Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. mars 2018 DómsmálaráðuneytiðSigríður Á. Andersen 2016-2017

Ávarp dómsmálaráðherra í móttöku hjá Landsrétti 9. mars

Ávarp Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra í móttöku hjá Landsrétti 9. mars

Forsetar Hæstaréttar og Landsréttar, virðulegir dómarar og aðrir gestir.

Ég hef stundum velt því upp í samtölum mínum við fólk og jafnvel í greinaskrifum hvort lýðveldið Ísland sé hugsanlega farsælasta ríki veraldarsögunnar. Þeir eru ekki margir sem ég hef borið þetta upp við sem útiloka að svo sé. Ég nefni þetta að vísu ekki við menn til þess að fá úr þessum vangaveltum mínum skorið í eitt skipti fyrir öll en flestir sem verða fyrir þessu áreiti mínu telja hið minnsta að spurningin um hið farsælda Frón verðskuldi umhugsun.

Þótt auðvitað sé engin leið sé að bregða einhlítri mælistiku á manninn eða þjóðfélög hans til að skera úr um þetta álitaefni eru ótal vísbendingar um að Íslendingum hafi í samanburði við aðrar þjóðir tekist bærilega til. Og ein forsenda þess að þjóðfélögum vegni jafn vel og Íslandi er dómskerfi sem sker úr um ágreiningsefni manna á óvilhallan hátt. Þjóðfélögum þar sem menn treysta sér ekki til að leita réttar síns fyrir dómi farnast ekki vel.

Þegar af þeirri ástæðu gerum við ráð fyrir að íslenskt réttarkerfi hafi í stórum dráttum virkað ágætlega og þegar eitthvað hafi augljóslega mátt fara betur hafi menn reynt að bæta úr því eftir því sem efni og aðstæður leyfðu.

Fyrir tveimur árum var tekin um það ákvörðun á Alþingi að auka enn á réttaröryggi borgaranna og stofna nýtt dómstig, Landsrétt, sem nú hefur tekið til starfa. Ég ætla ekki í þessum félagsskap hér að rekja í hverju hún felst, sú réttarbót, sem fylgir Landsrétti eða hlutverk Landsréttar yfirleitt. Ég get hins vegar sagt ykkur það að ég hef undanfarið ár oft og mörgum sinnum fjallað um Landsrétt á fundum sem ég er beðin um að ávarpa og þá þeim fundum hef ég greint að fólk fagnar stofnun hans.

Eins og menn þekkja varð skipan dómara við Landsrétt á síðasta kjörtímabili deiluefni eins og stundum hefur áður gerst við skipan dómara í héraði og við Hæstarétt. Deilur voru raunar hafnar á Alþingi um skipanina áður en embætti dómaranna 15 voru auglýst og þar með löngu áður en ráðherra lagði tillögur fyrir þingið. Þingmenn úr bæði stjórn og stjórnarandstöðu höfðu uppi kröfur í ræðu og riti um hvernig niðurstaðan skyldi líta út áður en nokkurt hæfismat, hvað þá tillaga ráðherra, lá fyrir.

Þótt stjórnarmeirihluti á þeim tíma væri aðeins einn maður voru tillögur ráðherra afgreiddar úr þingnefnd og svo samþykktar með 9 atkvæða meirihluta í æðstu stofnun þjóðarinnar.

Og nú hefur Landsréttur tekið til starfa og okkar mikla og góða réttarríki orðið enn betra. Ég hefði ekki að óreyndu trúað því að hægt hefði verið að hrinda réttinum úr vör í samræmi við upphafleg áform. Þar skipti miklu að forverar mínir, þá innanríkisráðherrar, höfðu um þetta skýra sýn og stýrðu undirbúningi af festu, fyrst Ögmundur Jónasson, þá Hanna Birna Kristjánsdóttir og síðar Ólöf heitin Nordal. Ég tók í þeim efnum við góðu búi. Þá hafa margir lagt hönd á plóg við stórt sem smátt. Dómarar,  sérfræðingar í dómsmálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu og fleiri skiptu að sjálfsögðu sköpum við undirbúninginn. Allt þetta fólk á þakkir skildar.

Það er mér sérstök ánægja að vera með ykkur hér í dag og ég óska Landsrétti velfarnaðar í sínum störfum og okkur Íslendingum öllum til hamingju með Landsrétt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira