Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. apríl 2018 DómsmálaráðuneytiðSigríður Á. Andersen 2016-2017

Ávarp dómsmálaráðherra á Prestastefnu 24.apríl 2018

Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að ávarpa prestastefnu í annað sinn, nú miklu mun nærri mínum heimaslóðum en í hið fyrra. Ég vil nota tækifærið til þess að þakka þeim ykkar sem sátuð prestastefnuna í fyrra fyrir afar fróðlega og ánægjulega samveru í Wittenberg. Það er eins og það hafi gerst gær, eins og sagt er. Þó er það þannig að margt hefur á daga okkar drifið síðan þá. Stjórnmálamenn hafa farið á þessum tíma og aðrir komið í staðinn. Því fylgdi að ein ríkisstjórn fór líka og önnur kom í hennar stað. Þótt engin breyting hafi orðið á mínum högum sem ráðherra sem fer meðal annars með málefni kirkjunnar, að svo miklu leyti sem þau eru til umfjöllunar á vettvangi ríkisvaldsins, þá er því ekki að neita að þessu upphlaupi í stjórnmálalífinu síðasta vetur fylgdi nokkur óvissa um framtíð marga mála sem voru til skoðunar í stjórnmálum þess tíma. Jafnvel hin mestu framfaramál sem hin svokallaða pólitíska sátt er um urðu að sæta því að lenda á ís um tíma.

Kirkjan hefur undanfarin misseri leitast við að ná samkomulagi við ríkið um breytingar á fjárveitingum ríkisins til kirkjunnar. Annars vegar er um að ræða efndir á kirkjujarðarsamkomulaginu frá árinu 1997 en efndir voru skertar á árunum 2010 -2015 með vísan til efnahagsástandsins sem þá var. Frá árinu 2015 hefur ríkið hins vegar viðurkennt í verki skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum þótt fjárlög hvers árs beri það ekki með sér. Með fjáraukalögum hefur kirkjunni þannig verið tryggðar fullar efndir samningsins. Hins vegar hafa greiðslur samkvæmt lögum um  sóknargjöld verið skert fram á þennan dag.

Ég lýsti því við upphaf kirkjuþings síðastliðinn vetur að afstaða mín til þessarar stöðu væri skýr um það að bæði ríki og kirkja þurfa á því að halda þessi fjárhagslegu samskipti verði einfölduð nokkuð með festu og fyrirsjáanleika í fyrirrúmi. Ég lýsti því líka að ég hafi verið orðin vongóð um pólitíska samstöðu um samningsgrundvöll þegar menn hlupu frá verkum sínum síðastliðið haust.

Í nýrri ríkisstjórn hef ég áfram lagt áherslu á að ljúka samningum við kirkjuna. Þótt trúlega þyki mönnum hægt miða þá stendur yfir í bæði dómsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti nauðsynleg undirbúningsvinna fyrir samninga. Seint á síðasta ári hækkuðu laun presta nokkuð í kjölfar ákvörðunar Kjararáðs sem leiddi til óvæntrar viðbótarvinnu að þessu leyti.

Ríki og kirkja hafa þegar átt samningafundi um ytra form þessara samninga. Í þeim viðræðum hefur verið samhljómur um verulega einföldun frá því sem nú er. Þá hafa ríki og kirkja sameiginlega unnið að því að reikna upp skuldbindingar af kirkjujarðarsamkomulaginu og er í sjálfu sér enginn ágreiningur þar um.

Þá vil ég nefna það í vinnu að gerð þeirrar fjármálaætlunar sem liggur fyrir Alþingi að samþykkja, fyrir árin 2019-2023 var sérstaklega hugað að nýju samkomulagi ríkis og kirkju. Ég legg á það áherslu og geri ráð fyrir því að það gangi eftir að þess sjáist stað í fjárlögum fyrir árið 2019.

 

Góðir áheyrendur

Að þessu fjármálastagli loknu vil ég segja það að kirkjan stendur auðvitað á bjargi.

Hinni evangelísku lútersku kirkju er skipaður sérstakur sess með því að í stjórnarskránni er svo mælt fyrir að hún skuli vera þjóðkirkja á Íslandi. Og hún nýtur stuðnings ríkisvaldsins. En það er ekki bjargið sem kirkjan stendur á. Stjórnmálamenn koma og fara. Ríkisstjórnir koma og fara. Löggjöf tekur breytingum. Því miður eru jafnvel ekki stjórnarskrárákvæði óhult fyrir tíðarandanum, jafnvel ekki skráin öll.

Kirkjan byggir tilveru sína ekki á löggjöf, hvorki stjórnarskrá né almenn lögum. Ekki einu sinni fjárlögum. Bjargið sem kirkjan stendur á er boðskapurinn sem henni var falið að flytja. Kirkjunni var nefnilega sett erindi fyrir 2000 árum og það skiptir kirkjuna öllu máli að hún reki það erindi. Ekki önnur erindi, og það þótt þau hljómi mjög brýn í veltingi hverrar tíðar.

Erindi kirkjunnar breytist ekki með tíðarandanum. Þvert á móti. Um leið og kirkjan fer að elta tíðarandann en ekki heilagan anda þá er hætt við að kvarnist úr bjarginu.

Að þessu sögðu vil ég óska kirkjunni og öllum þjónum hennar velfarnaðar. Ég vil sérstaklega óska prestum til hamingju með 100 ára afmæli félagsins þeirra, Prestafélags Íslands. Að lokum óska ég þess að prestastefna þessi verði öllum sem hana sækja til uppörvunar, gagns og ánægju.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira