund ár liðin frá því að fyrsti biskupinn, Ísleifur Gissurarson, var vígður til Skálholts – en hann var jafnframt fyrsti biskupinn yfir Íslandi. Sonur Ísleifs, Gissur, varð næstur biskup og gaf hann kirkjunni Skálholt með þeim ummælum að meðan kristni og byggð héldist í landinu ætti Skálholt að vera biskupsstóll.  

Þau grið hafa þó ekki haldist alla tíð og glæst saga staðarins beið mikinn hnekki í Suðurlandsskálfta seinni hluta 18. aldar (1784). Bæjarhús hrundu og fólk hafðist ekki við á staðnum. Biskupsstóllinn var í kjölfarið fluttur til Reykjavíkur og Skálholtstaðurinn fór úr eigu þjóðkirkjunnar. 700 ára sögu Skálholts sem biskupsstóls lauk þar með. Í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar komst hann þó aftur í hendur þjóðkirkjunnar, nú sem gjöf frá þjóðinni.

Þrátt fyrir hnignunarskeiðið hefur margt færst til betri vegar.

Þáttaskil urðu í sögu staðarins fyrir um 70 árum en þá var, að frumkvæði sr. Sigurbjörns Einarssonar, stofnað Skálholtsfélag. Markmið þess var að vinna að endurreisn staðarins og má segja að hún hafi byrjað með fornleifarannsóknum undir stjórn dr. Kristjáns Eldjárn. Hér var prestssetur endurreist og dómkirkja reis þar sem fyrri kirkjur höfðu áður staðið. Og nú hefur nýtt félag, Skálholtsfélag hið nýja, tekið við keflinu.

Þetta er Skálholt í dag, biskupssetur, sóknarkirkja, fræðasetur, sögustaður, minjastaður, tónleikasetur og nú einnig einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins. Það er full ástæða til þess að þakka öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg við að viðhalda stöðu staðarins, margir með ómældri sjálfboðavinnu en allir af einskærum áhuga og virðingu fyrir sögunni.

Ég rifja þetta upp til að minna okkur á hvað það er mikilvægt að hlúa að menningarverðmætum þjóðarinnavr og sögunni. Sambúð þjóðar og kirkju hefur haldist frá kristnitöku og staðir eins og Skálholt og Hólar eru ekki bara saga kirkjunnar og kristinnar trúar á Íslandi heldur mikilvæg heimild og arfleifð Íslandssögunnar. Þessar heimildir eru enn tilefni til rannsókna og uppgötvana fræðimanna hvort sem er á sviði sögu, fornleifa eða guðfræði.

Góðir áheyrendur

Í ár minnumst við þess að 500 ár eru liðin frá þeim atburði sem talinn er marka upphaf siðbótarinnar. Ég var þess heiðurs og ánægju aðnjótandi að taka þátt í prestastefnu sem í ár var af þessu tilefni haldin utan landsteinanna, nefnilega í Wittenberg í Þýskalandi. Í þeirri sögufrægu borg á siðbótin rætur sínar því þar festi Marteinn Lúther upp hið afdrifaríka skjal á dyr Hallarkirkjunnar og kom þar með á framfæri í 95 greinum kenningum sínum um kristna trú. Það var fróðlegt að heimsækja þessa litlu borg sem er ekki beint í alfaraleið en er í dag orðin vinsæll áningarstaður ferðamanna sem hafa áhuga á sögu kristninnar. Uppbygging í Wittenberg undanfarin ár og framkvæmdir þar við endurgerð og varðveislu sögufrægra bygginga sem tengjast siðbótinni, benda til þess að þeim fari mjög fjölgandi ferðamönnunum sem koma gagngert í þeim tilgangi að dýpka þekkingu sína á hinni lútersku kirkju. Mér var sagt í Wittenberg að þessi þróun ferðaþjónustunnar þar væri tiltölulega nýleg og það hefði í sjálfu sér komið heimamönnum á óvart sá áhugi sem ferðamenn sýndu hinum lútersku rótum þar í borg. Íbúar borgarinnar þekktu þær jafnvel ekki sjálfir. Mér fannst ég kannast of vel við lýsinguna á þessari þróun ferðaþjónustunnar; annars vegar heimamenn sem sjá ekki alltaf skóginn fyrir trjánum og hins vegar fjölgun ferðamanna sem knýr heimamenn til að leiða hugann að nauðsynlegri uppbyggingu en um leið varðveislu menningarverðmæta.

Í sögulegu samhengi hefur mannkynið aldrei haft það betra. Vaxandi ferðaþjónusta um heim allan er til marks um það. Í þessu felast mikil tækifæri fyrir okkur Íslendinga sem öll látum okkur annt um menningararfinn. Í miðborg Reykjavíkur er einn vinsælasti áningarstaður ferðamanna Hallgrímskirkja. Þótt turninn trekki að þá held ég að óvarlegt sé að ætla að hann væri það aðdráttarafl sem hann er stæði hann einn og óstuddur. Það sama má segja um marga aðra ferðamannastaði. Það er gjarnan samspil hins sjónræna og sögunnar sem gefur áningarstöðum gildi. Við uppbyggingu í miðborg Reykjavíkur undanfarið hefur þessu ekki verið haldið nægilega til haga, að mínu mati. Ef nefna ætti dæmi um það mætti líta til framkvæmda og umhirðu á reit þar sem áður var Víkurkirkjugarður í Kvosinni, elsti kirkjugarður Reykjavíkur. Álitaefni sem þar hafa komið upp þekkja menn reyndar hér í Skálholti.

Skálholtsstaður hefur að geyma verðmæta sögu í mörgu tilliti. Fyrir utan að hafa verið vettvangur stjórnsýslu í veraldlegum og geistlegum skilningi er Skálholt vel í sveit sett,  í fallegri náttúru. Hingað hafa menn sótt innblástur í skáldverk og tónlist og enn eru hér órannsakaðar fornleifar enda talið að um 70 staðir í landi Skálholts hafi að geyma fornminjar.

Góðir áheyrendur

Segja má að sú endurreisn sem hófst hér í Skálholti fyrir um 70 árum standi enn yfir. Endurreisnarstarf er um þessar mundir óneitanlega í skugga af uppsafnaðri þörf fyrir viðhald, m.a. á steindum gluggum Gerðar Helgadóttur. Því miður er viðhaldsleysi Skálholts ekki einsdæmi í sögu eignarréttinda ríkisins. Menn hefðu kannski betur hugsað dæmið til enda árið 1547 að þessu leyti. Það er hins vegar löngu tímabært að eigendastefna ríkisins feli í sér fækkun fasteigna með það að markmiði að geta staðið skammlaust að viðhaldi og nauðsynlegri uppbyggingu menningarverðmæta á tilteknum stöðum. Skálholt er sannarlega einn þeirra staða sem á það skilið að staðinn sé vörður um.

Ég þakka fyrir boðið á Skálholtshátíð og óska fólkinu hér til hamingju með veglega hátíðardagskrá þessa helgi, enn eitt árið.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira