Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. nóvember 2017 DómsmálaráðuneytiðSigríður Á. Andersen 2016-2017

Ávarp dómsmálaráðherra við setningu kirkjuþings 11. nóvember

Kirkjuþing 2017 var sett í Vídalínskirkju laugardaginn 11. nóvember 2017. Við setninguna ávarpaði dómsmálaráðherra þingið. Kirkjuþing mun standa til miðvikudagsins 15. nóvember og fjalla um meðal annars frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga. Hægt er að fylgjast með þingfundum í beinni útsendingu á Facebook síðu kirkjunnar. Ávarp ráðherra er hér að neðan.  

Biskupinn yfir Íslandi, frú Agnes Sigurðardóttir, aðrir biskupar, forseti kirkjuþings og aðrir kirkjuþingsfulltrúar. 

Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til þess að taka þátt í Kirkjuþingi í ár með því að ávarpa þingið við setningu þess. Þegar mér barst ósk um þátttöku mína hér leit ekki endilega út fyrir að ég myndi eiga þess kost að koma hingað í krafti þess embættis sem ég hef gegnt frá því í upphafi árs. Ástæðuna þekkið þið. Það er svo sannarlega ekki innhaldslaus frasi að „vika sé langur tími í pólitík“. Það eru orðið dagarnir sem geta skipt sköpum. Í tilfelli sumra stjórnmálamanna jafnvel næturnar. Við stjórnmálamenn höfum boðskap guðspjallamannsins Matteusar í hávegum og látum hverjum degi nægja sína þjáningu. 

Gallinn við þessa annars ágætu núvitund er að áætlanir til langs tíma eða fyrirheit geta fuðrað upp á augabragði. Það er ekki til velfarnaðar fallið í jafnvel einfaldasta fyrirtækjarestri. Í efnahagslífi þjóðar er það alveg afleitt. Öll erum við sífellt að taka ákvarðanir í leik og starfi, ákvarðanir sem taka mið af ákvörðunum annarra, af löggjöf, af samkomulagi sem við höfum gert við aðra o.s.frv. Í þessu sambandi verða menn að geta séð lengra fram í tímann en eina viku og menn verða að geta treyst því að ákvarðanir sem hafa verið teknar af þar til bærum aðilum standi, að lögum sé framfylgt og að samningar haldi. Íslenska þjóðkirkjan er hér ekki undanskilin. Hún eins og aðrar stofnanir sem þjóna þorra þjóðarinnar verður að geta séð lengra fram í tímann en sem nemur hinni pólitísku viku.  

Þegar ég tók við embætti dómsmálaráðherra og þar með málefnum kirkjunnar fékk ég í fangið það verkefni greiða úr áralöngum ágreiningi ríkis og kirkju um fjárveitingar ríkisins. Sem þingmaður í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis kannaðist ég vissulega við afstöðu kirkjunnar til lögbundinna sóknargjalda sem ekki hafa hækkað undanfarin ár. Kirkjujarðasamkomulagið og málavexti í tengslum við vanefndir ríkisins á því þekkti ég bara af afspurn. Það kom mér á óvart hversu víðtækt samkomulagið er og að mínu mati óþarflega flókið. Mér varð það hins vegar strax ljóst að ágreining ríkis og kirkju þyrfti að jafna hið fyrsta. Ég ætla í stuttu máli að gera grein fyrir þessum ágreiningi eins og hann blasir við mér. 

Samningaviðræður um fjárframlög til þjóðkirkjunnar. 

Kirkjujarðasamkomulagið frá 1997 og viðbótarsamningur frá 1998 marka skyldu ríkisins til að greiða til þjóðkirkjunnar fjárhæð sem samsvarar árslaunum ákveðins starfsmannahóps þjóðkirkjunnar. Samningarnir eru undirritaðir af fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra og hefur skyldan til að efna þá auk þess verið lögfest með lögum nr. 78/1997. Í kirkjujarðasamkomulaginu er auk þess mælt fyrir um skyldu ríkisins til að greiða til Kristnisjóðs. Þau árlegu samningsbundnu framlög sem hér um ræðir eru samtals að fjárhæð um 2.400 milljónir Fram til ársins 2010 efndi ríkið þetta samkomulag að fullu en frá því ári hafa framlög ríkisins verið skorin niður með því að setja árlega bráðarbirgðarákvæði við áðurnefnd lög. Þessi skerðing var í upphafi í góðu samkomulagi við þjóðkirkjuna sem þannig tók þátt í þeim fjárhagslegu ráðstöfunum gripið var til í kjölfar efnahagslegra þrenginga árið 2008. Í kjölfar þeirra var ekki bara framlagið samkvæmt kirkjujarðasamningnum skert heldur voru sóknargjöld einnig skert, með bráðabirgðaákvæðum við fjárlög hverju sinni. Þessar skerðingar hafa haldið áfram fram á þennan dag.

Hvorki í fjámálaáætlun fyrir árin 2018-2022 né fjárlögum þessa árs (eða 2018) er gert ráð fyrir þessum framlögum að fullu. Í tilviki kirkjujarðasamkomulagsins vantar um 550 milljónir króna til að ná fullum efndum og hvað sóknargjöldin varðar vantar ríflega 900 milljónir til að vega upp á móti skerðingum sem hafa átt sér stað frá 2008. Frá árinu 2015 hafa hins vegar verið samþykkt framlög í fjáraukalögum til að efna kirkjujarðasamkomulagið að fullu, bæði árið 2015 og 2016. Með því hefur ríkið í reynd viðurkennt efndaskyldu sína, og hefur enda aldrei haldið öðru fram. Í tillögum dómsmálaráðuneytisins vegna fjáraukalaga 2017 er svo gert ráð fyrir að enn einu sinni verði samþykkt framlag í fjáraukalögum til að unnt sé að efna samninginn að fullu. Ég bendi hins vegar á það sem öllum má vera ljóst að  ekkert liggur fyrir um vilja þess Alþingis sem nú er nýkosið til að samþykkja þessa tillögu.

Framlög ríkisins til kirkjunnar samkvæmt fjárlögum ársins 2017 eru ríflega 5 milljarðar króna, en næmu um 6,7 milljörðum ef öll lög- og samningsbundin framlög væru greidd út, án nokkurra skerðinga. Það er rétt að taka það skýrt fram að það sættu auðvitað fjölmörg önnur málefnasvið miklum niðurskurði í kjölfar efnahagslægðarinnar og mörg dæmi eru um málaflokka sem enn njóta lægri framlaga úr ríkissjóði en á árunum þar á undan.
Í fimm ára fjármálaáætlun ríkisins er ekki gert ráð fyrir öðru en að framlög til kirkjunnar verði nálægt því 5 milljarða marki sem fjárlög 2017 miðuðu við. Eins og endurtekin afgreiðsla Alþingis á fjáraukalögum sýnir, virðist þó flestum ljóst að sú fjárhæð er ekki fyllilega raunhæf.

Skipaðir hafa verið starfshópar til að fara yfir fjárhagsmálefni kirkjunnar og einstaka þætti þeirra. Ráðuneytisstjórar dómsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og forsætisráðuneytið hafa haft umboð, skv. samþykkt ríkisstjórnar frá 20. ágúst 2015 til að ganga til viðræðna við þjóðkirkjuna um framkvæmd og efndir kirkjujarðasamkomulagsins og önnur fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju. Þær viðræður hafa skilað drögum að einfölduðu samkomulagi, þar sem miðað væri við fastar fjárhæðir og að þjóðkirkjan hefði sem ríkast sjálfdæmi um hvernig hún ráðstafar þessum framlögum. Hins vegar hafa ráðuneytisstjórarnir ekki haft neitt umboð til að semja um neinar aðrar fjárhæðir en eru í fjármálaáætlun. Málið hefur því í raun og veru verið í pattstöðu. 

Eftir að mynduð var sú ríkisstjórn sem ég tók sæti í og dómsmálaráðuneytið sett á stofn á nýjan leik síðastliðið vor, hefur verið unnið að því að móta nýtt samningsumboð fyrir þennan ráðuneytisstjórahóp. Að minni ósk voru málefni þjóðkirkjunnar tekin fyrir í ráðherranefnd um ríkisfjármál í sumarbyrjun. Ég var orðin vongóð um að nauðsynleg pólitísk samstaða gæti náðst um ásættanlegan samningsgrundvöll þegar ákveðið var að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu nú á haustmánuðum.

Það verður að ráðast á næstu vikum hvort ný ríkisstjórn ber gæfu til að móta samningsgrundvöll fyrir fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju til næstu ára. Afstaða mín til þessa er skýr. Bæði ríki og kirkja þurfa á því að halda að fjármálaætlun til fimm ára og fjárlög hvers árs endurspegli raunveruleg útgjöld ríkisins vegna kirkjunnar. Ég mun leggja áherslu á að kirkjujarðasamkomulagið verði einfaldað með nýjum viðbótarsamningi og fjárhæð sóknargjalda fest til lengri tíma. 

Góðir þingfulltrúar.

Ég sé að á dagskrá þessa kirkjuþings verða þessi fjárhagsmálefni til umræðu en einnig mörg önnur, flest mun áhugaverðari reyndar og í það minnsta meira upplífgandi. Fyrir ykkur liggur að fjalla um til dæmis fyrirkomulag við prestskosningar, hlut kynjanna innan kirkjunnar og frumvarp til nýrrar löggjafar um þjóðkirkjunnar. Ég óska ykkur velfarnaðar í störfum á þessu kirkjuþingi. Biskupi og prestum öllum vil ég þakka ánægjuleg samskipti það sem af er mínum ferli í embætti dómsmálaráðherra. Kirkjunni óska ég allra heilla. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira